Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að trúa því ótrúlegasta

Ótrúlegasta birtingarform þeirrar sjálfviljugu blekkingar sem heitir trú er hin kristna sköpunarhyggja. Það er illskiljanlegt að fullorðið fólk skuli trúa á jafn mikla vitleysu, svipað og að trúa á jólasveininn. Reyndar er sköpunin forsenda kristinna kennisetninga þ.a. það er kannski ekki við öðru að búast í samfélagi sem ríkisstyrkir blekkingarmeistarana. Þeir sem láta plata sig, en eru kannski sæmilega greindir eða rökfastir, hljóta að komast að þeirri niðurstöðu að sköpunin sé nauðsynleg forsenda kristninnar. Síðan er það spurning um að velja - heilbrigða skynsemi eða dogmatíska sköpunarhyggju.

Eitt það fyrsta sem sköpunarsinnar verða að hætta að skilja eða taka mark á eru vísindin. Algengasta aðferðin er sú að draga fram hinar og þessar vísindalegar kenningar sem hafa reynst vitlausar, eða sem eru ekki enn nógu góðar, og hafa þar með afsannað alla vísindalega hugsun! Reyndar er mjög algengt að fólk rugli saman vísindalegri þekkingu vs. vísindalegri aðferðafræði. Þekking hvers tíma er ekki endanleg en vísindaleg aðferðarfræði er eina leiðin til að komast að hinu raunverulega. Svo finnst mér óvarlegt að segja að eitthvað sé "vísindalega sannað".

Vísindin og vísindaleg aðferðarfræði er mjög ungt fyrirbæri, segjum að upphafið sé hjá Njúton og Cartesíusi fyrir um 300 árum. Alveg síðan þá hefur vísindaleg aðferðarfræði sannað sig aftur og aftur og aftur og aftur. En vísindalegar kenningar hafa oft verið bölvað bull. Til dæmis sú jarðfræðikenning að meginlöndin væru kjurr en hreyfðust upp og niður. Rökrétt á sínum tíma en afskrifað í dag.

En vísindaleg aðferðarfræði, sem byggist á þeirri kenningu að allt sé skýranlegt með vísindum út frá vísindalegum forsendum, hefur skapað heimsmynd sem er svo ótrúlega miklu flóknari og margreytilegri í alla staði en nokkurn hefði órað fyrir þegar biblían var skrifuð og allt þar til á allra síðustu öldum. Hér gildir engu hvort við skoðum allra smæstu einingar efnisins eða þær allra stærstu, hvort við tökum eðlisfræði eða efnafræði eða efnisfræði eða lífvísindin öll. Heimurinn er ótrúlega gríðarlega miklu flóknari en menn töldu og allt þetta höfum við uppgötvað með vísindalegri aðferðarfræði.

Sumt er enn utan færis vísindanna, er einfaldlega of flókið til að festa hendur á með núverandi þekkingu þótt eitthvað miði áleiðis. Til dæmis mannsheilinn og þetta furðulega fyrirbæri meðvitund sem virðist vera eitthvert það flóknasta sem til er. Í einum mannsheila eru fleiri mögulegar leiðir fyririr taugaboð að fara frá einum enda til annars en eru frumeindir í alheiminum. Það sem gerist í þessum eina mannsheila er af sömu af stærðargráðu og allur tölvubúnaður heimsins samanlagt (þetta var reyndar áætlað fyrir nokkrum árum, allar tölvur heimsins gætu verið farnar að ná samanlagðri heilastarfsemi tveggja einstaklinga, og þá er aðeins átt við margbreytileika í raflögnum, ekki margbreytileika í starfsemi sem er í væntanlega miklu meiri).

Vísindaleg aðferðarfræði hefur skapað þann heim sem við þekkjum í dag. Án hennar engin iðnbylting, engin tölvubylting. Ekkert internet, ekkert rafmagn, engir bílar, engin nútíma sjúkrahús, engin þægileg innivinna. Áður vann ég sem forritari og tölvukall, núna vinn á hjólaskóflu, hvorki hún né tölvurnar væru til án vísindalegrar aðferðarfræði.

