Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fagmennska Þjóðkirkjunnar

Í Íslandi í dag 5. maí var rætt við Gunnar Rúnar Matthíasson sjúkrahúsprest, formann fagráðs Þjóðkirkjunnar um meðferð kynferðisbrota. Hann var spurður hvers vegna þetta fagráð væri til staðar, hvort ekki væri rétt að leita beint til barnaverndaryfirvalda eða lögreglu. Hann sagði að „ef að málið væri þess eðlis, ofbeldi eða eitthvað slíkt“, væri sjálfsagt að gera það. Gunnar sagði að kirkjan vildi veita „farveg“ fyrir þá sem vildu koma kvörtunum á framfæri og „styðja þá sem teldu sig hafa orðið fyrir kynferðislegu áreiti og ofbeldi til að finna nægilegt afl til að koma fram“. Gunnar sagði frumforsendu að meintur brotaþoli „gangist inn á að tala við talsmann sem við gerum út“. Þetta er gert til að „búa kvörtunina í það form að það sé hægt að setja hana til frekara mats eða aðgerða innan kirkju og/eða leita með hana beint til yfirvalda ef umkvörtunin er þess eðlis eða fólk óskar að fara þá leið“. Gunnar vildi ekki svara hversu mörg mál hefðu komið inn á borð fagráðsins síðan því var komið á fót 1998 en sagði að ekki hefðu „komið upp mál sem hefðu farið það langt eins og það mál sem er í umfjöllun núna“, sumsé mál hefur aldrei fyrr farið til lögreglu frá fagráðinu. Gunnar var spurður hvað svona mál væru lengi á borðum fagráðsins en hann sagðist ekki geta tjáð sig um það því málið væri hjá lögreglu og á forræði þeirra.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 kom fram að meint brot prestsins á Selfossi gegn stúlkunum byrjuðu þegar þær voru í fermingarfræðslu og stóðu í nokkur ár. Stúlkurnar eru nú 16 og 17 ára, svo þarna er um 3-4 ár að ræða. Þorbjörg Inga Jónsdóttir er réttargæslumaður stúlknanna og sagði í fréttunum að „um mjög alvarlegt mál að ræða þar sem fleiri en ein stúlka virtist hafa orðið fyrir brotum innan kirkjunnar“. Í fréttinni segir að málið hafi hafist þegar foreldrar annarrar stúlkunnar ræddu við formann sóknarnefndar í byrjun apríl. Fréttamaður sagði að „í DV í dag væri haft eftir honum að um misskilning væri að ræða, hann sé hlýr maður og það hafi verið hans stíll að faðma fólk að sér og í kirkjulegu starfi gerist það oft að það sé heilsað og kvatt með líkamlegri snertingu“. Réttargæslumaðurinn sagði að sér finndust þetta „alveg fáránlegar yfirlýsingar í tengslum við mál sem þetta vegna þess að börnin, sem þarna um ræðir, kæmu ekki fram með kærur ef að þetta væri staðreyndin, sem Gunnar er þarna að halda fram. Og það er svo himinn og haf á milli þess að vera hlýlegur og umfaðma börn með þeim hætti sem hann er að lýsa og milli þess og þeirra brota sem umbjóðendur mínir hafa orðið fyrir“.

Frekari lýsingar á málsatvikum er að finna á visir.is þar sem organisti Selfosskirkju, Jörg Sonderman, segir frá viðbrögðum stúlknanna í kirkjunni.

Í annarri frétt á visir.is 5. maí kemur fram að foreldrar annarrar stúlkunnar ræddu við formann sóknarnefndar í byrjun apríl (degi áður var talað um mánaðamótin mars apríl)! Degi áður er haft eftir Steinunni A. Björnsdóttur upplýsingafulltrúa Biskupsstofu „barst þeim umkvörtun um kynferðislegt áreiti við sóknarbarn af hálfu séra Gunnars Björnssonar fyrir skömmu síðan“.Hún sagði að „fulltrúi frá fagráðinu hafi farið austur á Selfoss til að kanna málið“.

