Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Græðgisvæðing gvuðlegra manna

Það er svo agalega pínlegt að heyra predikanir eða lesa pistla eftir presta ríkiskirkjunnar þar sem þeir vara við taumlausri efnishyggju og græðgi en lesa svo um grobbið hjá þeim um ný mótórhjól og jeppa sem verið var að festa kaup á.

Ekki sé minnst á þessar makindalegu utanlandsferðir og splúnkunýja plasmasjónvarpið til að horfa á upptökurnar af sumarfríinu sem tekið var upp með nýju Panasonic-myndavélinni og njóta þess í 7.1 Dolby surround víðóma heima í stofu í glænýrri 300 fermetra íbúð.

Enn pínlegra er að vita hvað þessir kónar eru með í laun. Hálf milljón í byrjendalaun! Einsog þessi starfstétt sé mikilvægari en t.d. kennarar landsins. Eða hvaða önnur starfstétt sem er sem gerir eitthvað gagnlegt, t.d. hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, smiðir og píparar svo fátt eitt sé nefnt.

Efast stórlega um að eini þjóðfélagshópurinn sem blöskrar þetta ósamræmi í blaðri og hegðun þessara ríkisstyrktu bullukolla erum við í Vantrú. Það er svosum í góðu lagi að fólk kaupi fína og dýra hluti en um leið og sama fólkið er að reyna meina öðrum frá því að kaupa fína og dýra hluti útaf "taumlausri efnishyggju, græðgi og siðleysi" þá er nú fokið í flest skjól. Af hverju?

Einfaldlega út af því að prestar ríkiskirkjunnar hafa nákvæmlega ekkert efni á því að predika hófsemi í peningamálum þegar stofnunin sem þeir vinna fyrir er selspikuð af seðlum og stjórnendur þess víla ekki fyrir fjáraustri í gagnslausa hluti, svona einsog 90 milljón króna orgeli eða 800 milljón króna kirkju.

Og manni er spurn, í fúlustu alvöru, hvað gera prestar svona agalega sérstakt að þeir verðskuldi hálfa milljón til milljón á mánuði?

Þórður Ingvarsson 26.09.2008
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 26/09/08 09:27 #

Söguna um liljur vallarins og fugla himinsins, fátæku ekkjuna og ríka manninn og himnaríki á greinilega ekki að taka alvarlega.

Auðvitað mega prestar eiga áhugamál og velta sér í vellystingum, en ekki á kostnað ríkisins. Steininn tekur þó úr þegar prestur prédikar á tru.is um dásemdir bruðlsins, þykir mér.

Í dag er ég stoltur eigandi 1300 kúbika mótorhjóls og aldrei glaðari en hjólandi einhver staðar á vegum landsins, í beinu sambandi við Guð og náttúruna.

Hverjar eru líkurnar á að einhver þessara mynda prýði betliherferð kirkjunnar um komandi jól? (Hjálparstofnun kirkjunnar betlar innan við dagsgróða ríkiskirkjunnar úr vösum landsmanna um hver jól - en hreykir sér óspart af því.)


Viddi - 26/09/08 10:38 #

Hver er munurinn á námi kennara annars vegar og presta hinsvegar? Í sambandi við lengd þá?

Væri það ekki alveg réttlætanlegt af kennurum að krefjast jafnhárra launa og jafnhátt menntaðir guðsmenn?

Þetta væri í raun gott haldreipi fyrir allar undirlaunaðar háskólamenntaðar stéttir landsins (eins og t.d. ljósmæður), benda bara á prestana og krefjast sömu launa út á sömu menntun. Ég get ekki séð hvernig ríkið gæti réttlætt það að borga prestum og prélátum tvöföld laun á við sumar háskólamenntaðar stéttir.

Mér er einnig spurn afhverju þetta hafi ekki komið upp í fjölmiðlum þegar þessi ljósmæðradeila stóð sem hæst.

Þegar maður horfir á þetta í víðara samhengi má hinsvegar sjá glöggt hve höllum fæti ríkiskirkjan stendur því þrátt fyrir þessi himinháu laun er aðsókn í guðfræðimenntun ekki mikil, ef við miðum við aðrar námsbrautir sem bjóða upp á svipuð grunnlaun.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 26/09/08 10:45 #

Og grunnlaunin segja ekki alla söguna. Þessir menn fá alls konar styrki (fata-, bíla-, síma- og húsnæðis) auk þess sem margir búa á prestssetrum og hirða arð af jörðinni (lax, reki, dúnn, sumarbúastaðir o.s.frv.). Og svo rukka þeir auðvitað fyrir verkin sín, ofan á launin (skírn, ferming, gifting, greftrun). Svo eru launuð leyfi, námsleyfi, ráðstefnur og alls konar munaður á fullum dagpeningum. Já, drottinn sér um sína.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 26/09/08 14:05 #

Viddi spyr: Væri það ekki alveg réttlætanlegt af kennurum að krefjast jafnhárra launa og jafnhátt menntaðir guðsmenn?

