Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kafað í barnalauginni: Nornahamarinn og Þórhallur Heimisson

Fyrir jól kom út bókin María Magdalena: Vegastjarna eða vændiskona eftir séra Þórhall Heimisson. Í kynningu á bókinni kemur fram að í henni sé "[...] kafað í forn handrit sem mörg hver hafa ekki komið út á íslensku eins og guðspjall Maríu, Filipusarguðsjall, Gullnu sögurnar, Nornahamarinn og fleiri." Ég ákvað að kynna mér bókina aðeins og sjá hve djúpa fræðimennsku Þórhallur hefði ástundað og tók þá Nornahamarinn sem dæmi.

Nornahamarinn eða Malleus Maleficarum er alræmt rit er notað var af þeim sem stunduðu nornaveiðar. Þar eru útlistaðar kenningar um nornir og hvernig skal þefa þær upp. Í formála bókarinnar er yfirlýsing páfa um tilvist norna og hans stuðning við höfundana tvo. Þar á eftir fylgir stuðningsyfirlýsing frá guðfræðideild háskólans í Köln.

Væntanlega ber þessi bók mesta ábyrgð á því að galdraofsóknir í Evrópu urðu jafn útbreiddar og raun bar vitni. Hún varð mjög vinsæl bæði meðal mótmælenda og kaþólikka. Hún var efst á vinsældarlistum þessa tíma og var ítrekað endurprentuð. Í raun var hún handbók þeirra sem ástunduðu þessa viðbjóðslegu iðju. Áður hefur verið minnst á þessa bók og ógeðfellt innihald hennar á Vantrú(sjá t.d. Heilagur Hryllingur VII: Galdrafárið).

Það sem er áhugavert við skrif Þórhalls um bókina er að þar stendur að bókin hafi verið bönnuð af kaþólsku kirkjunni og fordæmd af guðfræðideild háskólans í Köln. Þórhallur segir að þetta sýni að það sé "rangt sem sumir halda fram að kaþólska kirkjan hafi formlega nýtt sér bókina til ofsókna gegn meintu galdrahyski". Þessi kafli er í raun nær orðréttur úr fyrri bók Þórhalls Orðabók leyndardómanna. Ef Þórhallur gæfi upp heimildir sínar væri auðvelt að skoða hvaðan þessar upplýsingar koma en því miður er hvorki neitt um beinar tilvísanir né er nokkur bók um þessi mál nefnd í heimildarskránni.

Það má þó geta sér til hvaðan Þórhallur fær upplýsingarnar. Ef skoðaðar eru gamlar útgáfur af Wikipediugreininni um Malleus Maleficarum* frá þeim tíma sem Þórhallur hefur líklega verið að skrifa bókina sjást svipaðar fullyrðingar. Ef heimildirnar sem eru nefndar eru hins vegar skoðaðar kemur í ljós að þetta er mjög vafasamt.

Aðalheimildin fyrir þessu er grein á netinu eftir einstakling sem titlar sig sagnfræðing en vísar þó sjálf ekki í neinar heimildir. Hún segir reyndar ekki að kaþólska kirkjan hafi bannað bókina en segir að Rannsóknarrétturinn hafi fordæmt annan höfundinn árið 1490. Það var þó ekki endir ferils hans því árið 1500 sendi páfi hann í för til að uppræta villutrú. En einhver sem skrifar á Wikipediu virðist hafa misskilið þetta á þann veg að um bann á bókinni sjálfri hafi verið að ræða. [Russell 1972, bls. 231]

Fullyrðingin um fordæmingu guðfræðideildarinnar í Köln virðist vera sambland af misskilningi og ýkjum. Því hefur verið haldið fram að stuðningsyfirlýsing deildarinnar hafi verið fölsuð. Í útgáfu sinni á Malleus Maleficarum hrekur Christopher S. Mackay þetta og telur að um misskilning eins fræðimanns hafi verið að ræða. Ég finn hins vegar hvergi nokkuð minnst á að deildin hafi fordæmt bókina. [Mackay 128] Það virðist vera nýleg uppfinning sem fræðimenn á sviðinu hafa ekki heyrt um.

