Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Félag um hroka og afneitun

Okkur trúleysingjum er oft borið á brýn að það sé asnalegur tvískinnungur af okkur að hafa stofnað félag um að hafna yfirnáttúrutrú. Lífsafstaða okkar sé í rauninni trú, og Vantrú og álíka félög séu í rauninni trúfélög í afneitun. Það er vitanlega bull og vitleysa að Vantrú sé trúfélag í nokkrum sanngjörnum eða eðlilegum skilningi orðsins. Fyrir það fyrsta er ekkert sem við í Vantrú eigum sameiginlegt annað en að hafna yfirnáttúru og yfirnáttúrulegum skýringum á náttúrulegum fyrirbærum. Við eigum okkur ekki sameiginlega lífsskoðun umfram það og í húsi okkar eru jafn margar vistarverur eins og afbrigði trúleysis eru.

Það hefur líka verið nefnt oftar en tölu verður á komið, að trúleysi er ekki trú heldur andstæðan við trú -- á sama hátt og það telst hvorki áhugamál að safna ekki frímerkjum né hárgreiðsla að vera með skalla. Það kann að vera súrt fyrir trúaða að heyra að það séu ekki allir eins og þeir, en við því er ekkert að gera. Só sorrí, en við erum bara ekki trúuð. Ég skil svo sem alveg þessa áráttu sumra að klína trúarstimpli á alla. Nú lýsir maður því yfir að maður trúi á engla, álfa eða jólaköttinn, og er ekkert að grínast með það. Þegar einhver andmælir og segist ekki deila þessari trú með manni -- „þessu trúi ég nú ekki“ -- þá er auðvelt fyrir þann sem er óöruggur í trúnni að lesa á milli línanna hjá efasemdamanninum: „Þú ert nú bara vitlaus.“ Jafnvel þótt það sé ekkert meint þannig. Það er svo sem ósköp skiljanlegt að einhverjum finnist það hljóma hrokafullt þegar menn láta í það skína að þeir viti betur. Ef ég segi einhverjum að það sem hann trúir á sé bara kjaftæði, þá er líka ósköp skiljanlegt að hann fari í vörn og hugsi sem svo að ég trúi nú bara sjálfur á kjaftæði. Ég geti nú bara sjálfur verið vitlaus. Ég sé nú bara sjálfur trúaður. Þetta geta bæði verið heiðarleg viðbrögð hjá þeim sem er óöruggur og ódýrt trix hjá þeim sem vill sverta efasemdamanninn.

En þetta er auðvitað ekki issjúið. Öll höfum við víst einhverjar ógáfulegar eða órökréttar hugmyndir, en það nægir ekki til að gera okkur öll að trúmönnum. Munurinn liggur í því prinsippi hvort fólk sættir sig við yfirnáttúruskýringar eða ekki. Hvort fullorðið fólk tekur „af því guð segir það“ eða álíka speki sem gilt svar eða ekki. Það asnalega við þetta er að með því að gera alla að trúmönnum, gjaldfella trúmenn sína eigin trú; það er nefnilega ekkert merkilegt við að vera trúaður ef allir eru það. Trú hlýtur að krefja fólk um þekkingarfræðilega afstöðu -- að sætta sig við svör sem aðrir sætta sig ekki við. Ósannanlegar, óútskýranlegar skýringar. Eins lógískt og það nú hljómar.

Út af fyrir sig skil ég að fólk sjái ástæðu til að stofna félög um hvaða guð á eða á ekki að hafa sagt hvað. Ekki nenni ég að vera í slíku félagi. En hvernig nenni ég þá að vera í félagi um að trúa ekki? Er það vegna þess að ég sé svona trúaður í hjarta mínu og trúin beinist bara í einhvern þvermóðskulegan, uppreisnargjarnan farveg? Svarið er nei. Þótt maður hafi sterkar skoðanir, þá gerir það mann ekki að trúmanni. Munurinn á trúmanni og trúleysingja er frekar eðlismunur en stigsmunur. Menn hafa misjafnlega sterkar skoðanir og þannig, og þær beinast jafnframt í mismunandi áttir. Það þarf ekki að vera trú, að taka skýra afstöðu í trúarefnum.

