Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ranghugmyndir um Richard Dawkins

Alister McGrath er guðfræðiprófessor sem virðist hafa haft það aðalstarf síðustu ár að gagnrýna trúleysingjann Richard Dawkins sérstaklega og trúleysi, eða guðleysi, almennt. Það mætti segja að hann sé hálfgerður eltihrellir. Hann kom hingað til lands einmitt í þessum erindagjörðum og flutti meðal annars opinn fyrirlestur í boði guðfræði- og trúarbragðardeildar.

Aðalumfjöllunarefni McGrath eru bók Dawkins The God Delusion en hann fjallar einnig aðeins um málflutning Christopher Hitchens sem skrifaði bókina God is Not Great og Sam Harris sem skrifaði The End of Faith. Þessar bækur mynda að mati McGrath áhugaverðasta hluta þess sem hefur verið kallað nýja guðleysið.

Samkvæmt McGrath er kjarni boðskapar trúleysingja nútímans sá að "trúarbrögð eru uppspretta alls ills". Það væri að sjálfssögðu fráleitt að halda slíku fram og staðreyndin er að enginn gerir það. Hugsanlega er McGrath að vísa til sjónvarpsþátta sem Richard Dawkins gerði sem hétu The Root of all Evil? og vonar að þeir sem á hlýði hafi ekki séð þættina sjálfir né tekið eftir spurningamerkinu í titlinum. Alla vega kemur mjög skýrt fram í þættinum að Dawkins álítur trúarbrögð ekki rót alls ills.

Þeir sem hafa raunverulega kynnt sér þessar bækur hljóta að sjá að málflutningur McGrath er ekki í neinu samhengi við efni þeirra. Hann bæði ýkir og fer beinlínis með ósannindi til þess að sannfæra áheyrendur sína og lesendur um galla "nýja guðleysisins". Hættan er að sjálfssögðu að þeir sem láta sér nægja að kynna sér einhliða málflutning hans taki ekki eftir því hve rangt mál hann fer með.

Annað undarlegt við gagnrýni McGrath er það að hann skammar Dawkins fyrir að fjalla ekki nóg um jákvæðu þætti trúarbragða. Við sem búum í samfélögum þar sem kristni er ríkjandi trú höfum flest þurft að búa við gríðarlegan áróður um ágæti kristinnar trúar. Ég sé ekki fyrir mér að McGrath myndi telja það höfuðgalla á bókum Karl Sigurbjörnssonar að hann fjalli ekki nóg um neikvæða þætti trúar sinnar. Það eru bara trúargagnrýnendurnir sem fá þá kröfu á sig að fjalla um málið frá báðum hliðum. Eina krafan sem á raunverulega að gera til bóka er að í þeim reyni höfundar að halda sig við sannleikann.

Ég hvet þá sem vilja taka afstöðu um þessi mál að lesa þær bækur sem um er rætt, The God Delusion, God is not Great og The End of Faith til sjá hvort að McGrath gagnrýni þessar bækur á heiðarlegan máta. Þeir sem vilja skoða rangfærslur McGrath í bókinni Ranghugmynd Richard Dawkins (Dawkins Delusion?) geta litið á þetta 25 blaðsíðna yfirlit hér. Þar kemur meðal annars fram að strax í fyrstu setningu bókarinnar er farið með rangt mál.

Það má síðan að vona að sjónvarpsþátturinn The Root of All Evil? rati bráðlega í sjónvarpið, nægur virðist áhuginn vera á þessum málum.


Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 6. september sl.

Óli Gneisti Sóleyjarson 08.09.2008
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


danskurinn - 08/09/08 16:16 #

"Hugsanlega er McGrath að vísa til sjónvarpsþátta sem Richard Dawkins gerði sem hétu The Root of all Evil? og vonar að þeir sem á hlýði hafi ekki séð þættina sjálfir né tekið eftir spurningamerkinu í titlinum."

