Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kristilegt siðgæði í praxís?

Svalaði kynlífsfíkn í skjóli trausts og trúar

Guðmundur Jónsson, fyrrum forstöðumaður Byrgisins, var dæmdur í þriggja ára fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands í gær fyrir kynferðisbrot gegn fjórum fyrrverandi skjólstæðingum Byrgisins. Dómnum verður áfrýjað.

Guðmundur misnotaði aðstöðu sína og fjárhagslega yfirburði, veikleika skjólstæðinga sinna og leit þeirra í trúna á Guð í þeim tilgangi að fullnægja eigin hvötum og kynlífsfíkn.

Dómurinn bendir á að Byrgið hafi verið kynnt og rekið sem kristilegt meðferðarheimili og meðferðin öll byggð á gildum kristinnar trúar sem konurnar sögðust allar hafa tekið mjög alvarlega. Guðmundur ýmist taldi konunum trú um að það væri vilji Guðs að þær þóknuðust honum eða að BDSM-kynlíf myndi hjálpa þeim að ná andlegum bata.

Hafði kynmök við fórnarlamb eftir að Kompásþáttur var sýndur

Í framburði hennar kemur fram að hún hafi tvisvar haft kynmök við Guðmund eftir að Kompásþátturinn var sýndur. Guðmundur hefði þá sent henni SMS í farsíma hennar. Kvaðst konan upplifa sig þannig að Guðmundur hefði gróflega misnotað aðstöðu sína sem forstöðumaður Byrgisins sem prestur og pastor. Hann hefði nýtt sér stöðu hennar á meðferðarheimilinu í nafni Drottnis og allt framferði hans sem hefði lotið að kynferðissambandi þeirra hefði verið í nafni Drottins.

Guðmundur var með dýflissu í Hafnarfirði

Dýflissan var í litlu herbergi í kjallara blokkarinnar sem Guðmundur býr í. Gengið var inn í dýflissuna í gegnum skáp sem er í fremri geymslunni í kjallaranum. Þar var stórt aflangt borð og á því voru margvísleg kynlífstæki. Einnig var þar lítið búr. Í enda herbergisins var plata á vegg með mörgum nöglum sem hægt var að nota til að binda fólk við.

Guðmundur virtist hafa valið sér fórnarlömb

Ákærði hafi ýmist talið kærendum trú um að það væri vilji Guðs að þeir þóknuðust honum eða að BDSM-kynlíf myndi hjálpa þeim að ná andlegum bata.

18. desember 2006: Umfjöllun Kompáss ekki næg ástæða til rannsóknar

Umfjöllun Kompáss um Byrgið er ekki næg ástæða til sérstakrar rannsóknar segir sýslumaðurinn á Selfossi.

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, segir engar kvartanir eða kærur hafa borist og því sé ekki sjáanlegur grundvöllur til rannsóknar enda vísi Guðmundur í Byrginu öllum ásökunum á bug.

Ólafur Helgi taldi hins vegar fullan grundvöll til þess að lögsækja Þóri Hall Stefánsson fyrir að valda fyrir líkamsmeiðingu af gáleysi gagnvart konu sinni, með gáleysislegum akstri.

Kona Þóris, Helga Jónsdóttir, ritaði grein í Fréttablaðið 2. maí sl. þar sem hún lýsti því hvernig hún reyndi að fá sýslumanninn á Selfossi, Ólaf Helga Kjartansson, til að falla frá kærunni, en án árangurs. Ekki kom fram í grein Helgu að dómur er fallinn.

Einn föstudaginn langa voru Passísálmarnir lesnir í kirkjunni á Selfossi. Einn lesaranna var Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður.

Það er von mín, að sem flestir noti tækifærið og eignist kyrrláta og uppbyggilega stund í kirkjunni þennan dag. Sr. Gunnar Björnsson.

Ólafur Helgi er Vestfirðingur og var áður sýslumaður Ísfirðinga en sr. Gunnar var prestur á Flateyri og Holti í Önundarfirði og víðar á Vestfjörðum.