Því er svo farið í samfélaginu á Íslandi að laun presta heyra undir kjararáð. Það er sama apparat og ákveður laun dómara, alþingismanna og forseta Íslands. Með þrákelkni komst þessi stétt inn í kjararáð. Niðurstaðan er að prestar eru með um 500 þúsund í grunnlaun. Flestir prestar eru með tekjur á bilinu 6-8 hundruðu þúsund.

Nú skýtur það skökku við að Þjóðkirkjan segist ekki vera "ríkiskirkja" og skammast út í þá sem nota það hugtak. Samt ákveður ríkið laun þeirra.

Mér blöskra þessi ofurlaun og prestum sjálfsagt líka. ég man eftir predikun hjá Húsavíkurpresti þar sem hann fárast yfir LandCrusernum sínum. Nú síðst var Íris Kristjánsdóttir að skrifa pistil um leikfangið sitt á tru.is.

-2 miljón króna mótorhjól.

Það má með sanni segja að prestar ríkiskirjunnar eru að mála sig út í horn hjá þjóðinni.


Siggi - 26/09/08 20:00 #

Síðan hvenær flokkast prestanám undir menntun?

Ef þú eyðir 30 árum í skóla að reyna að læra vúdúú þykir mér þú ekki eiga skilið sömu laun og vel menntaður læknir.


Valtýr Kári - 26/09/08 23:10 #

Góður punktur siggi! Þú hefur rétt fyrir þér.


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/09/08 23:13 #

Hvernig háskólafólk/háskólagengið fólk getur verið skráð í þessa ríkiskyrkju, borgað sóknargjöld þangað Í STAÐ HÁSKÓLANS og svo þetta fáránlega launamisræmi milli fólks sem er með ALVÖRU menntun og þessara bullukolla.

En svona er þetta - og á meðan fólk háskólafólk og háskólamenntað fólk gerir ekki neitt í þessu, hvorki skráir sig úr kyrkjunni eða mótmælir og ber þetta á borð opinberlega þá hef á takmarkaða aumkun með því.

Það er þó augljóslega fáránleg hneysa og í mínum huga skilgreiningin á heimsku að kjararáð ákveði laun presta.


Viddi - 27/09/08 09:55 #

Á þessum tímum, þar sem fjármál ráða nær öllu og allir hugsa stanslaust um fjármál (hvað sumir hafa mikið og aðrir lítið) er þetta trúlega stærsta horn sem almenningur getur haft í síðu kirkjunnar.

Sterkasta "move" trúleysis og húmanistahreyfingar á íslandi er að koma þessum staðreyndum út til almennings, tyggja á þessu, skrifa fleiri greinar eins og þessi hér að ofan og reyna að koma þessu í fjölmiðla.

Þetta er líklegasti punkturinn til að skapa umræðu, það þykir öllum fjölmiðlum svo gaman að tala um fjármál og misskiptingu fjár.


anna benkovic - 28/09/08 00:15 #

Gaman væri að sjá rökstudda skoðun á því hversvegna prestar eru í kjaradómi, en kennarar ekki?!!!

ps; Þorgerður Katrín...rökstudda skoðun...


Árni Árnason - 28/09/08 10:25 #

Komið þið sæl öll. Ég hef nú ekki látið ljós mitt skína á vantrúarvefnum um nokkurt skeið, hef verið dálítið upptekinn við annað. Þetta umræðuefni kveikir þó svo í mér að ég verð að gefa mér smá tíma.

Prestar eiga í raun alls ekki að hafa laun, því að þeir eru ekki að vinna. Þeir eru í besta falli að sinna áhugamáli og eiga eins og við hin að gera það í sínum eigin tíma. Ég gæti næstum því borið virðingu fyrir safnaðarpredikara sem væri múrari eða pípari að atvinnu, og sinnti trúarstarfinu af einskærri trúardellu á kvöldin og um helgar. Ég er meira að segja handviss um að það er ekki einu sinni guðshugmyndinni þeirra þóknanlegt að vinna enga sómakæra vinnu en baða sig ævilangt í ljómanum og sjúga peninga út úr hugfötluðum. Það er svo bara skrípaleikurinn uppmálaður að fara að vigta menntun og laun í þessu samhengi. Menntun hvað ? Þarf ekki menntun að vera einhvers nýt til að verðskulda laun ? Ég skal ekki segja, en finni einhver afmarkaður hópur hjá sér sjálfviljuga hvöt til þess að borga yfirbullukolli og þvælupredikara laun úr sínum vasa má hann það svo sem mín vegna, en að heil þjóð sé neydd til þess er gersamlega fráleitt, og því verður að linna - strax.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.