Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um refsiverða og ríkisstudda mismunun á samkynhneigðum

Nú er komið að hinsegin dögum. Þá er alltaf hýrt yfir Vantrú. Nýlega fengu samkynhneigðir ákveðna réttarbót en það er ekki enn nógu langt gengið. Ólíkt Karli Sigurbjörnssyni þá teljum við réttindabaráttu samkynhneigðra ekki lokið enn.

Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hefur tekið sig til og bent á þá staðeynd að það er refsivert að mismuna hinsegin neytendum. Þetta þýðir að samkynhneigðir eiga rétt á að fá sömu þjónustu og gagnkynhneigðir hvar sem þeir fara. Þetta skiptir líklega helst máli þegar um er að ræða hótel, veitingahús og kannski sérstaklega skemmtistaði. Þeir sem vilja kynna sér það hvers vegna svona lög eru nauðsynleg get lesið sér til um þá mismunun gegn samkynhneigðum á Íslandi í gegnum tíðina í nýlegu afmælisriti Samtakanna 78 (mjög áhugavert blað þar á ferð).

En á sama tíma og ríkið er að berjast gegn mismunun gegn samkyhneigðum á einu sviði þá lögleiðir það mismunun á öðru. Sökum þrýstings, meðal annars frá ríkiskirkjunni og þá líklega sérstaklega biskup hennar, er prestum og öðrum sem hafa leyfi til að gefa saman pör, heimilað að hafna því að gefa saman samkynhneigða. Ef svipuð lög ættu við um hótel þá gætu samkynhneigð pör allt eins átt von á því að vaktstjórar höfnuðu þeim um að sofa í sama rúmi eða sama herbergi.

Það er áhugavert að við skulum gera minni kröfur til trúfélaga heldur en þjónustuaðila. Þó myndu flest trúfélög halda því fram að þeirra starf sé göfugra. Þetta er í raun afhjúpandi að trúfélög krefjist sérþjónustu.

Það þarf varla að taka það fram að við í Vantrú aðhyllumst trúfrelsi. Það þýðir að við teljum það að vissu marki vera rétt trúfélaga að þurfa ekki að brjóta svona gegn kenningum sínum. Það er ljóst að í raun passar samkynhneigð ekki inn í heimsmynd biblíunnar nema á mjög neikvæðan máta. Það er í sjálfu sér afhjúpandi fyrir biblíuna.

En trúfrelsi getur ekki verið afsökun ríkiskirkjunnar. Það að ríkið sé sérstaklega að verja og styrkja trúfélag sem leyfir svona mismunun er óþolandi. Undanþágan fyrir hómófóbíska klerka ætti því ekki að vera til staðar hjá ríkiskirkjunni. Ef kirkjan vill frelsi til að mismuna þá ætti hún um leið að neita sér um sína sérstöku stöðu og alla þá aukapeninga sem henni fylgir. Af hverju ættum við að ætlast til minna af ríkisstofnun sem telur sig fulltrúa góðra afla?

En þess fyrir utan óskar Vantrú öllum hýrra hinsegin daga og hvetur alla sem langar til að prufa að vera hinsegin að gera það alla vega einu sinni ef ekki á hverjum degi.

Ritstjórn 07.08.2008
Flokkað undir: ( Tilkynning )

Viðbrögð


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 09/08/08 00:19 #

Ég hef engu við þetta að bæta og segi bara takk fyrir þessi skrif.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.