Dawkins veltir upp þeirri spurningu hvort trúarbrögð séu uppspretta alls ills. Ekki verður hægt að neita því. Og varla reiknar hann með því að vera sá eini sem má svara spurningunni. Dawkins tók reyndar viðtal við McGrath en klippti það út úr þætti sínum. Kannski er það svona svipað viðhorf og hjá Guðna framsóknarsprellikarli sem klippir ræður sínar á Alþingi eftirá svo hann líti betur út? Takið eftir spurningamerkinu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/09/08 16:38 #

Dawkins veltir upp þeirri spurningu hvort trúarbrögð séu uppspretta alls ills.

Dawkins vildi nota annað heiti á þættina og svarar þessari spurningu sjálfur í upphafi þáttanna þannig að svo sé ekki. Þannig að nei, Dawkins veltir þessari spurningu í raun ekki upp og ef menn vilja meina að hann hafi gert það, þá svaraði hann henni strax neitandi. Þetta kemur m.a. fram í viðtali sem Kastljós tók við Dawkins þegar hann kom til landsins.

Dawkins tók reyndar viðtal við McGrath en klippti það út úr þætti sínum.

Hér er viðtalið sem Dawkins setti sjálfur á óklippt á netið. Það er nóg að horfa á myndbandið til að fá skýringu á því af hverju það var ekki notað í þáttunum. McGrath segir ósköp einfaldlega ekkert af viti.


danskurinn - 08/09/08 18:17 #

"McGrath segir ósköp einfaldlega ekkert af viti."

Áttu þá við að aðrir viðmælendur Dawkins í þættinum hafi mælt mikið af viti? Eða átti þátturinn ekki einmitt að sýna andmælendur Dawkins sem rökþrota vitleysinga?

"..Dawkins veltir þessari spurningu í raun ekki upp og ef menn vilja meina að hann hafi gert það, þá svaraði hann henni strax neitandi."

Hann og framleiðendur þáttarins gefa upp boltann með þessum hætti. Það gefur andmælendum tækifæri á alhæfingum af svipuðum toga? (Takið eftir spurningamerkinu)


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 08/09/08 18:25 #

Það sem Matti á við er að McGrath er ómögulegt að tala hreint út. Hann svarar í löngu og flókni máli án þess að segja neitt í raun.

Var biskupinn í Oxford, sem fram kom í þættinum, rökþrota vitleysingur? Mér finnst hann mun verðugri fulltrúi ensku kirkjunnar heldur en McGrath.


LegoPanda (meðlimur í Vantrú) - 09/09/08 02:12 #

Það að draga endalaust upp val sjónvarpsstjóra hjá Channel 4 í Bretlandi á titlinum ,,The Root Of All Evil?" gerir ekkert til að svara raunverulegri gagnrýni trúleysisrithöfunda síðustu ára; það dreifir bara umræðunni.


danskurinn - 09/09/08 06:22 #

"Það að draga endalaust upp val sjónvarpsstjóra hjá Channel 4 í Bretlandi á titlinum ,,The Root Of All Evil?" gerir ekkert til að svara raunverulegri gagnrýni trúleysisrithöfunda síðustu ára; það dreifir bara umræðunni."

Þegar þú segir "The root of all Evil?" þá er spurningamerkið hljóðlaust. Kynnir sem væri að kynna þáttinn segði ekki "næst á dagskrá er þátturinn uppspretta alls ills spurningamerki". Spurningamerkið í þessari setningu hefur aðeins gildi sem hluti ritmáls. Sem hljóðmynd er þetta fullyrðing eða yfirlýsing. Einnig þegar McGrath segir nafn þáttarins? Takið eftir spurningamerkinu. Og það dreifir umræðunni. Hún fer að snúast um af hverju trúleysingjar eru alltaf svona reiðir.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 09/09/08 08:01 #

Af hverju ert þú svona reiður danskur?

Ef maður hlustar á málflutning Dawkins er alveg ljóst hvað hann er að tala um. Þegar McGrath er að tala er alveg ljóst að hann treystir á að fólk hafi ekki verið að hlusta á Dawkins og ekki lesið bækur hans. Finnst þér þetta heiðarlegur málflutningur danskur? Væri ekki betra ef McGrath myndi reyna að hrekja það sem Dawkins er í raun að segja frekar en að treysta á svona útúrsnúninga?


