Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um gervisykur og heilsukukl

Benedikta Jónsdóttir hjá Manni lifandi fer mikinn í viðtali í tölublaði Vikunnar fyrir nokkru sem rataði einnig á forsíðu dv.is. Hún fullyrðir að Mjólkursamsalan sé að matreiða eitur ofan í börn, þar sem vörurnar innihalda kemísk efni á við gervisykur. Þá fullyrðir hún líka að samskonar "diet"-vörur fiti fólk, að MSG sé að finna í flestum matvörum og sé líka baneitrað, að hvítur sykur sé bölvaldur og að matvælaiðnaðurinn sé að blekkja neytendur með því að skipta um nafn á "eitrinu".

Þetta eru þó nokkuð stór orð en koma ekki á óvart. Það er nefnilega þannig að fólk í heilsuvöru- og náttúrulækningageiranum er í krossferð mikilli gagnvart s.k. kemískum efnum, gerviefnum, rotvarnarefnum og barasta öllu sem bætt er í mat sem ekki er hægt að kalla náttúrulegt skv. einhverri undarlegri skilgreiningarbók þeirra. Er eitthvað til í þessu öllu?

Nei, þetta eru sömu gömlu fullyrðingarnar sem hefur verið haldið fram seinustu áratugi og aldrei hefur verið sýnt fram á með óyggjandi hætti og byggist fyrst og fremst á vanþekkingu á grundvallarefnafræði, ofurtrú á náttúrunni og tortryggni á öllu því sem vísindin hafa fært okkur. Þá er rétt að geta þess strax að á Vantrú hafa þegar birst greinar um MSG og aspartam.

Það er auðvelt svara þessum fullyrðingum Benediktu beint en fyrst má taka smá kennslustund í gagnrýnni hugsun.

Er líklegt að Mjólkursamsalan sé að setja efni í vörurnar sínar sem búið er að sýna fram á að geti verið skaðlegt ?

Er líklegt að sætuefni á við aspartam sem fyrirfinnst í ansi mörgum vörum núorðið, útum allan heim, hafi ekki verið rannsakað af mörgum mismunandi aðilum og að viðvaranabjöllur hafi ekki hringt hjá öllum innlendum, erlendum og alþjóðlegum matvælaeftirlitsstofnunum?

Er líklegt að MSG, sem hefur verið notað í fleiri áratugi í ýmsan mat, sé eitrað en samt leyft alls staðar?

Sem efnafræðingur fæ ég alltaf þónokkurn kjánahroll þegar ég heyri hugtakið "kemískt efni". Öll efni eru kemísk. Maðurinn er kemísk efnablanda, alveg eins og sjórinn, loftið, túnfífillinn, appelsínan og svo framvegis. Við getum greint öll efni og efnablöndur og séð hvaða kemísku efni þau innihalda. Það er enginn efnafræðilegur eða kemískur munur á t.d. vítamíni framleitt á tilraunastofu og svo vítamíni sem kemur úr ávexti.

Benedikta segir að kemísk efni sé að finna í flestum mat. Nei Benedikta. Kemísk efni er ekki bara að finna í öllum mat, heldur í öllu. Allt sem þú sérð í kringum þig er kemískt. Við sjálf erum kemísk.

Fullyrðingar Benediktu um MSG og gervisykur eru ekki nýjar af nálinni. Varðandi gervisykur þá er Benedikta væntanlega að vísa til aspartams (gervisykur sem Mjólkursamsalan o.fl. nota samanstendur yfirleitt af blöndu aspartams og asesúlfam-K en það er aspartam sem er illa efnið í augum fólks í heilsu- og náttúruvörugeiranum).

Það er auðvelt að googla hluti á netinu og finna þær upplýsingar sem eru manni að skapi ef maður er sannfærður um eitthvað fyrirfram. Netið er morandi í síðum um mögulega skaðsemi aspartams. Sú staðreynd þýðir þó ekki að það sé rétt að aspartam sé skaðlegt. Netið er líka morandi í samsærissögum um að tunglferðirnar hafi verið sviðsettar, um hvernig Bandaríkjastjórn skipulagði árásina 11. september 2001 og morðið á Kennedy, um eðlufólkið og hvernig öreindahraðallinn í CERN átti að drepa okkur öll um daginn.

En nú vill svo til að auk þess að skoða síður eins Aspartame & Aspartame Poisoning Information Site, Aspartame: What You Don't Know Can Hurt You og Aspartame Kills ; þá er nú jafnvel gáfulegra að skoða vísindagreinar og skýrslur matvælaeftirlitsstofnana ef maður er efins um öryggi efnisins. Þá halda Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands og Matvælastofnun út ágætis upplýsingasíðum um bæði sætuefni og önnur aukefni.

Þá veit ég ekki hvaðan Benedikta hefur hugmyndir sínar um að "diet"-vörur séu líklegar til að fita fólk. Alla vega þá er það í algerri mótsögn við niðurstöður greinar sem fór yfir rannsóknir seinustu ára sem hafa kannað slíkt samband.