Samkvæmt starfsreglum um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar nr. 739/1998 er hlutverk fagráðs fyrst og fremst að tilnefna talsmenn og veita þeim faglegan stuðning og ráðgjöf.

Fimmta grein þessara reglna hljóðar svo:

Talsmaður, að jafnaði kona, skal uppfylla eftirtalin skilyrði: — hafa reynslu af því að vinna með þolendum kynferðisbrota — hafa háskólamenntun sem getur nýst við verkefnið, s.s. djáknanám, félagsráðgjöf, guðfræði, hjúkrunarfræði, læknisfræði, lögfræði eða sálfræði — hafa hlotið þjálfun á vegum kirkjunnar, sbr. 3/. gr. Æskilegt er að talsmaður gegni ekki öðrum störfum innan kirkjunnar. Heimilt er biskupi að víkja frá ofangreindum skilyrðum ef ógerlegt reynist að uppfylla þau.

Í sjöttu grein segir:

Eigi barn eða börn í hlut, skal talsmaður eða sá sem hefur vitneskju um ætlað kynferðisbrot, gegna skilyrðislausri tilkynningaskyldu til hlutaðeigandi barnaverndarnefndar, [sbr. 16. og 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Á síðu kirkjunnar um Fagráð um meðferð kynferðisbrota segir:

Ef mál varðar barn skal því tafarlaust vísað til barnaverndarnefndar og úrskurðarnefndar og biskupi gert kunnugt um málið.

Í málinu hefur komið fram að stúlkurnar störfuðu eitthvað innan kirkjunnar, voru a.m.k. í kór hennar. Ég vil lýsa ánægju minni með að organistinn hefur nú stutt málstað stúlknanna opinberlega, sem og réttargæslumaður þeirra. Þeim veitir auðvitað ekki af stuðningi þessa dagana. Ég vona líka að þær hafi fundið fyrir stuðningi og fengið styrk frá talsmanni fagráðsins og fagráðinu öllu en þar sem ég starfaði um árabil við barnavernd hef ég talsverðar áhyggjur af fagmennsku kirkjunnar, sem fyrri daginn. Ég efast ekki um góðan ásetning og að allt er gert „í góðri trú“ en það stenst ekki lög, frekar en fyrri daginn. Auðvitað bar organistanum skylda til að tilkynna barnaverndaryfirvöldum strax um það sem hann varð vitni að. Formanni sóknarnefndar bar að gera það sama. Það sama má segja um talsmann fagráðsins og fagráðið allt.

Á bloggi benti einhver á að það væri fáránlegt ef trésmiður væri sakaður um kynferðislega áreitni að trésmíðafélagið setti málið „í farveg“. Þegar um börn er að ræða er farvegurinn fyrir hendi og lögbundinn.

Og hversu faglegur er þessi talsmaður sem fagráð kirkjunnar „gerir út“? Hann skal hafa reynslu af því að vinna með þolendum kynferðisbrota. Gott. Hann skal jafnframt hafa háskólamenntun sem getur nýst við verkefnið svo sem djáknanám eða guðfræði. Ha? Og hann skal hafa hlotið þjálfun á vegum kirkjunnar. Jæja. En biskupi er heimilt að sniðganga þetta allt ef ekki er hægt að uppfylla það, þar fellur botninn endanlega úr tunnunni.

Í því máli sem nú er til rannsóknar á Selfossi virðist það hafa komið upp fyrir fimm vikum. Hversu lengi var kirkjan ein um að krukka í því? Í barnavernd er þess gætt sérstaklega að spilla ekki rannsókn lögreglunnar með því að ræða mikið við barnið, oftast er barnið sent í könnunar- eða rannsóknarviðtal í Barnahúsi eingöngu. Það er bæði gert til að hlífa barninu við að þurfa að fara oft í gegnum málavexti og til að koma í veg fyrir að einhver komi inn hugmyndum hjá barninu óafvitandi eða viljandi. Falskar minningar og sefnæmi er nokkuð sem taka verður tillit til, og er eflaust ekki fjalla mikið um í djáknanámi og guðfræði.

