Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að vita ekki betur

Mér er stundum borið á brýn að vera trúuð á mitt trúleysi.

Sem lítil stúlka sitjandi í kirkju með fjölskyldunni minni þá fékk ég þau skilaboð alls staðar úr umhverfi mínu að kristni væri partur af lífi allra og ekki síst fjölskyldunnar minnar. Presturinn minn var afabróðir minn, pabbi var meðhjálparinn hans í kirkjunni og ég vissi ekki af trúleysingja í kringum mig. Enn síður vissi ég að það væri mögulegt að vera trúleysingi eða guðleysingi.

Hvað breyttist, hvað hafði þá þessi áhrif á mig að ég gat ekki fellt mig undir þennan félagslega dóm að ég skyldi trúa á heilaga kirkju, samfélag trúaðra og allt það?

Því verður ekki auðsvarað enda engin öfl í mínum uppvexti sem voru á beinan hátt andstæð kirkjunni eða ríkistrúnni.

Ég hins vegar ólst upp við töluvert frjálsræði. Frjálsræði og heilmikla þolinmæði og hlýju. Á köflum fékk ég sjálfsagt að vera sjálfstæðari heldur en margur jafnaldrinn og sjaldan var mér hlíft við veruleikanum, eins og foreldrar mínir þekktu hann. Þeirra veruleiki var hins vegar á þeim tíma jafn kristinn og allra annarra í kringum okkur.

Foreldrar mínir voru, og eru reyndar enn, mikið baráttufólk. Ef eitthvað vakti þeim grun um misrétti þá lá það nær alltaf beint við að hafa orð á því eða að berjast gegn því. En aldrei í minni æsku eða uppvaxtarárum datt þeim í hug að kirkjan okkar eða trú þeirra væri eitthvað vafasöm og aldrei hefði þeim dottið í hug að letja okkur til trúar eða til virðingar á þessari stofnun sem kirkjan er.

Þau þurftu þess heldur ekki. Þau voru mér fyrirmynd í því að hugsa sjálfstætt og fylgja ekki í blindni. Þrátt fyrir að þau hafi trúað í blindni á kirkjuna á sínum tíma þá urðu þau þess valdandi í gegnum gerðir sínar í öðru að innræting samfélagsins festi ekki rætur hjá mér.

Trú þeirra var á ákveðin hátt áreynslulaus gagnvart okkur. Innræting trúarinnar hjá þeirra kynslóð var einbeittari en hjá minni kynslóð. Vegna þess áttuðu þau sig ekki á hættum þess að innræta okkur ekki trúna áfram sérstaklega. Eins og auglýsingatímar sjónvarpsstöðvanna sanna fyrir okkur á hverjum degi, þá þarftu að auglýsa vöru stíft ef hún talar ekki fyrir sig sjálf. En varan selst ef henni er gefin ákveðin ímynd.

Og Coca Cola er upphaf og endir allrar hamingju.

Sem lítil hnáta þá fann ég mér réttlætingu sjálf fyrir kirkjuferðunum í því að talandi afabróður míns væri róandi og að þetta væri því ágætis slökun fyrir fjölskylduna. Boðskapinn skyldi ég nefnilega alls ekki þrátt fyrir að skilja heilmikið um gang lífsins hafandi alist upp í sveit og horft upp á hringrás lífsins hjá dýrunum frá því að ég mundi eftir mér.

Það kannast allir við hundinn sem var sendur í sveitina þegar þeir voru börn, en fyrir sveitabörnin, hvert átti að senda öll lömbin á haustin? Aldrei vakti það mér óbærilegan ugg að vita um raunveruleg afdrif vina minna frá undangengnu sumri en hreinskilni og heiðarleiki hinna fullorðnu hins vegar skapaði djúpstætt traust til foreldranna sem staðist hefur allar götur síðan. Þau voru svo séð að hlýða kirkjunni og vera ekkert að gaspra um það sem þau höfðu ekki skilning eða guðlegt vald til að tala um og létu því prestinn um alla innrætingu.

