Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Aðvörun til kirkju og skóla

DV fjallar í dag um þrautagöngu trúlausra foreldra sem vilja frábiðja sér óþolandi trúboð í leik- og grunnskólum.

Auðvitað þykist presturinn ekki sjá neitt athugavert við reglulegar heimsóknir sínar í leikskóla eða að messa yfir grunnskólabörnum. Leik- og grunnskólakennarar eru þó að vakna upp við vondan draum og átta sig á að þeir hafa lengi og hugsunarlaust verið á hálum ís, svo ekki sé meira sagt, í samskiptum kirkju og skóla.

Nú fullyrðir skólastjóri að messuferðir séu alfarið á forsendum kirkjunnar. Á vef kirkjunnar segir þó um samstarf kirkju og skóla:

Tileinkun trúar eða lífsskoðunar fer fram á heimilum, í kirkjum eða trúfélögum. Þjóðkirkjan er reiðubúin að veita heimilum og skóla þjónustu í tengslum við trúarfræðslu. Sú þjónusta sem veitt er skólanum verður þó alltaf að vera á forsendum hans.

Þegar börnum er beinlínis innrætt kristin trú í skólum er vegið að frelsi foreldra til að annast trúarlegt uppeldi barna sinna samkvæmt sinni trú. Þetta frelsi er tilgreint í 4. mgr. 18. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þegar skóli leggur blessun sína yfir trúboð er hann líka að brjóta gegn 2. gr. samningsviðauka nr. 1 um verndun mannréttinda og mannfrelsis sem segir að í skólum skuli séð til þess að menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.

Norskir foreldrar hafa fengið staðfest með úrskurði Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna að norska ríkið braut gegn þessu frelsi og með dómi Mannréttindadómstóls Evrópu að kennslan braut á rétti þeirra. Þó eru ákvæði í norskum lögum sem eiga að tryggja foreldrum að þeir geti beðist undan trúboði í skólum, s.s. messuferðum, en því er ekki að heilsa hér. Því er ljóst að hafi norsk stjórnvöld verið sek eru íslensk stjórnvöld helsek.

Trúlausir foreldrar hafa til þessa mátt sitja undir gegndarlausu trúboði. Allar tilraunir til að höfða til samvisku, löghlýðni, réttlætiskenndar, mannvirðingar og kærleika kirkjunnar manna hafa engan árangur borið. Menntasvið Reykjavíkur hefur þó tekið við sér og samþykkt viðunandi stefnu í samtarfi skóla og kirkju. Þessari stefnu þarf hins vegar að fylgja.

Séu heimsóknir presta í leikskóla og messuferðir grunnskólabarna að frumkvæði og á forsendum kirkjunnar, eins og skólastjóri fullyrðir, er kirkjan sek um lögbrot. Sé skólinn ábyrgur, eins og kirkjan fullyrðir, er skólinn sekur um lögbrot. Þar sem um „samstarf“ þessara aðila er að ræða hlýtur þó að mega draga þá ályktun að báðir séu jafnsekir.

Næsta tilvik um óþolandi trúboð í leik- og grunnskólum þarf að kæra til lögreglunnar. Það frelsi sem tryggt er í mannréttindasáttmálum ber og verður að virða.

26. gr. skaðabótalaga (nr. 50/1993): Heimilt er að láta þann sem: a. af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni eða b. ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við.

Reynir Harðarson 19.06.2008
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Guðjón - 19/06/08 17:14 #

Þetta eru greinilega breyttir tímar sem grunnskólinn verður að laga sig að. Auðvita verður að finna málamiðlunarleiðir sem allir geta unað við.

En það verður að vera málamiðlun sem allir geta sætt sig við- ekki bara sá hluti sem viðkvæmastur er. Ástæða þess að þetta er vandi er að flestir íslendingar eru svo vanir því að prestar taka þátt í alls lags viðburðum að þeir eiga erfitt með að skilja þessa ofurviðkvæmi. Þetta mál væri allt annars eðlis ef ég héldi í raun og veru að það gæti í raun og veru haft einhver skaðleg áhrif á börn að fara í kirkju.

Það væri forvitnilegt að vita hvað trúlausum finnst um þetta mál-


Kristján Hrannar Pálsson - 19/06/08 17:43 #

Guðjón: Þú nefnir að ekki bara þeir viðkvæmustu verði að vera sáttir með starfsaðferðir skólanna. Hvers vegna er það viðkvæmni að gera þá sanngjörnu kröfu að trúboð sé ekki stundað í almennum skólum?


Arnold Björnsson - 19/06/08 18:36 #

Guðjón, þetta mál er í raun sára einfalt. Þetta snýst um að lög séu virt. Þar er ekkert val um málamiðlanir. Eftir lögum og reglum þurfa ALLIR að fara. Ef einhver er ósáttur við viðkomandi lög og reglur getur viðkomandi hafið baráttu gegn þeim. Hann getur talað við sína þingmenn og þrýst á að þeir breyti lögunum og gangist fyrir því að íslendingar segi sig frá alþjóða mannréttindasáttmálum sem íslendingar eru aðilar að. Hvað hverjum og einu finnst um samstarf kirkju og skóla er í raun algjört auka atriði. Lög eru lög og fyrir þeim eiga allir að vera jafnir, líka séra Jón.

