Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ýkt mikil kirkjusókn

Í fréttum Sjónvarpsins þriðjudaginn 16. des var undarleg frétt um kirkjusókn. Borgþór Arngrímsson sagði:

„Þótt stundum sé haft á orði að við Íslendingar séum ekki sérlega kirkjurækin þjóð, kemur annað í ljós ef grannt er skoðað. Hér hefur kirkjusókn verið svipuð um langt árabil, hefur reyndar snaraukist upp á síðkastið, og kirkjum landsins hefur ekki fækkað, heldur þvert á móti.“

Þá var talað við Þorvald Karl Helgason, biskupsritara. Borgþór hafði eftir honum að það væri útbreiddur misskilningur „að kirkjusókn sé mjög dræm hér, en tölur sýni annað, og auk þess þjóni kirkjurnar margþættu hlutverki.“

Síðan sagði Þorvaldur:

„Bæði í almennum guðsþjónustum, kannski ekki mjög mikil aukning þar, en samt alltaf sami hópurinn, en aukningin er kannski meira þar sem hópar eru að koma saman. Í barnastarfi er umtalsverð aukning, segja þeir hér á þessu svæði, og ekki hvað síst að þar fjölgar, bara, foreldrum sem koma með börnin með. Ég held að það komi á óvart hvað það er mikil kirkjusókn á Íslandi, þrátt fyrir allt. Menn halda að það sé, bara, mjög dapurt, en það er ekki svo.“

Það er ýmislegt við þennan málflutning að athuga. Í fyrsta lagi ber að spyrja hvað „kirkjusókn“ sé. Ég held að almennur málskilningur sé sá, að þetta orð þýði „þeir sem mæta sem gestir í messur.“ Þorvaldur segir sjálfur að það sé „ekki mjög mikil aukning þar“, meira að segja „alltaf sami hópurinn“. Í hinum almenna skilningi orðsins er kirkjusókn því lítið eða ekki vaxandi. En hvað eru „hópar sem eru að koma saman“? Er hér verið að vísa til AA-funda, tónleikagesta, gesta við skírnir, brúðkaup og jarðarfarir eða kannski háskólastúdenta sem sækja tíma í safnaðarheimili Neskirkju eða drekka þar fair-trade kaffi á leiðinni heim? Eða kannski börn sem er farið með þangað á skólatíma í trássi við vilja eða vitund foreldra? Margir prestar hafa unnið ötullega að því að gera kirkjur að nokkurs konar félagsheimilum, og tekist ágætlega upp með það. Ef það er málið, þá er hæpið að telja það til „kirkjusóknar“ -- það hlýtur að skipta einhverju hvaða erindi fólk á í kirkjubygginguna, er það ekki?

Ég kem annað slagið í kirkju. Síðustu tvö skipti var það til að hlusta á tónleika. Ég held ekki að neinn hafi verið á þeim tvennum tónleikum í öðrum tilgangi en að hlusta á tónlist. Eins þegar ég var við jarðarför fyrr á árinu; ég held að erindi flestra sem voru við hana hafi snúist meira um að fylgja látinni manneskju síðasta spölinn heldur en að vera í námunda við kirkjuna sem slíka. Ekki það, að ég spurði fólk ekkert sérstaklega að því, þótt ég geri ráð fyrir því. Sama gildir um hitt. Fólk mætir í skírnir vegna barnsins, ekki vegna guðs. Fólk mætir í brúðkaup vegna hjónakornanna, ekki vegna guðs.

Borgþór Arngrímsson tekur Þorvald á orðinu um að „tölur sýni annað“ ef grannt sé skoðað; Þorvaldur nefnir engar af þessum „tölum“ máli sínu til stuðnings svo við verðum víst bara að hafa hans orð fyrir því, frekar en að skoða tölurnar grannt sjálf. Borgþór gerist enn fremur sekur um einkennilegt samhengisleysi í fréttinni. Ætli uppbygging kirkjunnar á Íslandi hafi ekki eitthvað að gera með að ríkisvaldið veiti henni marga milljarða króna á hverju ári og skrái ómálga börn sjálfkrafa í hana þegar þau fæðast? Flestir Íslendingar eiga það sameiginlegt að (a) vera skráðir í ríkiskirkjuna vegna þess að mamma þeirra var það þegar þeir fæddust og (b) aðhyllast ekki kenningar hennar, þekkja þær jafnvel ekki.

En aftur að almennum guðsþjónustum. Það er út af fyrir sig athyglisvert að það fjölgi ekki í þeim. Athyglisvert vegna þess að landsmenn verða hlutfallslega eldri og eldri kynslóðir hafa hingað til verið taldar trúaðri en þær yngri. Líka vegna þess að fermingarbörn eru skikkuð til að mæta í messur -- hvað er það, tíu messur yfir veturinn? (Ég játa að þegar ég var í fermingarfræðslu á sínum tíma, þá mætti ég ekki í nærri því eins margar messur og mér var uppálagt. Kannski að fermingarbörn í dag séu bara áhugalaus um þetta og ætli að fermast út af einhverju öðru en einlægri trú? Það skyldi þó aldrei vera!)