Ég þurfti kannski svolítið að melta með sjálfri mér af hverju lífið mismunaði mér og leikfélaga mínum frá því um sumarið svona. En hvernig átti ég annars að komast að einhverri niðurstöðu fyrir sjálfa mig, um þetta, ef mér hefði verið "hlíft" við sannleikanum?

Það var komið fram við mig sem vitsmunaveru og því varð ég sú vitsmunavera sem ég er í dag.

Þegar nýsettur bandaríkjaforseti var vígður inn í embætti fyrir nokkrum dögum síðan þá varð mér hugsað til sjálfrar mín í sveitakirkjunni forðum daga. Á ákveðnum tímapunkti þá lutu allir höfði í bæn í innsetningarræðunni. Eldri dóttir Obama hins vegar gerði það sama og ég fyrir þessum ótölulega fjölda ára. Hún laut ekki höfði. Hún lokaði ekki augunum. Það var líka hlutur sem ég átti alltaf erfitt með.

Ég skildi ekki þessa undarlegu athöfn og hóf því mín þöglu mótmæli gegn henni mjög ung og hálf ómeðvituð um það að um mótmæli væri að ræða. Í fyrstu hætti ég að þylja faðirvorið með restinni, þó ekki án þess að fá mikinn hjarslátt yfir þeirri synd. Eftir einhvern tíma fór ég að kíkja upp og fram úr mér á meðan allir aðrir sýndu undirgefni sína hinni ævintýralegu goðsagnapersónu sem ég fékk ekki til að ganga upp í raunveruleika mínum. Að endingu var svo komið að ég horfði einfaldlega hljóð fram fyrir mig á meðan allir hinir blíðkuðu hinn meinta guð.

Aldrei ræddi ég hins vegar þessa uppreisn við fjölskyldu mína og systkini. Til þess voru hin samfélagslegu skilaboð of sterk. "Það eru allir trúaðir". En þegar réttur tími var kominn, þegar ég hafði þroskann til þess, þá áttaði ég mig á því að ég væri raunverulega frjáls til að fylgja eftir þessari sannfæringu minni, þvert á allt sem samfélagið vildi innræta mér.

Þá kom líka í ljós að systkini mín höfðu háð svipaða baráttu og ég þó við færum mismunandi leiðir í því. Við vorum öll að berjast við það, einmana í okkar hugarheimi, að reyna að þróa með okkur nægilega blint auga til að hljóta viðurkenningu í samfélaginu.

Frá því að ég var fyrst sökuð um það að vera trúuð á trúleysið þá hef ég ekki náð utan um þessa hugmynd. "Trúaður trúleysingi!" Þar til í dag að ég áttaði mig skyndilega á því um hvað þetta snýst. Þetta snýst ekki um mig eða mína afstöðu.

Þegar einhver er að gera mér það upp að vera trúlaus af því að ég viti ekki betur þá hefur hann rétt fyrir sér. Ég er trúlaus nákvæmlega því ég veit ekki betur. En blinda trú skaltu ekki saka mig um því að einmitt þar stoppar mitt vit-leysi. En sá sem trúir talar hins vegar út frá eigin reynsluheimi. Verandi trúaður hvernig gæti hann mögulega skilið mína afstöðu, þar sem ég valdi að fara ekki yfir þá línu að trúa blint á sínum tíma? Sama hversu miklum þjáningum mér og mínum afkomendum yrði hótað sem afleiðingum af því, af meintum mannlegum afleggjurum hins meinta algóða guðs.

Ólíkt því sem margir virðast halda þá fæðist enginn trúaður. Fjölbreytileiki trúarbragða í heiminum eitt og sér sannar það. Hitt sem sannar það er hræðsla trúmanna við það að ef slakað verður á innrætingunni, barnatrúboðinu og hræðslu- og hatursáróðrinum, þá verði allir trúlausir.

