Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Skaðast börn af trúarhugmyndum?

Ég hitti einn ágætan trúmann í heita pottinum á dögunum. Og að sjálfsögðu tókum við saman oddaflug í víðernum eilífðarmálanna.

Sá sakaði okkur Vantrúarpenna um það að halda stöðugt á lofti bábiljum sem ekki væri neitt mark takandi á. Nefndi sem dæmi fullyrðingar okkar um að börn geti skaðast af því að vera innrættar trúarhugmyndir. Sagði vísindalegar rannsóknir skorta í allri yfirlýsingagleðinni.

Ég benti honum á það að þetta væri ekki alveg úr lausu lofti gripið hjá okkur og nefndi skrif Richard Dawkins um trúarvírusinn sem dæmi. En auðvitað erum við síður en svo að éta allt upp eftir fræðimönnum á borð við hann, heldur eru ályktanir á borð við þessar fengnar fram með okkar eigin röksemdafærslu fyrst og fremst. Því háttar nefnilega þannig til að herskáir trúleysingjar þurfa að vera dálitlir hugsuðir, þeir þurfa að geta leitt sjálfir út niðurstöður í kjölfarið á allri gagnrýnu hugsununni.

Dawkins er einn af þeim hugrökku í veröldinni, maður sem þorir að takast á við þræleldfim málefni trúarhugmynda. Bara það eitt að gagnrýna þær fyrir það sem þær eru getur kostað mikinn æsing og ólgu í röðum þeirra sem kosið hafa sjónarhorn á heiminn sem er á skjön við alla skynsemi. Þess vegna er stöðugt rekinn fyrir því áróður að trúarhugmyndir manna séu heilagar og að ekki megi hrófla við þeim. Bera skal umburðarlyndi og virðingu fyrir því sem mönnum er heilagast.

Ég get það því miður ekki, enda, eins og Dawkins, búinn fyrir lifandis löngu að koma auga á skaðsemina sem felst í því að ala á trúarhugmyndum. Sá sem það gerir dregur sannarlega skakka heimsmynd upp fyrir þeim sem til stendur að ánetja bænakvaki, iðrun og syndabyrði. Þarna er verið að innleiða þráhyggju sem hefur ekkert annað í för með sér en ófullnægju og vanlíðan. Efinn er vondur og leiðir til glötunar. Það gildir líka um „rangar“ hugsanir og því þarf fórnalamb þessara hugmynda stöðugt að ritskoða eigin hugrenningar og passa upp á að ekkert birtist nú fyrir hugskotssjónum sem kallað getur á reiði æðri máttarvalda og útskúfunar í kjölfarið.

Þetta er mikið böl.

Svo er fullyrt að heimurinn sé sköpunarverk guðavera og um leið er af fólki tekinn sá möguleiki að sjá veröldina af skynsamlegum sjónarhóli, sem náttúrlegt fyrirbæri sem lýtur mekanískum lögmálum. Í gegnum aldirnar hafa rannsóknarniðurstöður sem fara á svig við kenningar trúarbragðanna kostað rannsakendurna mikið hugarvíl, þeir þurft að setja þann fyrirvara í niðurstöðurnar að þær virðist lúta mekaník en séu nú samt auðvitað sönnun á handleiðslu goðmagna. Um líf og dauða var um að tefla.

Í seinni tíð hafa menn þó ekki þurft að óttast það að ganga gegn trúarhugmyndum samfélagsins þegar þeir birta niðurstöður sínar, en þessar forneskjulegu hugmyndir hafa þó gert það að verkum að ýmsir kjósa að hafna því augljósa þegar það fer á svig við þær. Alvarlegast er þó þegar handhafar slíkra ranghugmynda eru nógu valdamiklir til að leggja vísindakennslu í skólum í rúst, svo gauka megi bjánalegum sköpunarhugmyndum að enn fleirum.

En hvar koma börnin inn í þetta? Hvernig skaðast þau? Jú, allt þetta fólk sem skaðar samfélagið, sköpunarsinnarnir, fólkið með heilögu hugmyndirnar sem ekki má gagnrýna og fólkið sem hatast við trúleysi og trúleysingja, þetta voru allt eitt sinn börn sem urðu fyrir þeirri innrætingu sem kallar þessa hugsun og hegðun fram.