En til hvers að stofna félag um að hafna yfirnáttúrutrú? Er það ekki eins og að stofna félag um að safna ekki frímerkjum? Aftur er svarið nei. Vantrú er félag sem er stofnað til höfuðs atferli og þankagangi sem við teljum vera í besta falli gagnslaus, en í mörgum tilfellum til tjóns. Við höfum auðvitað áhuga á trúarbrögðum, og höfum þannig trúarlega afstöðu þannig séð, þótt það sé með neikvæðum formerkjum. Að því leyti mætti líkja okkur við samtök gegn spilafíkn, sem hafa óneitanlega „spilafíknarlega“ afstöðu, eða þá bindindisfélag, sem óneitanlega hefur „áfengisneyslulega“ afstöðu. Seint yrði það þó kallað drykkjuklúbbur.

Þannig að ætli sé ekki réttast að kalla Vantrú einfaldlega „vantrúfélag“?

Vésteinn Valgarðsson 11.06.2008
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 11/06/08 08:52 #

það væri samt fínt að Vantrú fengi í rauninni skráningu sem trúfélag. Þá gætum við fengið sóknargjöld að upphæp 900.000.- á ári. Ég endurtek: 800.000 Á ÁRI.

Það mætti gera ýmislegt við þá peninga. Ég teldi samt eðlilegast að ef Vantrú væri trúfélag þá endurgreiddi það félagsmönnum sínum þennan 9 þúsund kall.

Þetta er góð ferð í Krónus


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 11/06/08 09:12 #

Það væri ekkert leiðinlegt að fá mörghundruð þúsund krónur á ári úr ríkissjóði, og það mætti án efa finna þeim krónum þarfan stað hvort sem hann væri í vasa félagsmanna eða við að grafa brunna í Afríku eða hvað það nú væri. En jafnvel þótt veraldleg lífsskoðunarfélög, með réttarstöðu á við trúfélög, fengjust viðurkennd, þá þætti mér hæpið að Vantrú fengi nokkurn tímann slíka viðurkenningu.

Það væri annað mál að hópar innan Vantrúar, sem eiga einhverja lífsskoðun sameiginlega, mundu stofna sjálfstæð félög. Það er að segja, þeir sem ekki ættu samleið með Siðmennt af einhverjum ástæðum. En það er önnur saga.


Geir Konráð - 12/06/08 10:22 #

Hvernig væri að stofna kirkju Mammons (fyrst það er erfitt að fá eitthvað skráð sem lífskoðunarfélag) og fá hana skráða sem trúfélag?

Þetta væri náttúrulega bara yfirskin til að greiða mönnum þennan 9000 kall tilbaka. Þetta væri jafnvel smá gulrót fyrir þá sem eru skráðir í þjóðkirkjuna en hafa ekki nennt standa í því að skrá sig úr henni.

...og um leið klekkja á þessum fáránlega trúarskatti.

9000 kall á ári verður að ágætis upphæð ef henni er safnað saman yfir lífstíðina.


