Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sviðsett trúarbragðastríð

„Hvað hefurðu á móti trúarbrögðum?“

„Tja, til dæmis að þau hafa verið kveikjan að óteljandi styrjöldum.“

Þessa röksemd þekkja líklega allir sem hafa einhvern tímann rökrætt trúarbrögð eða hugsað um þau á gagnrýninn hátt. Hversu oft hafa leiðtogar ekki barið stríðsbumbur í nafni drottins, sviðið jörðina vegna þess að guð bauð þeim það, eða þá brotið undir sig önnur lönd í þeim tilgangi að boða þeim fagnaðarerindið, en dauða ella?

Sagan geymir óteljandi dæmi um stríð í nafni trúarbragða. Hitt er annað mál, hversu stóra rullu þau hafa spilað í alvörunni. Það er til góð þumalputtaregla, þegar fylgst er með stjórnmálamönnum: Að horfa á hendurnar en hlusta ekki á munninn. Stjórnmálamenn sem heild eru ekki þekktir fyrir sannsögli, en það er erfiðara að ljúga í verki.

Það er best að ég segi það strax: Ég trúi ekki á trúarbragðastyrjaldir. Ég man ekki eftir einu einasta stríði sem ég mundi beinlínis skrifa á reikning trúarbragða. Kannski einhverjum skærum, en stríði? Ekki svo ég viti. Þau hafa haft sín áhrif, en ég man ekki eftir neinu þar sem trúarbrögð voru raunverulegt mótíf. Ef einhver getur bent mér á slíkt, þá væri það vel þegið. Þangað til lít ég svo á að það séu sameiginlegir hagsmunir trúarhöfðingja og ríkjandi stéttar að ýkja hlut trúarbragðanna en gera lítið úr þætti beinna hagsmuna.

Ég aðhyllist efnislega söguskoðun. Í henni felst meðal annars að stjórnmálahöfðingjar breyta samkvæmt hagsmunum sínum og umbjóðenda sinna. Það skal tekið fram, að umbjóðendur stjórnmálamanna eru vanalega ekki almenningur, heldur mismunandi hlutar elítunnar, vanalega með einhvern hluta almennings með sér. Það er ekki pláss fyrir hugsjónir í stjórnmálum af gamla skólanum, þeim sem við þekkjum, nema þá til þess að nota í slagorð eða réttlætingu á því sem á sér raunverulegar rætur í hagsmunum. Beinhörðum hagsmunum.

Trúir einhver því, að Bandaríkjaher sé að boða lýðræði, með oddi og egg, í Írak og Afghanistan, og að olía og stríðsgróði séu bara bónus? Trúir einhver því að Spánverjar hafi lagt Suður-Ameríku undir sig til þess að kristna frumbyggjana þar, og að fjöll af gulli og silfri hafi bara verið bónus? Eða að Englendingar hafi lagt undir sig hálfan heiminn til þess að siðmennta veslings negrana, og að heimsveldið hafi bara verið heppileg aukaafurð?

Frægasta dæmið af þeim öllum – krossferðirnar – dugir ekki einu sinni til þess að sannfæra mig. Það voru of miklir beinir og augljósir hagsmunir í húfi til þess að yfirnáttúrumótíf hafi þurft til: Evrópska höfðingjastéttin stóð í landvinningastríði við serknesku höfðingjastéttina – hvort sem litið er á Spán, Miklagarð eða Miðjarðarhaf – og kirkjan var nýklofnuð í tvennt. Páfanum var auðvitað mikið í mun að tryggja sér yfirráð yfir botni Miðjarðarhafs – þau styrktu tilkall hans til þess að skoðast sem höfuð kirkjunnar á jörðu. Trúarbrögðin voru kjörið yfirskin fyrir hagsmunastríð.

