Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Bruðl á bruðl ofan

Í Mogganum á miðvikudaginn var (12. mars, s. 17), var greint frá því að Grafarvogskirkja væri að fara að eignast orgel. Það á aðeins að kosta 70 milljónir. Nokkrir auðkýfingar gefa samtals 40 milljónir af höfðingskap sínum upp í kostnaðinn, orgelsjóður á tæpar 10 milljónir og þá standa eftir rúmar 20 milljónir ógreiddar. Orgelið á að vera komið upp og fullgræjað á tíu ára vígsluafmæli kirkjunnar eftir um tvö ár. Vigfús prestur hefur ekki áhyggjur af kostnaðinum; í sókninni búa nefnilega 20.000 sóknarbörn, þar af 12.000 sem eru fullorðin og borga kærkomin sóknargjöld. Því sem ekki verður dekkað með þeim verður safnað meðal fólksins. Hvers vegna haldið þið að þetta heiti „söfnuður“?

Það virðist vera vani kirkjunnar að gera ríkulega við sjálfa sig þegar hégómi er annars vegar. Í nóvember síðastliðnum var til dæmis sagt frá því í Morgunblaðinu, að bygging kirkju í Grafarholti væri að hefjast. Eins og svo oft var henni valinn staður við hliðina á skólanum. Áætlaður kostnaður við hönnun og byggingu kirkjunnar var sagður vera 200 milljónir króna. Formaður sóknarnefndarinnar sagði þá að aðstaða sem kirkjan hefði haft í félagsrými aldraðra væri „mjög góð“ en „ekki til framtíðar“. Hvers vegna í ósköpunum ekki, ef hún er „mjög góð“?

Kirkjusókn á Íslandi er ákaflega dræm, svo ekki sé meira sagt. Mér þykir furðulega rausnarlegt að reisa 750 fermetra félagsheimili fyrir 200 milljónir króna, þar sem má vænta nokkurra tuga gesta í dæmigerða messu. Hefði ekki verið nær að halda guðsþjónusturnar áfram í félagsrými aldraðra, þar sem áhugasamasta fólkið er hvort sem er? Hvað væri hægt að bólusetja mörg börn í Afríku fyrir peninginn?

Dæmin eru fleiri. Skemmst er að minnast Stóra Sólheima-málsins. Nýlega var líka sagt frá því að Skálholtsstaður vildi selja lóðir undir fjölda sumarhúsa úr landi sínu til að „styrkja staðinn fjárhagslega“ eins og það var orðað í Fréttablaðinu 30. október. Skilji það hver sem vill. Í lok október greindi Fréttablaðið líka frá því að Háteigskirkja vildi selja spildu úr lóð sinni undir íbúðarhús, en nota andvirðið upp í kaup á barokkorgeli í kirkjuna. Sem unnandi orgeltónlistar fagna ég þessu, og reyndar líka sem unnandi íbúðarhúsnæðis. En réttlætisins vegna get ég ekki orða bundist: Þeir sletta skyrinu sem eiga það!

Stórfyrirtækin eru bara eins og þau eru, og hvað sem manni finnst um þau þá gefa þau sig oftast ekki út fyrir að vera neinar góðgerðarstofnanir. En það gerir ríkiskirkjan hins vegar. Fyrir hönd þeirra sem hefðu haft meira gagn af peningunum, er réttlætiskenndin særð. Hvað ætli mætti bjarga mörgum mannslífum fyrir þessa peninga? Hvað mætti grafa marga brunna? Hvað hefði Jesús gert, getur einhver sagt mér það?

Vésteinn Valgarðsson 17.03.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Árni Árnason - 17/03/08 13:48 #

Það hefur lengi verið svo, að þegar við Íslendingar, nýskriðnir út úr moldarkofunum, komum til rammkaþólsku landanna við Miðjarðarhafið, verður fyrsta vers að skoða kirkjur. Ef ekki risastórar, þá enn stærri, tröllauknar eða gígantískar og eftir því gullslegnar, eðalsteinum-skrýddar og hátimbraðar. Mönnum fellur gjarna haka á bringu yfir þessum ókjörum og fatast skilningur þess hvernig slíkt mátti verða á tímum mestu niðurlægingar mannlegrar reisnar frá upphafi vega.
Ég get alveg viðurkennt að hafa á árum áður fyllst þessari lotningarfullu aðdáun sem enn grípur marga. Það var eiginlega ekki fyrr en ég var búinn að sjá kirkjuna sem enn er í smíðum í Barcelona, þá sem Íslendingar kenna gjarna við sígröðu fjölskylduna, að ógeðsgáttirnar opnuðust. Má vera að illa upplýstir kóngar og keisarar miðalda hafi í alvöru haldið þessi dónalega absúrd skrímsli opnuðu leið þeirra að himnasælu, og haldið að margar kynslóðir verkalýðs, sem drápust úr hungri og ömurlegum aðbúnaði, gætu enga meiri eða betri umbun fengið fyrir sitt ömurlega líf en tálsýnina um eilífðarsælu á himni. Nútímafólk á að vita betur. Við eigum ekki að líða þann fjáraustur sem fer í kirkjur og tröll- aukin orgön. Það bókstaflega hlýtur að vera hægt að finna kærleiksríkara starf fyrir þá peninga. Við bætum ekki misgjörðir forheimskaðs miðaldavalds, en mál er að linni, og þó fyrr hefði verið.


Svanur Sigurbjörnsson - 18/03/08 11:02 #

Það er ekki bara hjá Þjóðkirkjunni þar sem fólk leyfir sér alls kyns lúxus. Nánast allt þjóðfélagið lifir í einhvers konar lúxus, jafnvel þeir sem hafa ekki peningana fyrir því. Það eru bara slegin lán. Auðvitað réttlætir eitt bruðl ekki annað og það er spurning hvort að fólk sem hefur siðferði að sérstöku viðfangsefni verði ekki að gæta sín sérstaklega og vera helst til fyrirmyndar þegar að fjárútlátum kemur og það þarf að forgangsraða í hvað peningarnir eiga að fara. Það verður aldrei svo að allt sem umfram er fari í hjálparstarf en spurningin er; Hvers kyns lúxus er hægt að réttlæta hjá trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi? Þarf kirkja 80 milljón króna orgel þegar 20 milljón króna stykki væri nógu gott til að almúginn heyrði ekki muninn? Þá er spurning þín varðandi risastór safnaðarheimili góð.
Það er þó ljóst að kirkjan sækist eftir því að hafa glæsilega aðstöðu til að trekkja að. Þrátt fyrir allt tal Karls biskups um "græðgisvæðinguna", er kirkjan að taka þátt í henni sjálf til að fylgja tíðarandanum og vera ekki púkó.


FellowRanger - 19/03/08 03:28 #

Þetta er hneyksli.


kári - 21/03/08 13:58 #

Sorgleg rök, vægast sagt. Hendum meira að segja afrískum börnum inn í umræðuna þegar að að við tölum um að styrkja kyrkjuna og allt fólkið sem hún hjálpar. Já hjálpar, trúiði því???!!


Haukur Ísleifsson - 22/03/08 00:01 #

Skildi þetta ekki alveg. Viltu útskýra?


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 17/03/10 16:32 #

Tveimur árum og einu hruni síðar tala prestar nú um ógæfuna sem hlaust af því að menn hlustuðu ekki á rödd kirkjunnar :) Kunnið þið annan?

Meira um þessa hræsni hér.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.