Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sirkus trúarbragðanna

trúartáknÁ þrettándanum birtist ágæt grein Gunnars Hersveins um tilgangsleysi stríðs vegna hörmunganna í Palestínu. Undir grein Gunnars birtist grein Alberts Jensen um trúmál þar sem hann þakkar meðal annars Vilhjálmi Vilhjálmssyni fyrrverandi borgarstjóra fyrir að hafa „ógilt fyrir borgarbúum fjandsamlega úthlutun á lóð fyrir mosku í Elliðaárdalnum“. Albert mærir fyrrverandi múslimakonur fyrir að benda meðal annars á kvennakúgun í löndum múslima og vitnar í þau orð þeirra að nauðsynlegt sé að gagnrýna trúarbrögð.

Hins vegar fer lítið fyrir gagnrýni Alberts á islam en hann virðist ekki þola gagnrýni á kristna trú, segir að í von um gróða (?) sé „trú vor höfð í flimtingum“. En hann gagnrýnir Salmann Tamimi og sakar um „ágengni og niðrandi ummæli" um baráttukonurnar og segir slíkt dæmigert fyrir „skilningsvana bókstafstrúarmann“.

Ennfremur segir Albert: „Gerum Salmann Tamimi ljóst að hans siðir fá engan forgang hér á landi. Við erum of fá fyrir ríki í ríkinu og eigum skilyrðislaust að halda í okkar hefðir. Ég vil múslimum og öðrum innflytjendum allt hið besta og vona að þeim sé eins til okkar og skilji sem fyrst þörf svo fámennrar þjóðar fyrir að viðhald kristinni trú, hefðum og einingu. Vera ein þjóð.“

Nú spyr ég hver er skilningsvana bókstafstrúarmaður? Ég get vel tekið undir með fyrrverandi múslimakonum að trúarbrögð ber að gagnrýna og Albert mætti gjarnan líta gagnrýnum augum á trúarrit sitt. En viðhorf hans og ummæli í garð Salmanns ber að fordæma.

„Við“ getum vel verið ein þjóð þótt menn ákalli guð Biblíunnar eftir ólíkum leiðum, aðra guði eða enga. Með rökum Alberts hefði átt að úthýsa kristninni þegar Ólafur Noregskonungur kom henni hér á með hótunum og gíslatöku fyrir þúsund árum. Í heiðnum sið var nægt rými fyrir Hvíta Krist en guð Biblíunnar þolir ekki aðra guði (fyrsta boðorðið). Raunar er furðulegt að fáum er jafnuppsigað hverjum við annan og gyðingum, múslimum og kristnum, sem allir styðja sig við bók bókanna, heilaga ritningu, orð guðs, meinta fyrirmynd í siðferðismálum.

Grimmdarverk og kúgun guðs útvöldu þjóðar, Ísraelsmanna, á Palestínumönnum, sem Gunnar vék að, ætti að vera fyrirlitleg í augum allra siðaðra manna. Hins vegar líta margir kristnir menn svo á, og sannarlega gyðingar, að þeir geti ekkert rangt aðhafst, réttur þeirra til „landsins helga“ sé öllum mannslífum og siðalögmálum yfirsterkari. Í áranna rás hefur barátta Palestínumanna líka fengið á sig æ trúarlegri blæ. Kannski gerist þetta vegna þess að fátt er vænlegra til að etja mönnum á forað stríðsátaka en vísun í yfirnáttúrulega veru, sem verðlaunar auðvitað þá „sem hann hefur velþóknun á“ og berst í „heilögu stríði“.

Íslendingar hafa alltaf verið litlir trúmenn og blendnir í trúnni. Fæstir taka hana alvarlega og aðeins um 40% telja að Jesús hafi verið „sonur guðs“. Fáir heilvita menn halda að hann hafi verið fæddur af mey, að hann sé í einhverjum skilningi sonur sjálfs sín og að nauðsynlegt hafi verið að slátra honum svo „faðirinn“ gæti fyrirgefið misheppnuðu sköpunarverki sínu þá óhæfu að borða ávöxt, öðlast skilning á góðu og illu.

Sú kirkja sem kennir sig við gyðingahatarann Lúter, og kallast Þjóðkirkja hér á landi, lýtur nú stjórn biskups sem hefur ítrekað varað við islam, enda taldi faðir hans (sá jarðneski) kristna menn eiga hér „óðalsrétt öðrum fremur“. Bölvun guðs var greinilega óþörf því maðurinn öðlaðist lítinn skilning á góðu og illu við ávaxtaátið, ef marka má söguna.