Þau voru það þá og þau eru það núna. Eins og oft áður eru viðsjár í stjórnmálunum. Spenna. Pólitísk spenna þýðir að valdamenn verða óöruggir um völd sín. Hún getur þýtt óeirðir, uppreisnir eða byltingar. Það er hægara sagt en gert að láta hana hverfa – en hins vegar er oft hægt að hleypa dampinum af með því að veita henni í annan farveg. Í staðinn fyrir að óánægjan og spennan beinist að þeim misjöfnu mönnum sem ráða ríkjum, þá reyna þeir hinir sömu að beina henni út á við, gegn einhverjum „þeim“. Í leiðinni geta þeir nýtt sér hana til þess að ná markmiðum sínum – á borð við landvinninga eða að fylkja almenningi á bak við sig.

Sem betur fer (fyrir þá) er þetta tiltölulega auðvelt. Eins og frægt er, orðaði Hermann Göring það svona við Nürnberg-réttarhöldin:

„Auðvitað vill venjulegt fólk ekki stríð; hvorki í Rússlandi, né í Englandi, né í Ameríku né í Þýskalandi. Við áttum okkur á því. En þegar öllu er á botninn hvolft, eru það leiðtogar landsins sem marka stefnuna, og það er alltaf auðvelt að fá fólkið með í lið, hvort sem það er í lýðræðisríki, fasistaeinræðisríki, á þingi eða undir kommúnistaeinræði. ... Hvort sem fólk tjáir sig eða ekki, þá er alltaf hægt að fá það til að fara eftir boðum leiðtoganna. Það er auðvelt. Allt sem þarf er að segja þeim að þau hafi orðið fyrir árás, og fordæma friðarsinnana fyrir skort á ættjarðarást og að stofna landinu í hættu. Það virkar eins í öllum löndum.“

Það fer eftir stað og stund hver heppilegasti óvinurinn er. Um þessar mundir eru það íbúar Mið-Austurlanda. Það er talað um árekstra milli menningarheima, hættuna af íslömskum hryðjuverkamönnum og ég veit ekki hvað. Með því að spíssa þessar andstæður, milli „okkar“ og „þeirra“, milli venjulegs fólks í þessum heimshluta og venjulegs fólks í öðrum heimshlutum, beinist athygli beggja frá bófunum sem hún ætti að beinast að, óprúttnum valdamönnum heima fyrir. Valdið fylkir fólkinu á bak við gunnfána sinn; dregur sauðina í dilka með úlfunum. Á meðan við beinum reiði okkar út á við, sitja þrjótarnir á friðarstóli mitt á meðal okkar.

Formið sem þessi átök taka á sig er oft trúarlegt eða menningarlegt – en innihaldið er það sama og alltaf: Hagsmunir og ekkert annað.

Vésteinn Valgarðsson 07.04.2008
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Kristján Hrannar Pálsson - 07/04/08 09:03 #

Merkileg grein. Mér sjálfum varð oft það á að ýkja þátt trúarbragða í átökum en eftir að ég byrjaði í sagnfræði fór ég að efast um það sem er oft slengt fram í einhverjum heitapottsumræðum um trúarbrögð að einhver átök geti algerlega verið þeim að kenna.

Ég hef þó velt fyrir mér hlutverk trúarbragða í átökum t.d. á Írlandi, þar sem sama menningarþjóðin með (liggur við) sömu söguna, tungumál o.fl. geti samt átt í átökum. Þau hjálpa a.m.k. lítið til að draga úr þeim. E.t.v. eru einhver hagsmunaátök, ég þyrfti helst að kynna mér það mál betur.


Kalli (meðlimur í Vantrú) - 07/04/08 10:22 #

Á N-Írlandi er stundum talað um mótmælendur og kaþólikka. Ef mér skjátlast ekki er samt frekar talað um Loyalists, sem vilja að N-Írland sé áfram hluti af Bretlandi, og Nationalist eða Republican, sem vilja losna undan breskri stjórn og í flestum tilfellum sameinast Írlandi.

Trúarbrögðin spila líklega helst inn í þar sem Loyalists eru mótmælendur vegna þess að þeirra arfleifð er frá Englandi og Skotlandi og forfeður þeirra fluttust þaðan. En þetta verður varla útskýrt í svo stuttu máli og sérstaklega ekki af einhverjum jafn illa fróðum og mér.