Það þarf enga blinda trú til, til þess að fæðast sem manneskja. Á einhverjum tímapunkti virðast hins vegar sumir gefast upp fyrir linnulausri innrætingunni og samþykkja að Coca Cola er einfaldlega best í heimi!

Kristín Kristjánsdóttir 26.01.2009
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Sindri Guðjónsson - 26/01/09 10:34 #

Ég verð reyndar að viðurkenna að mér finnst Coca Cola best í heimi! Áhugaverð hugleiðing annars. Ég þekki marga sem segja að það þurfi heil mikla trú til að vera trúlaus.


Kristín Magnúsdóttir - 26/01/09 13:18 #

Ég skil hvað þú ert að fara Sindri en ég held að þú setjir þetta vitlaust upp.

Það þarf oft gífurlegt átak og erfiði til að losa sig við kreddurnar sem manni voru innrættar á sínum tíma í uppvextinum og það getur verið að það sé það sem þú meinar með að það þurfi heilmikla trú til að vera trúlaus. Ég þurfti á öllum mínum styrk að halda til að ganga í berhögg við það sem þótti eðlilegt og ég fékk margar athugasemdir við að þurfa að vera svona skrítin. Ég þurfti að taka á allri minni trú á sjálfa mig til að standast þrýstinginn. Mér tókst þetta endanlega þegar ég loksins sýndi fjölskyldu og vinum að mér væri full alvara þegar ég skírði ekki barnið mitt. Ég fékk meira að segja athugasemdina: "Hvað er þetta, maður þarf ekkert að vera trúaður til þess að skíra, þetta er bara skemmtileg hefð." Mér finnst ekkert skemmtilegt við að það að hugsa með mér að litla saklausa barnið mitt sé syndugt og þurfi syndaaflausn. Mér finnst þetta frekar ógeðfellt allt saman.

Það þarf heilmikla trú (á sjálfan sig) til þess að vera trúlaus, en þá á ég við þá sem hafa alist upp af trúuðu fólki.

Takk fyrir greinina Kristín, þetta er eins og talað útúr mínu hjarta og útfrá minni reynslu, nema að sem betur fer er enginn prestur í minni fjölskyldu :)


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/01/09 16:38 #

Þessi margkveðna tugga (sem er einkar vinsæl hjá trúuðum bandaríkjamönnum) að ´´það þurfi meiri trú til að vera trúlaus en trúaður´´ er mjög gott dæmi um svona heimspekilega pælingu sem er hvorki heimspekileg né pæling yfir höfuð.

Fólk sem heyrir svona og grípur það á lofti og notar áfram hefur eflaust ekki pælt mikið í þessu því ef það hefði gert það myndi það átta sig á að þetta er í alvörunni eins einfalt og það hljómar. Trúlausir eru bara það - lausir við trú, og þarafleiðandi fáránlegt að ætla að fara að halda því fram að skortur á trú sem trúlausir búa yfir sé allt í einu orðin rosalega mikil trú.

Ef ég á engan pening - er ég þá miljónamæringur???


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/01/09 21:07 #

Ef ég á engan pening - er ég þá miljónamæringur???

Já, það þarf fleiri milljónir til að vera blankur en til að vera milljónamæringur. Sama lógík.


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/01/09 23:53 #

Jújú, mikið rétt.

Og skalli er hárlitur


pönkið lifir - 27/01/09 14:26 #

Fínn pistill ég hegg þó eftir því að þú talar alltaf um það að trúa í blindni, skil ekki alveg þessa fullyrðingu líkt og það sé ekkert annað sem kemur til greina.

Er ekki viss um að allir trúaðir einstaklingar samþykki trúa sína sem blindaða, enda nauðsynlegt fyrir allar manneskjur að mynda sér eigin skoðun á því sem þær lesa eða eru upprættar í líkt og þú gerðir sjálf.