Þegar ríkiskirkjan herjar inn í grunn- og leikskólana kemur plantar hún ákveðnum hugmyndum og ákveðinni heimsmynd í barnshugann. Í þessari heimsmynd ríkir goðavera og barnið lærir að trúa því að hægt sé að díla við hana með bænakþusi og óskum, að slík hegðun hafi í raun einhverjar afleiðingar á kosmískum skala.

Auðvitað skaðast flest börn ekkert alvarlega við þetta, en þessi hugmynd nær þó að fylgja einstaklingnum fram á fullorðinsár og jafnvel alla ævi, allt vegna umsvifa fólks á borð við ríkiskirkjuprestana. Við skulum ekki gleyma því hverjar trúarsetningar ríkiskirkjunnar eru, hvað það er sem hún stendur fyrir. Það er nefnilega rangfærsla að heimspeki þeirrar kirkju sé eitthvað hófsamari en t.d. Krossins eða Vegarins. Það eru einfaldlega aðrar áherslur í gangi, t.d. að í stað þess að vera rekinn með þríforki í rassgatið eftir dauðann muni hinn syndugi sem ekki hefur leitað til Jesú með líf sitt búa við óskilgreinda fjarveru frá guðdómnum eftir dauðann. Hvort tveggja eru sjúkar ranghugmyndir, þótt önnur sé myndrænni og meira skrípó.

Það skaðlegasta í þessu eru þær hugmyndir að heimsendaköltleiðtogi sem var uppi fyrir tæpum tvö þúsund árum hafi komist í guðatölu og sé ríkjandi yfir lífi okkar mannanna. Reyndar er sú kristna hugmynd frekar vandræðaleg þar sem skýrt stendur í Gamla testamentinu að eigi skuli aðra guði hafa en Jehóva gamla. Með einhverjum tilfæringum var því þessi költari gerður ýmist að syni guðs eða honum sjálfum, eftir að þrettán ára stelpuskjátu í Palestínu var dúndrað að henni forspurðri og kærastinn hennar um leið kokkálaður.

Þetta rugl eigum við víst að trúa á og hugmyndin m.a.s. ríkisrekin.

Börnin okkar skaðast ekki síst af því að þurfa að trúa því að ekki sé hægt að vera almennilega siðleg vera nema trúa þessum andskota. Í krafti þess vaxa þessi börn upp með hálfgerða óbeit á eða ugg gagnvart efa og skynsamlegum niðurstöðum sem ganga á skjön við þetta, allt er það í huga hins uppvaxandi barns minna virði en þetta gamla raus. Og fyrir það líður skynsemin og möguleikinn á gagnrýninni hugsun.

Í verstu tilvikunum munu þessi börn seinna á lífsleiðinni verða auðveld bráð manna eins og Gunnars í Krossinum og byrja að trúa fyrir alvöru á burthrifningu, sköpunarvísindi og helvíti handa þeim ástvinum sínum sem ekki láta segjast. Fjölskyldulíf kemst í uppnám þegar þessar hugmyndir rekast á við skynsemi vandamanna með tilheyrandi rifrildum, sambúðarslitum og annari óværu.

Þetta er svo mikill óþarfi. Og ábyrgð þeirra sem innræta börnum þessar glórulausu hugmyndir er því mikil. Burt með þá úr skólakerfinu

Birgir Baldursson 11.01.2008
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 11/01/08 09:13 #

Skaðast nokkur af því að kynna sér hugsjónir kommúnismans? Skaðast nokkur af því að tileinka sér hugmyndafræði kommúnismans? Skaðast nokkur af því ef alræði öreiganna kemst á?

Það er allt í lagi að fræða börn um hugsjónir og hugmyndakerfi en alrangt að ætla að innræta þær í skólum.

Kommúnismi í praxís er ekki allra, vítin eru til varnaðar. Það sama má segja um alvald kirkjunnar.

Útvötnuð glansmyndaútgáfa kristindómsins er ekki hættulegri en aðrar útópíur, en jafnvarasöm samt sem áður.

Birgir sagði: "Þarna er verið að innleiða þráhyggju sem hefur ekkert annað í för með sér en ófullnægju og vanlíðan."