Annars finnst mér þetta prýðileg grein. Ég hef frekar viljað kalla trúarbrögð skálkaskjól stríðsrekstrar frekar en ástæðu hans.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 07/04/08 11:19 #

Hafandi búið um skeið á Írlandi og lært þar smávegis í írskri sögu er ég ágætlega að mér í þessum málum.

Það er ekki hægt að segja að lýðveldissinnar séu kaþólskir og sambandssinnar mótmælendur þó það sé kannski yfirleitt þannig. Yeats var mótmælandi og kominn af enskum ættum, ef ég man rétt, sem studdi lýðveldið.

Sögulega séð þá er það þannig að frá því að Hinrik VIII skipti um trú þá hefur þetta verið mikið deiluatriði milli landanna. Þegar mótmælandinn Vilhjálmur af Óraníu barðist við kaþólska tengaföður sinn Jakob II þá studdu Írar almennt kaþólikkan en páfinn mótmælandann!

Innflytjendur frá Englandi og Skotlandi tóku líka yfir lönd Íra og kúguðu þá. Það var lengi vel reynt að neyða Íra til að skipta um trú en það gekk frekar illa þó einhverjir hafi gert það til að bæta stöðu sína. Það er því ekkert skrýtið að það sé töluverð andúð á milli trúarhópa þarna. En í grunnatriðum þá er aðallega valdabarátta þar sem trúarbrögð eru hentug tól. Konungur/Drottning Breta er höfuð kirkjunnar og ef þú snýrð fólki til þinnar til þeirrar kirkju þá græðir valdhafinn.

Hvað um það. Í sjálfsstæðisstríði Íra við Breta þá voru trúarbrögð ekkert endilega í forgrunni. Þau urðu hins vegar meira áberandi þegar á leið öldina. Hugsanlega má að mörgu leyti rekja það til þess að Éamon de Valera, forsætisráðherra Íra og forseti til langs tíma, var voðalegur trúarnöttari. Hann innleiddi bann við fóstureyðingum og hjónaskilnuðum og setti inn sérákvæði um kaþólsku kirkjuna í stjórnarskrá Írlands. Hann lýsti því vel og vandlega yfir að Írland væri kaþólskt land. Þannig setti hann þjóðernisrembing og trúarbrögð saman í einn pakka sem er ákaflega hentugt fyrir valdhafa sem vilja fá þjóð sína á bak við sig.

Yfirlýsingu de Valera var svarað með því að segja að Norður Írland væri land mótmælenda. Á N-Írlandi voru kaþólikkar síðan áfram kúgaðir, aðallega til þess að rétt fólk héldi völdum og að lýðveldissinnum væri haldið niðri. Trúarbrögðin urðu því öflugt tól til að fá fólk til liðs við hryðjuverkasamtök og voðalega hentug leið til að ákveða hvern maður mætti drepa. Ég man eftir einum trúleysingja sem skrifaði að hann hefði alltaf talið sig öruggan í Belfast því hann væri fyrir utan þetta allt saman.

Ég er semsagt, ef það er ekki alveg skýrt, á því að trúarbrögð séu aðallega hættuleg af því að það er svo auðvelt að fá fólk til að réttlæta illvirki sín í gegnum þau. Var það ekki Steven Weinberg sem sagði að til að láta gott fólk gera slæma hluti þá þyrfti trúarbrögð?

Þess má geta að það eru allar líkur á að Gerry Adams sé trúlaus, allavega í dag.


Kalli (meðlimur í Vantrú) - 07/04/08 11:28 #

Já, gott innlegg frá Óla og ég ætlaði að segja að Loyalistar væru aðallega mótmælendur. Það eru sjaldan hreinar línur í skítugum stríðum.

Og reyndar leitun að hreinum stríðum...


Guðjón - 07/04/08 13:06 #

Þetta finnst mér vera góður pistill. Þegar menn eru að fjalla um stjórnmál er mjög mikilvægt að huga að hagsmunum. Málflutingur stjórnmálamanna er oft til þess eins að fela raunverulegan tilgang gerða þeirra.


Arnaldur - 07/04/08 15:10 #

Fín grein hjá þér.

500 ára rætur á hatrinu á Írlandi, en ég efast um að fólkið viti lengur afhverju það hatar hvort annað.

