Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Darwin um trú

Darwin_ape.jpgMerkasti líffræðingur sögunnar væri tvöhundruð ára í dag ef hann hefði lifað fáránlega lengi. Charles Darwin skrifaði á sínum tíma sjálfsævisögu sem var fyrst og fremst ætluð fjölskyldu hans. Hún var gefin út að honum látnum en því miður voru ákveðnir kaflar klipptir út. Hér á eftir er þýðing á þeim kafla sem varð fyrir mestri ritskoðun en hann fjallar um trúarviðhorf Darwins. Kaflinn er vissulega langur en er fyrirhafnarinnar virði. Fyrstu fjórar málsgreinarnar mynda líka ágæta heild ef lesendur vilja stytta útgáfu.

Í kaflanum sjáum við vel að Darwin var ekki trúaður. Hann taldi sjálfan sig agnostískan að því leyti að hann gat ekki útilokað mögulegan frumhreyfil, fyrstu orsök, sem hefði skapað heiminn og lögmál hans en síðan ekki haft nein afskipti af honum. Ef hann hefði lifað til að sjá vísindin afhjúpa fleiri leyndardóma alheimsins hefði hann væntanlega verið nokkrum skrefum nær að kalla sig einfaldlega guðleysingja. Við sjáum líka hvernig kenningar Darwins höfðu áhrif á siðferðisvitund hans sjálfs.

Trúarviðhorf

Á þessum tveimur árum* var huga mínum oft beint að trúarbrögðum. Á meðan ég var um borð í Beagle var ég mjög rétttrúaður og ég man eftir því að hafa orðið fyrir aðhlátri nokkurra foringja (sem voru þó sjálfir rétttrúaðir) fyrir að vitna í Biblíuna sem óvéfengjanlegs yfirvalds í einhverju siðferðilegu álitamáli. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið nýjabrum röksemdarinnar sem skemmti þeim. En ég var á þessum tíma smá saman farinn að sjá Gamla testamentið sem algjörlega falska sögu heimsins, meðal annars Babelsturninn og regnbogann sem tákn og að gera Guði upp tilfinningar hefnigjarns harðstjóra. Þessu riti var ekki hægt að treysta frekar en helgiritum hindúa, eða trú hverskonar villimanna. Spurningin sem reis sífellt í huga mínum og ég gat ekki hunsað - er það trúverðugt að ef Guð myndi nú opinbera hindúa og leyfa að það væri tengt trú á Vishnu, Siva og svo framvegis á sama hátt og kristni er tengd Gamla testamentinu. Slíkt þótti mér algjörlega ótrúlegt.

Með því að velta fyrir mér skýrustu sönnunum sem ógeðbilaður maður myndi krefjast til að trúa á kraftaverkin sem kristni byggist á, - að því meira sem við vitum um óbreytanleg lögmál náttúrunnar því ótrúlegri hljóma kraftaverkin, - að menn hafi á þeim tíma verið fáfróðari og trúgjarnari en við getum skilið, - að ekki verði sannað að guðspjöllin hafi verið samtímafrásögn af þeim atburðum sem sagt er frá, - að þau eru ósamhljóða í mörgum mikilvægum atriðum, alltof mikilvægum til þess að ég geti talið það venjulega ónákvæmni sjónarvotta. - Með svona pælingum, sem þó ég telji hvorki hafa til að bera frumleika né að séu mikils virði, höfðu þær þó þau áhrif á mig að ég fór hægt og rólega að missa trú á kristni sem opinberum Guðs. Sú staðreynd að mörg falstrúarbrögð hafa dreifst um stóran hluta jarðar eins og eldur í sinu vó töluvert þungt hjá mér. Eins falleg og mér þótti siðfræði Nýja testamentisins er ekki hægt að neita því að fullkomleikinn er háður að hluta á túlkun á myndlíkingum og allegoríum sem við treystum nú.

En ég var óviljugur að gefa trúna upp á bátinn; - ég er viss um þetta því ég man oft vel eftir dagdraumum um að það myndu finnast einhver forn bréf milli virðulegra Rómverja eða handrit í Pompeii eða annars staðar sem myndu staðfesta óumdeilanlega allt það sem ritað er í guðspjöllunum. En mér þótti sífellt erfiðara, með frelsi ímyndarafls míns, að finna sannanir sem gætu sannfært mig. Þannig laumaðist vantrúin yfir mig hægt og rólega, en vann mig loks að öllu leyti. Umbreytingin var svo hæg að ég varð ekki fyrir nokkru óyndi og hef síðan ekki efast eina einustu sekúndu að niðurstaða mín væri rétt. Nú get ég varla séð að nokkur myndi vilja að kristni væri sönn því ef svo er bendir textinn skýrt til þess að þeir menn sem ekki trúa, og þar á meðal faðir minn, bróðir og nær allir mínir bestu vinir, verði fyrir ævarandi refsingu.

Og þetta er bölvanleg kenning.

Þó ég hafi ekki hugað að tilvist persónulegs Guðs fyrr en mun seinna á ævi minni mun ég hér gefa óljósa mynd af niðurstöðunum sem ég hef komist að. Gömlu rökin um hönnun í náttúrunni, eins og hún kom fram hjá Paley, sem mér sýndist áður svo endanleg, falla, nú þegar lögmál náttúruvals hefur verið uppgötvað. Við getum til dæmis ekki lengur haldið því fram að falleg hjör tvískiptrar skeljar hljóti að hafa verið gerð af greindri veru líkt og hjarir hurða manna. Það virðist ekki vera meiri hönnun í fjölbreytileika lífvera eða annarra verka náttúruvals en í því hvernig vindurinn blæs. Allt í náttúrunni er til komið vegna óbreytanlegra lögmála.