Þeir skólar sem bregðast við og fara að þessum lögum eru ekki að þóknast fáum. Þeir eru einfaldlega að taka faglega á stjórnun skólanna og fara að þeim reglum sem þeir eiga að starfa eftir.


Sævar - 19/06/08 18:40 #

Sæll Guðjón.

Sem sagt, kirkjan og skólinn þurfa að fara eftir lögum því að sumir eru svo viðkvæmir.

Ég er með hugmynd af málamiðlunarleið: Kirkja og skóli fara eftir lögum.

Eða er það leið sem ekki er hægt að una við?


Jón Frímann - 19/06/08 20:38 #

Nota lögin, kæra kirkjuna fyrir þetta. Einnig skal kæra menntamálaráðuneytið eða skólann eftir því við á.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 19/06/08 21:04 #

Forsendur skóla (samkvæmt Evrópudómstóli):

The second sentence of Article 2 of Protocol No. 1 implies on the other hand that the State, in fulfilling the functions assumed by it in regard to education and teaching, must take care that information or knowledge included in the curriculum is conveyed in an objective, critical and pluralistic manner. The State is forbidden to pursue an aim of indoctrination that might be considered as not respecting parents' religious and philosophical convictions. That is the limit that must not be exceeded (ibid.).

Norska ríkið var dæmt sekt um brot á þessu forsendum.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 19/06/08 21:21 #

Forsendur kirkjunnar:

Þjóðkirkjan skilgreinir sig sem biðjandi, boðandi og þjónandi kirkju. Orð Guðs er boðað í guðsþjónustum, í barna og æskulýðsstarfi, helgistundum – og reyndar á boðunin að umvefja og merkja allt starf kirkjunnar. Hún hefur það hlutverk hér í heimi að boða Jesú Krist og að vitna um kærleika hans. Þannig stundar þjóðkirkjan boðunarstarf eða trúboð hér heima.


Ólafur Sigurðsson - 20/06/08 00:49 #

Prestar hafa lengi fengið útprentaðar kennitölurnar með bekknum, borið þær svo saman við skráningar í þjóðkirkjunni, og komið þeim sauðum í hús sem þurfti. Þetta hefur viðgengist lengi, þó ekki fari hátt. Þó minna síðari árin kannski, en þetta var alþekkt. Kannast ekki einhver annar við dæmi um þetta? Þarf ekki einhver að fara kæra, en hvert??


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 20/06/08 01:17 #

Lögbrot á að tilkynna til lögreglu. Prestar eru opinberir starfsmenn og virði þeir ekki lög eru þeir sekir um hegningarlagabrot. Það sama á við um stjórnendur skóla. Saksóknara ber að sækja menn til saka sem brjóta hegningarlög.

Presta má auk þess t.d. kæra til siðanefndar Prestafélagsins, úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar og beint til biskups.

Kennara og skólastjóra má kæra til fræðslusviðs eða skóladeildar viðkomandi bæjarfélags, til bæjarráðs eða bæjarstjórnar, menntamálaráðuneytisins og samgöngumálaráðuneytisins (þar er yfirstjórn sveitarstjórnarmála).

Ef þessir aðilar bregðast má svo kvarta til umboðsmanns Alþingis.

Þeir sem kæra mega þó búa sig undir dræmar undirtektir. Það er alvarlegt brot að stela Snickers í sjoppu en brot á mannréttindalögum er auðvitað annað mál (þar sem skaðinn getur varla verið mikill). Lögreglan er óvön kærum vegna mannréttindabrota og er treg til að rannsaka atvinnugóðmenni. Sveitarstjórnarmenn þekkja ekki mannréttindalöggjöf og vita ekki hvað hún þýðir.

Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar telur að störf presta geti ekki talist starfsemi á vegum þjóðkirkjunnar. Umboðsmaður alþingis vill ekki skipta sér af helgihaldi þjóðkirkjunnar. Bæjarstjórnin vísar á menntamálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið vísar á ábyrgð sveitarfélaga.

Við lifum í dal hinna blindu, því miður. En þetta eru leiðirnar. Ef þær bregðast allar má alltaf höfða einkamál fyrir dómstólum. Menn mega þá búast við að þurfa að reka það fyrir héraðsdómi, hæstarétti og svo í New York og Strassbourg, líkt og norsku foreldrarnir.

