Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Mælikvarði siðferðisins og tilgangur tilgangsins

Gunnar Jóhannesson prestur svaraði nýlega grein þar sem ég gagnrýndi umfjöllun hans um siðferði og sannleika. Ég mótmælti því að goðmögn væru nauðsynleg forsenda siðferðis. Ég vísaði líka tali um afstæðishyggju til föðurhúsanna með því að benda á að kirkjan fylgir henni sjálf, þótt hún þykist hafa meðbyr eilífs, algilds sannleika. Gunnar neitaði ekki hentistefnu kollega sinna, en spurði nokkurra ágætra spurninga, sem mér er ljúft og skylt að svara.

Mælikvarðinn

Gunnar segir að við gætum ekki lagt siðferðilegt mat á nokkurn hlut án þess að óbreytanlegur mælikvarði væri ritaður á hjarta okkar. Ég geri ráð fyrir að hér eigi hann við að guð hafi haft hönd í bagga með þennan mælikvarða. Ég kannast vel við mælikvarðann, en sé ekki að hann tengist æðri máttarvöldum. Við höfum siðferði vegna þess að við erum félagsverur og án leikreglna mundi fljótt sjá fyrir endan á samfélaginu. Það kemur því varla á óvart að gullna reglan er sameiginleg flestum trúarbrögðum og mun eldri en kristni – og reyndar mun eldri en mannkynið, ef út í það er farið. Hún er eðlislæg leikregla númer eitt hjá öllum félagsverum. Sama atferli sést hjá öðrum félagsverum – simpönsum, býflugum o.s.frv. Hver ritaði mælikvarðann á hjarta þeirra?

Leikreglurnar eru innbyggðar, og af eðlislægum hvötum þolum við ekki að þær séu brotnar. „Gott“ og „illt“ eru ekkert annað en einkunnir sem við gefum, eftir því hvernig eitthvað passar við þær. Gullna reglan gerir það til dæmis vel. Í henni er félagsleg arfleifð okkar færð í orð; hún segir okkur það sem við vitum, og okkur líkar það sem við heyrum vegna þess að við finnum hvað rímar við forskriftina sem við fæddumst með. Siðferðið kom með öðrum orðum fyrst, en siðfræðin á eftir.

Brauðfæturnir

Kristileg siðfræði stendur á brauðfótum vegna þess að hún byggist á umbun og refsingu. Það eru hæpnar siðferðilegar forsendur. Það eru tvennt ólíkt, að breyta rétt vegna þess að maður finni það hjá sér sjálfum, eða vegna þess að guð hafi sagt manni það. Ég tel að fólk hegði sér langoftast samkvæmt því fyrrnefnda, þótt sumir trúaðir haldi sig kannski fara eftir því síðarnefnda.

Kristin trú geri ráð fyrir því að fólk brjóti leikreglurnar, segir Gunnar. Gott hjá henni. Vonandi heldur Gunnar ekki að Jesús hafi fundið upp frávikshegðun. Ég veit ekki hvaðan Gunnar hefur þá hugmynd að húmanistar geri sér grillur um fullkomið fólk. Eins og aðrir húmanistar sem ég þekki, kann ég bara vel að meta fólk eins og það er – með öllum sínum göllum, en samt yfirleitt bestu skinn. Enda þykir það yfirleitt ekki fréttnæmt þegar mannleg samskipti ganga vel.

Gunnar heldur að „eftir því sem við fjarlægjumst Guð meira þeim mun auðveldara [sé] að virða fólk að vettugi“. Það væri nær sanni að segja, að eftir því sem við fjarlægjumst fólk meira, þess frekar virðum við það að vettugi. Guð er óþarfur milliliður.

Dæmin sanna að kristnir menn og kirkjan hafa ekki minni breyskleika en aðrir, þrátt fyrir sinn eilífa sannleika. Sá sem hefur ekki reynst ratvísari en aðrir þykist samt geta vísað þeim veginn. Þar liggur nefnilega hundurinn grafinn: Þau mennsku lög sem rituð eru á hjarta okkar, og eru æðri lögum ríkisins, hafa reynst jafn vel óháð því hvort kirkjan túlkar þau eða ekki. Og til hvers er þá kirkjan?

