Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Rammheiðnar landvættir

Í 24 stundum þann 26. september er stutt viðtal við Þórhall Heimisson prest. Í viðtalinu segist Þórhallur hafa verið að reyna í mörg ár að reyna að fá Forsætisráðuneytið til að breyta upplýsingum á heimasíðu sinni um landvættirnar á skjaldarmerki Íslands. Þórhallur segir að þessar verur sé í grunninn upprunnar úr Opinberunarbók Nýja testamentisins.

Þó Þórhallur minnist ekki á það er í raun enginn fræðilegur stuðningur við þessa kenningu hans. Ég veit ekki til þess að nokkur fræðimaður hafi tekið undir þessa tilgátu og ég veit ekki til þess að hann hafi borið hana upp á vettvangi fræðanna.

Það má hins vegar lesa nánar um kenningu Þórhalls á heimasíðu Félags kennara í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræðum. Það er því líklegt að í grunnskólum landsins sé þessi vafasama útgáfa af uppruna landvættanna kennd sem viðurkenndur sannleikur.

En að sjálfri tilgátunni. Í Opinberunarbók Jóhannesar er minnst á fjórar verur sem Þórhallur telur fyrirmyndir verndara Íslands. En ef við skoðum lýsinguna á þeim sjáum við ekki mikil líkindi: "Fyrsta veran var lík ljóni, önnur veran lík uxa, þriðja veran hafði ásjónu sem maður og fjórða veran var lík fljúgandi erni. Verurnar fjórar höfðu hver um sig sex vængi og voru alsettar augum, allt um kring og að innanverðu".

Landvættunum sem skreyta skjaldarmerkið er lýst í Ólafs sögu Tryggvasonar. Sá fyrsti var "dreki mikill", annar var "fugl svo mikill að vængirnir tóku út fjöllin tveggja vegna", sá þriðji "griðungur mikill" og sá síðasti bergrisi. Öllum þessum skepnum fylgdu fleiri minni "landvættir".

Þórhallur setur hugsunarlaust samasemmerki milli veru sem hefur "ásjónu sem maður" (en líka allsettur augum og með sex vængi) og bergrisans. Þó er höfuðeinkenni risans ekki að hann sé líkur manni (í raun er ekkert beint minnst á það) heldur að hann er svo stór að hann "bar höfuðið hærra en fjöllin". Þórhallur fer líka í mikla og ósannfærandi leikfimi til að útskýra hvers vegna drekinn og ljónið er sama veran.

Það sem sögurnar tvær eiga í raun sameiginlegt er að í þeim koma fram fugl, naut og tvær aðrar verur. Annað í sögunum er svo gjörólíkt að engum dytti í hug að bera þær saman. Landvættirnar eru að öllum líkindum rammheiðnar og verða ekki kristnaðar þótt prestur skvetti til smá vatni.


Greinin birtist í 24 stundum þann 10. október sl.

Óli Gneisti Sóleyjarson 15.10.2008
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Svanur Sigurbjörnsson - 15/10/08 10:08 #

Þetta er dæmigert fyrir trúað fólk. Það heldur að Biblían sé bók bókanna og allur andskotinn eigi uppruna sinn úr henni. Trúarviljinn er öllu fremri og ef að eitthvað passar ekki þá er það látið passa. Þannig er það með þá sem trúa á sköpunarsöguna. Raunveruleikinn er beyglaður til að passa inní söguna.
Það er alvarlegur hlutur ef kennarar ætla að fara að kenna börnum þessa fabúlu séra Þórhalls.


gimbi - 16/10/08 00:33 #

"Þó Þórhallur minnist ekki á það er í raun enginn fræðilegur stuðningur við þessa kenningu hans. Ég veit ekki til þess að nokkur fræðimaður hafi tekið undir þessa tilgátu og ég veit ekki til þess að hann hafi borið hana upp á vettvangi fræðanna"

Hvað ertu að meina Óli?

Hann svaraði þér í blaðagrein!

Er þetta eithvað mál fyrir þér? Landvættir?


