Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vinaleið fær falleinkunn

Bæjarráð Garðabæjar samþykkti vorið 2007 að leita til sérfræðinga hjá KHÍ til að „meta réttmæti og gildi vinaleiðar“ og hafa þeir nú sent frá sér skýrslu en tengingar á hana er að finna á vefsíðunni blogg.visir.is/binntho. Skýrsluhöfundar fóru þá leið að vinna skýrsluna eingöngu út frá faglegum sjónarmiðum skólastarfs en taka ekki afstöðu til þess hvort aðkoma kirkju að skólastarfi sé réttmæt þegar horft er til almennra laga í lýðræðisþjóðfélagi.

Úrskurður Evrópudómstólsins í Strasbourg gegn norska ríkinu virðist þó taka af öll tvímæli um að starfsemi trúfélags innan almenns skólakerfis standist ekki almenn mannréttindaákvæði.

Starfsmenn Þjóðkirkjunnar hafa ítrekað í ræðu og riti staðfest að vinaleið sé trúboð og biskupinn taldi hana „sóknarfæri“ fyrir kirkjuna. Það þarf því heldur ekki að velkjast í vafa um að vinaleið stangist á við lög um grunnskóla, siðareglur kennara, stjórnarskrá og ýmsa þá alþjóðasamninga um mannréttindi sem íslenska ríkið er aðili að.

Farin og hætt

Vinaleið hófst haustið 2006 í fjórum grunnskólum í Garðabæ og á Álftanesi að frumkvæði sóknarprests. Tveir starfsmenn tóku að sér að sinna verkefninu, djákni og skólaprestur. Vegna andmæla foreldra var gripið til þess ráðs í tveimur skólanna að gefa foreldrum kost á að taka fram sérstaklega ef þeir vildu ekki gefa starfsmönnum vinaleiðar færi á börnum sínum. Þessari gagnasöfnun var vísað til Persónuverndar sem hafði samband við skólastjóra viðkomandi skóla haustið 2007. Á sama tíma sagði djákni starfi sínu lausu og féll vinaleið þar með niður í Flataskóla. Skólastjórar Sjálandsskóla og Hofsstaðaskóla virðast hafa ákveðið að framlengja ekki starfsemi vinaleiðar og er hún því ekki lengur starfrækt í grunnskólum Garðabæjar en skólaprestur starfar enn í Álftanesskóla. Ekki á forsendum skólastarfs

Fram kemur í áðurnefndri skýrslu að flest jákvæð ummæli sem féllu í viðtölum megi rekja til ánægju með skólaprestinn sem einstakling enda virðist hann hafa náð vel til barnanna og starfsmanna skólans. Að öðru leyti virðist vinaleið engan veginn standast þær kröfur sem gera verður til faglegs skólastarfs. Sú réttlæting sem oft heyrist, að aðkoma Þjóðkirkjunnar að grunnskólum sé á forsendum skólanna, virðist því ekki standast. Hugmyndafræði vinaleiðarinnar er óljós og framkvæmd hennar illa afmörkuð að mati skýrsluhöfunda. Eigi framhald að verða á vinaleið þurfi að draga fram með skýrum hætti hver sérstaða hennar sé og meta framhaldið á grundvelli þess. Höfundar benda á að sé um hefðbundna sálgæslu að ræða eigi hún heima innan kirkjunnar en verði niðurstaðan sú að vinaleið taki til víðara sviðs eru viðfangsefnin og eðli þjónustunnar þannig að þau eigi heima hjá þeim aðilum sem þegar sinna slíkri þjónustu innan skólans.

Skýrsluhöfundar gagnrýna einnig aðferðafræði vinaleiðarinnar, þar sé farið inn á svið sem aðrir fagaðilar sinna þegar en án fagþekkingar með þeim afleiðingum að samstarf fagaðila innan skólans er í hættu. Ekki eru haldnar skýrslur eða skrár um viðtöl, engin markmið séu sett fram, engin greining, engin meðferðaráætlun. Fyrst og fremst er um einsleg trúnaðarsamtöl að ræða, jafnvel án vitneskju foreldra, og skýrsluhöfundar gagnrýna þessa aðferðafræði réttilega.

