Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ekki sama Jón og séra Jesús

Trúmenn virðast ekki eiga í neinum erfiðleikum með að beita gagnrýninni hugsun þegar kastljósinu er beint að annarra manna trúarbrögðum. En þegar þeir líta á sín eigin trúarbrögð, þá virðast allt í einu sjálfsagðar efasemdir ekki eiga rétt á sér. Gott dæmi um þetta eru frásögur af kraftaverkum.

Hubbard

Í byrjun ársins 1967 byrjar L. Ron Hubbard, stofnandi Vísindaspekikirkjunnar, fornleifaleiðangur sinn í löndum Miðjarðarhafsins. En þetta er enginn venjulegur leiðangur, Hubbard býr nefnilega yfir minningum frá fyrri lífum og getur því teiknað kort af rústum sem leiðangursmenn finna síðan. Ron hafði aldrei áður komið til þessara landa og teikningarnar hans klikka aldrei!

Ég efast um að þú trúir því að Hubbard hafi búið yfir þessum hæfileika, fólk hefur nefnilega almennt ekki aðgang af minningum frá meintum fyrri lífum. Þess vegna hlýtur maður að spyrja sig að því hvort heimildin fyrir þessum ótrúlega atburði sé nógu góð til þess að staðfesta svona óvenjulegan hæfileika.

Hún er það ekki. Um fjörutíu árum eftir atburðina er þessi frásögn af kraftaverkum Hubbards á heimasíðu Vísindaspekikirkjunnar. Höfundurinn er ókunnugur og meðlimir í sértrúarsöfnuðum eru ekki beint hlutlausir þegar kemur að sögum af óskeikulum stofnendum sértrúarsafnaðarins. Þar sem við höfum mörg staðfest dæmi um að fólk ýki eða búi hreinlega til sögur, en afar ótraustar heimildir um minni manna frá fyrri lífum, þá er líklegra að hérna hafi meðlimir sértrúarsafnaðarins búið til sögur til þess að fegra ímynd leiðtogans.

Jesús

Um tvöþúsund árum fyrr er stofnandi annara trúarbragða, Jesús Jósefsson, á gangi þegar menn færa til hans blindan mann. Jesús læknaði manninn með því að „skyrpa í augu hans“ og leggja hendur sínar yfir hann. (Mk 8.22-26)

Alveg eins og með hæfileika Hubbards, þá getur fólk almennt ekki læknað sjúkdóma með munnvatni og orðum. Er heimildin okkar fyrir þessu kraftaverki betri en heimildin fyrir kraftaverki Hubbards?

Raunin er sú að þessar heimildir eru mjög líkar. Markúsarguðspjall er eina heimild okkar um þetta kraftaverk. Það er talið vera skrifað um fjörutíu árum eftir meintu atburðina. Höfundur guðspjallsins segir okkur ekki hver hann er, en löngu seinna er hann sagður vera fylgjandi Péturs.[1] Höfundurinn er líka meðlimur sértrúarsafnaðar og er að skrifa áróðursrit [2] um hinn fullkomna leiðtoga safnaðarins. Það er erfitt að sjá hvers vegna við ættum að trúa þessari frásögn, en ekki heimasíðu Vísindaspekikirkjunnar.

Vespasíanus

Á sama tíma og höfundur Markúsarguðspjalls var að skrifa um lækningamátt munnvatns Jesú var Vespasíanus, seinna keisari Rómarveldis, í Alexandríu í Egyptalandi. Til hans er líka færður blindur maður og þrátt fyrir að vilja það ekki í fyrstu, þá fellst Vespasíanus á að skyrpa í augu blinda mannsins. Munnvatn keisarans er ekki síðra en munnvatn heimsendaspámannsins og auðvitað læknast maðurinn.

Sagnaritarinn Takítus segir okkur frá þessu um fjörutíu árum eftir atburðina, nokkru seinna endurtekur sagnaritarinn Svetóníus sömu söguna. Auðvitað eru þeir alls ekki hlutlausir og hafa ástæðu til þess að segja sögur af því að keisarinn hafi framkvæmt kraftaverk. Takítus segir meira að segja að sjónarvottar votti um þessa sögu og að þeir hafi enga ástæðu til þess að ljúga.[3] En trúir nokkur maður því að rómverski keisarinn hafi búið yfir yfirnáttúrulegu munnvatni?

Uppspretta frásagnanna

Ef þessi kraftaverk gerðust ekki í raun og veru, heldur væru þau búin til í huga einhverra manna, þá mætti búast við því að þau myndu endurspegla hugmyndir samtíma síns. Á fornöld trúðu menn því að munnvatn byggi yfir galdramætti, þess vegna snúast sum kraftaverk þeirra um lækningamátt munnvatns. Núna trúa því fáir að munnvatn lækni fólk og þess vegna eru engar sögur af því að kraftaverkahyskið lækni með munnvatni. Í nútímanum er hugmyndin um fyrri líf hins vegar vinsæl (og er kennisetning innan Vísindaspekikirkjunnar!) og þess vegna snúast kraftaverk Hubbards um fyrri líf.

Ef það labbar eins og önd...

Við vitum að kraftaverkasögur verða oft til án þess að eiga sér nokkra stoð í raunveruleikanum, en við höfum ekki vel staðfest dæmi um kraftaverk. Þannig að það er líklegra að frásagnir af kraftaverkum séu skáldskapur heldur en að um raunverulegt kraftaverk sé að ræða. Þess vegna verðum við að hafa mjög góðar heimildir fyrir kraftaverki ef við ætlum að trúa því að það hafi átt sér stað. Heimildirnar fyrir kraftaverkum Hubbards, Jesú og Vespasíanusar eru einfaldlega ekki nógu góðar. Auk þess líkjast kraftaverkin þeim sögum sem fólk myndi búa til. Fólk sem trúir því að einungis einn þessara manna hafi framkvæmt kraftaverk gerir það líklega vegna þess að því þykir sín önd fögur.


[1] Hérna er gott yfirlit yfir tengls guðspjallanna við nöfnin sem núna eru tengd þeim.
[2] Höfundur Jóhannesarguðspjalls er mjög heiðarlegur varðandi þetta atriði og segir beint út að guðspjallið hans „er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs“ (Jh 20.31)
[3] Takítus, Saga Rómar, IV.81 latína Svetóníus, Ævisögur keisaranna, Vespasían 7.2 latína, enska

Hjalti Rúnar Ómarsson 11.05.2008
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.