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 16/10/08 01:21 #

Hvað meinarðu gimbi? Hér er bara verið að endurbirta blaðagrein sem áður birtist í 24 Stundum. Það að greininni hafi verið svarað útilokar alls ekki að hún sé gerð aðgengileg hér, þvert á móti.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 16/10/08 08:57 #

Þegar seinna svar mitt hefur verið birt í Mogganum mun það væntanlega verða birt á Vantrú daginn eftir. Svargrein Þórhalls verður því ekki rædd hér. Ef þú hefur lesið "svar" Þórhalls þá ættirðu líka að sjá að gagnrýni mín á tilgátuna stendur óhögguð.


Kristinn - 16/10/08 19:17 #

Flott grein. Ég hlakka til að lesa framhald málsins.


Þórhallur Heimisson - 16/10/08 20:59 #

Sæll Óli. Já góð grein og gaman að þessu. Sérstaklega gaman að þessari fræðilegu greiningu þinni:

"Þó Þórhallur minnist ekki á það er í raun enginn fræðilegur stuðningur við þessa kenningu hans. Ég veit ekki til þess að nokkur fræðimaður hafi tekið undir þessa tilgátu .........".

Ég hlakka til að sjá framhaldið þar sem þú án efa munt skýra þessi orð þín.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/10/08 21:08 #

Þórhallur, ertu til í að birta svargrein þína á vefnum svo við getum vísað lesendum Vantrúar á hana.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 16/10/08 21:41 #

Þórhallur, þú verður bara að bíða spenntur eins og allir aðrir.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 16/10/08 22:22 #

Eða kannski ég ætti bara að spyrja hreint út. Heldurðu í alvörunni að útúrdúr í "alþýðlegri" bók um Íslandssögu sé ígildi fræðilegs stuðnings? Hvar eru ritrýndu greinarnar? Hvar er stuðningur þeirra sem eru sérfræðingar á þessu sviði?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 17/10/08 09:04 #

Eftirfarandi orð eru höfð eftir biskupnum 1. ágúst sl.

Til forna voru þessar táknmyndir sem landvættirnar vísa til gjarna túlkaðar öðrum þræði sem tákn höfuðdyggðanna fjögurra: Visku, hugrekkis, sjálfsaga og réttlætis. Þannig ættum við að geta séð skjaldberana, landvættirnar, sem áminningu um að hin guðdómlega forsjón og vernd, sem yfir landinu hvílir, á sér samsvörun og framlenging í þeim dyggðum sem manninn prýða umfram allt.

Menn fara ýmsar leiðir til að skjóta heiðnum landvættum undir kristindóminn. Ekki veit ég hvaðan biskup hefur þessa "visku" sína.


Jói - 17/10/08 09:06 #

Þórhallur, ég las grein þín í Morgunblaðinu og þegar ég les grein Óla núna sýnist mér að þú hafir í raun engu svarað rökum hans um landvættina. Það eina sem þú sagðir þar var upptalning á hlutum sem Óli hafði þegar hrakið og síðan þetta sem þú ert að endurtaka hér sem kemur málinu ekkert við. Hvar eru rökin sem eiga að fella gagnrýni Óla?


Þórhallur Heimisson - 17/10/08 09:27 #

Sæll Jói. Verður óli ekki að standa við orð sín eins og aðrir? Hann fór einfaldlega með rangt mál. Um það er ekki fleira að segja.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/10/08 09:37 #

Þórhallur, þarf ég nokkuð að ítreka beiðni mína?


Þórhallur Heimisson - 17/10/08 09:42 #

Þú getur sótt hana á mbl.is. Birtist hún ekki á forsíðu hjá ykkur eins og hin ágæta grein Óla?


Jói - 17/10/08 09:50 #

Óli verður að svara fyrir sig en ég er að biðja þig um að svara fyrir þig. Er tilgátan sem þú komst fram með ekki fallin?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 17/10/08 09:53 #

Þórhallur, við skulum birta grein þína um leið og mína. Ég er reyndar þegar búinn að spyrja þig hér að spurningum sem þú hefur ekki svarað.


Guðmundur I. Markússon - 17/10/08 11:18 #

Manni finnst næstum ópassandi að karpa um landvættir í kreppunni ... amk. hafa þær brugðist ...

Það er langt um liðið síðan ég sinnti mínu gamla áhugamáli, norrænni goðafræði og trúarbrögðum. Ég er því riðgaður í fræðunum, en hvað um það.