Á Íslandi teljast menn saklausir uns sekt er sönnuð og það á líka við í þessu máli. Skyldi það ekki vera tilhneiging hjá Þjóðkirkjunni að vilja sneiða hjá neikvæðri umfjöllun og hneykslismálum, líkt og hjá systurkirkjum hennar erlendis? Getum við treyst því að hagsmunir fórnarlambsins ráði einir för hjá djáknanum eða guðfræðingnum sem gegnir hlutverki „talsmanns“ þess fyrir hönd kirkjunnar? Auðvitað ekki.

Ef eitthvað af þeim málum sem hafa borist á borð „Fagráðsins“ snerta börn án þess að slíkt hafi verið tilkynnt barnaverndaryfirvöldum er það hneyksli og lögbrot. Ef presturinn er sekur um kynferðislega áreitni, misnotkun eða ofbeldi er það auðvitað hneyksli og lögbrot. Heggur þá sá er hlífa skyldi. En sé hann sekur hefur hann nú aukið enn á sekt sína með því að neita að horfast í augu við gjörðir sínar og viðurkenna þær. Sé hann sekur er það frámunalegur hroki að saka fórnarlömb sín um misskilning og skáka í skjóli þess hvað hann sé hlýr maður.

Í Vinaleiðarmálinu sagði verkefnisstjóri Fræðslusviðs þjóðkirkjunnar og biskupinn einmitt að ekki væri um lögbrot að ræða, það væri misskilningur að prestar og djáknar boðuðu trú, þótt þeir hafi verið vígðir sem „skóladjákni“ og „skólaprestur“ og í vígslubréfi þeirra frá biskupi standi skýrum stöfum að þeim beri að boða Guðs orð hreint og ómengað. Þeir hikuðu ekki við að afneita innsta eðli kirkjunnar, grundvelli veru hennar, boðun, samkvæmt yfirlýstri stefnu hennar, því það hentaði ekki. Þess í stað bentu þeir á hvað þeir vildu vera góðir og að siðferði þeirra, „kristilega siðgæðið“ væri jú öllu öðru siðferði æðra.

Jóna Hrönn Bolladóttir orðaði þetta svona smekklega:

„Það er svo merkilegt með íslenskt samfélag og prestþjónustu Þjóðkirkjunnar að það er einmitt það að orðsporið og embættið og menntunin og fagmennskan hefur orðið til þess að fólk veit fyrir hvað við stöndum.“

Það vantar hins vegar alveg starfsreglur um meðferð mannréttindabrota innan þjóðkirkjunnar, ekkert er þar fagráðið og engan talsmann eigum við þar.

Barnaverndarlög nr. 80/2002

IV. kafli. Tilkynningarskylda og aðrar skyldur við barnaverndaryfirvöld.

16. gr. Tilkynningarskylda almennings. Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd. Annars er hverjum manni rétt að gera barnaverndarnefnd viðvart um hvert það tilvik sem telja má að hún eigi að láta sig varða.

Á visir.is í dag segir lögmaður prestsins að í kærunni sé "bara" fjallað um særða blygðunarsemi. Reyndar er í lagagreininni fjallað um lostugt athæfi og refsingin er fangelsivist, allt að fjórum árum. Lögmaðurinn ætlar greinilega að túlka þetta (meinta) lostuga athæfi sem "hlýleg samskipti við sóknarbörn".

Verst að það vantar alveg starfsreglur um meðferð mannréttindabrota innan þjóðkirkjunnar, ekkert er þar fagráðið og engan talsmann eigum við þar.