Ég held hins vegar að réttara hefði verið að segja að þessi þráhyggja eða lífssýn geti haft í för með sér ófullnægju og vanlíðan... helli menn sér í hana. Flestir fleyta þó bara kerlingar á yfirborði kristindómsins, taka það sem þeim hentar, hunsa allt hitt og una glaðir við sitt.

Yfirborðskristni getur veitt fólki bæði fullnægju og vellíðan, og til eru menn sem finna hvort tveggja, jafnvel þótt þeir sökkvi sér í fræðin. Það væri kjánalegt að neita því.

Hættan sem Birgir bendir á er samt fyrir hendi. Þeir sem vilja leggja út á hálan ís trúarbragðanna hafa fullt leyfi til þess en við hin eigum heimtingu á að vera í friði fyrir þeim, sér í lagi á opinberum vettvangi, sem og börn okkar í skólum. Er það til of mikils mælst?


Árni Árnason - 11/01/08 11:43 #

Einn er sá þáttur í skaðsemi trúarbragðanna og trúarinnrætingarinnar sem mér finnst stórlega vanmetinn.

Óheilindin.

Það bókstaflega hlýtur að vera karakterskemmandi að alast upp við að óheilindi séu sjálfsögð og eðlileg. Sé tekið mið af okkar nánasta umhverfi, Íslandi í dag, er það dagljóst að fjöldi uppalenda innan og utan heimilanna, innan og utan kirkjunnar, og ekki síst innan sem utan leikskóla og barnaskóla hefur engin prinsipp um hvað sé rétt og hvað sé rangt. Margt þessa fólks hikar ekki við að boða og innræta óþroskuðum sálum hluti sem þeir vita mætavel að eru ósannir. Hinir sem láta innrætinguna sér í léttu rúmi liggja, og láta það viðgangast að launaðir uppalendur og atvinnutrúfólk fylli börnin þeirra af "skaðlausum" ósannindum eru svo lítið skárri.

Ef barn hlustar á fullorðinn einstakling staðhæfa sannleiksgildi bábilju, sem það veit af sinni skynsemi og lærdómi að hreinlega getur ekki með nokkru móti verið satt, lærist því ósjálfrátt að sannleikurinn er óæðri einhverjum öðrum tilgangi. Þegar "fræðarinn" ekur svo í burtu á Land Cruisernum skilur barnið stóra samhengið. Þegar barnið vex úr grasi hefur það lært að hlutirnir þurfa ekkert endilega að vera sannir ef þeir færa manni Land Cruiser.


Davíð - 11/01/08 15:29 #

"Sá sakaði okkur Vantrúarpenna um það að halda stöðugt á lofti bábiljum sem ekki væri neitt mark takandi á. Nefndi sem dæmi fullyrðingar okkar um að börn geti skaðast af því að vera innrættar trúarhugmyndir. Sagði vísindalegar rannsóknir skorta í allri yfirlýsingagleðinni.

Ég benti honum á það að þetta væri ekki alveg úr lausu lofti gripið hjá okkur og nefndi skrif Richard Dawkins um trúarvírusinn sem dæmi."

En semsagt staðhæfing viðmælanda þíns um að það skorti hjá ykkur að sýna fram á vísindalegar rannsóknir á því að börn geti skaðast af trúarinnrætingu (og kannski mikilvægara, að þau raunverulega skaðist) stendur?

Eftir standa heimspekilegar/rökfræðilegar vangaveltur og ályktanir ykkar?


Arnar - 11/01/08 15:38 #

Ég vill fá vísindalega rannsókn á því hvort gaurinn þarna sem skar af sér hendina og skellti henni í örbylgjuofnin hafi orðið fyrir trúarinnrætingu í æsku :)

Ef það er ekki gott dæmi um að trú er hættuleg, hvað þarf þá til? Trúarleg fjöldamorð? Ah já, það hefur reyndar gerst nokkrum sinnum líka.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/01/08 17:20 #