En ég fjallaði um þetta efni í lok bókar minnar Breytleiki ræktaðra dýra og jurta (Variation of Domestic Animals and Plants) og röksemdarfærslan sem þar kom fram hefur ekki verið hrakin svo ég viti.

En ef við hunsum þær endalausu fögru aðlaganir sem við rekumst sífellt á er hægt að spyrja: Hvernig stendur á því að aðstæður í heiminum eru almennt svona góðar? Sumum finnst hlutur þjáninga í heiminum svo mikill að þeir telja, ef við tökum með allar skyni gæddar verur, að það sé ekki víst hvort að í heiminum sé meiri eymd eða hamingja, hvort heimurinn í heild sé góður eða slæmur. Mín niðurstaða er að hamingjan hafi sigurinn þó vissulega væri erfitt að sanna slíkt. Ef við föllumst á þá niðurstöðu rímar það vel við áhrifin sem við gætum búist við af náttúruvali. Ef allir einstaklingar af öllum tegundum myndu sífellt þjást mikið myndu þeir vanrækja það að fjölga sér. En við höfum enga ástæðu til að trúa að þetta hafi nokkru sinni gerst, hvað þá oft. Ef við tökum hins vegar aðrar breytur inn í myndina komumst við að þeirri niðurstöðu að allar verur með vitund hafi, almennt séð, mótast til að njóta hamingju.

Allir sem telja, líkt og ég geri, að bæði þau líffæri sem sjá um líkams- og hugarstarf (nema þau sem vinna hvorki í hag né óhag eigandans) allra vera hafi þróast í gegnum náttúruval, eða afkomu hinna færustu, með notkun eða vana, munu játa að þessi líffæri hafi mótast á þann hátt að eigandinn gæti á sem bestan hátt keppt við aðrar verur og þannig fjölgað sitt kyn. Það getur verið að dýr séu leidd með sársauka, hungri, þorsta og ótta, - eða með ánægju, til að framkvæma eitthvað sem er jákvætt fyrir tegundina og svo framvegis, eða með báðum aðferðum, eins og gerist þegar matar er leitað. En þjáning og sársauki af hvaða tegund sem er mun, ef ástandið er viðvarandi, valda þunglyndi og minnkar líkurnar á krafti framkvæmda; þó er það vel aðlagað til að láta verur verja sig gegn allri mikilli eða skyndilegri illsku. Ánægjulegar tilfinningar, aftur á móti, geta staðið í langan tíma án þunglyndisáhrifa; þvert á móti hvetja þær kerfið í heild til fleiri aðgerða. Þannig hefur það komið til að flestar ef ekki allar skyni gæddar verur hafa þróast á þennan hátt í gegnum náttúruval, að ánægjulegar tilfinningar leiði þær sífellt áfram. Við sjáum þetta í ánægju sem verður til vegna áreynslu, jafnvel mikillar áreynslu huga eða líkama, í gleði daglegra máltíða og sérstaklega í þeirri ánægju sem ást á fjölskyldu okkar veitir. Samlegðaráhrif slíkrar ánægju, sem er almennt eða oft til staðar, verða á þann hátt sem ég get varla efast um, flestum skyni gæddum verum til meiri hamingju en eymdar, þó margir þurfi stundum að þjást mikið. Slík þjáning passar ágætlega við náttúruvalskenninguna, sem er ekki fullkominn í framkvæmd, en verður aðeins til þess að veita hverri tegund eins mikla velgengni og mögulegt er í baráttunni um líf við aðrar tegundir, í stórkostlega flóknum og síbreytilegum kringumstæðum.

Enginn efast um að það er mikil þjáning í heiminum. Sumir hafa reynt að skýra þetta með hliðsjón af manninum með því að ímynda sér að þetta hjálpi honum að bæta siðferði sitt. En fjöldi manna í heiminum er hverfandi miðað við allar aðrar skyni gæddar verur og þær þjást mikið án þess að það hafi áhrif á siðferðisstig þeirra. Vera sem er svo öflug og svo vitur líkt og sá Guð sem gæti skapað alheiminn, er í takmörkuðum huga okkar alvaldur og alvitur og skilningi okkar hryllir við því að gera ráð fyrir að hann sé ekki algóður. Hvaða kosti geta þjáningar milljóna óæðri dýra í gegnum nær eilífð haft? Þessi gömlu rök sem leidd eru af tilvist þjáningar gegn tilvist greinds frumhreyfils eru að mínu mati sterk. Aftur á móti, eins og nefnt var aðeins fyrr, passar tilvist þjáningar vel við þá skoðun að allar lífverur hafi þróast í gegnum breytileika og náttúruval.

Í dag er algengasta röksemdin fyrir tilvist greinds Guðs dregin af djúpri innri sannfæringu og tilfinningum sem flestir upplifa. En það er ekki hægt að efast um að Hindúar, fylgismenn Múhameðs og aðrir gætu notað sömu rök og af sömu festu til að styðja tilvist eins Guðs eða margra Guða eða, eins og í tilfelli Búddista, engra Guða. Það eru einnig margir ættbálkar villimanna sem ekki verður séð að trúi á nokkurn hátt á það sem við köllum Guð. Þeir trúa vissulega á anda eða drauga og það er hægt að skýra, eins og Tyler og Herbert Spencer hafa sýnt, hvernig líklegt er að slík trú verði til.

