Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kristnir eru í minnihluta

Menn ríkiskirkjunnar virðast oft vera í afneitun þegar kemur að hlutfalli meðlima ríkiskirkjunnar[1] og hlutfalli kristinna manna á Íslandi[2]. Varðandi hlutfall meðlima í ríkiskirkjunni ætti að vera einfalt fyrir þau að fara einfaldlega inn á heimasíðu Hagstofunnar og finna hlutfallið (80,2%), þannig hafa þau enga afsökun fyrir að tala alltaf um níutíu prósent. En þegar kemur að hlutfalli þeirra Íslendinga sem aðhyllast kristna trú, þá vandast málið og þá virðist taktíkin vera sú að reyna að koma með sem víðustu skilgreiningu. Þess vegna kom það mér á óvart að finna fína skilgreiningu frá háæruverðugum biskupi ríkiskirkjunnar.

Fyrir níu árum síðan fékk Karl Sigurbjörnsson þessa spurningu í viðtali í tímaritinu Bjarma:

Hvað er „að vera kristinn“ samkvæmt þinni skilgreiningu?

Skilgreingar geta verið margvíslegar. Í þröngri merkingu er kristinn sá sem játar trú á Jesú Krist sem Guðs son og frelsara[feitletrun mín -Hjalti]. En ég get líka skilgreint orðið í víðara samhengi og þá andspænis því sem er framandi kristnum boðskap. Þá getur "að vera kristinn" merkt það sem er á einhvern hátt undir áhrifum af Kristi og boðskap hans. Í því ljósi getum við séð menningu okkar heimshluta, siðgæði og mannskilning." [3]

Við Karl erum reyndar ekki einir um að finnast þetta vera fín skilgreining. Fyrir nær tuttugu árum birtu tveir doktorar í guðfræði niðurstöður úr rannsókn á trúarlífi Íslendinga, þar skrifuðu þeir að „[eitt væri] það trúaratriði sem öðrum fremur verður látið skera úr því hvort menn telja sig vera kristna eður ei. Það felst í því hvaða afstöðu menn taka til Jesú Krists.[4]

Það vill líka svo heppilega til að í þessari könnun (frá 1986-7) og nýlegri endurtekningu á þessari könnun (frá 2004) var fólk einmitt spurt að því hvaða skoðun það hafði á Jesú. Einn af valmöguleikunum var nánast orðréttur eins og skilgreining Karls á kristnum einstaklingi:

Karl: játar trú á Jesú Krist sem Guðs son og frelsara
Kannanirnar: Jesús Kristur er sonur Guðs og frelsari mannanna

Og hve stór hluti Íslendinga flokkast sem kristnir samkvæmt þessari skilgreiningu Karls æðsta biskpups? Í báðum könnununum voru það rétt undir 45%[5]. Þannig að samkvæmt þessari skilgreiningu er minnihluti Íslendinga kristinn.

Í viðtalinu kom Karl reyndar með aðra skilgreiningu á því að vera kristinn: „[að vera] á einhvern hátt undir áhrifum af Kristi og boðskap hans“. Gallinn við þessa skilgreiningu er sá að með þessu er hægt að gera nánast alla kristna, múhameðstrúarmenn væru til dæmis líklega kristnir samkvæmt þessari skilgreiningu.

Það er ansi merkilegt að þegar við notum skilgreiningar sem gera trúleysingja og múhameðstrúarmenn ekki að kristnum, þá virðist hlutfall kristinna á Íslandi aldrei ná þeim háu tölum sem kirkjunnar menn koma endalaust með. En þegar við notum skilgreiningar sem greina á milli þessara hópa, þá virðist talan vera einhvers staðar undir helmingi þjóðarinnar. Kristnir virðast raunverulega vera í minnihluta á Íslandi.


[1] Ungliði í ríkiskirkjunni: „ En við komumst eiginlega að því að það er stór hluti af fólkinu í landinu, um 90%, sem er í Þjóðkirkjunni...“#
[2] Þjóðkirkjupresturinn Þórhallur Heimisson: „trú yfir 90% landsmanna“ #
[3] Bjarmi, 3 tbl, 1999, bls 4
[4] Björn Björnsson og Pétur Péturssin Trúarlíf Íslendinga. Félagsfræðileg könnun. Ritröð Guðfræðistofnunar nr. 3, Rvík 1990 bls. 44
[5] ibid. Bls Tafla II,7 bls. 18 og prentað svar sent frá Biskupsstofu með niðurstöður frá 2004.

Sjá einnig: Meirihlutagoðsögnin

Hjalti Rúnar Ómarsson 14.11.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Þundur Freyr - 16/11/08 10:21 #

Ég væri til í að vita hve mörg prósent segjast trúa öllu því sem stendur í biblíunni.

Það er væntanlega frekar lítill hópur og hvað ætli stór hópur þjóðkirkjupresta trúi því?

Annað smáatriði, en það er víst rangt að segja múhameðstrúarmenn. Þeir vilja láta kalla sig múslima.


Siggi - 16/11/08 13:02 #

Og ég vill láta kalla mig leiðtogann, en ég fæ það sjaldan...


sas - 21/11/08 00:23 #

[ athugasemdir og svör færð á spjallborð - Matti Á. ]

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.