Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Jóna Hrönn Bolladóttir, heilindi ríkiskirkjuprests

Óþarfi er að kynna Vinaleiðina fyrir lesendum Vantrúar en hér er gerð grein fyrir þætti Jónu Hrannar Bolladóttur í þeim skollaleik.

En byrjum þó á þingsályktun Kirkjuþings:

„Kirkjuþing 2003 beinir því til Kirkjuráðs að það beiti sér fyrir því að skipuð verði samstarfsnefnd kirkju og skólayfirvalda til að móta stefnu í kærleiksþjónustu kirkjunnar við leik- og grunnskólabörn“

Á prestastefnu 2003 var flutt erindi starfshóps sem hét „Hvernig nær kirkjan til ungs fólks“. Í því segir:

“Við sjáum fyrir okkur að eitthvað í líkingu við „Vinaleið“ sem Þórdís Ásgeirsdóttir, djákni hefur leitt í barna- og gagnfræðaskólunum í Mosfellsbæ ætti fullt erindi inn í framhaldsskólana. Eins og það eru námsráðgjafar og sálfræðingar tengdir skólunum, sé ég fyrir mér djákna eða prest í hvern framhaldsskóla.

Árið 2004 samþykkti Kirkjuþing stefnu Þjóðkirkjunnar 2004-2010. Ákveðið var að leggja áherslu á „allt sem tengist fræðslu og boðun til barna og unglinga og fjölskyldna þeirra“.

Í mars 2006 sendi biskupsstofa bréf til prófasta, sóknarpresta, presta, djákna og sóknarnefndarformanna. Í bréfinu segir:

„Á Kirkjuþingi 2003 var samþykkt ályktun um nýja þjónustu á vegum kirkjunnar sem nefnd hefur verið „Vinaleið – sálgæsla og forvarnarstarf í grunnskólum. Hér er um að ræða kærleiksþjónustu við sóknarbörn og er hugsuð sem hluti af safnaðarstarfi kirkjunnar og tilboð hennar til grunnskóla á hverjum stað.“

Kallinu hlýtt án hugsunar

séra Jóna Hrönn BolladóttirJóna Hrönn Bolladóttir, prestur í Garðabæ, ákvað að hlýða kalli kirkju sinnar og bauð skólastjórum í prestakallinu, þ.e. Garðabæ og Álftanesi, á kynningarfund um Vinaleið. Í lok júní sendi hún bæjarstjóra Garðabæjar erindi til að „biðja um styrk til að fara af stað með þróunarverkefnið „vinaleið“ inn í Hofsstaðaskóla, Sjálandsskóla, Flataskóla og Álftanesskóla.“ Í lok erindisins fylgdi „starfslýsing frá djákna Lágafellssóknar sem hefur þróað þetta verkefni í Mosfellsbæ“.

Þessa „starfslýsingu“ má lesa hér.

Ákveðið var að hefja þetta verkefni í áðurnefndum skólum án þess að önnur hugmyndafræði lægi að baki en fyrirmyndin í Mosfellsbæ. Ekkert skipurit var gert, engin samþykkt um ábyrgð, verksvið, starfshætti eða nokkuð sem talist getur til vandaðra vinnubragða. Starfi skóla og kirkju var blandað saman án nokkurrar umhugsunar.

Í Dómkirkjunni 1. október 2006 fór svo fram vígsla „skóladjákna“ og „skólaprests“ sem sinntu síðar Vinaleiðinni í Garðabæ og á Álftanesi. Þau voru sögð kölluð til þjónustu af Garðabæ sem „skólaprestur“ og „skóladjákni“. Í opinberu vígslubréfi Hans Guðbergs Alfreðssonar gerir biskup Íslands kunnugt að skólapresti beri að „boða Guðs orð rétt og hreint samkvæmt heilagri ritningu og í anda vorrar evangelísk-lútersku kirkju“. Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir var vígsluvottur.