Áður fyrr var ég leiddur af tilfinningum líkum þeim sem minnst var á, (þó ég telji að trúartilfinningin hafi aldrei verið mjög þróuð í mér), að þeirri bjargföstu niðurstöðu að Guð og ódauðleg sál væru til. Í ferðasögu minni skrifaði ég þar sem ég stóð í miðjum stórfengleika brasilísk skógar: "það er ekki mögulegt að gefa rétta mynd af hinum miklu tilfinningum undurs, aðdáunar og trúfestu sem fylla og lyfta huganum." Ég man vel sannfæringu mína að það væri meira af manninum en líkaminn. En nú gæti ekki einu sinni stórkostlegustu útsýni valdið því að slík sannfæring og tilfinningar myndu rísa í huga mér. Það er vissulega hægt að segja að ég sé eins og maður sem er orðinn litblindur og að sú algilda trú manna á tilvist rauðs litar geri missi skynjunar minnar nú ákaflega lítið vægi sem sönnunar. Þessi röksemdarfærsla væri gild ef allir menn af öllum kynþáttum hefðu sömu innri sannfæringu um tilvist eins Guðs en við vitum að það er langt frá því að vera svo. Þannig að ég get ekki séð að slík innri sannfæring og tilfinningar vegi nokkuð gegn þeim sönnunum fyrir því sem til eru í raun. Það hugarástand sem stórfenglegt útsýni vakti áður hjá mér og voru nátengd trú á Guð voru í raun ekki ólík því sem oft er kallað tilfinning mikilfengleika og þó það sé erfitt að skýra uppruna slíkra tilfinninga telst það varla merkileg rök fyrir tilvist Guðs - ekki frekar en svipaðar öflugar en þó óljósar tilfinningar sem tónlist vekur.

Með vísun til ódauðleika sýnir mér ekkert betur hve sterk og nær eðlislæg trú á slíkt er en að athuga þá skoðun sem er nú almenn meðal eðlisfræðinga, semsagt að sólin og allar pláneturnar muni með tíð og tíma verða of kaldar til að bera líf, nema að einhver mikill massi rekist á sólina og gefi henni þannig ferskt líf. - Að trúa eins og ég á að maðurinn muni í einhverri fjarlægri framtíð verða mun fullkomnari vera en hann er nú, er það nær óbærileg tilhugsun að hann og allar aðrar skyni gæddar verur séu dæmdar til algerrar útþurrkunar eftir svo langa, þrotlausa og hægfara framför. Í hugum þeirra sem eru sannfærðir um ódauðleika sálarinnar er eyðilegging veraldarinnar ekki svo hræðileg.

Önnur uppspretta sannfæringar um tilvist Guðs, tengd skynsemi en ekki tilfinningum, þykir mér hafa meiri vigt. Hún kemur til vegna þess hve erfitt eða öllu heldur ómögulegt er að sjá fyrir sér að þessi mikli og undursamlegi alheimur, að manninum meðtöldum og getu hans til að sjá langt aftur og fram í tímann, sé orðinn til vegna blindra tilviljana eða nauðsynjar. Þegar ég hugsa þannig þykir mér nauðsynlegt að líta til frumhreyfils með greindan huga af einhverju tagi sem sé að einhverju leyti sambærilegur mannshuganum og þá verðskulda ég að vera kallaður Guðstrúarmaður.

Þessi niðurstaða var sterk í huga mér á þeim tíma, ef ég man rétt, sem ég skrifaði Uppruna tegundanna og hefur síðan þá hægt og rólega með sveiflum orðið veikari. En þó rís efi - getur hugur manns sem hefur, eins og ég tel, þróast frá lægstu tegund dýra, verið treystandi til að draga slíkar stórkostlegar ályktanir? Getur ekki verið að þessi tengsl orsakar og afleiðingar sem okkur þykja nauðsynleg séu líklega í raun aðallega byggð á arfgengri reynslu? Við getum ekki heldur litið framhjá þeim möguleika að sífelld ítroðsla Guðstrúar í huga barna verði til sterkrar og jafnvel arfgengra áhrifa á heila þeirra sem ekki eru enn þroskaðir, að það væri erfiðara að útrýma trú þeirra á Guð eins og að útrýma ótta og hatur apakattar á snákum.

Ég get ekki þóst geta lýst upp svona torskilin úrlausnarefni. Leyndardómur upphafs allra hluta er okkur óaðgengilegur og því þarf allavega ég að vera sáttur við að vera agnostískur.

Maður sem á enga vissa og óflöktandi trú á tilvist persónulegs Guðs eða framtíðar tilvist með hefnd og verðlaunum, getur eftir því sem ég veit best stjórnað lífi sínu með því að eltast við þær hvatir og eðlisávísanir sem eru sterkastar eða virðast bestar í huga hans. Hundur hegðar sér á þennan hátt, en í blindni. Maður getur aftur á móti horft fram og aftur og borið saman sínar ýmsu tilfinningar, þrár og minningar. Hann kemst síðan að niðurstöðu í samræmi við úrskurð vitrustu manna að mesta svölun er hægt fá með því að fylgja ákveðnum hvötum, nefnilega félagslegum. Ef hann breytir í samræmi við það sem kemur sér vel fyrir aðra mun hann finna fyrir velþóknun náunga sinna og öðlast ást þeirra sem hann umgengst og hið síðarnefnda mun án efa verða til þess að hann njóti þeirrar mestu ánægju sem möguleg er á þessari jörð. Hægt og rólega mun honum verða ómögulegt að eltast við holdlegar ástríður sínar umfram æðri hvatir sem verður að lokum að venju sem mætti næstum kalla eðli. Skynsemi hans mun einstaka sinnum segja honum að breyta gegn áliti annarra, hverra velþóknun hann mun þá ekki hljóta en hann mun áfram finna fyrir gegnheilli ánægju af því að vita að hann fylgdi sínum innsta vegvísi eða samvisku. - Sjálfur tel ég að ég hafi breytt rétt í því að helga líf mitt staðfastlega vísindum. Ég hef ekki samviskubit yfir að hafa framið neinar stórar syndir, en ég hef margoft séð eftir því að hafa ekki orðið öðrum lífverum til meira beins góðs. Mína eina og lélega afsökun er mikil vanheilsa og andlegt atgervi mitt sem gerir mér mjög erfitt að beina huga mínum frá einu viðfangsefni eða starfi að öðru. Ég get ímyndað mér með að það skapi mikla ánægju að helga mér öllum mínum tíma velgerðarmálum, en ekki hluta hans þó slíkt hefði væntanlega verið betra hátterni.