Gott dæmi, Arnar. Það er nefnilega ekkert einfalt að gera á þessu vísindalega rannsókn. Við getum ekki skipt börnum niður í tilraunahóp og samanburðarhóp og gert tvíblindar rannsóknir. Aftur á móti hafa verið færð ágæt rök fyrir skaðsemi trúarlegrar innrætingar (hugarvírusinn) og við sjáum í raun dæmi hennar holdgerast allt í kringum okkur, í skefjalausu trúarrugli fólks sem tekur þessar gömlu þreyttu kristnu hugmyndir út í öfgar, oft eftir áföll í lífinu. Dæmi: Útrekstur illra anda í stað raunverulegrar læknishjálpar geðveilu fólki til handa. Annað dæmi er andúð Karls Sigurbjörnssonar á samkynhneigð og trúleysi, hvort tveggja væntanlega tilkomið vegna trúarinnrætingar í æsku.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 11/01/08 20:25 #

Þetta er mjög þörf grein hjá þér Birgir. Arnar kemur líka með mjög góðan punkt.

Reynir er með ágætist punkt líka og ég er reyndar sammála honum um það að það getur verið yngri börnum gott að trúa á eitthvað, þau virðast alla vega hafa mikla þörf fyrir það.

En þá væri miklu betra að hafa það jólasveinatrúna eingöngu en ekki þessi stofnanatrúarbrögð með sína preláta og sín helgu vé sem jafnvel fullorðnir veigra sér við að vanhelga - og styðja því við ranghugmyndir barna langt umfram það sem eðlilegt getur talist.

Svo er kristnin bara alls ekki góð trúarbrögð, boðskapurinn er blóðugur og óvæginn og hvetur til undirgefni og fylgispektar ásamt vafasömu siðferði í stað heilbrigðrar skynsemi á traustum siðferðisgrunni sem ætti að vera markmið uppeldis.


gimbi - 11/01/08 22:34 #

Mér virðist sem inntakið í þessari grein sé fyrst og fremst að árétta enn og aftur mikilvægi þess að hamla kredduklerkum við að innræta skringihugmyndir sínar í leikskólum og grunnskólum. Hvort heldur varðar meyfæðingar eða heimsendir. Því er ég algerlega sammála.

En heldur þykir mér langt til seilst í þeirri röksemdafærslu.

Ég hef áður reynt að benda á mikilvægi trúarafstöðu einstaklinga gagnvart alheimi; og á þá staðreynd að Vantrúarmenn eru undir sömu sök seldir. Það eru einfaldlega ekki til neinar einhlítar sannanir í þessum efnum.

En ég er foreldri margra barna, og aldrei hef ég verið í þeirri stöðu að telja börnum mínum trú um eitthvað sem ég veit vera rangt. Ég leitast bara við að veita þeim af minni reynslu af heiminum, í von um að það megi vera þeim e.k. leiðarvísir á lífisins refilstigum. Annað fer ég ekki fram á.

Ég tel líka að það sama eigi við um aðra foreldra. Enda harla furðulegt að ætla uppalendum þá lævísi að innræta börnum sínum "rangar" hugmyndir.

Trúarhugmyndir geta verið af margvíslegum toga, ein er sú að "tómið" bíði okkar. Önnur að okkar bíði eitthvað meira og merkilegra. Hvur veit?

En við þurfum ævinlega að trúa á þá mennsku okkar að við ætlum börnum gott, en að við leitumst ekki við að afvegaleiða þau.

Jésus er engin einhlítur "ídeósynkratískur íkónóklasti", hann er túlkaður; allt frá því að vera "endaköltisti", yfir í "besta vin barnanna".

"Grænsápuþvottur" ykkar Vantrúarmanna felst í að kjósa ævinlega fyrri túlkunina og ráðast á hana. Þannig þvoið þið ykkar hendur.

En þá er kannski tilhlýðilegt að hafa í huga að Jésus hefur líka verið almúgamanninum uppörvun, hugarhægð og von, um margra alda skeið.

Það að segja börnum okkar frá þeirri hlið hans verður aldrei slæmt...