MSG var viðfangsefni greinar minnar á Vantrú fyrir nokkrum mánuðum og óþarfi að endurtaka allt sem fram kom þar.Þó er ástæða til að benda Benediktu á að MSG eða monosodiumglutamate hefur E-númer 621 eins og skylt er að skilgreina öll bætiefni í mat skv. reglugerð Evrópusambandsins og því er ekki um að ræða neinn feluleik. Vítamín þegar þeim er bætt í mat hafa líka sín E-númer. Þó þarf ekki að merkja tómata (lífræna sem venjulega) sem "innihalda MSG" jafnvel þótt tómatar innihaldi frítt glútamat eða MSG beint frá náttúrunnar hendi (og það er efnafræðilega alveg eins og viðbætt MSG).

Maður spyr sig að lokum hver tilgangurinn sé eiginlega að hleypa fólki eins og Benediktu í fjölmiðla með þessa hleypidóma og rangfærslur sínar.


Ítarefni

Nýlegar rannsóknir og greinar um aspartam:

Nýlega (2007) birti Critical Reviews in Toxicology, eitt þekktasta vísindatímarit í eiturefnafræði, stærstu yfirlitsgrein sem hefur verið framkvæmd á rannsóknum á aspartam þar sem farið var yfir svo gott sem allt sem nokkurn tímann hefur verið rannsakað í sambandi við aspartam. Að rannsókninni stóðu vísindamenn við nokkra háskóla í Evrópu og Bandaríkjunum. Þar kemur fram m.a.:

- "In conclusion, it can confidently be stated that there is no credible evidence that aspartame is carcinogenic".
- "The data from these studies, in general, do not support the hypothesis that aspartame in the human diet will affect nervous system function, learning or behaviour."
- "The effect of aspartame on behaviour, cognitive function, and seizures has been studied extensively in animals, healthy children, hyperactive children, sugar-sensitive children, healthy adults, individuals with Parkinson's disease, and individuals suffering from depression. Overall, the weight of the evidence indicates that aspartame has no effect on behaviour, cognitive function, neural function, or seizures in any of these groups."
- "Aspartame is a well-characterised, thoroughly studied, high-intensity sweetener that has a long history of safe use in the food supply and can help reduce the caloric content of a wide variety of foods."


Krabbameinsstofnun Bandaríkjanna skoðaði neyslu aspartams á hálfri milljón manns í rannsókn sem var birt árið 2006 og fann enga fylgni milli tíðni krabbameinstilfella og neyslu sætuefnisins:

"A study of about half a million people, published in 2006, compared people who drank aspartame-containing beverages with those who did not. Results of the study showed that increasing levels of consumption were not associated with any risk of lymphomas, leukemias, or brain cancers in men or women."

Nýleg rannsókn birt í Annals of Oncology árið 2007 skoðaði tengsl sætuefna og krabbameins í um 7000 mönnum þar sem tengsl krabbameinstilfella og sætuefna á við aspartam og sakkarín fundust ekki.

Árið 2005 birti British Medical Journal grein um aspartam og hvernig fjölmiðlar og netið taka þátt í hálfgerðum múgæsingi sem byggist ekki á neinu.

Þær matvælaeftirlitsstofnanir sem hafa kannað öryggi aspartams (sumar mjög nýlega):
- Food Standards- Australia, New Zealand (factsheet frá 2007)
- Upplýsingasíða New Zealand Food Safety Authority (uppfærð júlí 2008) og fréttatilkynning.
- Nýleg fréttatilkynning FDA (apríl 2007)
- French Food Safety - skýrsla (maí 2002)
- Health Canada (upplýsingasíða frá 2005)
- European Food Safety Authority (skýrsla frá 2006)
- European Commission's Scientific Committee for Food (skýrsla frá des 2002)
- Food Standards Agency UK (upplýsingasíða uppfærð júní 2008)

Viðbrögð


Óskar Rudolf Kettler (ORK) - 26/10/08 10:15 #

Eins og alltaf Raggi minn þá eru greinar þínar einstaklega góðar, og þótt þú sért að flýja land þá skalt þú ekki dirfast að hætta að koma með svona gullmola. Einnig vil ég óska þér til hamingju með prófgráðuna þína meistari.


Þundur Freyr - 26/10/08 10:34 #

Aspartam, MSG og sérstaklega dihydrogenmonoxide eru kemísk efni sem bætt er í flest allan mat og eru baneitruð.

Þú ert bara að dreifa áróðri fyrir stóru lyfjafyrirtækin og færð áreiðanlega fúlgu blóðpeninga fyrir.