Tilgangurinn

Þótt Gunnar viðurkenni að trúin geti verið erfið viðureignar, líst honum þó ekki á tilhugsunina um heim án tilgangs. Hann vill að guð sé til, svo að lífið hafi tilgang. Þessar forsendur, ef forsendur skyldi kalla, eru veikar. Hver segir að það þurfi tilgang? Hafa náttúruhamfarir og drepsóttir tilgang? Auðvitað ekki. Tilgangurinn er mannasetning. Það sem kemst næst eiginlegum tilgangi er það að koma erfðaefni sínu til næstu kynslóðar. Sá sem finnst hann þurfa sérstakan tilgang með lífinu velur sér hann bara sjálfur. Ég geri það, Gunnar gerir það líka. Öllum er samt hollt að temja sér það lítillæti, að við erum bara ein af mörgum dýrategundum, að heimurinn er ekki skapaður sérstaklega með okkur í huga, og að blind náttúruöflin hafa engan sérstakan áhuga á okkur.

Gunnar spyr hvernig okkur hefði dottið tilgangur lífsins í hug til að byrja með, ef hann væri enginn. Ég spyr á móti, hvernig hefði okkur dottið jólasveinar, drekar og Baal í hug ef þeir væru ekki til í alvörunni? Svarið er í stuttu máli: Frjótt ímyndunarafl, kannski í sambland við ofskynjunarefni.

Ég lifi jarðbundnu lífi og finnst ekkert vanta í samræmið eða samhengið. Ég sé ekki hvers vegna ætti að þakka goðmagni fyrir það sem við erum ánægð með eða kenna því um það sem við erum óánægð með. Því síður að við getum ályktað um æðri tilgang, þótt lífið geti stundum verið erfitt. Þótt óvissa geti verið óþægileg, tel ég samt best að venja sig við hana. Við þurfum nefnilega að lifa með henni hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Áður en sannleikurinn frelsar okkur þurfum við að frelsa hann – úr reifum dulúðar og forneskju. Það ferli er sem betur fer vel á veg komið, þótt enn séu þeir til sem standa á bremsunni.

--

Þessi grein birtist fyrst í Morgunblaðinu´þann 18. janúar 2008.

Vésteinn Valgarðsson 20.01.2008
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Guðjón - 20/01/08 12:13 #

Mér sýnist að trúleysi hjóti að leiða til afstæðishyggju nema því aðeins að vísindinn eða náttúran taki við hlutverki trúarbragða.

En hvar er að finna undirstöður siðferðis sem byggja á veraldlegum grunni. Er niðurstaðan ekki sú að útfrá forsendum efnishyggjunar eru hugtök, eins og frelsi, tilgangur og virðing merkingalaus. Eru það ekki kaldar óþægilegar staðreyndir lífsins að það er ekki nokkur leið að færa pottþétt rök fyrir nokkru siðferði út frá forsendum trúlausrar efnishyggju- en trúleysingarni horfast ekki í augu við þessar óþægilegu staðreyndir vegna þess að slík tilvera er óbærileg- þeir lifa því í heimi blekkingar um að siðferði sé ekkert vandamál til þess að líf þeirra sé bærilegt.


Héðinn Björnsson - 21/01/08 03:54 #

Hérna verður að skilja milli trúar og trúarbragða. Vísindi komast ekki langt án trúar því örugg vitneskja er nánast ómöguleg að fá. Þannig trúi ég því til dæmis að Jörðin sé hnöttótt þrátt fyrir að ég hafi ekki gert neinar athuganir sem útiloki aðra möguleika.

Það er því vandlifað án trúar en það segir hins vegar ekki til um réttmæti trúarbragðanna. Fólk utan trúarbragða getur þannig vel trúað á siðferðiskerfi sem vísindin ekki getað reiknað út hvort sé betra en önnur.

