Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að borða biblíur

Góðgerðastarfsemi kristinna félaga er oft öðrum til fyrirmyndar en stundum þvælist hugsjónin fyrir líkninni eins og í páskasöfnun Hins íslenska biblíufélags. Það eru börn á vistheimilum í Búlgaríu sem Biblíufélagið vill hjálpa og á vef þess eru ömurlegar lýsingar á aðstæðum þroskaheftra barna þar:

Börnin koma alls staðar að af landinu, útskýrir Ilieva forstöðukona heimilisins. Hún segir það skipta gríðarmiklu máli að heimilið njóti aðstoðar sem víðast að. „Við treystum á hjálpina sem við fáum til að geta keypt mat, föt og kennsluefni,“ segir hún. „Peningarnir sem koma frá ríkinu næga [svo] ekki einu sinni fyrir mat fyrir börnin.“

Og þegar neyðin er stærst bjargar Biblíufélagið málunum og gefur börnunum barnabiblíur. Athugið að í umfjöllun félagsins er sérstaklega tekið dæmi um þroskaheft börn. Á vef breska UNICEF er fjallað um neyð barna á stofnunum í Búlgaríu og þau talin fleiri en 8000. Svo alvarlega skortir umönnun fyrir þessi börn að það hamlar bæði líkamlegum og sálrænum þroska þeirra.

UNICEF virðist rekið áfram af heimildamynd um eitt vistheimilanna í Búlgaríu og það er örugglega myndin Bulgaria's Abandoned Children sem var sýnd á BBC fyrir áramót. Í umfjöllun BBC segir að fá barnanna í myndinni geti talað. Ekki öll þeirra skortir burði til þess heldur var þeim aldrei kennt að tala.

Nú má vel vera að Biblíufélagið hafi valið börn til að hjálpa sem kunna ekki bara að tala heldur lesa líka. Umfjöllun UNICEF sýnir samt að börnum á stofnunum í Búlgaríu vantar umönnun, sérkennslu - eða kennslu yfirleitt - og hugsanlega jafnvel mat. Biblíur vantar þau ekki.

Á vef Bulgaria's Abandoned Children er tekið við framlögum ef þú hefur áhuga á að hjálpa börnunum í Búlgaríu.

Karl Gunnarsson 31.03.2008
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 31/03/08 17:40 #

Stórkostlegt! „Peningarnir sem koma frá ríkinu næga [svo] ekki einu sinni fyrir mat fyrir börnin.“

Og hvernig er brugðist við? Með fökkíng Biblíum.


FellowRanger - 31/03/08 18:20 #

Angelov sem færði heimilinu barnabiblíurnar sagði þegar hann afhenti þær: „Guð er kærleikur og ég veit að ást hans mun styrkja þessi börn.“

Jahá, þessi æðislegi guð er víst enn einusinni of upptekinn við að hjálpa íþróttahetjum og tónlistarmönnum við að vinna verðlaun til að taka eftir og hjálpa þessum börnum sem VIRKILEGA þarfnast yfirnáttúrulegra kraftaverka.


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 31/03/08 21:32 #

´´stundum þvælist hugsjónin fyrir líkninni´´

Bingó!

Hversu mikill asni þarf samt að vera til að sjá ekki hversu yfirmáta fáránlegt það er að gefa biblíur til barna sem sum kunna ekki að tala og eru að deyja úr hungri?

Það mætti halda að þetta fólk baði sig í heimsku á morgnanna, gangi svo útí daginn brosandi yfir því að hafa sent biblíur til barna sem þurfa á öllu öðru en gamalli bullskruddu að halda.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.