Ef einhverjir lesendur vilja kæra skal ég glaður hjálpa til. Við kunnum lögin, þekkjum rökin og leiðirnar, höfum dómafordæmin og jafnvel tengsl við lögmenn sem unnu málin fyrir norska foreldra. Við höfum hlaupið á suma þessara veggja og erum að undirbúa áhlaup á aðra. Því fleiri sem nenna að verja rétt sinn og frelsi, því líklegra er að augu manna opnist.


gaur - 20/06/08 02:43 #

Afhverju stendur vantrú ekki fyrir söfnun á peningum, peningur sem ætlað er til að verja rétt íslendinga til trúfrelsis og til aðstoðar við kæru.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 20/06/08 08:34 #

Vantrú hefur á sér soddan óorð og kæmi það illa út fyrir ðeningasöfnun ef hún væri í nafni Vantrúar.


Jón Magnús - 20/06/08 09:10 #

Ég myndi nú frekar segja að Vantrú gæti ekki staðið í lögsóknum í svona málum þar sem félagið er ekki aðili að málinu. Einstaklingar sem brotið er á eru þeir sem þurfa að höfða málið.

Vantrú gæti hugsanlega hlaupið undir með sumum en félagið sjálft á enga peninga og fær enga peninga nema þá sem meðlimir sjálfir sjá fært um að láta renna til þess.

Síðan finnst með söfnun til styrktar málshöfðun eitthvað sem myndi örugglega fá dræmar undirtektir en maður veit s.s. aldrei en ég sé það ekki gerast.

Að lokum er t.d. Ásatrúafélagið með málsókn í gangi og hugsanlegt að Siðmennt fari í mál líka en Vantrú er ekki og mun ekki fara í mál vegna trúboðs í skólum.


M - 21/06/08 00:11 #

[ athugasemd færð á spjallið]


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 21/06/08 12:06 #

Fréttablaðið í dag:

Vill tíu milljónir króna

"Þegar grundvallarmannréttindi eru fótum troðum af ríkisvaldi og lögreglu hlýtur að eiga að dæma mjög háar skaðabætur til að tryggja að varnaðaráhrif skaðabótareglna nái tilgangi sínum," segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson héraðsdómslögmaður.

Það sama hlýtur að eiga við ríkisvald og skóla, ríkisvald og kirkju.


Gunnar Örvarsson - 22/06/08 13:43 #

Ég efast stórlega um að kærumál hafi einhver áhrif, a.m.k. ekki þessa dagana. Ítök afturhaldsins innan lögreglu og dómskerfis eru einfaldlega alltof sterk til þess að réttarríkið fái notið sín. Þetta vita margir, sem hafa reynt á eigin skinni. Leitt að segja þetta, en svona er þetta einfaldlega. Við sem viljum raunverulegt trúfrelsi þurfum líklega að ganga "píslargönguna" enn lengra, áður en birtir af degi hvað þetta varðar. En aldrei skulum við gefast upp!


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 23/06/08 12:38 #

Meira í DV:

Sigurður Árni Þórðarson, prestur í Neskirkju, tekur undir að trúarlegt kirkjustarf sé réttlætanlegt sem hluti skólastarfs. Hann leggur hins vegar áherslu á að umgjörð fyrir þá sem aðhyllast aðra trú eða lífsskoðun verði að vera góð.

Hugsið ykkur!


Jón Steinar - 23/06/08 19:18 #

'Eg er hissa á að enginn hér hafi kíkt á mannréttindasáttmálann, sem prestur vitnar svo fjálglega í. Þá grein er hann vitnar til er hvergi að finna og raunar ekki í barnasáttmála sameinuðu þjóðanna. Raunar segir það sig sjálft að slíkar klásúlur eru ekki inni vegna secular þjóða, sem eru aðilar. Hann lýgur og þvaðrar og telur það OK að læðast á bakvið foreldra með loddaraskap sinn.
Hann færir einnig þau aumkunarverðu rök fyrir laumupokahættinum að börnin verði að fá að kynnast prestinum sínum, áður en þau mæta honum í harmi og mótlæti í lífinu. Vá! Er það grunnurinn? Foreldrar geta farið með börn sín í kirkjur eða sunnudagaskóla og ef þau gera það ekki þá segir það sína sögu um afstöðu þeirra. Þetta telur prestu ástæðu til að læðast inn til sakleysingjanna án samráðs eða samþykkis aðstandenda. Ekki dettur þeim í hug að fara inn í framhaldskólana, þar sem snefill af gagnrýnni hugsun og þroska hefur síast inn. Þeir vita að þar eiga þeir ekki séns. Hann mjálmar líka um að bænin sé ekkert hættuleg, eins og einhver hafi sagt það. Hann er þarna á upplognum, óverjandi og ólöglegum forsendum. Hann er opinber starfsmaður og það á að vera hægt að kæra málið til umboðsmanns Alþingis án tilkostnaðar. Að vísu felur það í sér að vanda greinargerðir og vísa í landslög og alþjóðalög, til að opinbera gerninginn. Þetta er alger viðbjóður. Manni flökrar. Í fúlustu alvöru.


Jón Steinar - 23/06/08 19:23 #

Mikil er rausn, Sigurðar Árna. Og auðmýktin, svo ekki sé talað um botnlaust umburðarlyndið og skilninginn. Þar talar sá telur sig hafa hið eina sanna drottnunarvald.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.