Það sem mér finnst furðulegast við hugsunarhátt sköpunarsinna, og jafnvel allra kristinna, er að þeir virðast ekki hafa hugarflug til að skilja hvað þeir í raun trúa á. Ef það væri rétt að guð hafi skapað heiminn þá er guð svo gríðarlega ótrúlegt fyrirbæri að engin orð ná að lýsa því. Öll okkar þekkingarleit síðustu 300 árin með vísindalegri aðferðarfræði er eins og barnaleikur, eins og að klóra í málninguna á húsi raunveruleikans.

Guð væri nánast óendanlega flókinn og tilvist hans óendanlega ólíkleg. Samt helda menn þessu fram án þess að falla bókstaflega í stafi yfir því að láta sér detta annað eins í hug, eins og þetta sé eitthvað sjálfsagt. Mörgum finnast kenningar skammtafræðinnar illskiljanlegar og margt þar gengur á móti almennri skynsemi. Guð slær almenna skynsemi kalda og verður aldrei skiljanlegur.

Ef guð er til þá er heimurinn svo geigvænlega flóknari en við höldum að það er eiginlega ekki hægt að lýsa því. Kenningin um guð væri ótrúlegasta og ólíklegasta kenning sem hægt væri að setja fram. Samt gera menn það, kannski án þess að átta sig á því sem þeir eru að segja? Kannski skilja þeir þetta ekki? Halda einhverju fram sem þeir vita ekki hvað er?

Á hvaða rökum eða forsendum byggja þeir kenningu þína? Hvar eru sönnunargögn þessarar alheimsbyltandi heimsmyndar sem þeir halda fram?

Heimsmynd nútímans er þróuð með vísindalegri aðferðarfræði. Öfugt við það sem flestir halda þá er ekkert, akkúrat ekkert, sem hægt er að sjá frá jörðu niðri án sjónauka sem bendir til þess að jörðin sé á hreyfingu. Jarðmiðjukenningin er hin eðlilega niðurstaða fornaldar og miðalda. Brúnó og Kóperníkus settu sólmiðjukenningar sínar fram jafnvel á trúarlegum forsendum frekar en vísindalegum (einkum Brúnó) en stjórnuskoðanir Galíleós færðu frekari rök fyrir henni þó þau væru ekki óyggjandi. Þegar síðan Tycho Brahe ætaði að afsanna sólmiðjukenninguna með vísindalegum athugunum réð hann ekki við stærðfræðina og fékk Kepler til að reikna fyrir sig.

Kepler uppgötvaði að útreikningarnir gengu einmitt best upp með sólmiðju + sporbaug. Þar með voru komin mjög sterk rök fyrir sólmiðjukenningunni en fram að Kepler voru í raun engin óyggjandi rök með henni. En engum datt í hug að stjörnurnar væru eins langt í burtu og þær eru, smám saman uppgötvuðu menn að flestar þeirra væru ótrúlega langt í burtu en engan óraði fyrir fjarlægðum á borð við þær sem eru í vetrarbrautinni. Það er ekki fyrr en með Hubble, við upphaf 20. aldar, sem menn fer að gruna að til séu aðrar vetrarbrautir og menn fara að skynja hina raunverulegu óravídd geimsins - og smæð okkar.

Þessi heimsmynd stjörnufræðinnar er studd gríðarlega mörgum athugunum og útreikningum. Það er ekki sjálfgefið að hún sé hin endanlega og eina sanna heimsmynd en það er miklu fleira sem styður hana í öllu því sem við þekkjum í dag heldur sem mælir á móti. Þessi heimsmynd er gríðarleg í ótrúleika sínum miðað við jarðmiðjukenningar miðalda. Hún er samt eins og rykkorn í samanburði við guðmiðjukenningu biblíunnar. Sú kenning hefur engin haldbær rök á bak við sig. Það heldur enginn henni fram í alvöru sem gerir sér grein fyrir því hversu ótrúlega miklu ólíklegri sú kenning er miðað við allar aðrar. Engar mæliniðurstöður, engar kenningar leiddar fram með vísindalegri aðferðarfræði, engar tilgátur um sennilegar orsakir og afleiðingar. Bara eitt stórt alheimssvarthol sem heitir guð.