Það sem við sjáum hér er tilraun til að endurskrifa söguna. Kaþólska kirkjan lét Nornahamarinn vissulega á lista yfir bannaðar bækur en það var ekki fyrren 1707[BFE] þegar mesta nornaæðið hafði runnið sitt skeið á enda. Þá var skaðinn skeður og ótal mannslíf töpuð. Við skulum því vara okkur á vafasömum fullyrðingum vafasamra fræðimanna um meint sakleysi kaþólsku kirkjunnar á hörmungum galdraofsókna.


Heimildir:

Beacon for Freedom of Expression: Censored publications
Bókadómur Jenny Gibbons um The Malleus Maleficarum
Mackay, Christopher S. (2006). Malleus Maleficarum.
Russell, Jeffrey Burton (1972). Witchcraft in the Middle Ages.
Russell, Jeffrey Burton (1980). A History of Witchcraft.
Trevor-Roper, Hugh (1977). Galdrafárið í Evrópu.


*Ég leiðrétti sjálfur Wikipediugreinina út frá skrifum alvöru fræðimanna um málið.

Óli Gneisti Sóleyjarson 02.02.2009
Flokkað undir: ( Kaþólskan )

Viðbrögð


Þórhallur Heimisson - 02/02/09 11:33 #

Sæll og blessaður Óli - gaman að þessu. Þú hefur greinilega ekki fengið nóg af mér eftir greinarskrif okkar um skjaldarmerki íslands í haust - þar sem í ljós kom að þú hafðir ekki hugmynd um þær heimildir sem voru að baki frásögn minni- en hélst að mér hefði bara dottið þetta allt í hug til að kristna skjaldarmerkið!? Ég er reyndar enn að bíða eftir að þið birtið lokagrein mína um það mál eins og þið lofuðuð - þar sem allar heimildirnar eru teknar saman. Og varstu ekki líka að skrifa eitthvað um mig og biskupinn? Það er gaman að því hvað þú fylgist vel með mér. Má ekki bjóða þér á ráðstefnu í Norræna húsinu næsta laugardag um vonina? Þar ætla ég einmitt að vitna í Karl gamla Marx og tengja kenningu hann við kristna trú. En gangi þér annars vel minn kæri.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/02/09 11:54 #

Ég er reyndar enn að bíða eftir að þið birtið lokagrein mína um það mál eins og þið lofuðuð

Það varst reyndar þú sem "lofaðir því", ekki við. Er ekki í lagi að við sjáum um að ritstýra þessum vef?

Svargrein Óla Gneista hefur beðið birtingar hjá Morgunblaðinu frá 23. nóvember. Við birtum þína grein um leið og grein Óla hefur birst í blaðinu. Ertu ekki til í að nota ítök þín hjá Morgunblaðinu og fá þau til að birta grein hans. Það er nefnilega ekki sama hvort það er Jón eða séra Jón sem sendir grein þangað.

Það er áhugavert að sjá að þú átt ekkert svar við þessari grein.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 02/02/09 12:01 #

Badminton og afmælisundirbúningur á laugardaginn. Kannski seinna.


Sævar - 02/02/09 15:30 #

Komið þið sælir.

Það væri mjög forvitnilegt ef Þórhallur svaraði þessari grein.


Þórhallur Heimisson - 02/02/09 17:50 #

Sæll Matti. það er merkilegt þegar menn halda að ég hafi einhver ítök í Mogganum. það halda líka ýmsir á hinum vængnum sem finnst ég vera allt of gagnrýninn á kirkjuna. En auðvitað hef ég engin ítök þar.

Gæti ekki verið að Moggamenn séu búnir að fá nóg af rökleysum Óla varðandi skjaldarmerkið?

En ég heldi að ég segi pass núna - það er nefnilega vonlaust verk að skrifast á við mikla trúmenn eins og Óla. Hann virðist vera með mig einhvernvegin á sálinni og ferst ekki fyrir, ekki nú frekar en fyrr - grípur pennann án þess að skoða heimildir sínar.

Eitt lítið dæmi: Óli segir "Ef Þórhallur gæfi upp heimildir sínar væri auðvelt að skoða hvaðan þessar upplýsingar koma en því miður er hvorki neitt um beinar tilvísanir né er nokkur bók um þessi mál nefnd í heimildarskránni".

Auðvitað gef ég upp heimildirnar - Óli vill bara ekki sjá þær. Ég nefni bæði Orðabók leyndardómanna, Inventing Superstition, A history of the Medievel Church, Luther and the reformation, Korstag, og fleiri.