Ég þekki ekki fræðin kringum landvættir Snorra og finndist að Þórhallur mætti vísa í þá sem hafa rannsakað þetta meðal norrænu fræðinga frekar en að vera með vangaveltur um styttur sem víkingar hafi kannski séð og kannski skilið svona eða hinsegin.

En auðvitað er vitað að Biblía og kristni hafði mikil áhrif fornbókmenntir. Því er ekkert ólíklegt í sjálfu sér að FORM landvætta Snorra sé komið úr Biblíunni. Það breytir því hins vegar ekki að HUGMYNDIN um landvættir er miklu eldri og rammheiðin.

Við vitum lítið um trúarbrögð forfeðra okkar en eitt er alveg ljóst, að landvættir--vættir sem bjuggu í landinu og þurfti að semja við þegar land var numið--voru lykilatriði. Ekki er ólíklegt að þessar heiðnu landvættir lifi enn í álfum og huldufólki dagsins í dag.

Þannig gæti Þórhallur haft rétt fyrir sér með yfirborðið, formið, en innihaldið og uppruninn er klárlega heiðinn.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 17/10/08 11:57 #

Mér finnst bara langsótt að fullyrða eitthvað af því að tvær af fjórum passa við þessar verur. Kristin áhrif á fornbókmenntirnar eru vissulega til staðar og geta verið áhugavert rannsóknarefni. Ég hef reyndar ekki enn minnst á að skv. fornsögunum var minnst á landvætti í Úlfljótslögum (þó ekki beint verurnar sem eru í Ólafs sögu Tryggvasonar).


Gudmundur I. Markússon - 17/10/08 12:38 #

Jú jú, var það ekki þetta með að taka niður drekahöfuð skipa áður en komið var að landi svo landvættir fælist ekki? (eftir minni)


Þórhallur Heimisson - 17/10/08 12:46 #

Sæll Óli. Eigum við ekki bara að bíða rólegir þangað til þessi væntanlega grein þín verður birt?


Jói - 17/10/08 13:11 #

Þórhallur, hvað með að svara mér þá bara?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/10/08 13:19 #

þangað til þessi væntanlega grein þín verður birt

Þú rekur kannski á eftir Morgunblaðinu Þórhallur, mér hefur stundum virst þú hafa góð sambönd þar.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 17/10/08 13:20 #

Þetta er flott grein hjá þér Ólí.

Þú afsakar þótt ég nefni það hérna, sem þið Þórhallur hafið kannski einhvern tímann heyrt minnst á, en þegar ég var í MR fyrir margt löngu þá var okkur kennt það sem viðurkennd staðreynd að landvættirnir hjá Snorra væru í raun höfðingjarnir hver í sínum fjórðungi. Ef ég man rétt var það Ólafur Oddsson sem kenndi okkur þetta og gat hann tengt hvern landvætt við hvern höfðingja.

Í frásögn Snorra er greinilegt að vættirnir eru ekki einir heldur eru þeir hver um sig fremstir í liði annarra minni vætta, eins og höfðingja er siður.

Höfðingjarnir eru svo nefndir í lokin: "Þá var Brodd-Helgi í Vopnafirði, Eyjólfur Valgerðarson í Eyjafirði, Þórður gellir í Breiðafirði, Þóroddur goði í Ölfusi."

Landvættirnir voru einmitt í Vopnafirði, Eyjafirði og Breiðafirði - en í Ölfusi? Einhvern veginn hefur maður alltaf tengt bergrisann við Lómagnúpinn, eflaust fyrir tilstilli Jóns Helgasonar skálds.

En hvalurinn hjá Snorra gengur upp í Vikarsskeið, samkvæmt fljótlegri leit á netinu er það einmitt sandrifið fyrir framan ósa Ölfusár.

Mér sýnist á öllu að Snorri hafi verið með höfðingjana í huga og síðan fundið viðeigandi myndlíkingu fyrir hvern þeirra byggt á einhverjum eiginleikum þeirra (sem er það sem mér var kennt á sínum tíma).

Hann gæti t.d. hafa flett upp í Ovid sem hann hefur eflaust haft á náttborðinu hjá sér, þar er nóg af myndbreytingum að taka. Uxinn er t.d. Júpíter, æðstur Guða, en Þórður var víst aðal kallinn á Íslandi á þessum tíma, fuglinn er Hermes, eða Merkúr, og var ekki Eyjólfur Valgerðarson frægt skáld?

