Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ástir samkynhneigðra hjóna-leysa

Hommar og lesbíur hafa um nokkurt skeið getað skráð sig í sambúð hjá Þjóðskrá, en þá heitir hún reyndar staðfest samvist.

Nú hefur Alþingi heimilað trúfélögum að taka við umsóknum um staðfesta samvist – sem þau svo skila til Þjóðskrár.

Staðfest samvist samkynhneigðra hefur ekkert breyst, hún er nákvæmlega það sama og sambúð gagnkynhneigðra – ekki hjónaband.

Trúfélög þurfa ekki samþykki eða leyfi Alþingis til að blessa, helga eða lofa eitt eða neitt. Þau þurfa hins vegar leyfi Alþingis til að geta tekið við umsóknum um skráningu í Þjóðskrá. Þannig hafa forstöðumenn trúfélaga og prestar Þjóðkirkjunnar heimild til að taka á móti umsókn um nöfn, skráningu í trúfélag og giftingu.

Nú hefur bæst við að prestar geta skilað inn skráningu í staðfesta samvist samkynhneigðra, en ekki sambúð gagnkynhneigðra.

Sér einhver meinlokuna í þessu? Veraldlegur gjörningur, eins og nafngjöf, skráning í trúfélag, gifting og sambúð/staðfest samvist er skráð af veraldlegum yfirvöldum. Auðvitað kemur ríkisvaldinu ekkert við í hvaða trúfélagi menn eru, eða eru ekki. Að sama skapi varðar trúfélög ekkert um nafngjöf eða skráningu fólks í sambúð/staðfesta samvist. Raunar varðar trúfélög ekkert heldur um hvort fólk kýs að rugla saman reitum fjárhagslega, þ.e.a.s. að deila til jafns eignum, tekjum og skuldum og veita hvoru öðru erfðarétt – hjónaband.

Skráning nafna ætti alfarið að vera í höndum Þjóðskrár. Skráning fólks í sambúð ætti alfarið að vera í höndum Þjóðskrár. Skráning fólks í staðfesta samvist ætti alfarið að vera í höndum Þjóðskrár. Skráning fólks í hjónaband ætti alfarið að vera í höndum Þjóðskrár. En skráning fólks í trúfélög ætti alfarið að vera í höndum trúfélaga. Svo mega fulltrúar trúfélaga viðhafa þær galdraathafnir sem meðlimir þeirra kjósa í tengslum við þetta allt saman, eins og þeim sýnist.

Samkynhneigt fólk sem lætur kirkjuna blessa samvist sína fær vissulega staðfesta samvist skráða í Þjóðskrá, en það er ekki gift, það er ekki í hjónabandi. Þess vegna er grátlegt að sjá homma og lesbíur nú þiggja blessun presta sem hafa heitið því að boða guðs orð hreint og ómengað (samkvæmt vígslubréfum sínum). Guðs orð hreint og ómengað segir að ástir samkynhneigðra séu viðurstyggð.

Enn grátlegra er að sjá svo blessað fólkið segjast ætla í brúðkaupsferð. Prestar sem blessa samvistir samkynhneigðra gefa guðsorði langt nef, blessa það sem drottinn þeirra kallar viðurstyggð og virðast blekkja fólk til að halda að það sé gift.

Kirkjan hefur löngum barist gegn kynlífi utan hjónabands. Sambúð fólks fyrir og utan hjónabands hefur verið og ætti að vera þyrnir í augum hennar. Ef hún blessar nú slíkt samræði blessar hún kynlíf utan hjónabands. Vilja prestar blessa sambúð gagnkynhneigðra - og þar með kynlíf þeirra utan hjónabands - eða er það bara viðurstyggilegt kynlíf sem þeir vilja blessa, utan hjónabands?

Kannski er ekkert að þessu ef allir eru ánægðir. Er þetta ekki alveg á pari við aðra vitleysu kirkjunnar... og þjóðfélagsins?

Reynir Harðarson 05.07.2008
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 05/07/08 14:26 #

Góð grein Reynir. Það er ljóst að pr. starfsemi ríkiskirkjunnar hefur tekist að plata almenning þannig að samkynhneigðir voru látnir kyngja lélegum lögum. Það er ljóst að biskup tókst að fleygja réttindum samkynhneigðra á sorphauganna. Biskup og aðrir fóbíuprestar hljóta að fagna sigri með öllum talibönum þessa heims. Það var því leiðinlegt að sjá presta sem hafa vilja viðurkenna rétt samkynhneigðra til hjónabands taka þátt í pr.mennsku biskupsstofu um málið.


Aðalbjörn leifsson - 05/07/08 18:33 #

Þessu get ég verið sammála. Það samrýmist ekki kristinni trú að blessa samkynhneigt samband. Aftur á móti geta aðrir trúsöfnuðir vilji þeir gera svo gert það. Prestar og aðrir safnaðarleiðtogar gefa ekki börnum nöfn, heldur foreldrar yfirleitt. Það þarf að koma í veg fyrir alskonar ónefni og þá er gott að hafa einhvern sem getur leiðbeint fólki um það. Ég vil biðja algóðan Guð minn um að blessa ykkur í Jesú nafni Amen.


Steinunn Guðmundsdóttir - 05/07/08 23:01 #

Getur verið að byrjun greinarinnar sé byggð á misskilningi? Í íslenskri löggjöf eru þrjú viðurkennd sambúðarform, hjúskapur, staðfest samvist og óvígð sambúð. Bæði samkynhneigðir og gagnkynhneigðir geta skráð sig í sambúð, kyn skiptir ekki máli eftir setningu laga nr. 65/2006, sbr. t.d. 1. gr. Stofnun staðfestrar samvistar hefur sömu réttaráhrif og stofnun hjúskapar, sbr. 5. gr. laga nr. 87/1996 um staðfesta samvist. Sem dæmi má nefna getur staðfestri samvist lokið með andláti maka, ógildingu eða lögskilnaði líkt og hjúskapur, sbr. 7. gr. laga um staðfesta samvist. Það er því ljóst að staðfest samvist er sambærileg hjúskap en ekki óvígðri sambúð, þar sem samkynhneigðir eiga þess kost að skrá sig í sambúð líkt og gagnkynhneigðir. Staðfest samvist stofnar erfðarétt eftir maka líkt og í hjúskap og því t.d. rétt til setu í óskiptu búi en slíkt stofnast ekki hjá einstaklingum í óvígðri sambúð. Hins vegar finnst mér óljóst af hverju sérstök lög um staðfesta samvist voru sett til þess að rétta stöðu samkynhneigðra í stað þess einfaldlega að gera breytingar á hjúskaparlögum.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 06/07/08 13:25 #

Þetta er rétt hjá Steinunni. Takk fyrir upplýsingarnar. Hér gaspraði ég af vanþekkingu en tek undir með Steinunni að ég skil ekki af hverju sérlög eru um staðfesta samvist.

Hitt stendur þó óhaggað að kirkjan lítur ekki á staðfesta samvist sem hjónaband - og rök sem að því lúta í greininni standa því.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.