Getur verið að full kirkja af fólki sem er að fylgja einhverjum til grafar eða hlusta á Háskólakórinn syngja, sé einfaldlega talin sem „full kirkja“ í nákvæmlega sundurliðuðu kirkjusóknarbókhaldi Biskupsstofu? Fyrir tveim árum eða svo skrifaði María Ágústsdóttir grein í Morgunblaðið og sagði frá því hvað kirkjusókn væri gríðarlega mikil. Meðal annars að aðsóknin að Hallgrímskirkju einni hefði numið eitthvað um 50.000 manns. Þá voru s.s. taldir með allir útlendingarnir sem komu til að sjá útsýnið úr turninum. Það er mikil vinna að telja allt þetta fólk. Mér er sagt að Hallgrímskirkja sé þess vegna með sjálfvirkan teljara sem telji hvern einasta sem gengur inn um dyrnar. Og þá væntanlega líka þegar hann gengur út um þær. Þar á meðal húsvörðinn og ræstingafólkið.

Það mætti halda að guðfræðijafnan 1+1+1=1 hafi stigið talningamönnum kirkjunnar til höfuðs. Hún ætti kannski að fá talningameistara lögreglunnar til að hjálpa sér?

Einn prestur kom upp um sig einu sinni með því að monta sig af kirkjusókn í desember, 6000 manns. Hann kom upp um sig með því að taka fram að þá væru ekki taldir með þeir sem hefðu mætt á kóræfingar í kirkjunni.

Hvernig stendur á því að kirkjan skuli oftelja svona og ýkja aðsóknartölur? Á svipuðum nótum: Hvers vegna tala kirkjunnar menn iðulega um kristindóm á Íslandi eins og trúfélagsskráning endurspegli lífsviðhorf landsmanna, þótt rannsóknir sýni annað? Hvers vegna heldur kirkjan fram tölum sem hún veit alveg að eru rangar? Hvað er hún að réttlæta?

Svarið er einfalt: Peningar. Kirkjan hangir í pilsfaldinum og á spenanum hjá ríkinu. Bara í ár er gert ráð fyrir að hún fái vel á sjötta milljarð, fyrir utan sóknargjöld og ýmisleg hlunnindi. Aðsóknartölurnar eru m.ö.o. ýktar svona rækilega til að réttlæta óeðlilega kjötkatlasetu.

Kirkjusókn á Íslandi er sáralítil vegna þess að Íslendingar eru lítil hneigðir til lúthersku. Svo ég geri orð Þorvaldar Karls biskupsritara að mínum, þá halda menn að þetta sé mjög dapurt, en það er ekki svo.

Vésteinn Valgarðsson 26.12.2008
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Örninn - 26/12/08 11:10 #

Frábær grein. Takk fyrir mig. Ég ætlaði einmitt að fara leggja fram fyrirspurn hérna á Vantrú um þessar vægast sagt vafasamar fullyrðingar krikjunnar.


GH - 26/12/08 12:33 #

Frétt um "mikla" kirkjusókn er eitthvað sem maður býst alltaf við um jólaleytið, vanafrétt eins og t.d. um mikinn fjölda unglinga á BSÍ á föstudegi um verslunarmannahelgi. Bara eitthvað sem fjölmiðlum finnst kannski sætt að hafa sem aðalfrétt á netmiðlum um jólin. Kirkjan er líka komin í vörn, enda fjölgar þeim sífellt sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju. Ég er nýkomin í þann hóp, hugsaði ekki út í þetta áður. Takk fyrir fína grein.


Árni Árnason - 27/12/08 13:30 #

Það er nú varla von á góðu þegar viku-kirkjusókn er mæld, að kirkjan sjálf ákveði hvenær er mælt, fylli kirkjurnar að vinsælum tónlistarmönnum akkúrat þá vikuna og telji svo báða Sunnudagana með. Kirkjan er eini aðilinn sem ég veit til að telji vikuna frá Sunnudegi til Sunnudags að báðum meðöldum, en það er svosem í samræmi við þeirra "vísindi".


David - 29/12/08 13:04 #

Nú skilst mér að kirkjur á höfuðborgarsvæðinu í þessum prófastsdæmum séu með talningavikur reglulega þar sem að kirkjuvörður eigi að telja fólk sem kemur í kirkjuna og þeir sem séu með starf t.d. barnastarf telja börnin og þessháttar.

Ég var þessvegna að velta fyrir mér hvort að vantrú ætti ekki að kynna sér hvenær talningin á sér stað og fá nokkra vel valda menn til þess að taka stikksprufur á talningum í einhverjum kirkjum til þess að hafa "eftirlit" T.d. mæta fyrir utan kirkju eða fara inn í þær og gera sjálfstæða könnun á þessum tölum nú eða "sannreyna" þessar tölur?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 30/12/08 05:27 #

Við höfum reyndar tekið stikkprufur og talið kirkjusókn. Það voru vissulega nokkrar messur þar sem voru fleiri gestir en búist var við, en í flestum voru sárafáir eins og reikna mátti með.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.