Ekkert er merkilegra en yfirtaka efahyggju eða rökhyggju á síðari helming ævi minnar. Áður en ég trúlofaðist ráðlagði faðir minn mér að leyna vandlega öllum mínum efa því hann sagðist hafa þekkt þá miklu kvöl sem slíkt ylli meðal hjóna. Allt gengi nokkuð vel þar til eiginmaðurinn eða konan missti heilsuna en þá myndi konan kveljast vegna efa um bjargráð eiginmanna sinna sem myndi um leið valda þeim kvölum. Faðir minn bætti því við að á allri sinni löngu ævi hefði hann aðeins þekkt þrjár konur sem aðhylltust efahyggju og þá er rétt að hafa í huga að hann þekkt mikinn fjölda fólks og átti mjög auðvelt með að vinna traust þess. Þegar ég spurði hann hverjar þessar þrjár konur væru þurfti hann að játa að í einu tilfelli, mágkonu hans Kitty Wedgwood, hefði hann engar beinar sannanir en séð óljósar vísbendingar í þá átt, og við bættist sannfæring hans að svo skarpsýn kona gæti ekki verið trúuð.

Nú á tímum, miðað við minn litla kunningjahóp, þekki ég (eða hef þekkt) margar giftar konur sem trúa litlu meiru en eiginmenn þeirra. Faðir minn átti það til að vitna til ósvaranlegrar röksemdafærslu sem gömul kona, frú Barlow nokkur, sem grunaði hann um vantrú, notaði í von um að snúa honum: - "Læknir, ég veit að það er sætt bragð af sykri í munni mínum og ég veit að Frelsari minn lifir".

  • Október 1836 til janúar 1839
Óli Gneisti Sóleyjarson 12.02.2009
Flokkað undir: ( Erlendar greinar )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 12/02/09 09:17 #

Til hamingju með Darwin.

Hann hafði rétt fyrir sér! Allar tegundirnar eiga sér sameiginlegan uppruna og þær mótast, breytast, þróast með náttúruvali.

Og, já.... kristnin er bölvanleg kenning.


danskurinn - 12/02/09 10:43 #

Það er athyglivert að skoða þekkingarleit Darwin og hvata þeirrar leitar í því ljósi að hann var að eigin sögn „mjög rétttrúaður“ en snérist síðar frá þessum rétttrúnaði. Það hefur einmitt verið notað sem ein röksemd fyrir göllum trúar að með trú myndi þekkingarleit stoppa þar sem hvati hennar væri efi.


Svanur Sigurbjörnsson - 13/02/09 14:59 #

Takk kærlega fyrir þessa birtingu Óli Gneisti. Þetta er verulega athyglisverð lesning.

Danskurinn - sú röksemd sem þú nefnir er í fullu gildi þó að Darwin og fleiri hafi brotist út úr rétttrúnaði á eigin spítur með því að horfa í kringum sig. Í meira en árþúsund hélt kristnin allri þekkingarleit í heljargreipum og átti sú fangelsun hugans sér stað bæði á meðal sannfærðra einstaklinga og svo af völdum valdastofnana sem kúguðu og kæfðu alla þá sem reyndu að brjótast út.


snorri - 14/02/09 00:07 #

.Darwin segir: "En mér þótti sífellt erfiðara, með frelsi ímyndarafls míns, að finna sannanir sem gætu sannfært mig. Þannig laumaðist vantrúin yfir mig hægt og rólega, en vann mig loks að öllu leyti. Umbreytingin var svo hæg að ég varð ekki fyrir nokkru óyndi og hef síðan ekki efast eina einustu sekúndu að niðurstaða mín væri rétt. Nú get ég varla séð að nokkur myndi vilja að kristni væri sönn því ef svo er bendir textinn skýrt til þess að þeir menn sem ekki trúa, og þar á meðal faðir minn, bróðir og nær allir mínir bestu vinir, verði fyrir ævarandi refsingu."

Er ekki hér grunnurinn að þróunarkenningunni kominn, hann mótast vegna hræðslunnar við glötun, eilífa tortímingu? Þess vegna er Þróunarkenningin trú, sett fram sem rökrétt mótvægi við Guð, Jesú Krist og krossdauða hans sem og kenningunni um heimsendi. Ergo þróunarkenningin er Djöfulleg. Nazistar byggðu sína heimspeki og sitt siðferði á henni. í hennar nafni voru þjóðverjar öðrum mönnum æðri af náttúruvalinu og réttlættu því grimmdarverki sín með þróunarkenninguna að vopni. Vonandi sjá menn þessar veilur. kveðja Snorri í Betel


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 14/02/09 01:45 #

"Er ekki hér grunnurinn að þróunarkenningunni kominn"

Nei, grunnurinn af þróunarkenningunni er genatískur breytileiki og náttúruval.

"Nazistar byggðu sína heimspeki og sitt siðferði á henni."

Nei, Nasismi er byggður á þjóðernisstefnu sem tröllreið álfunni á þessum tíma og svo fasismanum sem þjóðverjar öpuðu eftir Ítölum. Inní þetta blandaðist alskonar hindurvitnarugl um guðlegan uppruna "aría".


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 14/02/09 03:37 #

Þess vegna er Þróunarkenningin trú, sett fram sem rökrétt mótvægi við Guð, Jesú Krist og krossdauða hans sem og kenningunni um heimsendi. Ergo þróunarkenningin er Djöfulleg.