Við eigum ekki að skipa fólki á bása eftir trúarbrögðum, tala um okkur og þá. Íslendingar eru sem betur fer umburðarlyndir í trúmálum, þótt það stafi fremur af sinnuleysi en dyggð. Íslendingar eru ekki kristnir, þeir aðhyllast margs konar trúarbrögð og engin. Þess vegna verður að sporna við ranghugmyndum biskups og Alberts um eina þjóð, einn sið, einn herra. Slík óskhyggja er uppskrift að hatri, útskúfun, kúgun, andúð og stríði.

Ég fagna komu Salmanns til Íslands og styð heilshugar að múslimar fái að byggja sína mosku sem fyrst. Ég vil sjá búddista, hindúa, kaþólikka, hvítasunnumenn, mormóna, rétttrúnaðarmenn, ásatrúarmenn, taóista, spíritista, mótmælendur, nornir og allt hvað heitir, og gagnrýna það svo allt saman. Fjölbreyttir siðir auðga mannlífið og sýna þeim sem opnar augun betur en nokkuð annað hvers konar fjölleikahús trúarbrögðin eru, sannur sirkus.

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag.

Reynir Harðarson 11.01.2009
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Henni - 11/01/09 13:47 #

Ég styð sjálfur byggingu mosku á landinu enda þurfa íslenskir múslimar og múslimar búsettir á landinu á viðeigandi húsnæði að halda, hafa í raun beðið allt of lengi eftir að fá úthlutaða lóð.

Mitt sjónarhorn er það að þetta séu sjálfsögð réttindi þeirra trúarlegu hópa sem byggja landið að þeir fái að sinna trú sinni á þann hátt að þörfum þeirra sé fullnægt. Þetta getur líka orðið að brú milli menningarheima, að sterkari tengsl milli Íslands og múslimaþjóða verði úr og hægt sé að finna góðan farveg fyrir samvinnu og viðræður. Moska gæti komið þessu til leiðar meir en það húsnæði sem múslimar á Íslandi búa við í dag. Það besta af öllu þá myndi þetta auðga kúltúr múslima á landinu, nokkuð sem er okkur öllum fyrir bestu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/01/09 20:35 #

Það "þarf" ekki nokkur maður á bænahúsi að halda, ef út í það er farið. Þeir sem telja sig þurfa þess hafa verið hnepptir í hugarfarslega ánauð. Okkur væri best borgið sem samfélagi ef menn sættust á að kasta þessum hlekkjum sem þeir bera undirgefnir um hálsinn.

En hitt er svo annað mál að meðan þetta er talið samfélagsleg nauðsyn þá nær ekki nokkurri átt að ólíkum trúarhópum sé mismunað.


Borghildur - 12/01/09 00:26 #

Múslimar eiga að sjálfsögðu að fá að byggja hér mosku á sama hátt og aðrir trúarhópar fá samkunduhús fyrir sínar trúarathafnir. Ég hef fylgst með bænastund hjá þeim í Ármúlanum og húsnæðið þar er vægast sagt ömurlegt. Mér finnst þeir hafa verið ótrúlega þolinmóðir miðað við hversu lengi þeir hafa þurft að bíða og tal Alberts um að "siðir Salmans" eigi ekki að fá forgang er fáránlegt þar sem múslimar hafa setið á hakanum hér í fjölda ára á meðan kirkjur kristinna spretta hér upp eins og gorkúlur.


Óttar - 12/01/09 07:44 #

Er ekki bannað að byggja krisntar kirkjur í íslömskum löndum ?


Henni - 12/01/09 08:06 #

Er ekki bannað að byggja krisntar kirkjur í íslömskum löndum?

Hef eitthvað heyrt að kristnir eru að halda því fram, af hverju spyrðu?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 12/01/09 08:43 #

Óttar, kirkjubyggingar eru víða bannaðar (Sádí-Arabía) eða torveldar (sum héröð Malasíu) í múslimalöndum en ekki alls staðar (Tyrkland).

Eru þessi bönn til eftirbreytni?

