Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hið evrópska íslam

Það er undirrituðum sérstakt gleðiefni þegar andans stórmenni á borð við Sigurjón Ara Sigurjónsson stinga niður penna honum til heiðurs og leggja grunn að nýjum og spennandi fræðigreinum, til dæmis þeirri nýstárlegu aðferð að beita hvorki rökum né skynsemi í málflutningi. Fyrirsögnin að grein hans er enda sérstaklega vel valin: “Rökþrota fullyrðingar” (24 stundir, 27. maí).

Ný guðfræði

Sigurjón tjáir mér að ég hafi öðlast fyrirgefninguna sjálfkrafa. Ekki einhverja venjulega fyrirgefningu, nei sjálfa fyrirgefningu syndanna, fyrirgefninguna sem Jesús var drepinn fyrir. Eina sem ég þurfti að gera var að fæðast Íslendingur. Þetta er merkileg guðfræði og þykir sjálfsagt sæta nokkrum tíðindum meðal fræðimanna.

Ný sagnfræði

Sigurjón opinberar nýstárlega sýn á hugmyndasögu Vesturlanda sem honum hefur tekist að öðlast án þess að frétta af byltingunni amerísku! Samkvæmt Sigurjóni eru mannréttindi og lýðræði ekki bara kristið fyrirbæri heldur er kristið siðgæði beinlínis “skapað í anda þess boðskapar sem nú er undirstaða vestrænnar þjóðfélagsuppbyggingar.” Nei, ég skil þetta ekki heldur.

Gamla sagnfræðin

er auðvitað hallærisleg í samanburði. Tökum til dæmis miðja þrettándu öldina. Nú skyldi maður ætla að kristnin hefði með einhverjum örlitlum hætti tekist að þoka Evrópu í átt til mannréttinda og mannúðar á 900 ára valdaskeiði ríkiskirkju með andlega einokun á öllum sviðum.

Gamla sagnfræðin segir okkur þvert á móti að sjaldan hefur Evrópa verið eins illa stödd. Mannréttindi þekktust ekki, hvað þá lýðræði. Frjáls hugsun var jafnóðum kæfð með ofbeldi ef ekki dugði annað.

Hinn arabíski menningarheimur blómstraði á sama tíma og fyrsta ljósið í myrkrinu kom einmitt þaðan, arabísk vísinda- og heimspekirit voru þýdd yfir á latínu, ásamt heimspekiritum fornaldar og næstu fjórar aldirnar hristu hugsuðir Evrópu af sér hlekki krisninnar, allt fram til þess að fyrstu vísar að samfélagsgerð nútímans spruttu úr grasi við lok 18. aldar.

Sigurjón gæti tekið eigin ábendingum og flett upp á einu helsta riti hinna amerísku byltingamanna, sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna. Enginn heldur því fram að kristni hafi lagt nema lítið eitt til þeirra hugsjóna sem þar kristölluðust.

Evrópskt íslam

Sigurjón telur, sýnist mér, að fyrst nútíminn byrji í Evrópu, og Evrópa er kristin, þá sé nútíminn kristninni að þakka. Hitt er þó allt eins líklegt að kristnin hafi haldið aftur af þróuninni enda eru fá ef nokkur dæmi þess í sögunni að kristin kirkja hafi stutt við mannréttindabaráttu eða hvatt til lýðræðis.

Frjáls hugsun í samfélagi mannúðar og manngildis, frelsis og réttlætis, er ekki hluti af kristinni kennisetningu. Þvert á móti, mætti frekar segja, enda setur kristnin manninn í annað sætið, á eftir guði. Hagsmunir mannsins víkja fyrir kristninni, áherslan er á guðsótta og hlýðni, hnékrjúpandi biðja menn bænar, syndarar aumir fyrir guði, undirgefnir leitandi frelsunar. Arabískt tökuorð lýsir þessu vel, orð sem einmitt þýðir undirgefni við guð: kristni er hið evrópska íslam.


Birtist í 24 stundum 29. maí sl.

Brynjólfur Þorvarðarson 30.05.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Baldvin Örn Einarsson - 30/05/08 09:46 #

Maðurinn ætti að fara að eigin ráðum og lesa sér örlítið til.


Finnur - 01/06/08 02:36 #

[ athugasemd flutt á spjallið - Matti Á. ]

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.