Guð er sú ótrulegasta kenning sem hægt er að koma fram með til skýringar á nokkrum hlut. Hún er þar að auki óþörf, við höfum nóg af öðrum skýringum og mjög öfluga leið til að finna fleiri. Loks eru engar staðreyndir sem styðja hana á nokkurn hátt. Þessar þrjár staðreyndir, þ.e. guð er með ólíkindum ótrúlegur, óþarfur og án sönnunargagna, gerir það að verkum að allar tilraunir til að skýra eitthvað út frá guði, eða halda einhverju fram í tengslum við guð eða um guð eins og maður viti eitthvað um hann, eru í raun hlægilegar.


Grein þessi birtist áður á bloggi höfundar

Brynjólfur Þorvarðarson 14.01.2008
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 14/01/08 09:11 #

Jörðin er flöt, það gefur auga leið. Við erum miðja alheimsins, það er líka augljóst. Lífverur voru búnar til, skapaðar, hannaðar, ástæðulaust að efast um það.

Ef raunin er miklu flóknari eru það ekki rök gegn tilvist guðs að hann sé miklu flóknari, eða geri heiminn miklu flóknari en við töldum.

Þeir sem afneita tilvist hans á þessum grundvelli eru eins og þeir sem töldu jörðina flata, ekki satt? Þessi rök er vel þekkt. "Þeir hlógu að X og kenningu hans en sjáið bara núna." Eða "enginn efast um tilvist Y þótt það sé aðeins á færi sérfræðinga að útskýra það". "Þú sérð ekki útvarpsbylgjurnar en efast varla um tilvist þeirra" o.s.frv.

Rökin og gögnin fyrir tilvist guðs virðast oft vera tilfinningaleg. Vel gefnir menn hafa sagt að ást þeirra á maka þeirra sé óvéfengjanleg en vissulega óáþreifanleg og ómælanleg, það sama megi segja um tilfinningu þeirra fyrir guði. Því sé hvort tveggja til.

En við efumst ekki um tilvist tilfinninganna, bæði til maka og guðs. Og það eru margar, áþreifanlegar og mælanlegar ábendingar um tilvist makans. Við efumst hins vegar um tilvist guðs.

Vera má að makinn sé ekki til, okkur (mig eða þig) sé bara að dreyma þetta allt. Það eina sem við vitum með einhverri vissu er að við hugsum og erum því til (Cogito ergo sum). Þetta er andlegur sannleikur, ómælanlegur, óáþreifanlegur, ósannanlegur. Það sama segja menn gilda um "sannleikann" um guð.

"Mér finnst það, ég er sannfærður um það, ég vil það og því er það." Og við bætist "það væri svo ömurlegt ef svo væri ekki".

En ef við gefum okkur að næsti maður sé til og allt sem við sjáum (og getum mælt), höldum okkur við efnisheiminn sem við köllum veruleika, er ekkert sem segir okkur að guð sé til - nema óskhyggjan og barnaleg frumspeki.


Héðinn Björnsson - 14/01/08 12:09 #

Það er ekki alveg rétt að það sé ekkert sem maður geti séð frá Jörðu sem bendir til þess að Jörðin sé á hreyfingu án sjónauka. Tycho Brahe gerði sínar athuganir með berum augum, þar að auki má sjá að það er Jörðin sem snýst út frá Coriolis kraftinum.

Hvað kemur að hluti Guðs að þá hefur hann hjá flestum trúuðum fengið hlutverk þess sem er óþekkt eða óskiljanlegt, miðað við núverandi þekkingu. Þannig er þróunarkenningin og eðlisfræði núorðið meðal flestra trúaðra orðið að lýsingum á hvernig Guð starfar og aðeins örgustu öfgamenn telja slíkar kenningar vera í mótsögn við Guðstrú sína.

Þannig hefur vísindaleg aðferðafræði fengið guðfræðilegt hlutverk sem leið til að skoða þær reglur sem Guð ákvað að láta gilda um heiminn.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 14/01/08 12:32 #

Sæll Héðinn

"Tycho Brahe gerði sínar athuganir með berum augum, þar að auki má sjá að það er Jörðin sem snýst út frá Coriolis kraftinum."