Er kannski rétt að banna moskubyggingar til að hér vaxi ekki trúarbrögð sem halda því fram að aðeins sé til einn guð, þeirra guð. Trúarbrögð sem setja innrætingu (boðun) á oddinn og vilja halda frá landinu og landanum öllu öðru? Trúarbrögð sem krefjast þess jafnvel að ríkið miðist við þau, styrki þau og verndi sérstaklega?

Við erum nú þegar í þeirri stöðu.


Valtýr Kári - 13/01/09 03:33 #

Ef að ég réði, þá mundi ég ekki leyfa að hér á landi mundi rísa moska. Aldrei.

Það munu án efa einhverjir halda því fram að ég sé bara fordómafullur og kanski er það rétt. Kanski.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 13/01/09 06:41 #

Þegar maður kemur ekki með nein rök fyrir máli sínu er ansi hætt á að skoðun mans sé flokkuð sem fordómar.


DoctorE - 13/01/09 22:58 #

á meðan leyfilegt er að byggja kirkjur þá verða moskur og aðrar tilbeiðsluhallir að fá leyfi líka.

Það þarf að breyta kirkjumálaráðuneiti í trúareftirlitsráðuneiti... hindra að fé erlendis frá komi inn í svona dæmi ofl ofl ofl ofl


Atli - 15/01/09 01:56 #

Moskur og kirkjur eru yfirleitt sérlega falleg hús og táknræn, hafa þýðingu, innihald. Við eigum að byggja sem mest af fallegum húsum, það fegrar umhverfi okkar og lyftir andanum. Ef einhver telur sig komast nær almáttugum í öðruvísi húsi en íslendingar almennt telja vera næst guði þá verður bara svo að vera og sjálfsagt mál að byggja slík hús.
Það verður bara að vera fallegt, ekki einhver bárujárnshringur með með leku þaki byggður af vanefnum.


Ormurinn - 04/02/09 15:38 #

Er ég að misskilja eitthvað? Afhverju þurfa íslenskir múslimir að fá leyfi til að byggja bænahús? Geta þeir ekki bara fjármagnað sín húsakaup sjálfir og fengið einhvern guðsmanna sinna til að blessa klabbið?

Skil ekki hversvegna verið var að blanda Rvk.borg inní þetta. Kemur það nokkrum manni við til hvers menn brúka hús sem þeir eiga sjálfir???


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 04/02/09 15:45 #

Ég held að vandamálið sé að þeir fá ekki lóð. Komast ekki inn á skipulag.

Annars má geta þess í framhjáhlaupi að ríkiskirkjan byggir allar sínar kirkjur fyrir skattfé og fá lóðirnar undir kirkjurnar gefins frá sveitafélögum. Þess vegna mætti spyrja hvort ætti ekki að gæta samræmis og gefa múslimunum bæði lóðina og húsið?

En auðvitað ætti að hætta að borga undir þessu trúfélög og þau ættu í öllum tilfellum að borga sitt áhugamál sjálf. Við þurfum að gera það svo af hverju ættu þau ekki að gera það líka?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/02/09 09:06 #

Albert Jensen svaraði Reyni í grein sem birtist í Morgunblaðinu 30. janúar.

HINN 11. janúar skrifar Reynir Harðarson grein í Morgunblaðið: Sirkus trúarbragðanna. Þar ræðst hann af mikilli reiði að mér fyrir skrif mín í Morgunblaðinu 6. janúar sl. til varnar konum sem sögðu skilið við trú múslima og heitir: Fyrrverandi múslimakonur.

Baráttukonurnar Maryam Namazic og Ayaan Hirsi komu fram í Kastljósi og vöruðu þjóðina við að rétta múslimum litla fingur því þá tækju þeir alla hendina, en þeir fengju aldrei nóg og gengju ávallt á lagið. Allar viðtökuþjóðir þeirra hefðu bitra reynslu af þeim. Tilv. lýkur. Sjálfar voru þær dæmdar til dauða af fyrrverandi trúbræðrum sínum og fara nú huldu höfði. En samkvæmt lögum múslima er dauðasök að segja sig frá trúnni. Salmann Tamimi, talsmaður múslima á Íslandi, kom í Kastljós á eftir þeim og sagði þær ljúga hverju orði, þó að sannleikurinn í frásögn þeirra væri augljós og öllum kunnur. Ég kaus að taka upp hanskann fyrir þær og okkur öll. Greinin sem Reynir bölsótast yfir og umsnýr, var skrifuð fyrir tveimur árum og lá óbirt í Fréttablaðinu í eitt ár. Fyrir stuttu sendi ég hana til Morgunblaðsins sem hikaði ekki við birtingu.