Ég á ekki von á öðru en foreldrar þínir (sem "trúðu í blindni á kirkjuna") hafi borið virðingu fyrir þínum niðurstöðum.


pönkið lifir - 27/01/09 14:27 #

átti að standa uppfræddar en upprættar má svosem standa:-) Líklegast ekki verra


Kristín Kristjánsdóttir (meðlimur í Vantrú) - 27/01/09 16:16 #

Það er eitt að mynda sér skoðun á einhverju og allt annar hlutur að hafa einhver gögn eða staðreyndir til að bakka hlutina upp.

Á ensku er stundum sagt "The plural of anecdote is not data". Sem mætti snúa lauslega yfir í: "Það að eitthvað sé endurtekið nógu oft gerir það ekki að staðreynd".

Sífelldar endurtekningar virðast hins vegar stundum fara að hljóma sem staðreyndir fyrir marga og það er einmitt þessi veikleiki í hinu mannlega eðli sem markaðsfræðingar nútímans nýta sér grimmt.

Löngu áður en markaðsfræðingarnir urðu til þá voru hins vegar alveg til áróðursmeistarar og í gegnum slíkt hafa t.d. trúarbrögðin lifað öld eftir öld.


LegoPanda (meðlimur í Vantrú) - 27/01/09 18:45 #

Ég held að þessi hugmynd um að ,,það þurfi mikla trú til að vera trúlaus" sé einmitt eitthvað sem fólk endurtekur bara og endurtekur án þess að hugsa nokkuð út hvað það er að segja. Fólk er þá búið að gleyma því hvað það á við þegar það talar um ,,trú" og ,,trúarbrögð".

Pönkið lifir: Ég held að þú sért að tengja ,,blinda trú" við eitthvað afar neikvætt, og viljir því ekki nota það yfir þá trú sem þú þekkir. Blind trú er í raun endurtekning, því öll trú er blind - í það minnsta eins og ég nota orðið. Þegar þú segist trúa því að eitthvað sé á ákveðinn veg, eða að eitthvað muni gerast á ákveðinn veg, þá ertu að segja að þú haldir það þrátt fyrir öll rök eða skort á rökum. Það er í sjálfu sér blint. Eitt dæmi um þá trú sem ég held að þú sért að hugsa um er þegar fólk segist trúa á guð sem hið góða í okkur öllum. Hví að gera ráð fyrir einhverri slíkri veru? Er ekki nóg að tala um það sem við höfum, þ.e. það góða í okkur öllum?

Þú virðist reyndar vera að tala um ,,trú" manneskju sem einhvers konar mat hennar á tilverunni. Það er ekki endilega það sama og trú sem felur í sér að samþykkja það að allir fæðist syndugir í huga goðsagnaveru.


pönkið lifir - 27/01/09 20:12 #

Uhhhh.....já ....geisp


Maggadora - 29/01/09 01:44 #

Mér finnst þetta skemmtileg og áhugaverð samantekt hjá þér Kristín.

Ég sjálf ólst upp við trú sem var byggð á góðum guði og líka í bland við smá spíritisma :-) Mamma og pabbi voru létt-trúuð og pabbi var í kirkjukór. Afi minn og amma sem bjuggu á sama stað voru ekkert sérstaklega trúuð og afi sagði að maður ætti ekkert að vera að hugsa of mikið um þessi mál, bara að vera góður. Hann var einstaklega skemmtilegur og hjartahlýr maður. Amma fussaði og sveijaði yfir sumu sem fólk var að halda fram um trúmál. Eina sem hún kenndi okkur systkinunum þar sem trúfólk kom við sögu voru vísur:

Það er kominn gestur, segir prestur, Það er kominn gestur! segir prestur.

Takt´ann á bakið og berð´ann inn segir prestsins kona etc. :-)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.