Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúarlegt misrétti í lífi og dauða

Magnús Erlingsson prestur skrifar pistil á vefritið Trú sem kallast "Apartheid eilífðarinnar". Nú hugsa örugglega flestir að hér sé verið að ræða um aðskilnaðarkenningar Jesú varðandi þá sem fá að njóta himnaríkissælu og okkur hina sem verða brenndir í eldsofninum en svo er ekki.

Magnús er að tala um aðskilnað í kirkjugörðum. Honum finnst hrikalegt að fólk sem hefur ólíkar trúarskoðanir skuli ekki allt vilja láta planta sér niður á sama hátt. Því miður yfirsést honum að íhuga orðið kirkjugarður. Það er augljóslega staður fyrir kristið fólk. Af einhverjum ástæðum er ekki notað hlutlaust orð um þetta fyrirbæri.

En þetta er í raun lýsandi fyrir pistil Magnúsar í heild sinni. Hann virðist í raun aðallega hissa yfir því að það vilji ekki allir vera memm í kristilega leiknum. Ég hef ekki áhuga á að grotna niður í mold sem hefur á táknrænan hátt verið helgaður kenningum sem ég tel fráleitar og skaðlegar. Á sama hátt efast ég um að Magnús myndi vilja hvíla í grafreit sem væri merktur til dæmis: "Þeir sem hvíla hér eru horfnir að eilífu og munu aldrei snúa aftur".

Það er sjálfssagður réttur manna að líkamsleifum þeirra sem komið fyrir á þann hátt sem þeim finnst réttast - innan skynsamlegra marka þó (píramídar eru til dæmis full grand og sumt getur verið heilsuspillandi).

Magnús segir: "Ég á mér þann draum að garðarnir, þar sem látnir ástvinir hvíla, endurspegli íslenskt samfélag þar sem ríkir jafnrétti milli fólks, þar sem fólk býr saman í sátt og samlyndi."

Hér lítur Magnús framhjá því, eins og þeir sem njóta sérréttinda gera gjarnan, að það er ekkert jafnrétti trúarskoðanna á Íslandi. Ríkiskirkjan hans nýtur forréttinda á meðan trúleysingjar eiga að vera ánægðir með að mega vera trúlausir svo lengi sem þeir þegi um það.

Misskiptingin kemur ágætlega fram í dauðanum. Þeir sem gangast undir ríkiskirkjukerfið fá athöfn sem er í raun ríkisstyrkt og einnig þeir sem tilheyra viðurkenndum trúfélögum (en þó ekki jafn háan). Við sem erum fyrir utan þetta borgum ríkinu eins og hinir en þegar að dauðanum kemur þá fáum við engan styrk fyrir athöfn okkar. Þetta er dæmigert fyrir hið íslenska trúarmisrétti sem nær framyfir dauðann, misréttið sem Magnús Erlingsson græðir á í hvert skipti sem hann fær launatékkann sinn.

Óli Gneisti Sóleyjarson 22.08.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 22/08/08 21:12 #

Hvað er presturinn að hafa áhyggjur af hræjunum? "Látið þá dauðu grafa þá dauðu," sagði meistarinn. En svo trúa þeir á upprisu holdsins... (sem ég hef svo sem orðið vitni að sjálfur) ...en er nú orðið upprisu mannsins.

Hér áður fyrr voru það prestar og prelátar sem meinuðu sumum að hvíla í galdramoldinni (vígðri mold) ef þeir voru kirkjunni ekki þóknanlegir (sá sem þóknast ekki kirkjunni, þóknast auðvitað ekki guðinum). Þannig voru bannfærðir menn og glæpamenn jarðsettir utan vígðra reita.

En auðvitað snýst aðskilnaðarstefnan í eilífðinni um aðskilnað "réttlátra" og "ranglátra" (auðsveipra og sjálfstæðra), eða aðskilnað sauða og hafra. Sá aðskilnaður er fullkominn, alger og endanlegur en grundvallast fyrst og fremst á þrælslund manna gagnvart gyðingaguðinum ógurlega.