Þórður - 12/01/08 02:01 #

Mikið og ofboðslega er ég sammála þér Gimbi. Ég hef, um allnokkra hríð, fylgst með umræðum á þessum vef, án þess að láta í ljós skoðanir mínar. Nú get ég ekki lengur orða bundist!! Það sem hér hefur verið ritað í gegnum tíðina er hreint alveg með ólíkindum. Skríbentar ráðast fram á ritvöllinn, misgóðir, og hella úr skálum reiði sinnar gegn trúarskoðunum meginþorra Íslendinga, rétt eins og þeir séu þess umboðnir að tjá sig um þessa hluti. Hér vaða menn í villu og svíma, bera fyrir sig hinum ýmsu röksemdafærslum og "sönnunum". Halda fram hinu og þessu í nafni vísinda! Nefna það að þetta eða hitt geti ekki staðist vegna þessara eða hinna röksemdanna. Gott og vel! Gott og vel að menn, og konur, hafi skoðanir á lífinu og gildum þess en hvað varð um umburðarlyndið? Hvað varð um virðingu gagnvart náunganum? Hvað varð um þá einföldu fullyrðingu að bera virðingu fyrir náunga sínum og skoðunum hans? Hvað varð um NÁUNGAKÆRLEIKANN???


Þórður - 12/01/08 02:26 #

Hver er þessi Reynir eiginlega? Hvaðan hefur hann kraftinn? Er hann kannski á leið að verða Messías endurborinn? Nei ó vei! Hallelúja!


Arngrímur - 12/01/08 07:06 #

RE: Þórður

Það er svo skelfilegt þegar menn beita fyrir sig röksemdafærslu. Hverju skyldu þeir taka upp á næst? Að vísa í verstu tilfellin sér til stuðnings?

Það er munur á trú og innrætingu, og það er munur á gagnrýni á trú og gagnrýni á innrætingu. Hinsvegar tekur þú gagnrýni á innrætingu sem gagnrýni á trú. Ber okkur þá að skilja það sem svo að þú teljir trúarinnrætingu í opinberum skólum hið besta mál? Þá skiptir væntanlega máli að það sé þín trú en ekki einhver önnur.

Ef svo er, hvað segir það um viðhorf þín til þeirra viðhorfa sem hér eru viðruð? Ef þú telur það til marks um umburðarleysi að gera þennan mun á trú og innrætingu, í því augamiði að gagnrýna hið síðarnefnda, þá játarðu samtímis að trúarinnræting sé óumburðarlynd og eigi ekki rétt á sér, af því þú hefur ekki trúarlegar forsendur til að hafna greininni nema þú sjálfur lítir á hana sem nokkurs konar innrætingu. Og ekki viltu að trúleysingjar krukki í þínum börnum á skólatíma, er það?


Haukur Ísleifsson - 12/01/08 15:41 #

"eins og þeir séu þess umboðnir að tjá sig um þessa hluti."

Höfum við sem sagt ekki rétt til að tjá okkur?


Haukur Ísleifsson - 12/01/08 15:41 #

"eins og þeir séu þess umboðnir að tjá sig um þessa hluti."

Höfum við sem sagt ekki rétt til að tjá okkur?


Guðjón - 13/01/08 11:55 #

Ég er því sammála Birgi um að trúarhugmyndir geta verið skaðlegar í vissum tilvikum. Gallin við þennan pistil og um leið við gagnrýni vantrúar almennt að menn þar á bæ hafa afskapleg takmarkað þekkingu á trúarbrögðum. Hér fá menn útrás fyrir hatur sitt á trúarbrögðum, en gagnrýni þeirra er ómarkviss vegna þekkingarleysis á trúarbrögum.

Það sýnir mikið dómgreindarleysi að halda fram í fullri alvöru að trúaruppeldi venjulegs trúfólks hér á landi geti verið börnum skaðlegt.

Þvert á móti er minni líkur á að krakkar sem hafa kynnst heilbrigðum trúarbrögðum og hafa einhverja þekkingu á þeim málum sjái í gegnum loddara og öfgamenn á þessu sviði.

Það sýnir vel hversu takmarkaða þekkingu Birgir hefur á vísindum að vísar til blaðurs Dawkins um trúarvírusinn þegar hann er rukkaður um vísindalegar undirstöður andtrúaráróðurs síns.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 13/01/08 12:20 #

Athyglisverður punktur hjá Guðjóni. Kannski erum við eins og fanatískir góðtemplarar sem sjá róna í hverju rauðvínsglasi. Amman sem sötrar sitt sérrí er á beinni leið í heróínsprautuna.