Þossi - 09/09/08 10:05 #

Þegar þú segir "The root of all Evil?" þá er spurningamerkið hljóðlaust. Kynnir sem væri að kynna þáttinn segði ekki "næst á dagskrá er þátturinn uppspretta alls ills spurningamerki". Spurningamerkið í þessari setningu hefur aðeins gildi sem hluti ritmáls. Sem hljóðmynd er þetta fullyrðing eða yfirlýsing.

Sem er ekki alveg rétt. Ef kynnir les heiti þáttanna sómasamlega, þá ætti tónninn að hækka í lok nafnsins, svo ekki fari á milli mála að hér sé um spurningu að ræða.


Nanna - 09/09/08 18:39 #

Var McGrath ekki bara að feta í fótspor annars vel þekkts eltihrellis með komu sinni hingað? Ef við ætlum að kalla gagnrýnendur eltihrella er erfitt að kalla Dawkins annað en eltihrelli trúarbragða ...

Væri ekki betra ef McGrath myndi reyna að hrekja það sem Dawkins er í raun að segja frekar en að treysta á svona útúrsnúninga?

Nú hef ég lesið bæði Dawkins og McGrath; ég fæ ekki betur séð en að Dawkins gagnrýni trúarbrögð málefnalega, og McGrath gagnrýni Dawkins að sama skapi málefnalega. Hvar fannst þér McGrath fara útaf sporinu, LegoPanda?

Og svo ég haldi áfram spurningamerkisumræðunni, að þá ber að benda á að bók McGraths heitir einmitt The Dawkins Delusion?, með spurningamerki - það hefur gleymst í grein þinni, Óli. :-)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/09/08 18:59 #

Dawkins gagnrýni trúarbrögð málefnalega, og McGrath gagnrýni Dawkins að sama skapi málefnalega

Í greininni vísar Óli Gneisti á þessa umfjöllun um bók McGrath. Þarna eru færð góð rök fyrir því að umfjöllun McGrath sé einmitt ekki málefnaleg.

þá ber að benda á að bók McGraths heitir einmitt The Dawkins Delusion?, með spurningamerki - það hefur gleymst í grein þinni, Óli. :-)

Mikið rétt en þú mættir benda útgefenda bókarinnar hér á landi á þetta líka því bókin er nýkomin út á íslensku og heitir hér einfaldlega Ranghugmynd Richard Dawkins (ekkert spurningamerki).


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 09/09/08 19:50 #

Og svo ég haldi áfram spurningamerkisumræðunni, að þá ber að benda á að bók McGraths heitir einmitt The Dawkins Delusion?, með spurningamerki - það hefur gleymst í grein þinni, Óli. :-)

Shame on me.


gimbi - 10/09/08 23:39 #

Ég var að lesa viðtal í Mogganum við þennan vitleysing, Alister E. McGrath.

Fyrsta setningin segir nú sína sögu: "Alister E. McGrath var þrettán ára gamall þegar hann ákvað að gerast trúleysingi."

Restin er innantómt þvaður. Má ég þá frekar biðja um Dawkins.


Sveinn - 11/09/08 13:32 #

Einhver sagði að "The Dawkins Delusion?" sé komin út á íslensku (frá hvaða útgefanda annars?) en eru hinar bækurnar þrjár eftir Dawkins, Harris og Hitchens sömuleiðis komnar út á íslensku?

gimbi, í hvaða tölublaði Morgunblaðsins var þetta viðtal?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 11/09/08 13:55 #

Sunnudagsblaðinu. Engin af þessum bókum eru komnar út á íslensku en GD er á stefnuskránni hjá einni útgáfu.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 11/09/08 16:13 #

Já er það? Gaman að heyra.


Auður - 08/09/09 17:33 #

Bókin hans McGrath sem hér er rætt um kom út á íslensku 2008: Ranghugmynd Richards Dawkins : trúleysisbókstafstrú og afneitun hins guðlega /


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/09/09 17:45 #

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.