Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Tvær réttarbætur

Samkynhneigðum og velunnurum þeirra leiðist þófið við Þjóðkirkjuna, og er ekki að undra. Þjóðkirkjan þykist vera að „ræða málin“ en er bara að tefja þau (þetta er kallað málþóf). Karli Sigurbjörnssyni þykir það vera erfitt úrlausnar, að samkynhneigðir vilji fá að velja hverjum þeir giftast, og vill doka við og sjá hverju fram vindur. Í viðtali í fyrra sagði Karl: „Ef Alþingi heimilar prestum og forstöðumönnum trúfélaga að gerast vígslumenn samkynhneigðra væru það bein afskipti af helgisiðum og innri málum trúfélaga. Slíkt tíðkast ekki í neinu þjóðfélagi sem við viljum miða okkur við,“ – sér eru nú hver „beinu afskiptin“ af „innri málum“! Þetta er auðvitað bara blaður og vitleysa, til þess ætlað að tefja framgöngu mannréttinda.

„Umræður“ um „þessi mál“ eru vitaskuld ágætar ef þeim er fylgt eftir með árangri – löngu tímabærum og sjálfsögðum réttarbótum. En auðvitað er kirkjan með þvergirðingshátt eins og hún er vön. Það er heldur ekki skrítið. Í sama viðtali sagðist Karl álíta það „skyldu sína“ að „standa á bremsunni“. Ef hann tekur trú sína alvarlega – og það er nú varla sanngjarnt að halda öðru fram – þá er það líka laukrétt hjá honum. Varla þarf ég að rifja upp hómófóbískar ritningargreinar til að minna á hvað meintum guði kristinna finnst um samkynhneigða.

Eitt er hvað hjátrúarfullum kennimönnum finnst. En hvers vegna lætur ríkið teyma sig á þessum asnaeyrum forneskjunnar? Hvers vegna geta biskupinn og klerkastéttin staðið gegn því að sumir landsmenn hafi sömu mannréttindi og aðrir, og fengið ríkisvaldið til að bíða? Jú, það er vegna þess að önnur réttarbót hefur setið á hakanum líka: Samband ríkis og kirkju. Það er með öllu óþolandi að eitt trúfélag geti setið annarri eins slímusetu við kjötkatlana eins og Þjóðkirkjan gerir. Þjóðkirkjan er í ósanngjarnri forréttindastöðu, og það er löngu tímabært að svipta hana henni. Minnihluti landsmanna er kristinn! Það eru engin – ég endurtek: engin – almennileg rök fyrir því að halda í þjóðkirkjuskipulag. Ríkisvaldið á ekki að skipta sér af lífsskoðunum fólks, hvað þá sjá um að innheimta félagsgjöld fyrir trúfélög, hvort sem fólk er í þeim eða ekki, og það á ekki að láta gamaldags hugmyndir sumra trúfélaga stjórna gjörðum sínum. Ríkisvaldið á að vera á veraldlegum grundvelli, og sá sem heldur öðru fram er annað hvort bara bjáni, eða með persónulega hagsmuni af gamla kerfinu.

Meinið er að Lýðveldið Ísland heldur í kreddufulla opinbera hugmyndafræði, sem heitir lútherskristni. Ríkið ætti hvergi að hampa þessari hugmyndafræði nema þá kannski sem safngrip á Þjóðminjasafninu. Kirkjan hefur reynst fjandanum seigari í að hanga eins og hundur á roði í þessu fyrirkomulagi – enda ekki skrítið, þar sem hún makar krókinn á því.

Sósíalískir femínistar hafa oft viðhaft það ágæta slagorð „Engin jafnréttisbarátta án stéttabaráttu – engin stéttabarátta án jafnréttisbaráttu.“ Það mætti snúa þessu upp á fleiri málstaði:

Engin barátta fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju án mannréttindabaráttu – engin mannréttindabarátta án baráttu fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju!


Viðtalið sem vitnað er í: Sigurður Bogi Sævarsson: „Óbundinn hagsmunum valdsins“, viðtal við Karl Sigurbjörnsson, Ský 3. tbl. 2006, Heimur hf., Reykjavík, s. 27-28.

Vésteinn Valgarðsson 13.01.2008
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 13/01/08 11:50 #

„Ef Alþingi heimilar prestum og forstöðumönnum trúfélaga að gerast vígslumenn samkynhneigðra væru það bein afskipti af helgisiðum og innri málum trúfélaga. Slíkt tíðkast ekki í neinu þjóðfélagi sem við viljum miða okkur við,“

Alþingi hefur heimilað einstaklingum að stofna fyrirtæki og eru það auðvitað bein afskipti af einkalífi fólks.

Er frekju of yfirgangi Alþingis engin takmörk sett? Guði sé lof fyrir varðstöðu hinnar almennu, heilögu, lúthersk evangelísku, boðandi, biðjandi og þjónandi þjóðkirkju okkar Íslendinga. Hvar værum við eiginlega stödd án hennar? Lengi lifi biskupinn á bremsunni!


H - 13/01/08 15:12 #

"heimilar"

Takið eftir því. Ekki skipar, ekki skikkar til heldur HEMILAR!


Ragnar - 13/01/08 15:56 #

Leiðréttið endilega ef þetta er rangt hjá mér - "Hjónaband" er félagslegt fyrirbæri, nokkurs konar "stofnun" í þjóðfélaginu. Þjóðkirkjan er ekki með "einkarétt" á hjónabandinu, það er ekki skrásett vörumerki í hennar eigu. Ef samkynhneygðir vilja ganga í hjónaband innan Þjóðkirkjunnar eru þeir að fara húsavillt. Svona eins og Kvenfélagið sé að halda bingó hjá Fáfnir. Samkynhneigðir og kirkja eiga ekki samleið. Svo af hverju eru þessir tveir hópar að takast á? Allir geta farið til sýslumanns og hann splæst þeim saman í hjónband sem þess óska. Óháð kynferði.