Eflaust finnst mörgum þessi samlíking við hæfi, og kannski er meira til í henni en við viljum viðurkenna.

Ég held hins vegar að ekki sé um að kenna þekkingarskorti hér á bæ á trúarbrögðunum.

"Trúaruppeldi venjulegs trúfólks hér á landi" er í flestum tilfellum sauðmeinlaust, einkum vegna þess hversu lítið það er, útvatnað og andlaust.

Hér bendum við hins vegar síendurtekið á hvað trúarbrögðin geta verið skaðleg bæði einstaklingum, þjóðfélagshópum og heiminum. Það er enginn hörgull á dæmum þar að lútandi.

Það er jafnólíklegt að amman fari í heróínið og að meirihluti Íslendinga stingi úr sér augun eða fordæmi hjónaband fráskilinna (eins og Kristur boðaði).

En langt leiddir eiturlyfjaneytendur eru of margir og átrúnaðarbölið á sín fórnarlömb líka, of mörg.

Við erum ekki að krefast þess að sérrí ömmunnar sé bannað, bara að áfengi sé ekki lagt á borð fyrir börn í skólum eða að landinu sé stjórnað á fjórða glasi.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/01/08 14:09 #

Hvaða þekkingu á trúarbrögðunum skortir okkur helst?


Haukur Ísleifsson - 13/01/08 15:15 #

Ég veit nú ekki betur en að það séu nokrir Guðfræðingar innan okkar samtaka.


Guðjón - 13/01/08 15:23 #

Ef marka má þennan pistil - vísindlegar rannsóknir á trúarbrögðum- en það kann að vera að aðrir liðsmenn séu sterkar á því sviði. Annars finnst mér almennt skort á marktæka gagnrýni. Þú heldur því fram að raun sé engin munur sem skipti máli á heimspeki krossins og kenningu kirkunar og talar um sjúkar rangfærslur í því samhengi. Ég held því fram að þetta sýni að þú þurfir að kynna þér þessi mál betur.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/01/08 17:33 #

Þú heldur því fram að raun sé engin munur sem skipti máli á heimspeki krossins og kenningu kirkunar og talar um sjúkar rangfærslur í því samhengi. Ég held því fram að þetta sýni að þú þurfir að kynna þér þessi mál betur.

Ég bendi á að það sé aðeins áherslumunur milli þessara kirkjudeilda kristindómsins. Hin kristna kenning sem slík er ranghugmyndavaðall og tómt mál að tala um hófsemi eða öfgar meðan byggt er á henni. Þetta byggir allt saman á gefnum niðurstöðum burtséð frá staðreyndum.

Segðu mér hvað er svona hófsamt í kenningu ríkiskirkjunnar og svona öfgakennt hjá Krossinum. Hvernig getur óskilgreind fjarvera frá guðdómnum eftir dauðann verið hófsamari kenning en það að brenna í helvíti? Hvort tveggja er ævintýralegt kjaftæði (eða öllu heldur það að þeir sem hljóta náð muni njóta nærveru þessa guðdóms). Grundvallarspurningin er auðvitað sú hvað liggur til grundvallar þessum brjáluðu yfirlýsingum klerka og predikara.


Guðjón - 14/01/08 12:44 #

Afstaða þín er skýr og ég er ósammála henni í grundvallar atriðum. Ég bíst við á að þú teljir að allar trúarhugmyndir hvernig sem þær eru vera ranghugmyndavaðall eða er ég að lesa of mikið inní það sem þú segir. Ég tel að það sé grundvallar munur á bókstafstrú og trú fólks sem þekkir eitthvað til gagnrýna hugmynda. En þetta er flókið mál og fólk er fyrst og fremst einstaklingar af holdi og blóði. Sumum tekst vel að spila úr sínum málum þó þeir aðhyllist bókstafstrú og aðrir er bölvaði skíthælar þó þeir séu með doktorspróf í guðfræði eða vísindaheimspeki. Þekking og skynsemi dugir ekki ein sér.


Finnur - 17/01/08 00:56 #

[ Athugasemd og svör flutt á spjallið - Matti Á.]

[ Athugasemdir um ritskoðun fluttar á spjallið - Matti Á.]

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.