Svanur Sigurbjörnsson - 12/06/08 12:05 #

Takk fyrir ágætis grein Vésteinn Einhver erlendur frómur maður sagði: "If atheism is a religion then health is a disease!" Það sem gerir virkt trúleysi nauðsynlegt er sú staðreynd að trúarbrögð skapa margan óþarfan í þjóðfélaginu og geta verið til tjóns. Vissulega er sú vinalega grænsápuguðfræði sem Þjóðkirkjan stundar oft til gagns fyrir fólk því prestar hennar eru sýna oft ágætan mannlegan stuðning við skjólstæðinga sína og hjálpa fólki í sorg. Með húmanískri nálgun er hægt að gera miklu betur og sá siðferðislegi baggi sem Biblían setur á herðar margra er eitthvað sem Vantrú hefur létt á þó nokkuð mörgum. Vantrú og alþjóðleg trúleysissamtök eru því fyrst og fremst í því að vara við trú og losa fólk undan hlekkjum hennar, en aftur Siðmennt og International Humanist and Ethical Union (ásamt t.d. samtökum skynsemishyggjufólks) eru fyrst og fremst samtök um siðrænar lífsskoðanir þar sem trúleysi er bara höfnun á einum yfirnáttúrulegum hugmyndum af mörgum. Varðandi uppástungur Teits og Geirs Ég held að Vantrú eins og það er í dag uppfylli ekki formlega það sem kallað er lífsskoðunarfélag, því félagið hefur ekki formlega siðræna stefnu (sbr stefnuskrá Siðmenntar), heldur hefur skapast vegna ákveðinna vandamála (trú og hindurvitna) sem það vill hjálpa fólki út úr. Það hefur heldur ekki félagslegar athafnir fjölskyldna á sínum vegum og uppfyllir því ekki það verksvið sem lífsskoðunarfélög ná yfir.
Aftur það sem Vésteinn bendir á, að ef að einhver hópur sem hefur ákveðnar veraldlegar lífsskoðanir sem færu ekki saman með Siðmennt, vildu stofna félag um þær og halda sínar eigin athafnir, þá væri kominn grunnur að öðru veraldlegu lífsskoðunarfélagi sem fengi væntanlega nafn sem útskýrði hvað félagið berst fyrir (t.d. Skynsemishyggjufélagið), en ekki eftir því hverju það berst gegn (eins og Vantrú).


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 12/06/08 15:00 #

Rétt er það Svanur.

En þegar vantrú nefnir þessi mál þá er það meira í gríni en allvöru. Við boðum engan boðskap og við vitum það.


Ari - 13/06/08 01:37 #

Trúleysi (hvað svo sem það er nú) er líka trú. Allir hafa e-s konar trú.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 13/06/08 02:00 #

Nei.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 13/06/08 03:36 #

Að safna ekki frímerkjum er líka að safna frímerkjum. Allir safna einhvers konar frímerkjum.

Nei, kommon.

Hvað er svona erfitt að skilja við orðið trúleysi? Það sem átt við er mjög einfalt. Við trúum ekki á Guð.

Og nei, það sem er átt við er ekki að við treystum ekki á hann né að við séum á móti honum. Við einfaldlega trúum ekki að hann sé til. Hann er uppspuni, tilbúningur, ekki hluti af raunveruleikanum.


Stebbi - 13/06/08 07:13 #

Þetta er alveg lauk rétt hjá ykkur, þið eruð van-TRÚAÐIR;)

Þið t r ú i ð ekki á það yfirnáttúrulega.

Málið er að fólk sér bara að trú sé það sama og að treista einhverju, og þið leggið traust ykkar í það að ekkert yfirnáttúrulegt sé til.

Þannig fólk sér; treysta = trú traust að ekkert yfir
náttúrulegt sé til = trú á að ekkert yfirnáttúrulegt sé til => van-trú... trú á ekkert (ég er bara að tala um hvernig sumt fólk sér þetta)

Annars flott hjá ykkur með svarthöfða;)


Baldvin - 13/06/08 12:01 #

Þetta eru nú alveg ótrúlegar hártoganir hjá þér, Stebbi.

Trú er alveg augljóslega ekki það sama og trú.

Eins og þú skilgreinir trú þarna þá eru allir trúaðir, það hafa allir eitthvað fyrir satt. Annað er einhver kartískur efi sem á sér enga stoð í raunveruleikanum.

En hvers ertu bættari með þessa skilgreiningu?

Er þá eitthvað vit í að skilgreina sig sem trúaðan eða ekki, ef allir hljóta að vera trúaðir?

