Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Reynir Harðarson fordæmir útlendingahatur og forheimskun

Á þrettándanum birtist grein eftir Albert Jensen þar sem hann fagnar því að moska hafi ekki verið byggð hér á landi og hann fer eftirfarandi orðum um aðfluttan múslima: „Hann vill múslimska siði og krefst sérskóla, sérmatar í skólum, sérkirkjugarðs og trúar til höfuðs vorri. Við báðum hann ekki að koma svo hann á ekki heimtingu á neinu umfram aðra.“ „Innflytjendur eiga að koma á okkar forsendum og aðlagast siðum vorum og lögum. Gerum Salmann Tamimi ljóst að hans siðir fá engan forgang hér á landi.“ Þjóðkirkjan ein á heimtingu á nokkru umfram aðra og skal njóta forgangs; einn siður, einn herra.

Albert er kristinn maður og vill líklega virða fyrsta boðorðið: „Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.“ Nú vill svo til að múslimar tilbiðja sama guð og Albert og líta á Biblíuna sem sitt helgirit. Boðorðin eru í 5. kafla 5. Mósebókar en 7. kafli hennar heitir „Bönnuð samskipti við heiðnar þjóðir“. Þar segir að þessi guð gefi heiðnar þjóðir á vald þeim trúuðu og „þú skalt gjöreyða þeim. Þú skalt eigi gjöra sáttmála við þær né sýna þeim vægð... Þér skuluð rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkisteina þeirra, höggva sundur asérur þeirra og brenna skurðgoð þeirra í eldi.“ Þannig hljómar hið heilaga orð kristinna, gyðinga og múslima.

Þjóðkirkjan er lúthersk-evangelísk kirkja en Lúther hennar vildi brenna bænahús gyðinga í Þýskalandi (samkvæmt ritningunni) og evangelísk þýðir að hún spýr eitri sínu markvisst yfir allt og alla, ekki síst varnarlaus börn. Boðskapur hennar er í grunninn forheimskandi og hættulegur, þótt margt sé þar ágætt, og þess vegna svaraði ég Alberti í Morgunblaðinu.

En Albert svarar 30. janúar og segir að ég rangtúlki grein hans því hann virðist halda að ég átti mig ekki á skuggahliðum islam. En skuggahliðar islam eru þær sömu og skuggahliðar gyðingdóms og kristni. Ég fagna því að Albert bendir á þessar skuggahliðar en trésmíðameistarinn mætti að ósekju koma auga á ónefndan bjálka.

En svo ég svari honum þá hefur Kristur ekki gert neitt á hlut minn, og ég geri ekki ráð fyrir að Múhameð hafi nokkuð verið að káfa upp á Albert. En það eru fylgjendur þessara spámanna sem geta verið til bölvunar. Ríkiskirkjan hefur t.d. á undanförnum árum gert harða atlögu að börnum í leik- og grunnskólum. Biskup hennar og prestar halda fram að trúin á þennan ógeðfellda guð Biblíunnar sé forsenda siðgæðis og menningar í landinu. En við eigum að fordæma þessar hættulegu og siðlausu hugmyndir Biblíunnar um ágæti okkar (guðs útvöldu) og réttleysi hinna (heiðingjanna).

Ríkið á ekki að skipta sér af trú fólksins og trú þess á ekki að hafa áhrif á ríkið. Albert sér hættuna í löndum múslima en ekki hversu grátleg staða okkar er á Íslandi. Ríkið er skuldbundið samkvæmt stjórnarskrá til að styðja og vernda boðandi kirkju gyðingahatarans og guðs útvöldu. Þetta kostar okkur 5-6 þúsund milljónir á ári. Við erum enn að bíta úr nál miðalda hér á landi og það er okkur til háborinnar og ævarandi skammar.

Tólfta febrúar eru 200 ár frá fæðingu Charles Darwin og síðar á árinu verða 150 ár frá því að rit hans um uppruna tegundanna kom út. Þróunarkenningin gjörbylti hugmyndum manna um náttúruna, mannkyni og lífríkinu öllu til góða. Hvergi í heiminum nýtur þróunarkenningin meiri hylli en á Íslandi (80% þjóðarinnar). Um daginn fengu landsmenn þó inn um lúguna bæklinginn „Baráttan bak við tjöldin“ þar sem segir: „Við skulum upphefja og tilbiðja skapara sem skapaði lífið á sex dögum og hvíldist þann sjöunda fyrir um 6.000 árum, en ekki menn eða afvegaleiðandi kenningar manna um uppruna lífsins.“

Þessi bæklingur bendir réttilega á að kaþólsk og lúthersk kirkja virðir ekki boðorðin (sem betur fer). En um leið eru ítrekaðar hótanir kristninnar um endalokin, eldsdíkið og yfirvofandi kvalir og gjöreyðingu þeirra sem dirfast að vinna á laugardögum eða skríða ekki með réttum hætti fyrir guði. Með linnulausum kristnum áróðri í skólum og á opinberum vettvangi er plægður akur fyrir hættulega forheimskun sem þessa. En í stað þess að útskúfa fylgjendum annarra trúarbragða eða hefta trúfrelsi þeirra eigum við að tryggja að við og börnin okkar verði áfram nógu vel menntuð og þjálfuð í gagnrýninni hugsun til að hafna vitleysunni í þeim og Biblíunni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Reynir Harðarson 18.02.2009
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Þundur Freyr - 19/02/09 23:19 #

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að islam séu verstu (ss. geri mestan skaða; ógni vestrænum nútímagildum og framförum mest) trúarbrögðin í heiminum í dag.

En kristnir (bókstafstrúarmenn) geta ekki, að mínu mati, hreykt sér af því að vera númer tvö.

Amk, myndi ég ekki hreykja mér af því að vera næst mesti drullusokkur veraldar.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 24/02/09 12:01 #

Það er erfitt að meta hættuna.

En ég held að engum stafi hætta af jainistum.

Hættulegir múslimar eru áberandi og verk þeirra líka. Óþarfi að fjölyrða um það.

En hvernig á að meta hættuna af kristni? Krossferðir eru aflagðar (þótt Bush hafi talað um þær nýlega) og morðin framin í nafni hennar sjaldnast fjöldamorð (þótt við vitum um fjöldamorð framin vegna hennar eða þeirrar klikkunar sem hún kallar fram).

Hversu hættulegt er að stór hluti kristinna vonast eftir endalokunum - og þ.a.l. endurkomu Krists? Hversu hættulegur er stuðningurinn við Ísrael, vegna kristninnar (misskilinnar)? Hversu hættulegt er niðurrif kristinna á kennslu í vísindum (sköpunartrú), hamlandi áhrif á framfarir í læknisfræði (stofnfrumurannsóknir) o.s.frv.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 24/02/09 12:13 #

Hversu hættuleg er andúð kaþólikka á getnaðarvörnum?

Og hversu hættulegur er sá hugsunarháttur að upp séu runnin átök tveggja trúarstefna, kristni og islam, og "við" þurfum að fylkja okkur á bak við klerkana eða "krossfarana"? Hversu hættulegur er sá hugsunarháttur að við verðum að halda niðri öðrum þjóðum og þjóðarleiðtogum, jafnvel "afmá" þá vegna trúar þeirra?

Hversu hættuleg er sú hugmynd að við fáum siðgæði okkar úr Biblíunni?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.