Trúvörn Jónu

En fljótlega upphófst andóf gegn Vinaleiðinni og 15. október var dreifibréf sent inn á öll heimili í Garðabæ og á Álftanesi þar sem varað við því hvað var á seyði. Höfundur bréfsins vissi ekki að tilvitnanir hans í bréfinu voru í raun þær „starfsreglur“ sem lágu til grundvallar verkefninu. (Sjá Hlutlausa skóla, takk)

Þar með hófst löng og ströng trúvörn Jónu Hrannar í Garðabæ. Sjálf sendi hún dreifibréf til Garðbæinga þar sem hún sagði:

Í mínum huga er það sláandi að upp skuli rísa félög og einstaklingar sem vilja koma í veg fyrir að börnin okkar eigi samtal við þjóna kirkjunnar um lífsgildi og holl viðmið. Hér hafa menn hrópað upp í mikilli geðshræringu að kirkjan sé með trúboð inn í skólunum. Já, kirkjan sinnir svo sannarlega boðun trúarinnar eins og t.d. í fermingarfræðslunni og helgihaldinu. En sálgæsla er annað en trúboð, hún er aðferð hins góða samtals.

Berið þessi orð saman við orð biskupsins:

Allt annað sem flokkast undir kirkjustarf og prestsþjónustu á að vera verkfæri þeirrar boðunar og trúar. Sálgæslan er hluti boðunar orðsins, umhyggja um sálirnar og lækning sálnanna.

Gagnrýnendur Vinaleiðar áttu ekki í vandræðum með að benda á að samkvæmt upplýsingum kirkjunnar sjálfrar snerist starf presta, kærleiksþjónusta, sálgæsla o.s.frv. auðvitað um trú, boðun trúar, trúboð. Og enginn vildi meina börnum að tala við „þjóna kirkjunnar“ þótt þeim finndist þeir ekki eiga að hafa skrifstofaðstöðu í skólum. (Sjá ótal greinar hér.)

Málþing um Vinaleið

Jóna Hrönn ákvað þá að efna til málþings um stöðu og stefnu kirkjunnar, þar sem hún fékk kirkjunnar menn til að tala um ágæti hennar í safnaðarheimili Vídalínskirkju og sérvalda alþingismenn í atkvæðaleit. Áhugasamir geta heyrt sýnishorn af ómþýðum málflutningi hennar hér:

Í lok febrúar 2007 var Jóna Hrönn þráspurð, á málþingi Ungra hægri manna í Garðabæ, hvort það fælist ekki boðun, trúboð, í Vinaleiðinni og þá sagði hún að vissulega væri það trúboð en:

Það er bara ekki hægt að nota þetta orð lengur, trúboð er bara orðið jafnt og ofbeldi. Þannig að það er bara eðlilegt að við notum bara ekki orðið trúboð, en það er það. Það fylgir bara presti, embætti hans og því sem hann stendur fyrir og persónu, það fylgja því bara ákveðin skilaboð.

„Sálgæsla er eins og ég sagði hér áðan eftirfylgd og það að fara í sálgæslu til prests það er auðvitað ákveðin boðun vegna þess að sá sem kemur í sálgæsluna veit fyrir hverju viðkomandi stendur. Þannig að fólk sem kemur til mín, það auðvitað felst í því ákveðin boðun að það velur mig sem sálgæti umfram einhvern annan [...] veit fyrir hvaða gildum ég stend. Þannig að því leyti hlýtur það að felast í því ákveðin boðun.“ „Það felst í því boðun að koma til prestsins, þá er það ákveðin boðun. Sú sem ég er, það felst í embætti mínu og persónu og orðspori og lífsverki, það er í því boðun. Það er það.“

Í janúar 2007 kom Jóna Hrönn fram í Íslandi í bítið á Stöð 2 og sagði þar að skólarnir hefðu kallað eftir þessari þjónustu kirkjunnar og kirkjan brugðist við kallinu (lesið upphaf þessarar greinar aftur). Hún sagði líka:

Það er nú einfaldlega þannig að þessir fulltrúar eru ekki að koma inn í bekkina.“ (Sjá Jóna í bítið)

Tveimur dögum síðar skilaði Hans Guðberg Alfreðsson, „skólaprestur“ Jónu Hrannar, samantekt um starf sitt til skólastjóra Hofsstaðaskóla og þar segir hann:

Mikið kapp hefur verið lagt á kynningarmál og hefur undirritaður farið í nær alla bekki Hofsstaðaskóla og því talað um Vinaleiðina við um 350 börn. ...þrír bekkir eru eftir og klárast þeir núna í janúarmánuði.

