Fyrir þó nokkrum árum komst ég á þá skoðun eftir miklar pælingar, vangaveltur, lestur og lærdóm að það sé engin yfirnáttúruleg vera til. Engin alltumfaðmandi, alvitur, algóður og alráður guð og ekkert annað goðmagn sem stjórni lífi og heimi.
Hafandi komist að þessari skoðun á sínum tíma og styrkst í afstöðu minni til dagsins í dag hef ég samt skilning, þol og umburðarlyndi gagnvart þeim sem telja þessar goðverur til og trúa á þær. Mér finnst ekkert að því að einstaklingar og eða hópar sinni trúmálum, komi jafnvel saman til bænahalds eða annarra gjörða sem tengjast þessum lífsskoðunum.
Mér finnst ekkert að því að fólk stofni með sér samtök eða félög um ákveðna trúarstefnu og fylgi henni svo lengi sem það er innan marka laga og almenns siðferðis.
Það skiptir mig engu máli hvort fólk kemur sér saman um að trúa á eitthvað sem kallað er Guð, Múhameð, Óðinn, eða fljúgandi spaghettískrímslið, svo lengi sem það heldur því fyrir sig og notfærir sér ekki hugmyndafræði sína til að níðast á öðrum, með andlegu eða líkamlegu ofbeldi. Ég áskil mér hins vegar allan rétt til að mótmæla og berjast harkalega á móti ef reynt er að koma þessum hugmyndum inn á börnin mín úr launsátri eða án minnar vitneskju.
Það er mér algjörlega að meinalausu þótt þessi félög ákveði að kaupa sér eða byggja hús fyrir starfsemi sína eða velji að borga foringja/leiðtoga sínum kaup fyrir vinnu sína og eða forsvar fyrir hópinn svo lengi sem það notar til þess sína eigin peninga.
Sú staðreynd særir hins vegar réttlætiskennd mína verulega að eitt af þessum lífsskoðunarfélögum skuli með lögum og reglu tryggð forréttindi umfram aðra. Það sem særir mína siðferðiskennd er sú staðreynd að skattfé allra landsmanna, hvort sem þeir hneigjast til trúar eða trúleysis sé notað til að reka ríkistrúfélag og lítilsvirða með því skoðanir þeirra sem trúa á annað eða hafna allri yfirnáttúru.
Það getur vel verið að hugmyndir mínar um að í þjóðfélagi þar sem gilda lög um trúfrelsi eigi allir að sitja við sama borð séu einfeldningslegar og barnalegar og beri með sér von um jafnræði sem eigi við í orði sem og á borði.
Verandi með þessar jafnræðishugmyndir í kollinum hryggir það mig ósegjanlega þegar það lífsskoðunarfélag sem er tekið fram fyrir hin misnotar sér aðstöðu sína til að herja á þá sem minna mega sín til að styrkja stöðu sína. Notfærir sér ríkisstyrk sinn til að troða sínum skoðunum og boði sína trú, sinn sannleika allstaðar sem möguleiki er á, til dæmis í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla undir allskonar misvísandi og villandi nöfnum.
Það truflar mig líka að lykilstarfsmenn þessarar ríkisstofnunar, sem kallaðir eru prestar, auglýsi sig og framberi sem sérfræðinga á ýmsum sviðum í meðhöndlun einstaklinga og hópa og gangist upp í störfum sem sérhæft og sérmenntað fólk eins og sálfræðingar, geðlæknar og félagsfræðingar ættu miklu mun frekar að sinna.
Samfélagskennd minni er sárlega misboðið með þeirri staðreynd að ríkisfélagið Þjóðkirkjan ohf. sem í raun ætti að vera félagsskapur rekinn af hugsjón og hógværð fyrir þá sem það vilja og kostað af sjálfsaflafé þeirra sem þjónustuna sækja, skuli ekki einungis vera rekið á kostnað allra landsmanna heldur einnig að það sé rekið eins og hvert annað útrásarfyrirtæki í bisness og reyndar sem óvægið fyrirtæki í grjóthörðum bisness.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Ásta Elínardóttir - 17/11/08 18:25 #
Úff já já og já.
Ég bíð einmitt spennt eftir að prufa sálargæslunámskeiðið svo ég viti hvernig á að gæsla sál fólks í erfiðleikum...