Fólk í skipulögðum trúarbrögðum skilgreinir oft fólk sem ekki tilheyrir trúarbrögðum sem trúaða ef það trúir ýmsu sem það ekki veit fyrir víst. Síðan en er hugtökunum trú og trúarbrögðum blandað og verður niðurstaðan eftir því. Slíkt er fyrst og fremst spurning um að það eru að reyna að skilja trúarbragðaleysi út frá forsendum trúarbragðanna.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 21/01/08 18:54 #

Guðjón, mér finnst mun auðveldara að færa rök fyrir góðu siðferði sem byggist á veraldlegum grunni heldur en hinu ótrausta siðferði trúarbragðanna. Hið síðarnefnda byggist alfarið á setningunni "guð vill þetta svona" og vekur upp fjölmargar spurningar. Er X rétt vegna þess að það er rétt eða vegna þess að guð sagði að X sé rétt, er t.d. ein sem kemur upp í hugann.

Eru það ekki kaldar óþægilegar staðreyndir lífsins að það er ekki nokkur leið að færa pottþétt rök fyrir nokkru siðferði út frá forsendum trúlausrar efnishyggju

Þeir sem dýrka engin skurðgoð gera sér grein fyrir því að ekki er hægt að byggja gott siðferði á duttlungum ósýnilegra yfirnáttúrulegra vera. Mér finnst það ekki vera "köld óþægileg staðreynd" nema síður sé.

en trúleysingarni horfast ekki í augu við þessar óþægilegu staðreyndir vegna þess að slík tilvera er óbærileg- þeir lifa því í heimi blekkingar um að siðferði sé ekkert vandamál til þess að líf þeirra sé bærilegt.

Þó þú getir ekki hugsað þér gott siðferði án allra himnadrauga þá er það ekki útilokað. Annars finnst mér þessu vera ágætlega svarað í góðri grein Vésteins.


Finnur - 22/01/08 00:17 #

Það eru tvennt ólíkt, að breyta rétt vegna þess að maður finni það hjá sér sjálfum, eða vegna þess að guð hafi sagt manni það.
Hvað um breyskleika okkar Vésteinn? Mér finnst það mjög varasamur boðskapur að hver og einn eigi að gera það sem honum finnist rétt. Hvernig á að kenna börnum þetta siðferði? Hvað um múginn sem leitar sér fyrirmynda hjá smástirnum fjölmiðlanna?

Sérðu ekkert vandamál við þetta "það sem þér finnst" siðferði?


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 22/01/08 08:56 #

Finnur, það sem þú kallar "það sem þér finnst"-siðferði er það siðferði sem við förum eftir. Við öll, þú líka. Það breytir engu um réttmætið hvort við veljum einhverja hentuga ritningarstaði til þess að réttlæta ákvarðanirnar eða ekki, þegar öllu er á botninn hvolft er það næstum því aldrei, ef þá nokkurn tímann, ritningin sem hefur úrslitavaldið í alvörunni.

Og hvað með breyskleika okkar? Já, hvað með breyskleika okkar? Það er það sama, ritningin og yfirnáttúruskýringar flækja bara málið.


Finnur - 22/01/08 11:32 #

Mikið ert þú öfundsverður Vésteinn, fyrst það sem þér finnst er ætíð í samræmi rétt siðferði. Ég á ekki þessu láni að fagna, ætíð þegar gert er á hlut minn þá finnst mér að ég eigi rétt á að jafna hlut minn. Mér hefur aldrei fundist rétt að rétta hinn vangann -- en blessunarlega hefur mér tekist það í stöku tilfellum vegna þess að mér var kennt það.

Hvað rök má finna í veraldarhyggjunni fyrir því að bjóða hinn vangann? Boða húmanistar auga fyrir auga og tönn fyrir tönn? Mér sýnist það vera hrein afturför.


Andri Snæbjörnsson - 22/01/08 15:18 #

Mér var kennt að hegða mér á vissan hátt. Mér var kennd almenn kurteisi. Í dag hegða ég mér yfirleitt eftir þessum reglum vegna þess að ég skil að nútíma þjóðfélag byggist á því að sem flestir virði slíkar reglur.

Af hverju ættu húmanistar að vilja einhverja afturför hvað það varðar?