Vinaleið var lögð af í Hofsstaðaskóla um vorið enda var þá kominn nýr skólastjóri sem taldi ekki rétt að prestur væri á vappi innan skólans. Sama gerðist í Sjálandsskóla en í Flataskóla var Vinaleið haldið áfram haustið 2007 þar til foreldri leitaði til Persónuverndar vegna málsins. (Sjá Fallið frá Vinaleið)

Að hunsa gagnrýni

Stuttu síðar heyrðist svo í Jónu Hrönn í útvarpinu þar sem hún lýsti því keik yfir að verkefnið hefði gengið glimrandi vel og sagði svo:

Þetta var tilraunaverkefni sem við fórum með af stað í fyrrahaust, samstarf kirkju og skóla og tilboð sem við kynntum fyrir skólastjórnendum og þeir tóku því fagnandi, svo við fórum í svona eins árs verkefni og verkefnið sjálft gekk vel og við höfum einmitt, ákváðum það eftir öll þessi átök í vor að... að hérna, verkefnastjórnin, að óska eftir mati á verkefninu. Það var sem sagt ég frá kirkjunni og svo tveir skólastjórar og Kennaraháskóli Íslands var fenginn til að vinna mat á verkefninu í öllum þessum fjórum skólum, þremur í Garðabæ og einum á Álftanesinu.

Þetta vakti furðu gagnrýnenda því þeir höfðu ekkert heyrt af slíku mati og ekkert samband var haft við þá. (Sjá Ég panta mat)

Eftir nokkra grennslan kom í ljós að bæjarráð Garðabæjar samþykkti eftirfarandi 25. maí 2007:

„Bæjarráð samþykkir tillögu deildarstjóra skóladeildar um að leita til SRR, (Símenntun, rannsóknir og greining hjá Kennaraháskóla Íslands) sem óháðs aðila til að meta réttmæti og gildi vinaleiðar fyrir skólastarf í grunnskólum bæjarins.“

Þegar haft var samband við SRR kom hins vegar í ljós að það var alls ekki að meta „réttmæti og gildi“ Vinaleiðar heldur framkvæmdina. Við nánari eftirgrennslan kom líka í ljós að starfsmenn SRR töldu sig vera að vinna matið fyrir kirkjuna! og sögðu það meira að segja við viðmælendur sína (a.m.k. foreldraráðsmann sem spurði að því sérstaklega).

Matið og falleinkunnin

Nú löngu síðar er að skýrast hvernig á þessu stóð. Skóladeildin virðist hafa látið undirbúning matsins í hendurnar á Jónu Hrönn (eða svokallaðrar verkefnastjórnar – hún og skólastjórar Flata- og Sjálandsskóla – sem hún var greinilega í forsvari fyrir)! SRR eða KHÍ virðist hafa komið með hugmyndir að framkvæmd matsins en séranum hugnuðust þær ekki alveg. Í svarbréfi vegna þeirra segir Jóna Hrönn:

Við þökkum fyrir þessi drög. Við hittumst í verkefnastjórninni í gær og fórum yfir ykkar góðu tillögur. Við viljum að sjálfsögðu fá mat frá ykkur. Það sem okkur þótti óvinnandi frá okkar hendi er að við eigum ekki svona mikla peninga til að leggja í matið og svo finnst okkur að við eigum ekki að vera eyða peningum eða meiri tíma í að ræða við þann þrönga hóp sem hefur mótmælt verkefninu. Við erum búin að leggja heilmikið á okkur að mæta þeim í kurteisi og útskýra eðli verkefnisins. Við teljum heillavænlegast að halda okkur við mat á verkefninu og setja ekki orku eða peninga í sáttaleiðir. Hér fyrir neðan koma hugmyndir verkefnastjórnar. Okkur sýnist að það sem er undir liðunum "Farið yfir eftirfarandi þætti" væri hægt að vinna af skólastjórunum og starfsmönnum verkefnis eins og þið bendið á. Við erum tilbúin að leggja þar mikið af mörkum. Fyrir hönd hópsins. Jóna Hrönn Bolladóttir.

Upphaflega átti 2. liður í matinu að vera svona:

Niðurstöður viðtala settar fram þar sem viðmælendur eru m.a. beðnir að meta hver þörfin sé fyrir þessa þjónustu og hvernig verkefnið mæti þessari þörf. Einnig verða viðmælendur spurðir að því hverju verkefnið hefur skilað að þeirra mati (kostir/gallar) og hvort verkefnið hafi náð þeim markmiðum sem sett voru í upphafi. Einnig skýrt frá niðurstöðum viðtala við gagnrýnendur verkefnisins þannig að ólík sjónarmið komi fram.