En nú hefur presturinn verið kærður til sýslumannsins. Séra Gunnar Björnsson, sóknarprestur á Selfossi, telur að kærur vegna kynferðislegrar áreitni séu á misskilningi byggðar.

Gunnar hefur þegar gefið skýrslu hjá lögreglunni á Selfossi.

Gunnar kveðst hafa fundið fyrir miklum stuðningi frá fólki frá því að málið kom upp. Hann hafi meðal annars átt mjög góð samskipti við lögreglu og fundið fyrir hlýhug í sinn garð.

Þegar Gunnar er spurður hvort málið hafi valdið honum hugarangri svarar hann að svo sé í raun ekki. Hann sé viss um stöðu sína gagnvart skjólstæðingum sínum.

Reynir Harðarson 13.05.2008
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/05/08 14:06 #

Vilhjálmur Þorsteinsson spyr af hverju skattgreiðendur stóðu straum af rekstrarkostnaði Byrgisins, með þeim ömurlega árangri sem fyrir liggur.

Ég held að svarið liggi í einhvers konar deyfiáhrifum eða þoku sem myndast í kring um trú, þ.m.t. Guð, Jesú og Biblíuna. Af því að starfsemi Guðmundar var sögð "kristileg" þurfti ekki að beita á hana heilbrigðri gagnrýni. Enda dugir rökhugsun og almenn skynsemi sem kunnugt er skammt þegar trúin er annars vegar.

Ég held að Vilhjálmur hafi hitt naglann á höfuðið.


Svenni - 13/05/08 15:49 #

Ég held líka að lötum og duglitlum ráðamönnum hafi bara þótt þægilegt að rétta einum af aumingjunum pening til að sjá um sig og hina aumingjana í stað þess að þurfa að hafa áhyggjur af aumingjunum sjálfir. Pínu eins og að láta elsta barnið sitt fá pening fyrir nammi og spólum til að spara sér barnapíu.

Hvað með það þótt forystuauminginn hafi haft gaman af að flengja hina aumingjana í nafni drottins. Eflaust einhver misskilin hlýja bara.


Halldór Carlsson - 13/05/08 15:57 #

Svarið er ekki alveg svona einfalt, Vilhálmur. Bæði er að fæstir af þeim sem borga skatta vissu að þeir væru yfirleitt að styrkja þennan dildóperraleiðtoga - og svo hitt, að alls kyns trúarfélög hafa gjarnan verið iðnari en flestir við líknarstörf. Það þarf ákveðna fórnfýsi – sem fæst okkar höfum - til að afeitra fárveikt fólk og vaka yfir því,eða eyða aðfangadagskvöldi í að bjóða útigangsfólki og fátæklingum í mat, eins og Hjálpræðisherinn gerir.

Og við erum fegin á meðan einhver sér um vanþakklátu djobbin. Þetta hefur líka náð til alls meðferðarstarfs, hvort sem það er hér eða erlendis.

Á meðan alls konar Byrgi og Virki og Kastalar þrífast, losna ríki og borg um leið við fjárútlát og skammir.

Rónarnir sjást þá sjaldnar á bekkjunum í bænum - og þá er allt í happí og harmóní. Þangað til kíkt er bak við þunn þilin í Byrgjunum .. En jæja; nú vekja mál eins og Guðmundar í Byrginu og Gunnars prests upp umræðu. Einu sinni voru svona mál þögguð niður hið snarasta.

Þannig að þetta er að breytast.

Pyttunum þar sem trúarkreddur og babl um skapara og óskilgreinda drauga, púka og ýmisskonar anda geta falið sig, - á meðan menn gera (ennþá) nýjar uppgötvanir, leita sannana, rannsaka og nota heilbrigða skynsemi.

Á endanum verður vonandi engin hola til lengur fyrir viðhorf þessara afturgangna.