Ef trúin er eina ástæðan fyrir því að þú hegðar þér vel þá gef ég lítið fyrir samfélagslega vitund þína!


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 22/01/08 15:55 #

"Boða húmanistar auga fyrir auga og tönn fyrir tönn?"

Finnur, þetta er reyndar boðskapur Guðs í Biblíunni, ekki húmanista. "Líf fyrir líf, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd, fót fyrir fót."

Jesús vildi breyta þessu, þótt ekki ætti stafkrókur af þessu bulli að falla úr gildi, og í ljósi orða hans ætla ég að biðja þig að gefa mér 100 þúsund krónur. Sjá Matt. 5:42

Nú reynir á kristið siðferði þitt.


Finnur - 22/01/08 22:58 #

Af hverju ættu húmanistar að vilja einhverja afturför hvað það [siðferðiðskennslu] varðar?
Eftir því sem ég kemst næst, þá vilja húmanistar allar tilvitnanir í trúarbrögð burt úr kennslu í siðferði. Einungis rökrétt veraldleg hegðun gildir -- það sem þér finnst. Mér finnst auga fyrir auga og tönn fyrir tönn mjög rökrétt og mjög veraldlegt -- það sem aðrir gera þér, það megið þér og gera þeim. Þetta myndi ég kalla afturför.
Nú reynir á kristið siðferði [gefa Reyni pening] þitt.
Ah, nú skil ég biblíulestur ykkar. En því miður, þá þarftu reyna þetta á einhverjum jafn lesnum í biblíunni. Hefðurðu prófað þetta á guðfræðinga?


Haukur Ísleifsson - 23/01/08 00:27 #

Húmanistar myndu vilja skapa fólki nóga innsýn inn í gangverk samfélagsinss til að það skilji að hefnd er mjög óæskileg.


Finnur - 23/01/08 01:21 #

Hmmm, er Húmanismi kannski Sósíalismi í nýjum búningi?


Haukur Ísleifsson - 23/01/08 15:54 #

Nei.


Finnur - 23/01/08 22:58 #

Vandamálið sem ég sé við húmanismann, sama vandamál og hrjáir sósíalsimann, er að gera ráð fyrir að allir hljóti að lúta veraldlegum röksemdum. Með því að kenna innsýn í gangverk samfélagsins, útskýra afhverju þetta þarf að vera svona, þá mun allt falla í ljúfa löð. Engin þörf fyrir kónga, guði eða smástirni til að líta upp til, eða fjármunum til að sækjast eftir -- allir lúta veraldlegum rökum samfélagsins. Siðferði, líkt og annað umdeilanlegt, er ákveðið að nefnd sem kosin er af samfélaginu. Og sú nefnd hlýtur að taka mið af því hvað er samfélaginu fyrir bestu -- einstaklingurinn lýtur í lægra haldi.

Vitið annars um eitthvað samfélag sem byggir á húmanisma?


Andri Snæbjörnsson - 24/01/08 09:54 #

Tjahh... Flest vestræn samfélög byggja í reynd á húmanisma í þessum efnum í dag.

Núverandi "kristilegt siðferði" byggir t.d. á húmanískum viðhorfum.

Hið "kristilega siðferði" fyrr á öldum byggði á þess tíma barbarisma.

Kristilegt siðferði endurspeglar alltaf hugmyndir manna á hverjum tíma en er samt yfirleitt einhverjum skrefum á eftir samanber t.d. viðhorf kirkju og margra trúaðra til samkynhneigðra.


Þórarinn Sigurðsson - 26/01/08 03:21 #

Kristni boðar að ef þú brjótir gegn Guði muni Guð refsa þér.

Ef þú brýtur lög mun dómsvaldið refsa þér.

Útskýrðu, kæri Finnur, hver eðlismunurinn er þar á.

Viltu líka meina að hægt sé að ákveða hvort eitthvað sé gott eða illt einfaldlega eftir því hvort manni verði refsað eða umbunað fyrir? Skiljum við ekki muninn á góðu og illu nema okkur sé kenndur hann með hrísvendi og súkkulaðistöng?

Mér þykir þú gera lítið úr mannskepnunni. Að óþörfu.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.