Í grein sinni hamast Reynir á mér og biskupi Íslands fyrir að vilja vernda menningu þjóðar vorar og siði en dregur um leið enga dul á svæsna fyrirlitningu sína á trúarbrögðum. Það er með ólíkindum mikil mannfyrirlitning því allar þjóðir hafa trúarbrögð. Það mun ekki breytast, sama hvað Reyni Harðarsyni finnst það vitlaust. Reynir gerir hvað hann getur til að draga orð úr samhengi og rangtúlka meiningu skrifa minna. Ég skora á fólk að bera greinarnar saman. Við erum lítil þjóð með margra alda menningu og siði sem okkur þykir vænt um en sem eru eitur í huga trúleysinga sem ekkert er heilagt. Reynir hefur ekki lesið margar greinar mínar ef hann heldur að ég hafni öðrum trúarbrögðum en kristni. Ég þoli bara ekki mannfyrirlitningu og yfirgang. Kvenfyrirlitning er nefnilega áberandi í trúarbrögðum múslima og það fer illa í viðtökuþjóðir.

Ef múslímskir karlar hafa minnimáttarkennd gagnvart konum gæti það verið skýring.

Ólíklegt er að ég sé sá eini sem telur sig í þakkarskuld við Vilhjálm, fyrrverandi borgarstjóra, fyrir að afturkalla úthlutun borgarstjóra Samfylkingarinnar á lóð undir mosku í Elliðaárdalnum. Þar er helsta útivistarparadís borgarbúa sem þeir líða hvorki stjórnmálagosum né öðrum að eyðileggja. Það fer lítið fyrir samúð Reynis með dauðadæmdum fyrrverandi múslimakonum. Hann fagnar komu manns sem ef að líkum lætur er sammála jáhópi dómara þeirra. Þegar Danir áttu sem erfiðast við að halda tjáningarfrelsi sínu vegna ofstækisfullra viðbragða múslímskra þjóða út af skopteikningu hvatti Tamimi fólk hér heima til að hunsa þá og kaupa engar vörur af þeim. Í þeim látum var fjöldi manns myrtur í löndum múslima. Þar á meðal kristin nunna. Múslimar dæmdu rithöfund og teiknara annarra þjóða til dauða. Ég gæti sagt frá sádiarabísku prinsessunni sem var hálshöggvin á torgi fyrir að sofa hjá þeim sem hún elskaði en hann slapp. Ég gæti haldið endalaust áfram því listinn er langur en nóg í bili. Reynir segir: „Í áranna rás hefur barátta Palestínumanna fengið á sig trúarlegan blæ. Kannski gerist þetta vegna þess að fátt er vænlegra til að etja mönnum á forað stríðsátaka en vísun í yfirnáttúrulega veru.“

Viti Reynir ekki betur er það einmitt landlægt ofstæki trúarbragða beggja sem vítinu veldur. Það hafa ofstækismenn notað til að telja hrjáð ungmenni á að hlaða á sig sprengjum og tæta sundur strætisvagna fulla af börnum. Það breytir ekki því að morðárásir Ísraelsmanna eru allsherjar hryllingur sem þjóðir heims eiga að stöðva strax. Það er viðbjóðslegt að Ísraelar skuli enn nota fosfór, klasasprengjur og jarðsprengjur.

Ég er ekki viss um að margir séu sammála Reyni um að Íslendingar séu hvorki kristnir né ein þjóð. Reynir virðist ekki skilja aðalástæðu þess að kristni var lögtekin. Þorgeir ljósvetningagoði sagði: Slítum við í sundur lögin, þá slítum við og sundur friðinn. Þá voru lög og trú samofin eins og enn er víða hjá múslimum.

Jafnvel þó að það komi frá Reyni er mér heiður að því að hugmyndafræði minni skuli líkt við þá sem hann fordæmir hjá látnum öndvegismanni og hinum frábæra syni hans, Karli Sigurbjörnssyni. Ekkiveit ég hvað Kristur hefur gert á hlut Reynis. Er það það að hann vildi að menn gerðu það öðrum sem þeir vildu sér gert? Kannski vill Reynir heldur auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Ég vorkenni þessum manni.

Svar Reynis birtist í dag.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.