17. gr. Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum. Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfi sínu var við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart. Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagmæðrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum og þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í

1. mgr. Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

Reynir Harðarson 06.05.2008
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 06/05/08 13:13 #

Femínistar harla óánægðir með lögmann prestsins á enn á visir.is og senda frá sér orðsendingu:

Hér sameinast trúarleiðtogi og fulltrúi löggjafarvaldsins í því að afsala sér ábyrgð en varpa henni þess í stað yfir á börn. Okkur finnst því spurning hver eigi að stíga varlega til jarðar."


Daníel (meðlimur í Vantrú) - 06/05/08 14:20 #

Kirkjan hefur eflaust stofnað til þessa fagráðs þar sem störf presta eru þess eðlis að þeir eru oft að fást við mjög vandasöm og viðkvæm mál þar sem einstaklingarnir, börn og fullorðnir, sem presturinn er að vinna með eru jafnvel mjög viðkvæmir fyrir vegna annarra ástæðna. Það vill svo til að ég tilheyri stétt sem segja má þetta nákvæmlega sama um, þ.e. stétt grunnskólakennara. Þrátt fyrir það hefur Kennarasamband Íslands ekki séð ástæðu til þess að setja á stofn svona fagráð innan sinna vébanda þó félagsmenn séu undantekningarlítið að vinna með ósjálfráða börnum og fylgja þeim jafnt í gegnum gleði- og sorgarstundir. Ef mál af þessum toga kemur upp gagnvart kennara er því vísað beint til barnaverndarnefndar eins og lög gera ráð fyrir. Kennarasambandið er ekki að vasast í þessum málum fyrir hönd sinna félagsmanna. Það er alveg jafn galið að kirkjan geri það eins og aðrir. Viðbrögð og meðferð mála verða fyrst og fremst að vera fagleg og hlutlæg. Það þýðir að aðrir eiga ekki að fara inn á verksvið barnaverndanefnda.


Ólafur Sigurðsson - 07/05/08 01:25 #

Tók einhver eftir því að mbl.is hefur tekið þessa frétt út og þar með bloggfærslurnar, sjálfsagt vegna margra athugsemda í þeim dúr sem hér ofan greinir. Er þetta ritskoðun?


Ólafur Sigurðsson - 07/05/08 01:27 #

Hei, sorry, ég fann það, moggin tók þetta ekki út, fyrirgefið mér, því ég er syndugur maður. Mea maxima culpa, amen.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 07/05/08 05:31 #

Á mbl.is kemur fram að þriðja stúlkan hefur kært prestinn:

Tvær stúlkur höfðu þegar kært séra Gunnar, og sagði Ólafur Helgi að ekki yrði betur séð en að allar kærurnar þrjár væru um kynferðislega áreitni. Það ætti þó eftir að koma nánar í ljós þegar skýrslur verði teknar af stúlkunum, sem væntanlega verði í þessari viku eða næstu.

Þetta stangast á við orð lögmanns prestsins á visir.is:

Sigurður telur að í kærunni sé vitnað til blygðunarsemi en alls ekki fyrir kynferðislega misnotkun eða kynferðislega áreitni.

Barnaverndarnefnd leggur hins vegar ekki fram kæru heldur tilkynningu til lögreglu/beiðni um lögreglurannsókn. Það er saksóknara að gefa út kæru í kjölfar rannsóknar - sem greinilega er ekki lokið. En á mbl.is segir ennfremur:

Skýrslutökurnar fara fram í Barnahúsi þar sem meintir brotaþolar eru yngri en 18 ára.

Þetta er í samræmi við það sem ég lýsti í greininni, og því er slæmt ef stúlkurnar hafa verið yfirheyrðar af "talsmanni" "gerðum út" af kirkjunni.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 09/05/08 00:19 #

Í tíufréttum RÚV áðan gagnrýndi fyrrverandi forstöðumaður Barnahúss, Vigdís Erlendsdóttir, Fagráð kirkjunnar harðlega og segir að aðkoma þess að máli sóknarprestsins á Selfossi hafi skaðað málið. Hún segir að grunsemdir hefði umsvifalaust átt að tilkynna til barnaverndarnefndar því aðkoma fulltrúa Fagráðsins geri framburð vitnis fyrir dómi hugsanlega rýrari því endurtekin viðtöl hefðu getað haft áhrif á það sem barnið segir. "Þess háttar viðtöl eru líka íþyngjandi. Þeir eiga ekki að koma nálægt máli sem ekki er komið til þar til bærra yfirvalda."