En á meðan við nennum ekki að sjá um þá sem eru (geð)veikir og illa farnir, leita þeir þangað sem skjólið er - eða Byrgið ..


danskurinn - 14/05/08 08:48 #

Það væri fróðlegt að sjá svipaða samantekt hjá Reyni um háskólaprófessora og grófa kynferðislega misnotkun þeirra á smábörnum, gjarnan sínum eigin börnum. "Akademískt siðgæði í praxís" gæti verið heiti samantektarinnar.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 14/05/08 10:12 #

Rétt er að nefna að háskólaprófessorar gefa sig ekki út fyrir að vera að boða siðgæði fremra öllu öðru.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 14/05/08 10:28 #

Við störf mín í barnavernd þurfti ég því miður að taka á kynferðisbrotamálum og afleiðingum þeirra. Brot gegn börnum eru svívirða, hver sem í hlut á. Það sama má segja um brot gegn skjólstæðingum manns.

Brot manna gegn eigin börnum eiga sér stað alveg óháð stétt manna, stöðu, menntun o.s.frv.

Í því máli sem dæmt hefur verið í kemur skýrt fram að trúin var beinlínis notuð sem tælingar- og villutól.

Aðeins háskólaprófessor í guðfræði gæti nýtt sér sín "fræði" til slíkra óhæfuverka, vísað í ósýnilega yfirnáttúrulega veru, sem hann teldi sig vera í sérstöku sambandi við, vita vilja hennar o.s.frv. Hættan er innbyggð í kristnina.

Eða sér einhver prófessor í jarðeðlisfræði sannfæra nemanda sinn um að þeim beri að samrekkja vegna spennu í mötlinum undir Grímsfjöllum?


Valtyr - 14/05/08 15:53 #

"Eða sér einhver prófessor í jarðeðlisfræði sannfæra nemanda sinn um að þeim beri að samrekkja vegna spennu í mötlinum undir Grímsfjöllum?" - Reynir.

Ef að þetta er ekki það sniðugasta sem ég hef lesið þennan mánuðinn þá veit ég ekki hvað!


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 27/05/08 17:40 #

DV í dag

Rannsókn á meintum brotum séra Gunnars Björnssonar, sóknarprests á Selfossi, er langt komin, að sögn lögreglunnar á Selfossi. Hjá henni hafa fengist upplýsingar um að meint brot hans séu nú rannsökuð sem brot gegn blygðunarsemi. Lögmaður séra Gunnars Björnssonar, Sigurður Þ. Jónsson, segir að sóknarpresturinn sé algjörlega saklaus. Lögreglan rannsakar nú ásakanir fjögurra stúlkna gegn honum sem blygðunarsemisbrot. Skýrslur hafa verið teknar af stúlkunum og prestinum sem nú er staddur í Frakklandi. Þorbjörg Inga Jónsdóttir, réttargæslumaður einnar stúlknanna, segir að stúlkunum sárni að vera vændar um ósannsögli.

Eru það undirmenn Ólafs helga sýslumanns sem væna stúlkurnar um ósannsögli eða heilagur Gunnar?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 29/05/08 09:38 #

"Lot segir sögu sína" í Kompási. Konan sem fletti ofan af Guðmundi í Byrginu hefur nú komið fram undir nafni ásamt eiginmanni sínum. Hún fletti ofan af myrkraverkum "pastorsins" með tilvitnun í Biblíuna. Hér höfum við dæmi um það þegar trúin er sannarlega notuð til góðs. Þessi hjón eru algjörar hetjur í mínum huga. Þau hafa þurft að mæta skilningsleysi og vantrú þeirra trúuðu. Þau hafa jafnframt orðið fyrir aðkasti og verst sárnar þeim þegar fjölmiðlar púkka undir lygi þeirra seku.

Þau bentu á að Helga, kona Guðmundar, var starfsmaður Byrgisins og tók sannarlega þátt í óhæfuverkum "monstersins", en hún er ekki ákærð. Ég tek undir með þeim að það má furðu sæta. Kannski er litið svo á að hún sé fórnarlamb líka en hún hefur hegðað sér og heldur áfram að hegða sér sem vitorðsmaður.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.