Nei, þróunarkenningin er ekki trú, ekki frekar en sólmiðjukenningin.

Ég held að þessi hugmynd hafi ekki komið fram sem rökrétt mótvægi við guðfræðina, heldur rökrétt framhald af athugun á staðreyndum, óháð guðfræðinni.

Hins vegar má vel vera að þróunarkenningin sé "Djöfulleg" þar sem hún grefur vissulega undan Guði og félögum, en þá er sólmiðjukenningin líka djöfulleg og heilbrigð skynsemi líka.

Darwinismi - sem skýring á náttúrunni - er eitt, Darwinismi - sem pólitík, réttlæting á ofríki þeirra sterku - er annað.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 14/02/09 12:09 #

Nasistar töldu sig gera nákvæmlega það sem bændur gerðu í þúsundir ára áður en þróunarkenningin kom fram, að bæta stofninn. Kristnir menn höfðu líka ofsótt gyðinga í Evrópu og Þýskalandi sérstaklega í árhundruð áður en Darwin kom til og þeir héldu því áfram eftir hans tíð. Darwin var því algjörlega óþarfur.

En hvað um það. Þróunarkenningin væri ekkert minna sönn þó að nasistar hefðu notast við hana.

Er ekki hér grunnurinn að þróunarkenningunni kominn, hann mótast vegna hræðslunnar við glötun, eilífa tortímingu? Þess vegna er Þróunarkenningin trú, sett fram sem rökrétt mótvægi við Guð, Jesú Krist og krossdauða hans sem og kenningunni um heimsendi. Ergo þróunarkenningin er Djöfulleg.

Ég veit ekki hvort þú last kaflann í heild sinni en augljóslega setti Darwin þróunarkenninguna ekki fram sem mótvægi við kristni. Vissulega taldi hann að hönnunarrökin féllu með kenningunni en það var bara kommon sense og gagnrýnin hugsun sem gerðu hann fráhverfan kristni, eins og kemur fram í kaflanum.

Kristni yrði ekki skyndilega vitrænt hugmyndakerfi þó þróun væri ekki staðreynd.


Stendór J. Erlingsson - 14/02/09 20:02 #

Það er sorglegt að sjá Snorra og aðrar villuráfandi "sálir" kenna Darwin um helför nasista. Nasistar sóttu víða innblástur þegar þeir voru að móta hugmyndir sínar, þar á meðal frá kristinni heimsendatrú. Það er engum blöðum um það að fletta að nasistar sóttu m.a. innblástur í "vísindalegar" hugmyndir mannkynbótasinna sem töluðu fyrir vönun allra þeirra sem þeir álitu óæðri þeim staðli sem þeir sjálfir settu. Mannkynbótahreyfingin náði að skjóta styrkum rótum í flestum ríkjum Bandaríkanna og löndum Evrópu fyrir seinni heimstyrjöldina. Hér á landi voru mannkynbótalög samþykkt 1938. Að kenna Charles Darwin og Ernst Haeckel um þessa misnotkun á hugmyndum erfðafræðinnar í nafni rasisma nær hins vegar ekki nokkurri átt.

Í fyrra birtist ævisaga Haeckels, sem skrifuð er af einum virtasta vísindasagnfræðingi heims, þar sem tengsl Haeckels við nasismann eru hrakinn.

Fyrir tveimur vikum birtist síðan ný ævisaga Darwins, eftir tvo helstu sérfræðinga heimsins í ævi þessa mikla hugsuðar. Ég er ný búinn að fá bókina þar sem haldið er fram byltingarkenndri túlkun á því af hverju Darwin varð þróunarsinni:

Darwin's human project remains obscure. But it is foundational,and without understanding it, we cannot understand why Darwin came to evolution at all.

'Roots' is where we begin, Roots as in Alex Haley's stirring historical novel -- the enslavement of black Africans that so outraged Darwin's generation. It was Darwin's starting point too, his abhorrence of racial servitude and brutality, his hatred of the slaver's desire, as he jotted, to "make the black man [an]other kind", sub-human, a beast to be chained. Roots were what Darwin's human project was all about. And to understand why he started thinking about the roots -- the origin -- of black and white races, we have to appreciate his moral anchorage in the noontide o the British anti-slavery movement.

Darwin hataði því allt sem nasistar stóðu fyrir og setti fram þróunarkenninguna til þess að sýna fram á að svartir menn og hvítir tilheyrðu sömu tegundinni og höfðu því kröfu til sömu réttinda. Það er jafn gáfulegt að kenna Darwin um helför nasista eins og íslenskum alþingismönnum af því þeir samþykktu mannkynbótalög árið 1938.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 14/02/09 20:22 #

Í rauninni enn fáránlegra.


Stendór J. Erlingsson - 14/02/09 20:40 #

Sammála!!


snorri - 15/02/09 00:06 #

Strákar! Þið segið: "Nazistar byggðu sína heimspeki og sitt siðferði á henni. í hennar nafni voru þjóðverjar öðrum mönnum æðri af náttúruvalinu og réttlættu því grimmdarverki sín með þróunarkenninguna að vopni."

og: "Nasistar töldu sig gera nákvæmlega það sem bændur gerðu í þúsundir ára áður en þróunarkenningin kom fram, að bæta stofninn." og: "Það er engum blöðum um það að fletta að nasistar sóttu m.a. innblástur í "vísindalegar" hugmyndir mannkynbótasinna sem töluðu fyrir vönun allra þeirra sem þeir álitu óæðri þeim staðli sem þeir sjálfir settu.." Ég segi: Það er engum blöðum um það að fletta að nasistar sóttu m.a. innblástur í "vísindalegar" hugmyndir mannkynbótasinna sem töluðu fyrir vönun allra þeirra sem þeir álitu óæðri þeim staðli sem þeir sjálfir settu."