En trúmaðurinn sér þetta ekki - ekki frekar en mikla gagnrýni mína á kirkjuna og hernaðarbrölt hennar og ofsóknir gegn konum.

Þess vegna segi ég pass við þessu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/02/09 17:53 #

Sæll Matti. það er merkilegt þegar menn halda að ég hafi einhver ítök í Mogganum.

Það eru ekki allir sem fá birtar greinar í Morgunblaðinu samdægurs. Ég hefði haldið að til þess þyrfti ítök.

Gæti ekki verið að Moggamenn séu búnir að fá nóg af rökleysum Óla varðandi skjaldarmerkið?

Hefur þú séð svargrein Óla sem bíður birtingar hjá Morgunblaðinu? Hvernig getur þú skellt fram svona fullyrðingu? Það hefur ekki vantað rökleysurnar hjá þér séra.

Þess vegna segi ég pass við þessu.

Virkilega ódýrt.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 02/02/09 19:21 #

Þórhallur, er þér enn fyrirmunað að skilja að menn eiga að vitna sjálfir í sínar heimildir, en ekki að krefja lesendur sína um að grafa upp eitthvað sem mögulega styður skrif þeirra?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 02/02/09 20:27 #

Hver af þessum heimildum inniheldur sömu rangfærslur og Wikipediagreinin sem ég vísa á Þórhallur? Þetta er einfalt mál, þú bara segir hvaðan þú fékkst villurnar. Ef þú segir endanlega pass er augljóst að þú getur það ekki og gisk mitt er rétt: Fræðistörf þín eru stunduð með leit á Wikipediu og þú hefur ekki einu sinni vit á að nota vandaðar greinar af því alfræðiriti.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 02/02/09 20:41 #

Alltaf sorglegt þegar menn tala í kross. Þórhallur á þökk skilið fyrir að svara hér fyrir sig. Hann segist "nefna" heimildir og tilgreinir þær. Kannski voru þær ekki í heimildaskrá heldur í textanum sjálfum (hvað veit ég?).

Hins vegar svarar Þórhallur í engu meginefninu, þ.e.a.s. hvort rétt er eða rangt að "kaþólska kirkjan hafi formlega nýtt sér bókina til ofsókna gegn meintu galdrahyski".

En ég vil ég þakka Þórhalli gagnrýni hans á forpokun kirkjunnar, m.a. í garð kvenna og samkynhneigðra og vona að hann svari hér áfram.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 03/02/09 01:35 #

það er nefnilega vonlaust verk að skrifast á við mikla trúmenn eins og Óla.

Ertu að segja að það sé slæmt að vera mikill trúmaður? Er meiri trú verri og minni trú betri?

Alltaf gaman að því þegar prestar gera lítið úr trú og tala niðrandi um hana.


Jói - 03/02/09 10:46 #

Hvernig er með þessar bækur sem Þórhallur nefnir? Er fjallað um Galdrahamarinn þar?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 03/02/09 10:54 #

Ég verð að játa að ég hef ekki skoðað þessar heimildir þar sem þær eru ekki nefndar í bókinni Orðabók leyndardómanna þar sem kaflinn um Nornahamarinn var fyrst birtur.

En svo ég hjálpi Þórhalli þá er ein bók í heimildaskrá Orðabókar Leyndardómanna sem fjallar um Malleus Maleficarum. Það var reyndar erfitt að finna þá bók enda klúðrar Þórhallur nafni höfundarins í heimildaskránni. Þegar ég leitaði að Boredel fann ég engar bækur en áttaði mig loks á að höfundur heitir Broedel. Í þeirri bók er ekkert minnst á þessi mál, semsagt villurnar sem Þórhallur kemur fram með í sínum skrifum.

Ég efast eiginlega um að hann hafi lesið bókina því þá hefði umfjöllunin um Nornahamarinn væntanlega verið betri.

En Þórhallur má endilega leiðrétta mig og koma til dæmis með blaðsíðutal í bók Broedel (eða hinna sem hann nefnir) þar sem er að finna sömu rangfærslur og hann kemur sjálfur með í bókum sínum. Ef ég hef rangt fyrir mér með uppruna þeirra þá er einfalt mál að hrekja það hjá mér.


Gvendur á eyrinni - 09/12/11 17:32 #

[ athugasemd flutt á spjallborð ]

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.