Haukur Ísleifsson - 13/01/08 16:39 #

Þetta er spurningin um að ríkiskirkjan vill bæði fá að mismuna samkynhneigðum meðlimum sínum og fá lagavernd og gígatískar fjárhæðir frá ríkinu. Þau vilja bæði éta og halda kökunni sinni.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 13/01/08 16:52 #

Ég skal leiðrétta þig, Ragnar.

"Allir geta farið til sýslumanns og hann splæst þeim saman í hjónband sem þess óska. Óháð kynferði."

Þetta er rangt. Karl og kona geta vissulega gengið í hjónaband, bæði hjá sýslumanni og í trúfélögum.

Karl og karl eða kona og kona geta fengið samvist sína staðfesta hjá sýslumanni. Kirkjan hefur nú samþykkt að blessa slíka samvist, en hefur ekki leyfi til að staðfesta hana.

Staðfest eða skráð samvist pars af sama kyni hefur sömu lagalegu áhrif og hjónaband en kallast ekki hjónaband, hvorki hjá sýslumanni né trúfélögum.

Hommar og lesbíur vilja geta gengið í hjónaband, þ.e.a.s. að það sé óháð kynferði og kynhneigð. En með því værum við að henda hjónabandinu á sorphaug sögunnar, að mati Herra Karls Sigurbjörnssonar biskups og annarra pótintáta.

Rök þeirra eru að hjónabandið sé útungunarstöð. Óbyrja konur og ófrjóir karlar ættu því ekki að geta gengið í hjónaband samkvæmt kirkjufeðrunum, en þeir horfa fram hjá því, eins og svo mörgu öðru. Þeir horfa líka framhjá því að lesbíur geta fengið sæðisgjöf og gengið með börn og hommar og lesbíur geta ættleitt börn. Sumir hommar og lesbíur eiga líka börn fyrir þegar þau vilja ganga í hjónaband.

Þar sem hjónabandið er fyrst og fremst löggjörningur ætti hann auðvitað að eiga sér stað hjá sýslumanni eingöngu. Vilji fólk svo fá blessun himnafeðganna getur það leitað til töframannsins við altarið.

En kirkjan berst gegn því að hommar og lesbíur geti gengið í hjónaband hjá sýslumanni og í öðrum trúfélögum (sem eru fús að leyfa það) því eins og við vitum er samræði samkynhneigðra viðurstyggð í augum Drottins allsherjar, hins miskunnsama og milda, algóða og kærleiksríka.


Þorsteinn Gunnar Friðriksson - 13/01/08 18:01 #

Ég get bara ekki skilið hugsunarhátt Karls Sigurbjörnsson.

Að heimila trúfélögum að gifta samkynhneigða sé að skipta sér að þeirra helgisiðum. Þetta meikar einu sinni ekki sens.

Væri samt til að vita hvar ég get fundið þetta við hann Karl.


Kristján Hrannar Pálsson - 13/01/08 19:56 #

Ég hef áður skrifað um þessi mál og minnt á hvað það sé skammarlegt að ríkisstofnun mismuni þegnum sínum á þennan hátt. Með þessu fyrirgerir þjóðkirkjan algerlega rétti sínum til að fá að vera á spenum ríkisins.


Einar Steinn - 14/01/08 15:59 #

Hún blóðmjólkar spenann.


Svanur Sigurbjörnsson - 15/01/08 18:10 #

Þetta er frábær grein hjá þér Vésteinn. Ragnar bendir réttilega á að samkynhneigðir eigi lítt samleið með Þjóðkirkjunni eins og hún er í dag, en á þeirri ábendingu eru nokkrir ágallar:

  1. Samkynhneigt fólk er margt kristið og alið upp hjá fólki í Þjóðkirkjunni. Það er því skiljanlegt að það vilja fá hlut sinn réttan innan hennar þar sem það telur sig (óskiljanlega) eiga samleið með henni.

  2. Mannréttindabrot og siðleysi Karls Sigurbjörnssonar og meirihluta Þjóðkirkjunnar fólst í því að reyna að meina öðrum trúarsöfnuðum að gefa saman samkynhneigða, með því að viðhalda núverandi lögum. Á síðasta kirkjuþingi var samþykkt með semingi að gefa þetta eftir, en samkynhneigðum var ekki unað að kalla sambandið hjónaband. Nei, á því eiga karl og kona einkarétt og notkun á því um samkynhneigð pör ylli gengisfellingu á hjónabandi gagnkynhneigðra.

  3. Sem þjóðkirkja hefur hún meiri skyldu en einkakirkja til að gefa öllum þegnum þessa lands sömu meðferð og vera einnig til fyrimyndar hvað virðingu fyrir mörkum trúboðs og trúarlegs starfs varðar. Hins vegar vill Þjóðkirkjan bæði haga sér eins og einkakirkja og njóta þess að vera ríkisrekin Þjóðkirkja með öllum sínum sérréttindum og fyrirgreiðslum í leiðinni. Til afsökunar á þessu hafa guðfræðingar hennar sagt að Þjóðkirkjan sé ekki ríkiskirkja og hafi sjálfstæði. Það er reyndar rétt að skv. lögunum á kirkjan að ráða sínum málum sjálf en þannig eru henni tryggð sá aðskilnaður sem henni hentar, þ.e. að ríkið má ekki hafa afskipti af henni (en ekki öfugt).

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.