Fullkominn samhljómur við grein mína, nema hvað hún nefnir hversu sérkennilegt væri ef leigubílstjórar eða sálfræðingar hefðu slíkt Fagráð, en ég nefndi trésmiði.


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 09/05/08 09:42 #

Já, Reynir, sannast hér hið forna máltæki: "Illur á sér ills von", og skýrir hvers vegna Ríkiskirkjan er með slíkt fagráð en ekki t.d. trésmiðir eins og þú segir.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 09/05/08 14:37 #

Nú hefur Gunnar Rúnar sagt að "talsmaður" kirkjunnar hafi ekki rætt við meint fórnarlamb, og er það vel. Í hádegisfréttum RÚV er þó bent á að starfsreglurnar gera ráð fyrir að talsmaðurinn ræði við meint fórnarlamb og í Íslandi í dag lýsti Gunnar því sem frumforsendu aðkomu fagráðsins.

Eftir stendur þó að organistinn, formaður sóknarnefndar og fagráðið allt lét það ekki verða sitt fyrsta verk að beina málinu til barnaverndar, eins og lög kveða á um.

Gunnar kvartar svo undan orðum fyrrverandi forstöðumanns Barnahúss í tíufréttum í gærkvöldi og hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna hennar.

Það vakti hins vegar athygli mína að í núverandi fagráði um kynferðisbrot ríkiskirkjunnar er núverandi forstöðumaður Barnahúss, Ólöf Ásta Farestveit. Hún ætti að þekkja barnaverndarlög og sama má segja um Huldu Elsu Björgvinsdóttur, lögfræðing hjá Ríkissaksóknara. Ég trúi ekki að þær hafi lagt blessun sína yfir þessa málsmeðferð.


Gísli Gunnarsson - 09/05/08 17:47 #

Ríkiskirkjan, sem hefur sérheitið Þjóðkirkja, er með fagráð; aðrar stofnanir, svo og gjarnan samtök, hafa oftast siðanefndir. En hlutverkið virðist vera svipað. Hér sendir "fagráð" kirkjunnar málið ekki beint til barnaverndarnefndar eins og gera á skv. lögum heldur leitar til foreldra stúlknanna fyrst án þess að í "fagráði" sitji sérhæft fólk til að fjalla um mál sem þessi. Þetta eru stóru formlegu mistökin í þessu máli.

Hér verður hugsanlega um dómsmál að ræða. Raunar er það fyrst þegar dómur er fallinn, sem "fagnefnd" á að fjalla um mál prestsins. Jafnvel prestar njóta þess réttar að hver maður telst saklaus uns sekt hans er sönnuð með dómi. En enginn starfshópur virðist vera laus við fólk sem sýnir ólögmæta kynferðishegðun; hér ræður hvorki menntun né samfélagsstaða. Með ólögmætri kynferðishegðun á ég við beina eða óbeina valdbeitingu geranda sem notfærir sér stöðu sína gagnvart fólki sem er honum/henni háðir/háðar og getur ekki varið sig. Grundvöllur heilbrigðs kynlífs felst í gagnkvæmu samþykki á jafnréttisgrunni.

Gísli Gunnarsson


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 09/05/08 20:43 #

Í kvöldfréttum rásar 1kemur fram að réttargæslumaður einnar stúlkunnar segir starfsmenn Barnahúss vanhæfa til að koma að rannsókn málsins vegna setu núverandi forstöðumanns Barnahúss í Fagráði Þjóðkirkjunnar um kynferðisbrot.