-Byggt á viðtölum við starfsmenn verkefnisins, foreldra, kennara, skólastjórnendur námsráðgjafa/sálfræðinga skóla og aðra aðila sem hafa tjáð skoðanir sínar á verkefninu (Heimili og skóli, Siðmennt).

En breytingartillaga Jónu Hrannar var svona:

Niðurstöður viðtala settar fram þar sem viðmælendur eru m.a. beðnir að meta hver þörfin sé fyrir þessa þjónustu og hvernig verkefnið mæti þessari þörf. Einnig verða viðmælendur spurðir að því hverju verkefnið hefur skilað að þeirra mati (kostir/annmarkar) og hvort verkefnið hafi náð þeim markmiðum sem sett voru í upphafi.

-Byggt verður á skýrslum og skriflegum upplýsingum frá starfsmönnum og stjórnendum verkefnisins.

En þrátt fyrir að Jóna Hrönn fengi að stjórna matinu á Vinaleiðindunum var útkoma þess falleinkunn.

Reynir Harðarson 11.12.2008
Flokkað undir: ( Vinaleið )

Viðbrögð


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 11/12/08 10:56 #

Þetta minnir um margt á þegar KPMG átti að rannsaka KPMG...

Það er ámælisvert að Jónu Hrönn skyldi hafa verið falið að gera úttekt á vinaleið. Þetta sýnir svart á hvítu að heiðarleg vinnubrögð eru alltaf best.

Annars er þetta fínt yfirlit yfir þetta snúna mál.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 11/12/08 12:00 #

Jóna Hrönn segir ósatt, er tvísaga og sér svo til þess að SRR meti ekki réttmæti Vinaleiðar - sem var aðalmálið. Auk þess beitir hún sér gegn því að talað sé við gagnrýnendur eða sættir reyndar.

Þess má geta að Jóna Hrönn og kirkjan (biskup - biskupsstofa) hafa aldrei reynt neinar sættir eða viðtöl við gagnrýnendur. Framganga þeirra öll felst í afneitun (klassískt þema í kristni), útúrsnúningum, rangfærslum, ósannindum og hroka.


Jón Stefánsson - 11/12/08 13:13 #

Sláandi.


Sævar - 11/12/08 15:15 #

Ótrúlegt.


Jón Thoroddsen - 11/12/08 15:18 #

Takk fyrir þessa samantekt.


Svanur Sigurbjörnsson - 11/12/08 17:25 #

Takk fyrir samantektina Reynir.
Yfirgangur og undanbrögð Jónu Hrannar eru ljós af þessu. Hún var ekki ein um það að þykjast ekki vera með trúboð, en auðvitað komst upp um tilganginn þegar orð biskups á kirkjuþingi voru skoðuð. Lang ríkasta trúfélag landsins beitir lygum og brögðum til að smeygja inn trúboði í grunnskóla landsins, þegar þeim er fullkomlega ljóst að samkvæmt lögum og texta aðalnámskrár segir að "grunnskólinn er ekki trúboðsstofnun". Klækir í þessu eins og að segja Vinaleiðina vera "á forsendum skólanna" eða "á forsendum barnanna" duga bara gagnvart fólki sem vill ekki taka á brotinu og vantar afsökun til að láta kirkjuna leiða sig. Það er sérlega ánægjulegt nú að Hofsstaðaskóli hefur nú fríað allt sitt starf utanaðkomandi áróðri eftir því sem ég best veit. Til hamingju með árangurinn Reynir og til hamingju allir með betri skóla!


Jenný - 12/12/08 11:38 #

Hneyksli!


Andrés Björgvin Böðvarsson - 12/12/08 13:27 #

Vinaleiðin er alveg skelfileg hugmynd frá upphafi til enda og er þjóðkirkjunni (sem ég tilheyri) sjálfskæð. Hún ber vott um það að forsvarsmenn þjóðkirkjunnar líti svo á að þeir séu með áskrift að hugum barna í grunnskólum landsins. Skólar eiga frekar að leggja rækt við gagnrýna hugsun gagnvart trúar- og vantrúarhugmyndum sem og öllum öðrum.

