Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Til merkis um fordóma

Ég rakst um daginn á 6 ára gamlan pistil eftir séra Sigurð Ægisson í Morgunblaðinu. Í honum fjallar hann um íslenska fánann en fer víða og klaufalega um.

Flónskan er áberandi þegar Sigurður segir okkur að lögmálið sem heiðnir menn á Íslandi hafi farið eftir væri "auga fyrir auga, tönn fyrir tönn". Kjarni siðaboðskapar vonda Ásatrúarfólksins var semsagt beint úr biblíu kristinna manna. Sigurður lætur það ónefnt að ofbeldisfyllsta tímabil Íslandssögunnar hafi átt sér stað eftir að kristni var lögtekin.

En það er annað sem er áhugaverðara í þessum pistli. Hann reynir þarna að upplýsa okkur um hvað krossinn merki í sínum huga:

Mér dettur oft í hug gömul saga af manni í flugvél einhvers staðar yfir myrkviðum Afríku. Eldsneytið var á þrotum, og innan fárra mínútna yrði hann nauðbeygður til að lenda. En hann vissi, að það var ekki sama hvar. Að lenda nærri hausaveiðurum þýddi bara eitt, dauðann. Hann gæti því eins sveimað yfir trjánum á meðan vélin héldist uppi, í von um að sjá kannski innan tíðar það, sem hann vissi að myndi þýða björgun úr lífsháskanum: krossmark á húsi. Þar hjá myndi öruggt að lenda, því Kristur væri búinn að taka öll völd í því samfélagi, væri búinn að helga það og vígja, eignast hjörtu manna þar og kvenna og barna.

Og þetta gekk eftir, er sagt; maðurinn lenti hjá trúboðsstöð og komst heill frá voðanum.

Lítill kross á réttum stað getur því haft mikið að segja, fleira en mörg orð. Og sú þjóð, sem heldur uppi því merki, er að segja við umheiminn: Kristur er hér, í þessu landi, í hjörtum og öllu atferli fólkins; hér er öruggt að vera.

Þó ég geti ekki verið viss þá get ég ekki annað en ályktað að sagan sem Sigurður segir þarna sé flökkusaga sem gangi um meðal kristinna manna og þá líklega helst kristniboða. Flökkusögur segja oft mikið um þá sem endurtaka þær. Á yfirborðinu er hún um krossinn sem tákn en í raun segir hún mest um viðhorf þess sem segir söguna til þeirra sem eru ekki kristnir.

Þarna er verið að fjalla um grey fólkið í Afríku sem þarf á því að halda að kristnir komi og bjargi þeim frá eigin villumennsku. Orðfærið sem Sigurður notar afhjúpar hann. Hann talar um "myrkustu Afríku" og "hausaveiðara". Saman mynda þessi orð rasískan undirtón sögunnar.

Myrkasta Afríka er að einhverju leyti vísun á þann tíma er Afríka var ókortlögð. En hugtakið vísar líka í litarhaft fólksins sem byggir heimsálfuna. Þetta er rasískt hugtak sem er sem betur fer á undanhaldi nú á dögum.

Sögur um hausaveiðara í Afríku voru lengi á Vesturlöndum. Þær styrktu hugmyndir manna um að þarna væri villt fólk sem þyrfti á okkur að halda til að siða það. Kristniboðar hafa lengst af verið fremstir í þessum siðunartilraunum. Sannleikurinn er sá að hausaveiðar hafa bara aldrei verið algengar í Afríku. Það er líka ólíklegt að slíkt hafi lifað inn á tuttugustu öldina og allavega ekki því mæli að þetta hafi verið raunveruleg hætta. Staðreyndin er sú að almennt þá hefur það verið hvíta fólkið með sína fallegu krossa sem hefur ógnað frumbyggjum Afríkum en ekki öfugt.

Í þessum pistli sínum reynir Sigurður að sýna fegurð eigin tákns með því að benda á ljótleika hjá öðrum en í raun gerir hann ekkert annað en að afhjúpa sjálfan sig.

Óli Gneisti Sóleyjarson 18.08.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Óskar P. Einarsson - 19/08/08 11:55 #

Jú, akkúrat: "...að þarna væri villt fólk sem þyrfti á okkur að halda til að siða það". Já, og ræna þau og rupla af öllum náttúruauðlindum í leiðinni, auðvitað.

Hvern andskotann værum "við" kristna fólkið annars að þvælast þangað?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.