Þetta er bara svona hugdetta skrifuð í hádegishléi, má ekki taka of alvarlega!


Þórhallur Heimisson - 17/10/08 15:04 #

Blessaður Jói - þú fyrirgefur, ég skil ekki alveg spurninguna?

Hvað er það sem Óli er búinn að hrekja?

Hann var greinileg ekki búinn að skoða heimildir né þá miklu umræðu sem farið hefur fram hér á landi um tengsl landvætta skjaldarmerkisins og tákna Biblíunnar áður en hann brá pennanum.

Í sinni grein er hann bara með upphrópanir - fyrir utan þá augljósu og broslegu staðreyndavillu sem ég og fleiri hér hafa bent á - að ég sé sá eini sem hafi velt þessum kenningum fyrir mér.

Það efast enginn í raun um þessi tengsl táknanna- nema Óli - enda Vantrúarmaður.

Góða helgi allir hér - Vantrúarmenn sem aðrir.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 17/10/08 15:08 #

Það efast enginn í raun um þessi tengsl táknanna

Vantar ekki upphrópunarmerki þarna, Þórhallur?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 17/10/08 17:13 #

Eins og ég segi, það er ekki einu sinni áhugaverð tenging að tvær af verunum eigi sér samsvörun.


Jói - 17/10/08 19:19 #

Þórhallur, ég hlýt að gera ráð fyrir að þú sért tregur. Óli er búinn að benda ítrekað á hve léleg tilgátan er, ef þú getur rökstutt hana betur þá skaltu gera það. Það kemur málinu ekkert við hverjir hafa aðhyllst hana ef hún er ekki betur rökstudd.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 17/10/08 19:45 #

Jói, ég bið þig um að vanda orðalag þitt betur.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 17/10/08 20:39 #

Þessi kenning Þórhalls er ekkert sérkennileg í sjálfu sér þótt að hún sé efnislega kjánaleg. Svona alt-um-lykjandi kristnikenningar eru all-víða.

-Þetta er í raun tilbrigði við að sjá heiminn í ljósi Krists..

Nú á að sjá söguna í ljósi Krists. Þórhallur með þessa fáheyrðu kenningu sína um landvættina og María Ágústsdóttir hefur viðrað þá kenningu að nafnið Ísland sé í raun afbökun af raunverulegu nafni landsins, eða Jesúland! (Iasu-land)

Það sér hver heilvita manneksja að svona æfingar eru ekki til þess fallnar að auka vegsemd Þórhalls eða Maríu.

Svona della undirstrikar bara þann sjálfs-heilaþvott prestar ástunda á sjálfum sér.


gimbi - 17/10/08 23:09 #

"Efnislega kjánaleg"?

"ég hlýt að gera ráð fyrir að þú sért tregur"

Voðalega sem þið eruð flottir.

Ekki skil ég að þetta geti einu sinni talist áhugaverður ágreiningur.

En Þórhallur er augljóslega búinn að svara vel fyrir sig.

Þér nægja ekki svona spurningar, Óli: "Hvar eru ritrýndu greinarnar? Hvar er stuðningur þeirra sem eru sérfræðingar á þessu sviði?"

Björn Þorsteinsson var sérfræðingur.

En ertu einhverju bættari með að geta tengt landvættirnar við ásatrú?


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 18/10/08 01:23 #

Gimbi, Þórhallur hefur engu svarað, heldur ætlast hann til að við finnum heimildir til að styðja mál hans. Er óeðlilegt að biðja hann um að benda á ritrýndar fræðigreinar máli sínu til stuðnings? Það gera nú flestir sem vilja kalla sig fræðimenn.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 18/10/08 01:28 #

Í fyrsta sinn sé ég Gimba hitta naglann á höfuðið. Ég er engu bættari þó landvættir séu heiðnar eður ei. Hagur minn vænkar ekki við það.

