Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Morðóður andstæðingur manntals drepur 70.000

Frá þessum ótrúlega atburði er sagt í víðlesinni skáldsögu sem gefin var út fyrir stuttu í nýrri íslenskri þýðingu. Efnislega fjallar skáldsagan um það þegar ólánsöm hirðingjaþjóð lendir í klónum á gírugu goðmagni og er samskiptum þeirra fylgt eftir um þúsunda ára skeið.

Goðmagnið, Jahve, tekur nokkrum breytingum eftir því sem á líður söguna. Í fyrstu er hann alvaldur guð sköpunar, fjarlægur og hulinn mannkyni, en vaknar einn daginn upp við vondan draum og kemst að því að enginn man lengur eftir honum. Hann móðgast svo mjög að hann ákveður að þurrka út mannkynið, eða því sem næst – af áætluðum 100 milljónum jarðarbúa á síðsteinöld bjargast aðeins 0,000008%.

Sjálfsagt hefur Jahve flökrað ódæðið og hverfur af sjónarsviðinu um stund en birtist aftur þegar minnst varir og hefur nú sölsað undir sig ólánsama hirðingjaþjóð. Upp frá þessu lætur hann fylgismenn sína sjá um manndrápin að hluta til en heldur sér þó í formi með einstaka fjölda- og þjóðarmorði.

Jahve hefur lært list kúgarans og heldur þjóð sinni í heljargreipum ótta og undirgefni. Handahófskennd ofbeldisverk einkenna stjórn hans og sem dæmi má taka þegar Jahve stingur því að konungi nokkrum, Davíð að nafni, hvort væri ekki sniðugt að halda manntal. Davíð hlýðir auðvitað en að talningu lokinni kemur í ljós að Jahve var að plata, Davíð er búinn að brjóta gegn algjöru banni gegn manntali - sem Jahve átti að vísu eftir að segja frá! Jahve er algjör eðalfantur og í stað þess að refsa Davíð er það saklaust fólk, hans eigin þjóð, sem er látið taka skellinn - en Davíð þarf að velja refsinguna! Jahve lætur hann fá þrjá möguleika: Þriggja ára hungursneyð, þriggja mánaða stríð eða þriggja daga drepsótt. Davíð valdi auðvitað síðasta kostinn sem varð 70.000 mönnum, konum og börnum að fjörtjóni, eitt lík á þriggja sekúndna fresti - og það var ekki bannað að telja þau! (2 Sam 24).

Í síðari hluta sögunnar kveður við nokkuð breyttur tónn. Jahve eignast soninn Jesú sem er í einhverjum furðulegum skilningi einnig Jahve sjálfur og má segja að goðmagnið hafi þarna skipt um nafn um leið og hann eignast sjálfan sig sem son með sjálfum sér. En ekki nóg með það, hann lætur drepa son sinn (sjálfan sig) og lífgar síðan sjálfan sig (son sinn) við aftur. Með þessari ógeðfelldu blóðfórn er það ætlun hans að ná undir sig öllum jarðarbúum, hann er búinn að sýna að líf sé eftir dauðann og ef menn makka ekki rétt verði þeir pyndaðir í dauðanum um alla eilífð.

Til allrar hamingju er þetta allt hreinn og klár skáldskapur þótt martraðarkenndur sé. En lygilegast er þó að hér á landi, á 21. öldinni, skuli hálft annað hundrað embættismanna hafa þann starfa á vegum ríkisins að telja fullorðnum, en einkum börnum, trú um að þetta sé allt saman satt og rétt! Eru menn ekki í lagi?

Brynjólfur Þorvarðarson 17.09.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 17/09/08 09:35 #

Mér þykir alltaf jafn sláandi að hver sá sem hafnar þessari sögu sem staðreynd, er álitin byltingarmaður ellegar niðurrifsseggur.

Opinber höfnun á þessari sögu heyrir til undantekninga. Höfnun á því að þessir atburðir hafi átt sér stað geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir t.d knara í skólum landsins eða fyrir þá sem starfa í stjórmálaflokkum. Flestir trúlausir eru inn í skápnum. Þeir þora ekki að stíga fram og lýsa því yfir að þessi saga eigi sér enga stoð í veruleikanum.


Kristinn - 17/09/08 14:19 #

Þetta var dásamleg endursögn, vel skrifuð og skemmtileg. Ég vildi að ég hefði skrifað þetta sjálfur.

;)


FellowRanger - 17/09/08 22:28 #

Frábært!

Ég hló, en grét svo. Kann fólk ekki að skammast sín? Mannkynsagan hefur kennt okkur að svo sé ekki.


Svanur Sigurbjörnsson - 18/09/08 12:03 #

Þetta er snilldarfrásögn og setur þessar sögur í það samhengi sem þær eig skilið. við það að skipta út nafni hverfur heilagleikinn og eftir stendur nakin grimmdin og þvælan. Það er ótrúlegur glæpur að stjórna fólki með sögu sem slær ótta í huga þess. Alger skáldskapur og ekki ólíkt því þegar eldri sistkyni ljúga að yngri til að stjórna þeim eða hrekkja.


Sigurður Karl Lúðvíksson - 18/09/08 17:42 #

Má til með, í þessu samhengi, að benda á Gunnar okkar, kenndan við krossinn

http://www.youtube.com/watch?v=qadp_TIx6Fw


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 18/09/08 20:54 #

Takk fyrir þessa vísun á Gunnar, smellpassar við greinina!


Jon - 29/09/08 13:36 #

Þetta er snilldarfrásögn og setur þessar sögur í það samhengi sem þær eig skilið. við það að skipta út nafni hverfur heilagleikinn og eftir stendur nakin grimmdin og þvælan. Það er ótrúlegur glæpur að stjórna fólki með sögu sem slær ótta í huga þess. Alger skáldskapur og ekki ólíkt því þegar eldri sistkyni ljúga að yngri til að stjórna þeim eða hrekkja.
Frábært! Ég hló, en grét svo. Kann fólk ekki að skammast sín? Mannkynsagan hefur kennt okkur að svo sé ekki.
Þetta var dásamleg endursögn, vel skrifuð og skemmtileg. Ég vildi að ég hefði skrifað þetta sjálfur. ;)

Þetta er fínt "self admiering society" þarna hjá ykkur.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 29/09/08 13:45 #

Þetta er fínt "self admiering society" þarna hjá ykkur.

Jon, tveir af þremur aðilum sem þú vitnar í tengjast Vantrú ekki með nokkrum hætti. Sá þriðji er frekar óvirkur í félaginu. Ég sé því ekki alveg sjálfshólið.

es. Ég lagaði uppsetningu athugasemdar "Jóns". Þess ber líka að geta að hann brýtur reglur sem við höfum um athugasemdir og gefur ekki upp rétt póstfang. Semsagt, þetta er bara einhver fábjáni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.