Það ku víst vera rétt, Galíleí fór ekki að nota sjónauka fyrr en 1609, nokkrum árum eftir að Brahe lést, og Coriolis krafturinn er sterk sönnun fyrir snúningi jarðar.

Ég hefði væntanlega frekar átt að miða við stærðfræðilegar kenningar - Grikkir fornaldar og höfðu ekki stærðfræðina til að leysa úr brautum plánetna en hugsanlega hefðu þeir leyst það með nákvæmum athugunum alá Brahe. En fyrst kom trúarleg ástæða sólmiðjukenningarinnar, sú hugsun að sólin sé æðst og þess vegna þurfi hún að vera í miðjunni. Brahe ætlaði sér að afsanna það en ofurnákvæmni hans + stærðfræðikunnátta Keplers hafði öfug áhrif.

Lýsing þín á guði er það sem oft er kallað "guð í götunum", þ.e. eina plássið sem eftir er eru götin sem vísindin eru ekki enn búin að fylla í. Jákvæðari lýsing á þessari nálgun gæti kallast deismi, svipað og hjá brahma-hindúum. Hvorugt á neitt skylt við kristni nema nafnið.

Þessi setning:

"Þannig hefur vísindaleg aðferðafræði fengið guðfræðilegt hlutverk sem leið til að skoða þær reglur sem Guð ákvað að láta gilda um heiminn."

er einmitt dæmi um það sem ég er að tala um. Sama hversu stórkostlegur heimurinn reynist vera samkvæmt vísindunum þá vilja sumir trúa því að hann sé ótrúlega miklu flóknari. Að reglurnar séu ekki bara til og nógu stórkostlegar þannig heldur þurfi að magna upp stórkostleika þeirra stórkostlega með því að halda því fram að einhver vera hafi ákveðið þær svona. Fullyrðing um hið ótrúlegasta byggt á engum rökum eru draumórar, einhvers konar blinda eða sjálfsblekking.


sindri - 14/01/08 17:52 #

http://www.fjandinn.com/arthur/index.php?paged=14


Halldór Carlsson - 16/01/08 23:09 #

Ríkisstyrktir blekkingameistarar .. haha. vel að orði komist. líka þegar þú segir: ,,Rökin og gögnin fyrir tilvist guðs virðast oft vera tilfinningaleg .. " - því það er sama hvað maður leitar að staðreyndum (- jafnvel með einbeittum trúarvilja!) - þá finnst bara ekkert í þessari opinberu trúarjátningu hósannanna, gyðinganna, múslímanna eða jólasveinanna lærisveina Lúters sem bendir til annars en að grunnur þessa þrugls sem Biblían er, komi frá 5 - 6 trúarbrögðum öðrum. kópía af sömu sögunum sem komnar eru flestar frá heiðnu og sk. ,frumstæðu' fólki - víða um lönd. því dýpra sem maður kafar í upphaf kristninnar, kemur eitt í ljós:

allt sem er á bak við hana er stolið. og stælt. frá Míþra og Saraþústru, frá Egyptum og sólardýrkunartrúarbrögðum latnesku Ameríku. munurinn er bara sá að með kristninni var þetta allt gert skipulega - og með því eina markmiði að búa til veldi, miðstýrða stofnun. sem er og: Opus Dei ..

Opus Dei (grunnurinn að Frímúrarareglunni) og Nostradamus og Rannsóknarrétturinn eru hluti af því - og Jósef Flavíus held ég líka. viss um að hann var launaður munkur í kirkjureglunni gegnum Spán.

samt er ég viss um að Jesú var til - jafnvel þó engar heimildir styðji það. öll trú byggist á goðsögnum sem hverjar flestar hafa einhvern sögulegan grunn. og sagan um Jesú er bara of lífsseig.

var litlum strák e. t. v. talin trú um að hann væri sá útvaldi? (little buddha) ..