Eru trúarbrögð þá ekki alveg út í hött? Eru jafn mörg trúarbrögð og mannfólkið er margt?

Hvað ertu að reyna að segja?


Armar - 13/06/08 12:45 #

Það eru margir ofurkrissarnir sem stunda þetta, að reyna að sannfæra trúleysingja um að trúleysi sé trú.

Kannski eiga þeir bara svona erfitt með að ímynda sér líf án trúar en þeir virðast halda það að ef þeim tekst að sannfæra einhvern þá muni þeir útrýma trúleysi.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 13/06/08 13:28 #

Hehe. Undirskriftalistinn strákar?


Baldvin - 13/06/08 13:57 #

Hehe. Undirskriftalistinn strákar?

Ha? ... Nú skil ég ekki ...


Kári Rafn Karlsson - 13/06/08 17:25 #

Ég sé bara ekki hvaða máli skiptir hvort að fólk telji trúleysi vera trú ... það vita allir hvernig trúlausir standa í trúmálum, þ.e. þeir líta á heiminn eins og hann er, ekkert meira né minna. Að segja að trúleysi sé trú er bara útúrsnúningur af hæsta stigi, eitthvað sem leikskólabörn eru dugleg við.

Mér finnst vera búið að eyða svo ótrúlega miklu púðri í þetta sem hefði betur verið varið í eitthvað annað. Mér gæti ekki verið meira sama þó einhverjum trúarnöttara finnist ég vera trúaður af því ég er trúlaus. Ég veit hvað það þýðir að vera trúlaus, hann veit það líka.


Kári Rafn Karlyrirsson - 13/06/08 17:27 #

... svo ég bæti smá við, einhver sagði hér fyrir ofan að við trúleysingjar trúum því að guð sé ekki til. Ég veit ekki með aðra, en ég sjálfur hef bara enga ástæðu fyrir því að trúa því að guð SÉ til þannig að slík skáldskaparvera er einfaldlega ekki inn í myndinni hjá mér, ekki frekar en hið fræga fljúgandi spagettískrímsli. Það krefst engrar trúar að gera ekki ráð fyrir einhverju uppskálduðu í sinni heimsmynd.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 14/06/08 01:42 #

Best að stilla upp til samanburðar:

Trú: (a) Ég trúi því að X sé Y.

Trú: (b) Ég trúi því að X sé ekki Y.

Efi: (c) Ég trúi því ekki að X sé Y.

Trúleysi er af tegundinni (c). Málið er að trúleysingi trúir ekki að yfirnáttúra sé til.


danskurinn - 14/06/08 22:26 #

Vésteinn skrifar: "Málið er að trúleysingi trúir ekki að yfirnáttúra sé til."

Trúleysingi er eins og allir aðrir. Hann sér og skynjar veröldina eins og aðrir og spyr sömu spurninga. Spurningarnar eru aðalatriði en svörin eru aukaatriði. Eftir því sem þekkingu fleygir fram stigbreytast spurningarnar en eðli þeirra beytist lítið eða ekkert. Það er oftast auðveldara að svara en móta skynsamlega spurningu. "Yfirnáttúra er ekki til" er væntanlega eitt svar við spurningunni "er til yfirnáttúra".


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 14/06/08 23:27 #

Er yfirnáttúra til? Ég trúi því ekki. Og geri ekki ráð fyrir því. En ég hef engan grundvöll til að hafna slíku algjörlega.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 15/06/08 02:11 #

Spurningin er ekki "Er til yfirnáttúra?" heldur "Er eitthvað í náttúrunni sem verður ekki útskýrt með náttúrulegum skýringum?" Mitt svar við þeirri spurningu er: "Ég veit ekki um neitt í náttúrunni sem verður ekki útskýrt með náttúrulegum leiðum" og þar af leiðandi sé ég ekki ástæðu til að gera ráð fyrir yfirnáttúru.


danskurinn - 15/06/08 11:46 #

Vésteinn skrifar: ""Er eitthvað í náttúrunni sem verður ekki útskýrt með náttúrulegum skýringum?" Mitt svar við þeirri spurningu er: "Ég veit ekki um neitt í náttúrunni sem verður ekki útskýrt með náttúrulegum leiðum" og þar af leiðandi sé ég ekki ástæðu til að gera ráð fyrir yfirnáttúru."