Óli veistu hvort Írar hafi verið sérstaklega miklir stuðningsmenn Mary Tudor (Bloody Mary) síðasta kaþólska stjórnanda Englands?

Hún er ekki dýrlingur eða eitthvað álíka súrt?


Kalli (meðlimur í Vantrú) - 07/04/08 16:07 #

Ég held reyndar að það sé nógu mikið af nýlegum blóðsúthellingum til að 500 ára sagan skipti marga engu máli. Ég hef lesið aðeins um þetta og það er magt ansi óhugnanlegt eins auðvitað má búast við. Situr samt í mér að lesa um lið eins og slátrarana í Shankill.

Voðaverk eins og þeir stunduðu hljóta að sitja í fólki.


Arnaldur - 07/04/08 17:15 #

Þetta er fáranlegt, þeir byrja 1972 þanngað til höfuðpaurarnir eru handteknir 1977. 1979 eru 11 menn úr hópnum handteknir.

Ótrúlegt hvað þeir gátu aðhafst lengi óáreittir sérstaklega miðað við að þeir eiga að hafa drepið um 30 manns og verið þetta margir.

En það fellst væntanlega líka í því að þetta voru mótmælendur að drepa kaþolikka. Ef þetta hefði verið á hinn veginn hefðu Bretar væntanlega ekki liðið það.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 07/04/08 20:35 #

Góður pistill sem ég er nánast algjörlega sammála. En það er reyndar eitt stríð eða átök sem ég sé ekki alveg hvar hagsmunirnir liggja, þ.e. stofnun Ísraelsríkis eftir seinni heimstyrjöld.

Sá atburður er svo glórulaus að erfitt er að finna réttlætingu á honum nema að líta til gamalla þjóðsagna gyðinga og þann átrúnað sem menn leggja í þær. Bæði hjá gyðingunum og þeim kristnu.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 07/04/08 22:08 #

Trúarbrögð geta vel verið ástæða þar sem þau eru svo sterk kúgunartól. Mörg af stríðunum sem geysuðu í Evrópu um og eftir Lúther voru þannig af völdum trúarbragð sem stjórnunartækis.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 10/04/08 09:16 #

Vel á minnst, Ísrael. Stofnun Ísraelsríkis var fullkomnun og hápunktur zíonismans, þjóðernishyggju evrópskra gyðinga. Þeir fóru ekki varhluta af evrópskri þjóðernishyggju, frekar en aðrir, voru óvíða velkomnir sem hluti þjóðarinnar og þurftu því að stofna sína eigin þjóð. Gyðingar eru eitt af þessum (fáu) sérstöku keisum, þar sem trúin var órjúfandi þáttur í sjálfsmynd þeirra sem þjóðar. Þversögnin í því er að í þá daga, á fyrri hluta tuttugustu aldar, voru zíonistarnir frekar sekúlar. En alla vega, fyrir utan þjóðernisstefnu gyðinga og auðvitað nýafstaðna helförina, þá gegndi stofnun Ísraelsríkis hagsmunahlutverki fyrir Vesturlönd. Bæði sem brúarsporður vestrænna áhrifa í heimi araba, og líka sem næsti bær við Súez-skurðinn, eina mikilvægustu samgönguæð heims og lífæð Breta við Indland.

Evrópsku "trúarbragðastríðin" á 16. og 17. öld bera vissulega svipmót trúarbragða, en þar voru líka stekir hagsmunir á bak við. Bæði djúpstæðar stéttarlegar rætur, þar sem gamli aðallinn stóð nærri kaþólsku kirkjunni og vaxandi borgarastétt og einvaldskonungar stóðu nærri lútherstrúarmönnum og kalvínistum, og líka beinir hagsmunir konunga í því að þjóðnýta klaustur og aðrar kirkjueignir og losna við ítök hins allt of volduga páfa í Róm. Þá voru sumir sem gripu einfaldletga tækifærið til að rísa gegn kúgurum sínum (t.d. Tékkar, Ungverjar og ótal bændauppreisnir) og þá var trúarbragðadeilan ágæt átylla.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.