Dómari í héraðsdómi tók þetta til greina og yfirheyrslur fara nú fram í Héraðsdómi.

Í Barnahúsi starfa fagmenn á þessu sviði, sérþjálfaðir og með sérþekkingu á börnum og rannsókn kynferðisbrota. Nú verður að notast við einhverja aðra. Meðferð Fagráðsins hefur því klárlega seinkað rannsókn málsins og spillt fyrir meðferð þess. Hræðileg tíðindi.

Ólöf Ásta ætlar nú að segja sig úr Fagráðinu til að svona klúður komi ekki upp aftur.

Myndin af fagmennsku þjóðkirkjunnar verður sífellt sorglegri og alvarlegri.


Árni Árnason - 11/05/08 15:25 #

Það er augljóst af hverju þetta "fagráð" var sett á laggirnar innan ríkiskirkjuapparatsins. Fagráðið er lymskuleg tilraun til þess að fela, þagga niður og afgreiða "innanhúss" viðbjóð sem allir aðrir eru sammála um að beri tafarlaust að kæra til réttra yfirvalda. Það á að reyna að halda andliti kirkjunnar á sama hátt og páfastóll reyndi að hylma yfir kynferðisafbrot sinna starfsmanna áratugum saman með því að flytja þá til í starfi svo að þeir gætu níðst á ferskum fórnarlömbum á meðan á meðan kirkjan kúgaði hin fyrri eða mútaði til að þegja. Það er annars einkennilegt hvað perraskapurinn er algengur hjá kirkjunnar ( í víðasta skilningi) mönnum. Skyldi þetta bera bilun í sömu heilastöðinni ?


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 11/05/08 15:48 #

Er ekki óþarfi að dæma svona fyrirframm?


Árni Árnason - 11/05/08 22:34 #

Ég er ekki að dæma fyrirfram. Það er þegar komið fram að fagráðið ætlaði sér að leggja sjálfstætt mat á það hvort mál ættu að fara fyrir yfirvöld, tóku til dæmis fram að mál ættu að fara til yfirvalda ef þau vörðuðu börn. Bara hugmyndin ein og sér um "fagráð" innan stofnunar til að ræða við fórnarlömb kynferðisafbrota sem framin eru af starfsmönnum stofnunarinnar er fáránleg. Þetta kann að hljóma voða sætt, stofnun að hjálpa fórnarlömbum eigin starfsmanna, en hefur augljóslega þann tilgang að settla mál innanhúss ef þess er kostur. Reynið að sjá aðra stofnun eða fyrirtæki í þessu ljósi. Félag sálfræðinga, tannlækna eða lögfræðinga sem stofnar fagráð innan félagsins til þess að ræða við og hjálpa fórnarlömbum kolleganna. Sjá menn ekki hvað þetta er spooky ?


danskurinn - 12/05/08 11:51 #

Það sem er spúkí er fólkið sem þjónar sem útsendarar kirkjunnar/trúfélaga í hinum ýmsu opinberu embættum og ráðum. Þannig hefur komið í ljós í þessu máli að lykilstarfsmaður barnahúss er einnig í svonefndu fagráði kirkjunnar. Þá er vitað að stjórnendur velferðarráðs Reykjavíkurborgar og í ráðuneytum og víðar, taka ordrur frá trúfélögum sínum og hygla þeim. Þess vegna eru við með Byrgið og Samhjálp ofl trúfélög sem hið opinbera kallar heilbrigðistofnanir í fjárveitinum sínum þó engir heilbrigðisstarfsmenn vinni þar. Nýfallinn dómur í Byrgismálinu fjallar einmitt um þetta. Vörn Guð-brundar var sú að hann hefði aðeins rekið búsetuúrræði og því ekki brotið gegn neinum skjólstæðingum. Rétturinn hafnaði þessu.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 12/05/08 21:17 #

Hið opinbera er því miður allt of samtvinnað trúfélögum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.