Spyrja má hvort ítrekuð einsleg trúnaðarsamtöl um viðkvæm málefni, án faglegra forsendna, séu ekki hreinlega hættuleg börnum.

Vantar ákvörðun og fjármagn

Skýrsluhöfundar gagnrýna hvernig staðið var að innleiðingu vinaleiðar. Lögformlegum leiðum var ekki sinnt, foreldraráð og skólanefnd fjölluðu ekki um málið fyrirfram og starfsmönnum var tilkynnt um það sem orðnum hlut. Skýrsluhöfundar benda á að þar sem vinaleið sé ekki hluti af lögboðinni þjónustu skóla sé nauðsynlegt að sveitarfélög taki formlega afstöðu til þess hvort þjónustan skuli veitt. Um leið þurfi að taka afstöðu til kostnaðar. Skólaprestur er mjög dýr á mælikvarða skólastarfs enda eru byrjunarlaun hans um það bil þrefalt hærri byrjunarlaunum kennara sem þó er fagmenntaður til starfa með börnum. Fram kemur í skýrslunni að hörð andstaða sé innan skólanna gegn því að greiða kostnaðinn enda þurfi þá að skerða aðra þjónustu.

Vinaleið í Garðabæ var fjármögnuð að mestu leyti með framlagi eins foreldris en auk þess lagði kirkjan til fjármagn auk sveitarfélagsins Álftaness. Komi til framhalds á starfsemi vinaleiðar er ljóst að sveitarstjórnir þurfa að taka formlega afstöðu til hennar og jafnframt að tryggja fjárveitingar.

Enginn grundvöllur

Skýrsluhöfundar mæla ekki með framhaldi á starfsemi vinaleiðar en segja í lokaorði að brýnt sé að hagsmunaaðilar „ræði og taki afstöðu til þess hvort réttmætt sé að kirkjan komi að skólastarfi“ en fallist menn á það þurfi að fara fram „hreinskiptin skoðanaskipti um hugmyndafræði, markmið og leiðir með starfinu.“ Af lestri skýrslunnar má sjá að vinaleið er klúður og best færi á því að henni væri hætt með öllu, þó ekki sé nema vegna barnanna sjálfra.

Brynjólfur Þorvarðarson 16.01.2008
Flokkað undir: ( Vinaleið )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 16/01/08 09:42 #

Til er Félag kennara í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræðum en heimasíða þeirra kallast því undarlega nafni, kennsla og trú

Félag þetta nýtur stuðnings þjóðkirkjunnar (skv. heimasíðu kirkjunnar) en í skýrslu formanns á aðalfundi sagði hann um Vinaleiðina:

"Stjórnin var þó sammála um að þessi starfsemi væri á gráu svæði og ætti ekki að vera í höndum ákveðinna safnaða kirkjunnar þar sem þessi vinna á sér stað innan skólanna. Hvatti stjórnin til að kirkjan héldi þessu starfi áfram en færði verkefnið inn í safnaðarheimilin eftir skólatíma."


Arnar - 16/01/08 09:49 #

Ánægjulegar fréttir, átti eiginlega frekar von á að skýrslan yrði notuð til að réttlæta þetta vinaleiðartrúboð.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 16/01/08 10:04 #

Aðalfundur þessa félags var í maí á síðasta ári og niðurstaða stjórnar því alveg óháð skýrslu SRR/KHÍ.

Skólanefnd Álftaness fundaði sl. mánudag og þar kom fram þetta:

"Skýrsla um Vinaleiðina liggur fyrir, hana má finna á heimasíðu Garðabæjar. Rætt var um tilkomu verkefnisins og fjármögnun. Skólinn hefur óskað eftir umsögn foreldraráðs um Vinaleiðina, kennararáð hefur einnig rætt um þetta. Skólanefnd óskar eftir umsögn skólans um Vinaleiðina sem verði lagt fyrir næsta fund. Skýrslan um Vinaleiðina verður rædd frekar á næsta fundi."