Af þessum tilvitnunum er greinilegt að nazistar nýttu sér Darwinsk fræði svo það þjónar ekki umræðunni að skera á þau tengsl. Það er líka vitað að Darwin var barn síns tíma þ.e. Victoríutímans sem trúði á óendanlegan þroska og framfarir. Samhengið er ekki það að Darwin hafi verið nazisti heldur að Darwinsk rök (kenning) var nýtt af nazistum til að styðja hugmyndirnar um æðri kynþátt. Það er auðvitað jafn rangt og bagalegt. Reynir Þú segir að heilbrigð skynsemi geti verið djöfulleg, nær væri að segja að skynsemin getur verið djöfulleg, heilbrigð skynsemi er það ekki. Margur nazistinn var til dæmis "skynsamur" en gat ekki státað af heilbrigðri skynsemi. Heilbrigði manna hlúir að vellíðan og virðingu gagnvart öðrum mönnum. Það er aldrei hollt fyrir nokkrar rökræður að telja sig beita "heilbrigðri skynsemi" og vera í andstöðu við annan sem hlýtur þá að vera með "óheilbrigða skynsemi". Skoðanir manna um náttúruval og að hinir hæfustu lifa hefur ekki staðist við nánari skoðun. Steinrunnar leifar dýra sýna glöggt að útdauð dýr dóu ekki vegna vanhæfni heldur frekar vegna hamfara. kær kveðja Snorri í Betel


Stendór J. Erlingsson - 15/02/09 00:31 #

Hvað með áhrif kristinnar heimsendatrúar á heimsmynd nasista. Ógildir það kristna trú af því þeir voru undir áhrifum hugmyndar sem ég veit að er þér mjög hugleikin.

Eg hvet þig til þess að lesa greina sem ég vísa í hér að ofan, en þar segi ég m.a.:

Ekki er þó hægt að kenna áhrifum kristinnar heimsendatrúar alfarið um hörmungar 20. aldarinnar, ekki frekar en áhrifum Upplýsingarinnar (Gordon, 2001; Reill, 2005) og fósturbarna hennar, trúleysi og þróunarkenningunni (Hecht, 2003; Richards, 2008), eins og stundum heyrist. Orsakasamhengi sögunnar er miklu flóknara en svo að hægt sé að réttlæta slíkar einfaldanir.

Ég ítreka að orsakasamhengi sögunnar er mjög flókið og barnalegar einfaldanir eins og þú setur fram eru í besta falli rangar. Ég segi í besta falli því ég hef hlustað á þig í sjónvarpi og tel ég heimsendaboðskapinn sem þú hefur fram að færa stórvarasaman.

"Skoðanir manna um náttúruval og að hinir hæfustu lifa hefur ekki staðist við nánari skoðun. Steinrunnar leifar dýra sýna glöggt að útdauð dýr dóu ekki vegna vanhæfni heldur frekar vegna hamfara." Mér finnst það alltaf jafn grátbroslegt þegar þegar einstaklingur, sem blindaður er af trúarheift og hefur enga vísindalega menntun, telur sig vita betur en mikil meirihluti vísindamanna. Slíkt sjálfstraust er í eðli sínu sjúklegt.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 15/02/09 12:43 #

Satt segirðu, Snorri. Það var óheppilegt af mér að tala um heilbrigða skynsemi en þú viðurkennir þó að skynsemi geti verið djöfulleg, það nægir mér til að hnykkja á því hversu vafasamt hugtakið "djöfullegt" er.

Eins og ég reyndi að benda á (og aðrir óbeint) þá eru það ekki rök gegn þróunarkenningunni (vísindalegum Darwinisma) að nasistar hafi beitt pólitískum Darwinisma fyrir sig. Pólitískur Darwinismi er allt annar handleggur! Kynbótastefnan átti marga fylgismenn víða um heim. Nasistar sóttu hugmyndir sínar í þeim efnum helst til lagasetningar í Kaliforníu! og Íslendingar beittu vönun undir hennar formerkjum - en nærtækari skýring er sú að með henni var reynt að draga úr félagslegum erfiðleikum frekar en að bæta kynstofninn. Raunar er það svo að þekking okkar á þróun nú, genum og stökkbreytingum, sýnir berlega fram á að þessi pólitíski Darwinismi 19. og 20. aldar gengur ekki upp, hann stangast á við vísindalegan Darwinisma. Kynbótastefnan eins og hún var rekin var vonlaus - enda var árangurinn enginn þegar menn reyndu að ala upp ofurkynstofn.

Skoðanir manna um náttúruval og að hinir hæfustu lifa hefur ekki staðist við nánari skoðun. Steinrunnar leifar dýra sýna glöggt að útdauð dýr dóu ekki vegna vanhæfni heldur frekar vegna hamfara.

Þessar fullyrðingar eru báðar rangar. Náttúruval er enn að verki og enginn efast um að þeir hæfustu lifa. Þú sérð ekki af hverju lífverur dóu þegar þú skoðar steinrunnar leifar þeirra. Þær hafa hlaðist upp nokkuð jafnt og þétt í milljónir og milljarða ára. Hins vegar má sjá gríðarmiklar breytingar á vissum stigum - fjöldi tegunda dó út á tiltölulega stuttu tímabili - og menn geta sér til að einhverjar hamfarir eða breytingar á veðurfari hafi átt sér stað.


danskurinn - 15/02/09 14:42 #

Reynir! Sett hafa verið fram þau rök gegn trú að hún bæli hvata þekkingarleitar. Í því ljósi er léttvægt að tala um rétttrúaðan Darwin eins og hann sé bara einhver ésúhoppari sem komst undan kristnum kreddunum af eigin rammleik.