Teitur Atlason - 23/08/08 08:20 #

Þetta er ótrúlega kjánaleg hugleiðing hjá Magnúsi Erlingssyni. Hann lítur framhjá því að við upprisuna ríkir sannarlega aphartheit stefna. Þeir einir fara til himna sem "frelsast". Hinir grotna til eilífðarnóns ellegar þjást um í endalausri lúppu.

Þessi skoðun Magnúsar styrkir mig í þeirri trú að ríkiskirjuprestar eru afar illa að sér í efni trúarritsins sem þeir þó byggja starf sitt á.


Kristinn - 23/08/08 23:28 #

"Þeir sem gangast undir ríkiskirkjukerfið fá athöfn sem er í raun ríkisstyrkt og einnig þeir sem tilheyra viðurkenndum trúfélögum (en þó ekki jafn háan). Við sem erum fyrir utan þetta borgum ríkinu eins og hinir en þegar að dauðanum kemur þá fáum við engan styrk fyrir athöfn okkar."

Þetta finnst mér magnað. Ertu með link á lesefni um þetta málwefni sem ég get skoðað?


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 24/08/08 03:18 #

Margt hafa prelátar ríkiskirkjunnar skrifað um dagana sem hefur fengið mig til að glotta aðeins út í annað. Þessi aðskilnaðarpistill fer beint í topp tíu yfir bestu glottin.

Finnur einhver fimm villur í eftirfarandi textabút:

Ég á mér draum að geta gengið um kirkjugarða á Íslandi og séð þar hlið við hlið legsteina með krossum, búddalíkneskjum, mánasigð, þórshamri eða hvaða öðru tákni, sem vera skal.

Eins og kemur fram í pistlinum að ofan þá er lykilorðið kirkjugarður.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 24/08/08 05:21 #

Jamm, fyrst þarf að losa alla grafreiti og -garða undan kirkjunni og gefa ný nöfn. En af hverju í ósköpunum vill kennimaður sem tilheyrir költi sem skiptir fólki í hólpna/útskúfaða að allir liggi saman í kór, bæði frelsaðir og fyrirdæmdir? Er ekki aðskilnaðarstefnuna fyrst og fremst að finna í trúarsetningunum hjá þessu fólki?


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 24/08/08 08:52 #

Þessi grein Magnúsar kristallar hugmyndina um Ríkiskirkjuguðinn. Sá innifelur í rauninni alla aðra guði. Ríkisguðinn innifelur kristni, Islam, búdda, Wicca osfr.

Ríkisguðinn er fremstur meðal jafningja :)

Þessi skoðun Magnúsar er nokkuð merkileg og sætir tíðindum. Þarna er Magnús að brjóta fyrsta boðorðið. En það hljóðar svo:

"Ég er Drottinn Guð þinn. Þú skalt ekki aðra guði hafa".

Það verður spennandi að fylgjast með framvindu þessarar nýju guðfræði því sem áhugamaður um trúmál og sér í lagi nýtrúarhreyfingar þá er ljóst að ríkiskirkjan er búin að yfirgefa Biblíuna sem trúarrit. Spurning um hvað kemur i staðinn. Kannski "skynsemin" en ríkiskirkjan hefur alltaf haft horn í síðu skynseminnar og mennksunnar í manninum.


Örninn - 24/08/08 09:29 #

Þetta hér finnst mér æðislegt: "Kristin trú boðar ekki aðskilnað fólks heldur einingu, að við séum öll börn Guðs, öll sköpuð í hans mynd. Við erum öll börn jarðarinnar, komin af sameiginlegum forfeðrum. Á þessu hvílir mannhelgin og sú krafa að allar manneskjur eigi rétt á virðingu og umhyggju".

Þvílíkt kjaftæði verð ég að segja. Skiptir þessi spenakirkja á Íslandi ekki mönnum í hólpna og útskúfaða? Eru samkynhneigðir þá jafn réttháir og gagnkynhneigðir innan kirkjunnar? Trúlausir kannski líka? Er það ekki nóg að trúa ekki, til þess að brenna í vítiseldi til eilífðar?