Vinaleiðin er enn rekin í Álftanesskóla en ekki í neinum grunnskóla Garðabæjar. Bæjarráð Garðabæjar á enn eftir að fjalla um málið og ákveða hvort hörmungin verður tekin upp að nýju.


Arnar - 16/01/08 10:09 #

Ég verð að segja að þetta er illa unnin skýrsla:

  • það er talað við einn nemanda, sem hafði nýtt sér vinaleiðina, enga aðra nemendur.
  • það er talað við foreldra tveggja barna sem höfðu nýtt sér vinaleiðina, enga aðra foreldra utan fulltrúa í foreldraráðum.

Greinilegt að skoðanir þeirra sem kusu að nýta sér ekki vinaleiðina eiga ekki upp á pallborðið.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 16/01/08 10:16 #

Vinnubrögð SRR, sem er starfrækt af Kennaraháskóla Íslands, eru vægast sagt undarleg, raunar til skammar fyrir háskóla. Hér má lesa umfjöllun um þessa skýrslu.


Arnar - 16/01/08 10:58 #

"Þeir foreldrar sem rætt var við voru almennt mjög sáttir við þjónustu Vinaleiðar."

Svoldið bjánalegt að koma með svona komment þegar það er algerlega sniðið fram hjá óánægðu foreldrunum.


Arnar - 16/01/08 12:56 #

Eftir að hafa lesið þetta allt finnt mér skýrslan nú vera frekar höll undir vinaleiðina og dregur fram alla kosti og gerir ekki mikið úr andmælum. Mikið talað um hvað það var unnið gott starf allstaðar og hvað allir voru ánægðir.

Helst telja þeir það til galla á framkvæmdinni hvað hún var illa kynnt og hvað hlutverk vinaleiðarinnar var illa skilgreint og jafnvel ólíkt milli skóla.

Það er amk. minn skilningur og ég er nokkuð hræddur um að það verði lappað aðeins upp á þennan ófögnuð, hann skilgreindur betur, fjármögnun tryggð (úr bæjarsjóðum) og svo farið af stað aftur.


Guðmundur D. Haraldsson - 16/01/08 16:12 #

Spyrja má hvort ítrekuð einsleg trúnaðarsamtöl um viðkvæm málefni, án faglegra forsendna, séu ekki hreinlega hættuleg börnum.

Ég hef rekið mig nokkrum sinnum á það hér á Vantrú að sumir höfundar (athugasemda, greina) setja út á að það sé ekki fagfólk (sálfr., geðl., og svo frv.) sem ræði við börnin. En þarf endilega fagfólk til að ræða við börnin, er ekki nóg að um sé að ræða vandaða einstaklinga sem vilja börnunum gott? Fólk sem er heiðarlegt, skilningsríkt og svo framvegis.

Nei, ég á auðvitað ekki við að það sé nóg í öllum tilvikum, eins og þegar börnin eru illa haldin. Ég er heldur ekki á þeirri skoðun að það sé alltaf við hæfi að börn ræði við fólk eins og ég lýsti að ofan, um hvað sem er, jafnvel þegar ekki er mikið að. En mér finnst þetta ekki gilda þegar börnin þurfa aðeins að ræða eitthvað sem þau treysta sér ekki til að ræða við foreldrana. Það geta verið undarlegustu smáatriði sem börnin þora ekki að ræða um við foreldrana. Tiltölulega saklaus atriði.

Ætti ekki góðviljuð, skilningsrík manneskja að geta gert það? Einhver skilningsríkur ætti að geta rætt við börn um hvað sé best að gera í því þegar einhver stríðir manni dálítið mikið. Sá hinn sami ætti líka að geta gefið góð ráð um hvernig maður getur eignast fleiri vini eða eitthvað slíkt. Ég myndi halda að það væri óhætt að börnin geti spurt um hvað sé eðlilegt við dauðsföll, hvað gerist og svo frv. Ég sé ekki þörfina fyrir sálfræðing eða geðlækni til að ræða um slíkt.