Jesú væri þá væntanlega sambland af sögu byltingarleiðtoga og uppfylltra spádóma - úr nokkrum mýtum (flestar samdar eftir aldagömlum sögu sögnum á 13. öld).

hef verið að hlusta á fyrirlestra Acharya S á netinu. (- hvers vegna eru lærisveinarnir akkúrat 12 (zodiac) og mannssonurinn - sonur sólarinnar - fæddur þegar ný sól rís? )

hvers vegna fæðist ,,sonur sólarinnar" akkúrat þegar sól tekur að rísa á ný? hvers vegna deyr hann og rís upp (á 3. degi) nákvæmlega í takt við rísandi sól (þar með lífgandi sprettu, uppsprettu gróðurs)?

hvers vegna Jónsmessa? (3 dögum eftir sólstöður, þ. e. þegar sól tekur að rísa á ný) ..

hvers vegna 3 vitringar? alþekkt, löngu áður.

djók.

það sem Acharya S segir, um sólina og Jesú [Son of God / Sun of God] - (þessar sömu kenningar má finna í 1. hluta heimildamyndarinnar ZeitGeist - óháð seinni hlutunum) - rennir stoðum undir þá kenningu að með goðsögninni Jesú sé safnað saman helstu sögunum um Son Sólarinnar og úr þeim búin til (samansoðin) eitthvað nýtt í Biblíunni.

stór hluti Biblíunnar eru -) lögbækur -) reglugerðir -) hryllingssögur -) dæmisögur

hver þeirra hafði sinn tilgang.

ég hélt þegar ég var yngri að hluti af Biblíunni væru fantasíur - mér fannst Opinberunarbókin t. d. vera vísindaskáldsaga, allt þetta með lambið og bla bla bla - en þegar nánar er að gáð, er Op. skrifuð í ákveðnum, beinskeyttum tilgangi af munki (með svipu klaustursklerksins yfir sér):

nú þarf nýtt kerfi. nú þarf að búa til kerfi sem er nógu öflugt til að stúta öllu því sem er heiðið. eyða orðum, hugsunum og hugtökum heiðinna. útrýma siðum þeirra. hið snarasta.

og það tókst. en bara með því að búa til nógu stórar goðsögur í staðinn. sem við lærðum í Sunnudaggaskólanum ..

íslensk skólabörn læra um fæðingu Jesú(24/25. des) og upprisu (páskar / sólstöður að vori)eins og það komi eldri trúarbröðgum en kristni bara alls ekkert við.

en allt er þetta stolið og staðfært.

hvort guð er til - það er eitthvað sem þið vantrúðar verðið að eiga við ykkur sjálfa. og kemur í sjálfu sér minnst málinu við. þetta kann að hljóma fáránlega á þessum vettvangi, en öll umræða um guð - og trú manna á guði - er dæmt til að verða tómt hjal.

,, .. Guð er ótrúlegasta kenningin sem hægt er að koma fram með til skýringar á nokkrum hlut .."

vissulega.

en ef horft er á sögu júðismans, kristninnar og múslímanna - kemst maður hjá því að hugsa:

,, - er þetta ekki bara allt samplað ú gömlum skræðum ..?"

ef guð er til, er ég ekki svo viss um að þú myndir nokkurn tímann fatta það. enda algjört aukaatriði. Hc


veneflu - 02/01/12 09:59 #

Polonium Halos in Granite, rannsókn eftir Robert Gentry. Eitt af hinum mörgu fingraförum sem Jahve skildi eftir hérna svo að sköpunarsinnar sem hafa fyrir því að skoða vísndalegu hliðarnar á sköpun geti hlegið að þróunarsinnum. Ég er mjörg hrifinn af vísindum, ég safna skólabókum og öðrum bókum sem fara út í vísindi en mér er meinilla við að fólk haldi einhverju fram án þess að skoða báðar hliðar málsins. það eru fullt af hlutum sem benda til þess að sköpun hafi mjög sterka fótfestu í vísindum en það er bara aldrei talað um það. hvaða vísindamaður myndi segja við starfsbræður sína að hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að sköpun er sannleikur? hann yrði rekinn eða í það minnsta yrði hlegið að honum.

getur tölva skilið manninn sem bjó hana til? getu maðurinn skilið skapara sinn?

„Often a cold shudder has run throught me and I have asked myself wether I may have devoted myself to a phantasy“ - Charles Dawrin


Halldór L. - 02/01/12 12:44 #

Cogito ergo sum. Já, við gætum mögulega skilið "skapara" okkar vegna þess að við höfum sjálfsvitund en tölvur ekki.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.