Heimild: www.dhmo.org


ORK - 26/10/08 11:21 #

Jújú einmitt, stóru lyfjafyrirtækin hafa einmitt töglin og haldirnar í matvælaframleiðslu hver hefur ekki heyrt um Merck súkkulaði eða þá Actavis kaffið. Á síðast leynifundi Actavis og allra efnafæðinga og matvælafræðinga var Ragnari sérstaklega sagt að skrifa grein um Aspartam. Hann er nefnilega opinber talsmaður okkar vegna þess að hann drakk of mikið á fyrsta leynifundinum á árinu og þetta er refsingin hans


Viddi - 26/10/08 12:05 #

Nú er MS nokkuð stórt og öflugt fyrirtæki, alveg örugglega með allnokkra lögfræðinga innan borðs. Ég var að velta fyrir mér hvort svona "árasir" geti ekki talist sem meiðyrði og þar með hægt að lögsækja fyrir svona rógburð. Svona umfjöllun hlýtur að hafa slæm áhrif á "bisnessinn".

Eða forðast þessi fyrirtæki lögsóknir vegna þess að það lítur illa út fyrir þau að standa í lögsóknum gegn einstaklingum og gefur einstaklingnum píslarvættastöðu?


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 26/10/08 14:29 #

Vona að Þundur sé að djóka.


Þundur Freyr - 26/10/08 16:36 #

Jú ætli það sé ekki rétt að taka það fram, svona til að afvegaleiða umræðuna ekki meira, að ég var einmitt bara að grínast

Greinin er mjög góð og vel unnin eins og höfundi er von og vísa.


Björn Ómarsson - 26/10/08 16:49 #

Ég vill taka undir með Þundri (er þetta rétt beygt?), sjálfur er ég forfallinn DHMO fíkill, nota yfirleitt Kemíska blöndu af DHMO og trimethylxanthine. Ég er meira að segja í neyslu einmitt núna!

En svona í alvöru, Ragnar á þakkir skilið fyrir góða grein. Það er alltaf gott þegar alvöru vísindamenn benda á kjánaskapinn í kuklurunum.


bjaggi - 17/06/09 21:22 #

Er allt þetta rugl að þínu mati? http://www.wnho.net/aspartame_news.htm


Ragnar (meðlimur í Vantrú) - 17/06/09 21:52 #

Ertu í alvöru að vísa á vefsíðu máli þínu til stuðnings þar sem á aðalsíðunni má finna slagorð á við:

Jesus is the reason for the season. He is risen! Proud to be pro-life. Global warming hoax. Stop abortion now.

Auk þess sem má finna margvíslegan annan áróður gegn réttindum samkynhneigðra, stofnfrumurannsóknum, bólusetningum, fóstureyðingum o.s.frv.

Í alvöru ?


Morten Lange - 02/09/09 23:08 #

Það er líklegast rétt að slæm áhrif aspartam sé stórlega ýkt. Það þyðir samt ekki að gott sé að ýta undir notkun þess. Það ætti að minnst kosti að merkja vörur með aspartam skýrar, þannig að maður geti valið afbrigði með gerfisykri eður ei, án þess að þurfa að lesa (ör)smáa letrið.

Ég held að athugasemdir sem ég setti inn síðast þegar þetta var til umræðu standa enn ágætlega.

Til dæmis rökin um að aspartam sé ekki að virka eins og auglýst sé, nema á þröngu sviði, eins og til dæmis fyrir sykursjúka.

Sjá neðstu þrjár athugasemdir á http://www.vantru.is/2007/01/26/08.00/


Ragnar (meðlimur í Vantrú) - 02/09/09 23:54 #

Ég hef í sjálfu sér lítinn áhuga á hvort aspartam sé gagnlegt gegn offitu eða minnki almenna sykurnotkun fólks eða hafi jafnvel öfug áhrif eins og þú nefnir. Mér finnst slíkir hluti aukaatriði í samhengi efni greinarinnar, þ.e. hræðslan við aspartam og efnafóbía. Yfirlitsrannsóknin sem ég vitnaði í bendir til þess að aspartam sé gagnlegt til að létta sig en smá leit í gagnagrunni sýnir reyndar að næringarfræðingar eru ekki endilega á einu máli í þessum efnum. Svona rannsóknir eru í eðli sínu gríðarlega erfiðar að framkvæma vel þannig að allar aðrar breytur eru útilokaðar.

Staðreyndin er sú að aspartam er efni sem bætt er í matvæli, rétt eins og mörg önnur efni, rotvarnarefni, litarefni, bragðefni o.s.frv. Ég hefði alveg eins skrifað þessa grein ef aspartam væri litarefni, bragðefni eða rotvarnarefni. Af einhverjum ástæðum (sjálfsagt tilviljun) er aspartam orðið illa efnið í augum fólks innan heilsugeirans sem stórhættulega kemíska efnið sem Stóri Bróðir setur í matinn okkar. En hræðslan við þetta efni (eins og sést á moggablogginu og við googl-un) er ekki byggt á nenni þekkingu. Þetta er efnafóbía byggð á fáfræði og samsæriskenningar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.