Með hag þjóðkirkjunnar og þjóðarinnar allrar fyrir brjósti ættu þeir að láta af öllum hugmyndum um Vinaleiðir í skólum landsins, og segja skilið við ríkið í leiðinni. Það mun styrkja þjóðkirkjuna á endanum.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 12/12/08 14:09 #

Já, þykir þér ekki miður að kirkjan noti aðild þína (og annara) til að réttlæta þetta.


Andrés Björgvin Böðvarsson - 12/12/08 15:34 #

Jú, en ég hef bara ekki fundið betri stað ennþá. Ég hef þó oft íhugað það að segja skilið við þjóðkirkjuna. Aftur á móti fann ég gott samfélag innan þjóðkirkjunnar, Salt - kristið samfélag. Mjög fínn félagsskapur sem ég mæli með.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 12/12/08 15:45 #

Ríkiskirkjan gæti hæglega sett meira púður í sitt eigið starf inní kirkjunum og ástundað allar vinaleiðir heimsis þar á bæ.

Væri ekki sniðugt fyrir ríkiskirkjuna að kaupa borðtennisborð fyrir barnastafið? Þythokkí, Playstation og Wii?

Auglýsa svo opið hús og boða trúnna milli leikja.

Þannig væru allir ánægðir.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 12/12/08 16:17 #

Meirihluti landsmanna er á móti Vinaleiðinni, það hefur sýnt sig í könnunum (m.a. hjá Heimili og skóla). Sama má segja um Heimili og skóla, samtök kennara í trúarbragðafræðum, Siðmennt, Ásatrúarfélagið, Ung vinstri græn, Unga jafnaðarmenn í Hafnarfirði og Samband ungra sjálfstæðismanna.

Það er því ekki við kristna að sakast heldur yfirstjórn kirkjunnar og ágjarna presta. Þeirra er ábyrgðin og skömmin.

Það hefði verið svo einfalt að viðurkenna að samkrull skóla og kirkju er ekki við hæfi (eins og Menntasvið Reykjavíkur hefur sett í stefnu sína) og bakka. Þá hefði mátt fyrirgefa athæfið og líta til þess að þetta var vel meint, að aðstoða börn í vanda.

En með viðbrögðum sínum hefur kirkjan gert sig seka um yfirgang og tillitsleysi af verstu sort, bætt gráu ofan á svart. Annað hvort eru þessir menn blindir eða siðlausir. Siðgæði Jónu Hrannar er a.m.k. ekki upp á marga fiska.


Andrés Björgvin Böðvarsson - 14/12/08 01:02 #

Ég hugsa að þetta snúist frekar um dómgreindarskort af hálfu Jónu Hrannar frekar en siðgæðisskort. Ég held að hún trúi því að hún sé að gera rétt - svo mikið að hún áttar sig ekki á því að andstaða við viðveru prests í almenningsskóla er einföld krafa um sanngirni gagnvart þeim sem vilja ekki að skólinn, eða aðilar honum tengdir, sé að skipta sér af trúarlífi barna þeirra. Hún virðist heldur túlka andstöðuna sem árás á þjóðkirkjuna sjálfa. Þetta er vel meint vitleysa, að mínu mati.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 14/12/08 12:35 #

Eflaust skýrir hugsunarleysi og dómgreindarskortur mikið af framgöngu Jónu Hrannar.

Hún kaus samt að hunsa alla gagnrýni og rök andstæðinga Vinaleiðar. Það er eitt, en að beita sér fyrir því að "óháður aðili" sem átti að meta Vinaleiðina talaði ekki við gagnrýnendur er... siðblinda.

Þegar hún gaspraði um matið í útvarpinu haustið 2007 sagði hún líka:

Auðvitað er erfitt að vinna mat eftir svona stuttan tíma en okkur fannst svona kannski að eftir þessar hremmingar að það væri ástæða til og það er auðvitað bara fagleg vinna og sjálfsagt að fara í það.

Jóna Hrönn var líka iðin að benda á að prestar væru svo miklir fagmenn. En sá sem telur það fagmennsku að meta mál út frá málstað annars aðilans er fúskari, ekki fagmaður.


Jón Steinar - 27/10/10 02:44 #

Það setur að mér nettan hroll við orðið "kærleiksþjónusta" í samhengi barnagæslu. Kannski eðlilegt í samhengi þess orðpors sem kristnar stofnanir hafa þurft að bera undanfarinn áratug eða svo.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?