Snorri! Nazistar átu brauð og notuðu klósettpappír. Er þá brauðát djöfullegt og illt að skeina sér?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 15/02/09 16:27 #

Ég skil þig ekki, danskurinn.

Kristnin vegsamar blinda trú... sælir eru þeir sem sáu ekki en trúðu þó. Hún hlær að visku spekinganna og lofsyngur barnaskap. Í tilviki Darwins má segja að trúarbrögðin segi - sælir eru þeir sem sjá en ákveða að hunsa það. Darwin sá breytileika tegunda út frá aðstæðum, hann sá skyldleika tegundanna og hann sá að útdauðar tegundir líktust þeim sem voru lifandi. Út frá þessu gat hann sér til um að tegundir þróuðust og ættu sér sameiginlegan uppruna (uppruni tegundanna) og hann dró þá ályktun að náttúruval væri ferlið sem réði þessari þróun.

Darwin sá líka að þetta stangaðist á við þá hugmynd að guð hefði skapað tegundirnar eins og þær eru. En hann lokaði ekki augunum fyrir því, eins og margir trúmenn, heldur sætti sig við niðurstöðuna.

Góður trúmaður ætti ekki að efast en flestir trúmenn efast þó einhvern tíma. Raunar skiptir mig engu máli hvort Darwin var trúaður eða ekki, hvort hann var jesúhoppari, deisti, theisti, agnostisti eða atheisti. Það skiptir engu máli hvort hann efaðist um trú sína eða féll frá henni.

Flestir trúmenn á Íslandi fallast á að lífið þróaðist á jörðinni. Í Bandaríkjunum er staðan önnur. Afstaða einstakra manna eða hóps manna til kenningar segir ekkert til um gildi kenningarinnar.

Þróunarkenningin er á pari við sólmiðjukenninguna, hverju sem menn kjósa að trúa.

En sú staðreynd að skynsamir menn kjósi að hafna sólmiðjukenningunni og/eða þróunarkenningunni af því að "heilög ritning" segir eitthvað annað (að þeirra mati) sýnir fram á skaðsemi trúarbragða.

Snorri, er sólmiðjukenningin djöfulleg?


danskurinn - 15/02/09 23:22 #

Reynir skrifar: "Ég skil þig ekki, danskurinn."

Upphaflega hóf Darwin rannsóknir sínar guði til dýrðar. Hvatinn var trú hans, enda var náttúrufræði á þessum tíma e.k. guðfræði. Það sem síðar gerðist í lífi Darwin styður ekki þá röksemd að trú hamli gegn þekkingarleit.

Það hefur í raun furðulítið gerst síðan Darwin setti fram kenningu sína. Akademían tók Darwin traustataki og þar hafa menn verið íhaldssamir og skilgreint líf og þróun mjög þröngt og hjakkað í sama farinu eins og akademían gerir gjarnan. Nú hafa menn í nokkurn tíma litið mjög til fjarlægra stjarna í von um nýjar upplýsingar sem gætu varpað ljósi á uppruna lífs okkar á Jörðinni. Þannig stöndum við enn í sömu sporum og Darwin fyrir 200 árum. Þó við vitum meira, vitum við samt ekki það sem við viljum helst vita. Ég efast um að Darwin hefði líkað sú kenning að líf hafi borist fyrir hendingu til Jarðar utan úr geimnum og þróast í handahófskenndu samspili hendinga og náttúruvals til þess veruleika sem við þekkjum í dag. Í raun er sú hugmynd eins og uppgjöf gagnvart aðferð Darwin.

Reynir skrifar: "Kristnin vegsamar blinda trú.."

Það er rétt! Og á sama hátt vegsamar akademían þekkingu sem hlotið hefur náð fyrir augum hennar sjálfrar. Enda er guðfræði upphaf akademíunnar og hangir þar inni á hefðinni.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 15/02/09 23:46 #

Merkilegt orðaval að guðfræðin hafi verið upphaf akademíunnar, það eitt og sér sýnir að guðfræðin hafi ekki haft áhrif á upphaf æðri menntastofnanna í fornöld. Nútíma háskólar fóru líka af stað án guðfræði þó hún hafi snemma laumað sér þar inn.

Ég er líka nokkuð viss um að náttúrufræðin sem Darwin nam hafi verið frekar langt frá guðfræði þó að vissulega hafi menn enn verið með einhverjar slíkar kreddur inni.


danskurinn - 16/02/09 06:58 #

Þetta er ekki mín prívat skoðun. Darwin var nemandi í Christ’s College í Cambridge þar sem leiðandi náttúrfræðingar litu á vísindi sín sem guðfræðilega stúdíu. "Natural theology" nær aftur til Plato.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 16/02/09 08:22 #

Það hefur í raun furðulítið gerst síðan Darwin setti fram kenningu sína

Slíkt er auðvitað matsatriði. Hins vegar hefur sprottið upp alveg ný grein, erfðafræði, og nú getum við lesið kjarnsýrur, DNA. Það vill svo skemmtilega til að DNA lífvera sýnir nákvæmlega það sem búast má við út frá kenningu Darwins, skyldleika tegundanna. Við getum séð í hverju þróunin er fólgin í DNA þeirra.

Framfarir hafa líka verið miklar í steingervingafræði, sem enn styður kenningu Darwins.

En Darwin fjallaði ekki um uppruna lífsins, heldur þróun þess. En við erum líka langt komin í abiogenesis, fræðum um hvernig líf kviknar. Það er ekkert dularfullt við það lengur, en nákvæm svör fáum við sennilega aldrei þar sem engar leifar eru til um það.

Og á sama hátt vegsamar akademían þekkingu sem hlotið hefur náð fyrir augum hennar sjálfrar.