Merkingin "útskýrt með náttúrulegum leiðum" þýðir hér það sama og ævinlega. Það er sú merking sem maðurinn gefur fyrirbærum í náttúrinni hverju sinni. Merkingin er einvörðungu til sem skynjun mannsins og er háð takmörkunum hans með sama hætti jafnt fyrir trúlausa og túaða. "Er eitthvað í náttúrunni sem verður ekki útskýrt með náttúrulegum skýringum?" Ég veit ekki. En það er margt í náttúrunni sem við þekkjum ekki. Þess vegna höfum við spurningarnar.


Sveinn - 17/06/08 03:30 #

danskurinn, ég fullyrði að EKKERT í náttúrunni verður ekki útskýrt með náttúrulegum leiðum.

Ástæðan er einföld, það sem hefur áhrif á náttúruna er, eðlis síns vegna, hluti af náttúrunni og þar af leiðandi náttúrulegt. Skelurðu?


danskurinn - 17/06/08 12:47 #

Sveinn skrifar: ”danskurinn, ég fullyrði að EKKERT í náttúrunni verður ekki útskýrt með náttúrulegum leiðum.”

Góður digurbarki og dæmigerður. Útskýringin er mannsins og er háð takmörkunum hans. Munurinn á trúlausum og túuðum er því minni en margir halda.

Hroki og afneitun hvíla ævinlega á grundvelli sjálfsvorkunnar. Sumir trúmenn ná því í gegnum sefjun að losna undan þessari píslarvættistilfinningu. Sú lausn er oftast tímabundið stundargaman enda má sjá að trúmenn eru gjarnan átakasæknir gagnvart náunga sínum og stunda þras og þrætur eins og aðrir sem vilja síður láta í minni pokana.


fjanskurinn - 18/06/08 23:29 #

[blaður sem kemur málinu ekki við - Þórður]


Reynir - 19/06/08 00:17 #

Allt í náttúrunni verður skýrt með náttúrulegum leiðum, það gefur auga leið. Ef það má ekki skýra það með náttúrulegum leiðum er það ekki í náttúrunni, yfirnáttúra.

Eldingar eru augljóslega náttúrulegar. Til skamms tíma gripu menn þó til yfirnáttúrulegra skýringa á þeim.

Regnboginn er náttúrulegur. Sumir álíta það ljósbrot, aðrir áminningu eyðimerkurguðsins um það loforð sitt að drekkja aldrei aftur mannkyninu.

En þá að efni pistilsins. Hvort er meiri hroki að segja að við ættum að geta komist að raunverulegu eðli hlutanna með kerfisbundnum rannsóknum og útreikningum eða hitt að fullyrða að maður sé í persónulegu sambandi við almáttugan skapara himins og jarðar og að maður viti vilja hans? Sumir telja sig jafnvel sérlegan (jafnvel opinberan) fulltrúa hans.

Það er skynsamleg afstaða að trúa ekki á barnalega hugmynd um eyðimerkurguðinn. Þegar sauðir hans saka efasemdarmenn um hroka afhjúpa þeir ekki bara eigin hroka heldur hræsni sína og grunnhyggni (oftar en ekki í nafni auðmýktar, sannleika og dýpstu visku).


kristín ketilsdóttir - 19/06/08 04:44 #

spurning sem hefur örugglega komið áður til þeirra sem segja að trúleysi sé trú:

ef nýfætt barn fæddist inn í heim þar sem engin umræða um guð á sér stað, og barnið hefur enga hugmynd um hvað guð er og hugsar ekki út í að nokkur yfirnáttúra sé til, er barnið trúað?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.