Þessi grein er afar sérstök verð ég að segja.


Guðjón - 24/08/08 14:31 #

Það er mjög mikilvægt að virða óskir fólks um tilhögun útfarar og greftrunar. Þegar ástvinur deyr er fjöldskyldan að glíma við sorg og það má í engun kringumstæðum gera illt verra með þvi að haga útför eða gretrun í andstöðu við vilja fjölskyldunar svo fremi sem þær kröfur eru innan ramma laganna.

Ef Óli getur með engu móti hugsað sér að hvíla í vígðir mold á að sjálfsögðu að virða þá ósk hans. Og vonandi verður það svo þegar þar að kemur.

Ég er því í grundvallar atriðum sammála Óla.

En um leið er ég í mikilvægum atriðum sammála Magnúsi, það er í mínum huga ekkert stórmál hvort ég væri grafin milli tveggja vantúarmann eða fólks með einhverja aðra trúarskoðun. Ég er líka sammála Magnúsi um að gaman væri að hafa þá tilhögun ef það væri mögulegt. Trúarskoðanir og mismuandi kenningar í trúmálum eru ekki þess eðlis að æskilegt sé að þær valdi illindum og misklíð manna á meðal- við eru þegar allt kemur til alls allir menn og allir viljum við ráða lífi okkar sjálf og viljum sjálf komast að niðurstöðu í mikilvægum málum - við verðum því að virða rétt annars fólks til þess að komast að annari niðurstöðu en við sjálf.

Fjölbreytilegt mannlíf kallar á fjölbreytilegar skoðanir hvort sem það varðar greftun eða annað - en þurfa menn endilega að vera óvinir þó þeir hafi ólíkar skoðannir, ef til vill en mikið væri gaman ef svo þyrfti ekki að vera.


Gunnlaugur - 02/09/08 07:53 #

Ekki veit ég af hverju fólk er að hafa áhyggjur af því hvar því er holað niður. Konan mín hefur gert mér trúlausum fullkomnlega grein fyrir því að mér komi ekkert við hvernig frá mér verður gengið önduðum. Ég verði hvort eð er ekki viðstaddur. Því muni þarfir fjölskyldunnar fyrir sorgarferli og kveðjur vera fjölskyldunnar mál. Ég get drepist með þá ósk á vörum að vera brenndur í trékassa í bakgarðinum við tónlist Tindersticks af geisladisk(skil ekki því greftrun þarf að kosta fjölskyldur fleiri hundruð þúsunda)og öskunni dreift á Faxaflóa. En þegar allt kemur til alls snýst jarðarför fyrst og fremst um þá sem eftir lifa en ekki þann sem sameinaðist lífríkinu endanlega.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 02/09/08 08:56 #

Hefur konan þín sama viðhorf um eigið andlát, að hennar óskir skipti engu máli?


Jón Steinar - 04/09/08 05:00 #

Fyrir utan sjálfhverf markmið þessara skrifa prestsins, sem reynir að sveipa sig ljóma umburðarlyndis og manngæsku, sjálfum sér til upphefðar um leið og hann undirstrikar kynþáttaaðskilnað, með því einu að nefna þjóðerni og trúarbrögð, sem slík, þá finnst mér þessi grein hrópleg gengisfelling á ræðu Martin Luther. Hann á sér kannski draum blessaður um að verða sameiningargoð á borð við hann. Dream on Magnús minn. Þú stendur eingöngu eftir sem kjánaprik. Vemmilegar ritningatilvitnanir hans, sem eru algerlega utan samhengis opinbera svo aðskilnaðaráráttu hans sjálfs og sannfæringar hans um að vera í liði með þeim eina rétta. Margur heldur mig sig.


Jón Steinar - 04/09/08 05:08 #

Sennilegast er undirrót skrifanna þó leyndar áhyggjur prests af stórri tekjulind þjóðkirkjunnar.


Gunnar Kristjánsson - 16/06/11 14:14 #

Má nokkuð grafa þá dauðu annars staðar en í kirkjugörðum?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.