Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Siðferðislögreglan

Fyrir nokkrum vikum rak ég augun í þessa frétt á Moggavefnum:

Handteknir fyrir að daðra við stúlkur

Tæplega 60 ungir karlmenn hafa verið handteknir fyrir að daðra við stúlkur í verslunarmiðstöð í Mekka. Saksóknaraembættið hefur hafið rannsókn á málinu.

Mennirnir eru sakaðir um að hafa klætt sig með ósæmilegu hætti, leikið háværa tónlist og dansað í því augnamiði að ná athygli stúlknanna. Frá þessu greindi dagblaðið Saudi Gazette.

Mennirnir voru handteknir að beiðni sérstakrar nefndar sem hefur það verkefni að stuðla að skírlífi og koma í veg fyrir ódyggð, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

Siðferðislögreglan (mutaween) framfylgir þessum lögum.

Skemmst er frá því að segja þegar yfirvöld í Sádi-Arabíu bönnuðu sölu á rauðum rósum og öðru sem tengist Valentínusardeginum.

Hátterni hinna ósæmilegu dansara er í hæsta máta eðlilegt. Það er einfaldlega snar þáttur í pörunarhegðun flestra dýrategunda að setja í gang mökunarferli með tilheyrandi dansi og skreytingu. Ef Muttöfunum í trúarlögreglu Sádí-Arabíu er gert að líta á slíka hegðun sem glæpsamlega táknar það einfaldlega að lagabókstafurinn þarna er ekki byggður á skilningi og skynsemi heldur trúarlegri forpokun og afturhaldi.

Og það er nú einmitt gallinn við trúarrit á borð við Biblíu og Kóran, þau eru ekki rituð af skynsemi og því síður af þekkingu. Siðaboðunin felst því oftar en ekki í að þvinga fólk og stýra frá ofureðlilegum athöfnum, tilfinningum og hvötum.

Þannig virka trúarbrögðin.

Hér heima hefur það um hríð verið viðkvæði ríkiskirkjupresta og biskupsins líka að amast við því að siðferðisþróunin hefur verið í áttina frá hinum þvingandi trúarfasisma sem uppsigað er við sjálfsagða og eðlilega kynhegðun manna.

Það mætti halda að þetta fólk vildi hverfa aftur til miðalda þegar kynlíf fyrir giftingu var fordæmt, einnig sjálfsfróun og samkynhneigð. En auðvitað geta flestir þessir prestar ekki lengur fordæmt rúnk og kynlíf ungra ógiftra para, slíkt er nefnilega á skjön við hin almennu og veraldlegu siðferðisviðmið nútímans, byggðum á þekkingu, skilningi og fordómaleysi. Eitthvað er þó samkynhneigðin enn að standa í sumum þeirra og ætti það að vera okkur til vitnis um hvaðan þetta lið kemur til að byrja með.

Er hin sjálfsagða sjálfsfróun dæmi um "guðlausa afstæðihyggju" þar sem absólút og óumbreytanleg viðmið frá guði eru brotin? Nei segja nútímalegu prestarnir, en það var nú samt sami guð og þeir dýrka sem fordæmdi Ónan fyrir að láta sæði sitt spillast í stað þess að hafna í kvenmannsskauti. Og er hin guðlausa afstæðishyggja þá ekki bara komin í gagnið hjá þeim sjálfum?

Og hvað með glórulaust múslimskt siðferði eins og það birtist í fréttinni hér að ofan? Það er alveg jafn guðlegt og hið kristna. Ekki getur það verið dæmi um guðlausa afstæðishyggju þar sem absólúttið frá guði vantar, eða hvað?

Múttafarnir í Sádí veita okkur sýn á gamla tíma trúarlegs yfirvalds. Þannig var það líka hér, þar til kirkjan missti alvaldið úr höndum sér. Kristnir prestar hafa einfaldlega á öllum tímum verið samskonar siðgæðislögregla og sú múslimska og enn eru þeir að reyna. Um það ber endalaust vælið um guðlausa afstæðishyggju vott. Þetta er sorgleg staðreynd, enda eru hin trúarlegu siðferðisviðmið prestastéttarinnar um margt ófullkomnari og annkannarlegri en ég tel mín eigin vera. Mín eru byggð á skynsemi, þeirra á bronsaldarkennivaldi.

Burt með trúarlegt siðgæði.

Birgir Baldursson 19.03.2008
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.