Ég er ekki vinur Vinaleiðarinnar, þvert á móti finnst mér Vinaleið vera della og jafnframt tímaskekkja. En mér finnst ekki endilega að þurfi endilega fólk með bakgrunn í geðlækningum til að ræða við börn um hversdagsleg mál, sem eru jafnframt viðkvæm, eins og mér finnst gefið í skyn hér í þessum pistli og víðar. Hins vegar þegar um alvarleg mál er að ræða er sjálfsagt að slíkir fagaðilar taki málin að sér.

Það má vera að ég sé einn af fáum með þessa skoðun. En þá verður svo að vera.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 16/01/08 17:21 #

Guðmundur, þú kemur með ágætis punkt. Mér þætti illt í efni ef það væri bara á færi sérfræðinga að ræða við börn og aðeins uppeldismenntaðir mættu nálgast þau. Börn geta leitað með hversdagsleg hugðarefni sín til skólasystkina, kennara, gangavarða, bókasafnsvarðar, hjúkrunarfræðings og húsvarðar í skólanum, svo eitthvað sé nefnt.

En í skólanum eru líka námsráðgjafar, sálfræðingar, stundum listmeðferðarfræðingar eða félagsráðgjafar - sérstaklega til að ræða við börnin utan kennslu.

Í skýrslunni er gagnrýnt að engin gögn eru haldin um þjónustu Vinaleiðar og það er mjög óljóst á hvaða forsendum hún er/var starfrækt. Ef gögn kirkjunnar eru skoðuð - sér í lagi og reyndar einuvörðungu áður en gagnrýnin hófst - er ljóst að "kristileg sálgæsla" snýst umfram allt um trú.

Ef kirkjan og þjónar hennar ætla að vera sjálfum sér samkvæmir - sem þeir hafa þó viljað sverja af sér - er deginum ljósara að Vinaleið á ekkert erindi í skóla. Skólinn er ekki trúboðsstofnun og nemendum má ekki mismuna vegna trúarbragða.

En ef samtöl við prest eða djákna eiga ekki að snúast um trú og ekki um alvarleg málefni - er ekki gott að vita hvað er eftir. Ef það er almennt spjall án nokkurrar stefnu eða viðmiðunar, og án gagna, er engin leið að vita hvert það getur leitt. Slíkt getur verið hættulegt, þótt það þurfi auðvitað ekki að vera það.


Guðmundur D. Haraldsson - 16/01/08 17:28 #

Reynir: Við virðumst þá vera sammála um þessi atriði.

Ég er mótfallinn Vinaleið, af ýmsum ástæðum. T.d. sýnist mér að hún skarist á við hlutverk annara innan skólanna. Restina, sem ekki skarast, geta aðrir tekið að sér án þess að það sé á forsendum trúarbragða. Trúarbrögð eiga ekki heima í skólum með þessum hætti.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 16/01/08 19:39 #

Arnar, þegar maður les skýrsluna þá verður að kafa aðeins undir yfirborðið. Maður verður að muna að stuðningsmenn vinaleiðar báðu um skýrsluna og komu að vinnslu hennar, t.d. fengu að lesa hana yfir og koma með breytingartillögur áður en hún var sett fram í endanlegu formi.

Það er 5. kaflinn sem er aðal kaflinn. Þar koma skýrsluhöfundar með eigin skoðanir og niðurstöður. Þegar maður svo les hina kaflana aftur þá má sjá að það sem vel tókst til var fyrst og fremst prestinum persónulega að þakka. Innan um alla mærðina er að finna alvarlegar athugasemdir kennara og skólastjórnenda og sérstaklega virðist hafa heppnast illa til hjá djáknanum, hún virðist ekki hafa staðið sig vel sem mér sýnist aðallega vera vegna skorts á reynslu og fagmenntun.

Maður þarf að kunna að lesa svona skýrslur. Höfundar setja í raun fram afarkosti fyrir framhaldi vinaleiðar og gera alvarlegar athugasemdir, en það er falið undir fallegu yfirborði.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.