Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Það eru erfiðir tímar

Í fyrrasumar kom hingað til lands sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að taka út stöðuna á íslenska efnahagskerfinu og koma með tillögur um hvað væri hægt að gera betur. Útkoman var skýrsla þar sem þeir lýstu almennri ánægju sinni með ástandið, en lögðu þó til að ríkið gerði þrennt:

  1. Skera niður útgjöld til heilbrigðiskerfisins;
  2. Selja ríkiseignir;
  3. Standa á bremsunni í kjarasamningum við opinbera starfsmenn.

Nú eru erfiðir tímar og von að ríkissjóður skimi eftir því hvar megi spara. Á fjárlögum eru ýmis útgjöld sem mér fyndist eðlilegt að yrðu skorin niður áður en spítaladeildum er lokað. Augljós dæmi eru t.d. hernaður í Írak, sendiráð í Suður-Afríku og að hafa þrjá seðlabankastjóra frekar en einn. Þetta mætti allt skera niður án eftirsjár. En það er einn liður sem mætti ekki síður skera niður. Lesendur grunar kannski upp á hverju ég ætla að stinga. Það er líka rétt hjá þeim:

Það er ríkiskirkjan.

Fjárlög gera ráð fyrir 5,4 milljörðum í kirkjuna á fjárlagaárinu. Það er ekki öll upphæðin sem kirkjan kostar. Laun presta eru t.a.m. ekki inni í tölunni, en þau eru að meðaltali um 800.000 kr. á mánuði. Meðallaun venjulegs fólks eru vel innan við helmingur af því.

Fríðindi kirkjunnar hljóta líka að vera einhvers virði. Fríðindi á borð við að kirkjur skuli vera undanþegnar holræsagjöldum, gatnagerðargjöldum og ýmsum öðrum opinberum gjöldum. Það hljóta að vera álitlegar upphæðir, þegar allt er saman talið, þegar tekið er mið af því að kirkjur standa vanalega á lóðum sem teljast með þeim stærri og allra bestu og dýrustu.

Þá hlýtur guðfræðideild Háskóla Íslands að kosta eitthvað. Og einhvers virði hlýtur það að vera að kirkjan sé áskrifandi að plássi í útsendingum Ríkisútvarpsins.

Ef það má tala um verðmæti efnahagslegra væntinga á þessum síðustu og verstu tímum, þá skyldi maður ætla að það mætti telja kirkjunni það til tekna að hafa aðgang að óhörðnuðum ungmennum í leikskólum og grunnskólum hins opinbera.

Ekki má gleyma sóknargjöldunum. 80% þjóðarinnar borga á annan tug þúsunda í skylduáskrift fyrir kirkjuna, a.m.k. helmingur þeirra án þess að fara nokkurn tímann í kirkju.

Kirkjan gefur sig auðvitað út fyrir að vera ómissandi núna eins og alltaf. Hún er það auðvitað ekki, hvorki nú né alltaf. Þótt hún hyrfi af sjónarsviðinu þá mundu undirstöður landsins ekki bresta og ekki einu sinni skjálfa. Hlutverkunum sem hún sinnir -- allt frá tónleikahaldi til sálfræðiþjónustu -- yrði sinnt af öðrum. Sálfræðingur er sirka helmingi ódýrari á fóðrum heldur en prestur. Og hann er líka betri í sálfræði, að prestum ólöstuðum.

En ég er ekkert að leggja til að kirkjan verði lögð niður. Bara að hún verði látin sjá um sig sjálf. Alveg sjálf. Eins og hver önnur frjáls félagasamtök. Þeir sem vilja vera með borga félagsgjöldin sem félagið setur upp. Aðrir ekki. Er það til of mikils mælst? Óttast kirkjan að trúleysingjarnir yfirgefi hana?

Ekki ímynda ég mér að efnahag Íslands verði komið á réttan kjöl með aðskilnaði ríkis og kirkju. Hitt er víst, að hann verður ekki verri fyrir vikið. Nú er ekki tíminn til að skera niður í nauðsynlegum innviðum þessa þjóðfélags. En það er hins vegar tíminn til að skera niður í þeim ónauðsynlegu.

Vésteinn Valgarðsson 30.11.2008
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


anna benkovic - 30/11/08 11:07 #

Sammála...enda eru trúarsöfnuðir ekkert annað en félagasamtök!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.