Auðvitað byggjum við á því sem á undan er gengið. Sumum finnst íhaldssemin kannski fullmikil, en þó eiga sér stað byltingar öðru hverju og jafnvel það sem kallast paradigm-shift - menn tileinka sér alveg nýjan útgangspunkt.

Einhverjir halda fram að sama þróun eigi sér stað í trúarbrögðum. Jesú betrumbætti Gamla testamentið, ekki satt? En bætti Múhammeð svo ekki um betur? Og kom Joseph Smith ekki fram með nýjustu útgáfuna? Eða var það Rael?

Mér finnst hughreistandi að vita að eðlisfræðingar, efnafræðingar, erfðafræðingar, líffræðingar o.s.frv. í Kína, Indlandi, Bandaríkjunum, Íslandi Rússlandi og Perú virðast tala sama mál. Tilraunir gerðar á einum stað á hnettinum eru endurteknar annars staðar. Vísindasamfélagið er alþjóðlegt, þekkingin safnast upp.

Hvernig stendur á því að þekking í guðfræði lýtur allt öðrum lögmálum? Menn ná ekki sífellt meiri samhljómi á þeim vettvangi heldur greinast trúarbrögðin í sífellt fleiri afbrigði sem eru algjörlega ósamrýmanleg innbyrðis - Móses, Jesús, Múhammeð, Smith, Rael o.s.frv. Svo ekki sé minnst á Hindúisma og önnur óskyld trúarbrögð.

Vísindin eru ekki óskeikul, en þau eru besta aðferðin sem enn hefur komið fram til að komast að raun um hvernig heimurinn er, enda kallast þau raunvísindi.


snorri - 16/02/09 09:12 #

Reynir Það er stór munur á "sólmiðjukenningunni" og þróunarkenningunni. Sú fyrri hefur ekki gengið svipugöngin og verið uppfærð eða endurgerð í ljósi nýrra upplýsinga. Sú kenning stenst meðan við höldum henni við okkar sólkerfi en utan þess er auðvitað sólin langt frá því að vera í miðjunni. Sú kenning hefur ekki verið í nokkru í andstæðu við Biblíuna. Þróunarkenningin hefur verið við lýði í 150 ár og verið uppfærð, aðlöguð og breytt í ljósi nýrra uppgötvana. Allan þennan tíma hafa ekki komið fram vísbendingar um breytingarferla. Menn vita líka í dag að apinn er ekki nánasti "ættingi" mannsins þó svo að teikningar og myndir bendi til þess. Læknar nota t.d. ekki líffæri eða vefi úr apa til að græða í menn en það gera þeir aftur á móti með líffærum og vefum úr svínum. Menn geta orðið eins og svín, bæði af drykkju og áti. Af hverju endurskoðum við ekki lærdóminn um hver okkar nánasti ættingi er fyrst menn geta líkst honum í þó nokkru? kær kveðja Snorri.

Þið vitið að Jesús er upprisinn?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 16/02/09 09:41 #

Við erum að fjarlægjast efnið full mikið en það er rétt að benda Snorra á að það er rangt hjá honum að læknar hafi ekki notað líffæri og vefi úr öpum til að græða í menn. Vefir úr bavíönum hafa allavega verið notaðir.

Ástæðan fyrir því að svín eru oftar notuð er vissulega vegna þess hve líffærin eru lík okkar en einnig af því að það er bara svo auðvelt að nálgast þau, þeim er hvort eð er slátrað og það eru færri sjúkdómar í þeim. Aftur á móti hafa sumir gagnrýnt það að nota apa í slíkar tilraunir einmitt vegna þess hve mannlegir þeir eru. En líka vegna þess að þeir eru margir í útrýmingarhættu og að það er svo mikið af vírusum í þeim sem eru hættulegir mönnum þó þeir séu öpunum sjálfir skaðlitlir.


Arnar - 28/02/09 09:09 #

Ég skil ekki af hverju umræður kristinna manna um Darwinkenninguna einkennast af ofbeldi. Menn æsast upp og vilja helst byrja að berja hvorn annan. Að kalla eitthvað "djöfulegt" er ekkert annað en ofbeldi. Þegar skynsemin þrýtur, tekur ofbeldið við.

Munurinn á vísindalegum kenningum og trúarkenningum er að vísindalegar kenningar verður að byggja upp með rökum og/eða sönnunum. Ef hægt er að afsanna eitthvert af rökunum, fellur kenningin. Trúarkenningar eru settar fram án raka eða sannana og ekki er hægt að afsanna neitt. Þess vegna er ómögulegt að rökræða þær og auðvelt að misnota þær eins og sést hefur hjá mörgum öfgatrúarmönnum og þá skiptir ekki máli hvaða trúarbragð það er.

Af hverju eru margir kristnir menn svona á móti Darwinkenningunni? Hann segir ekki að Guð hafi ekki skapað heiminn og allar lífverur. Hann lýsir bara hvernig þetta ferli átti sér stað. Það er einna helst að í Biblíunni stendur að Guð hafi gert þetta á 7 dögum og kristnir menn ættu alveg að geta sætt sig við þessi mistök í Biblíunni. Ekki get ég séð að þetta grafi undan kristinni trú.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 28/02/09 12:59 #

Þróunarkenningin grefur vissulega undan kristinni trú því hún sýnir fram á að við erum dýr og ekki sköpuð í guðs mynd.

Þetta samræmist ekki auðmýktinni og lítillætinu sem felst í því að við séum kóróna sköpunarverksins og herrar jarðarinnar.


Gunnar - 12/03/09 20:24 #

Þið vitið að Jesús er upprisinn?

Nei hann er það ekki. Þetta er ein mesta blekking mannkynssögunnar sem haldið hefur verið í nafni trúar i 2000 ár eða svo.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.