Björn Þorsteinsson lést fimm árum áður en bókin kom út og margir aðrir skrifuðu í hana. Ég veit ekkert hvort hann skrifaði þennan kafla eða ekki. Það var hvergi vísað í heimildir varðandi þetta atriði og þar að auki var þetta eiginlega í framhjáhlaupi. Ég veit ekkert hver kom fram með þetta fyrst og veit ekki hvort þetta hafi nokkurs staðar verið rökstutt betur. Ég reyndi að fá einhver svör frá Þórhalli um það en fékk ekki.

Þórhallur hefur ekki svarað gagnrýni minni á nokkurn hátt. Hann misskilur mig og einbeitir sér að þeim misskilningi í stað þess að verja tilgátuna sjálfa. Það bendir fyrst og fremst til þess að hann hafi ekkert til að verja tilgátuna.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 18/10/08 09:51 #

Þessi kristnivæðing er auðvitað ferlega pirrandi en þarf ekki að koma á óvart. Deyjandi hugmyndakerfi teygir örvæntingarfulla anga til allra átta og reynir að ná fótfestu þar sem því var aldrei ætlaður staður - því kjarninn sjálfur er dauður.

Þórhallur virðist ekki geta fært betri rök fyrir máli sínu en þau að "Það efast enginn í raun um þessi tengsl táknanna" - fullyrðing sem hann getur ekki rökstutt með neinu móti og sem bendir þvert á móti til algjörs rökþrots.


anna benkovic - 18/10/08 19:10 #

Ég er orðin svo þreytt á lygum ríkiskirkjunnar að næst býst ég við að þeir lýsi landnamsnennina kristna? sjá einnig;

http://www.namsgagnastofnun.is/leifur/landvaettir.html


Siggi Óla (meðlimur í Vantrú) - 18/10/08 20:10 #

Það er nú einu sinni þannig að valdhafar í gegnum tíðina og þá sérstaklega þar sem um einveldi eða algjöra yfirburði er að ræða, hafa reynt að breita sögunni á betri veg fyrir sjálfa sig.

Það er að segja, reynt er að láta líta út fyrir að hlutir hafi gerst öðruvísi eða af öðrum orsökum heldur en upprunalega var og/eða reynt að "þurrka" út það sem óheppilegt reynist. Þess vegna er maður ekkert hissa að reynt sé að kristan landvættina. Næst verða örugglega landnámsmennirnir orðnir kristnir trúboðar á ferð eins og Anna bendir á.


anna benkovic - 18/10/08 20:29 #

Landvættir Íslands

Norrænir menn trúðu að landvættir héldu vörð um landið og að þær væru guðlegar verur. Þeir vildu ekki láta fæla þær í burtu og var því sett í fyrstu lög landsins, Úlfljótslög, frá 930 að menn skyldu ekki sigla að landinu „með gapandi höfðum eða gínandi trjónum.“

Landnámsmenn tóku þess vegna af gapandi dýrshöfuð sem voru algeng á langskipum þegar þeir nálguðust Ísland.

Landvættir

Haraldur konungur bauð kunnugum manni að fara hamförum til Íslands og freista, hvað hann kynni að segja honum. Sá fór í hvalslíki. En er hann kom til landsins, þá fór hann vestur fyrir norðan landið. Hann sá, að fjöll öll og hólar voru fullir af landvættum, sumt stórt, en sumt smátt.

En er hann kom fyrir Vopnafjörð, þá fór hann inn á fjörðinn og ætlaði á land að ganga. Þá fór ofan úr dalnum dreki mikill, og fylgdu honum margir ormar, pöddur og eðlur og blésu eitri á hann, en hann lagðist í brott og vestur fyrir land allt fyrir Eyjafjörð. Fór hann inn eftir þeim firði. Þar fór á móti honum fugl svo mikill, að vængirnir tóku út fjöllin tveggja vegna, og fjöldi annarra fugla, bæði stórir og smáir. Braut fór hann þaðan og vestur um landið og svo suður á Breiðafjörð og stefndi þar inn á fjörð. Þar fór á móti honum griðungur mikill og óð á sæinn út og tók að gella ógurlega. Fjöldi landvætta fylgdi honum. Brott fór hann þaðan og suður um Reykjanes og vildi ganga upp á Víkarsskeiði. Þar kom í móti honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi, og bar höfuðið hærra en fjöllin, og margir aðrir jötnar með honum. Þaðan fór hann austur með endilöngu landi. „Var þá ekki,“ segir hann, „nema sandar og öræfi og brim mikið fyrir utan, en haf svo mikið milli landanna,“ segir hann, „að ekki er þar fært langskipum.“

Þá var Brodd-Helgi í Vopnafirði, Eyjólfur Valgerðarson í Eyjafirði, Þórður gellir í Breiðafirði, Þóroddur goði í Ölfusi.

Síðan sneri Danakonungur liði sínu suður með landi, fór síðan til Danmerkur, en Hákon jarl lét byggja land allt og galt enga skatta síðan Danakonungi.

Heimskringla

heimild; http://www.namsgagnastofnun.is/leifur/landvaettir.html


Þórhallur Heimisson - 20/10/08 17:56 #

Sæll Óli. Sá þetta hjá þér:"Ég veit ekkert hver kom fram með þetta fyrst og veit ekki hvort þetta hafi nokkurs staðar verið rökstutt betur".

Einmitt! Þú veist ekki! En þú fullyrðir samt út í loftið kæri vinur! Hefur þú aldrei unnið heimildaritgerð?

"Ég veit ekkert..." segir þú. Þarf að segja meira?

Og þó hafa fræðimenn ritað um þessa augljósu tengingu táknanna í ein 100 ár.

En hverjir ...tja, það kemur síðar.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 20/10/08 18:37 #

Ég spurði þig hverjir hefðu skrifað um þetta. Af hverju svaraðir þú því ekki? Er það leyndarmál?

Og ef þú getur rökstutt þetta betur þá ættir þú að gera það.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 20/10/08 20:46 #

Halda mætti að þú hefðir sjálfur aldrei skrifað heimildaritgerð, Þórhallur. Venjulega vísa menn nefnilega sjálfir á sínar heimildir, en krefjast þess ekki að lesendur geri það fyrir þá.


Þórhallur Heimisson - 21/10/08 19:53 #

Sæll Óli og þakka þér fyrir spurninguna. Mikið hefði nú verið gaman ef þú hefðir bara haft samband strax og þá hefði ég með gleði sent þér samantekt yfir alla þessa miklu og spennandi umræðu sem átt hefur sér stað hér á landi í fjölbreyttum ritverkum eftir okkar bestu fræðimenn allt frá 1914. Þess í stað kýst þú að skrifa grein í Moggann og hæðast að prestinum sem reynir að kristna landvættina í vesaldómi sínum með því að skvetta til smá vatni eins og þú orðar það.

Margir félagar þínir sem hér skrifa gera það greinilega í svipuðum tilgangi.

Hvort ert þú að reyna að fá sannleikann í ljós eða koma höggi á aumingja "prestinn"?

Ætli það sé ekki hið síðara? Alla vega þola margir greinilega ekki prests vesalinginn sem hér skrifar.

Ef allt það sem er ritað hér á Vantru.is er jafn vel grundað og þessi grein þín, þá er ekki von á góðu.

En engar áhyggjur. Ég mun birta grein í Morgunblaðinu sem er nákvæm samantekt á skrifum fræðimanna um tengsl landvætta Snorra við kristin og gyðingleg minni, rökum þeirra og niðurstöðum.

Þið sem eruð alltaf að leita sannleikans hér á Vantru.is hljótið síðan að birta þá grein á forsíðu ykkar vefs.


Þórður Ingvarsson - 21/10/08 20:06 #

Já það eru alveg líkur á því. Ef þú sendir okkur greinina eftir að hún birtist í blöðunum þá munum við hugsanlega birta hana hér.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 21/10/08 21:29 #

Heldurðu að Snorri hafi samið landvættasöguna?


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 22/10/08 08:36 #

Þú fyrirgefur þótt ég hlæji:

"Aumingja "presturinn"" "mun birta grein í Morgunblaðinu?"

Hafa "prestar" fulltrúa í ritstjórn? Eða sjálfkrafa aðgang að greinabirtingum? Geta "prestar" krafið Morgunblaðið um birtingu heimildaskrárinnar sem þeir gleymdu að búa til áður en þeir viðruðu skoðanir sínar til að byrja með?

Margt hef ég lesið eftir "presta" og sannleiksástin er nú ekki fyrsta boðorðið á þeim bæ. Enda kristnir að sögn.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.