Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Bænagangan tíunduð

Gamli biskupinn blessar bænagöngufólk
Ég vil þakka Valgerði Þóru Benediktssonskrif hennar í Morgunblaðinu 23. nóvember síðastliðnum og falleg orð sem hún lætur falla um fyrri grein mína, Gleðiganga bænarinnar. Þar velti ég upp spurningu sem Valgerður Þóra svarar góðfúslega og kann ég henni þakkir fyrir. Í ljósi þessa þætti mér vænt um ef hún sæi sér fært að svara einnig eftirfarandi spurningum.

Biskup snýr sér undan

Herra Sigurbjörn Einarsson nýtur virðingar minnar og þjóðarinnar allrar. Það var því með sorg í hjarta sem ég sá hann standa á pallinum á Austurvelli, einmanalegur að sjá milli herklæddra og þóttafullra ungmenna. Herra Sigurbjörn var biskup allrar þjóðarinnar og tók einarða afstöðu gegn ofbeldi og hernaðarhyggju eins og frægt er. Þarna var hann kominn í vondan félagsskap og mig grunar að hann hafi áttað sig á því sjálfur, eða ég vona að svo sé, því þegar hinn ungi gönguforsprakki steytti hnefa og fundarmenn tóku undir með sinni óhugnanlegu kveðju sneri Sigurbjörn sér undan og gerði krossmark. En mér þætti vænt um ef Valgerður Þóra gæti sagt mér hvaða trúarlegi boðskapur felst í herklæddum ungmennum veifandi íslenska fánanum.

Gleraugun fyrir blinda augað

Löng hefð er fyrir því að menn sameinist í göngur og útifundi og leggi þar með áherslu á málstað sinn. Varðar þá miklu að sem flestir taki þátt. Má nefna hina gríðarmiklu þátttöku í Gay Pride göngunni ár hvert og enginn sem tók þátt í göngunni með Ómari um árið gleymir því magnþrungna andrúmslofti sem myndaðist. Í þeirri göngu sögðu úrtölumenn að hefðu verið tíu þúsund manns og sé ég enga ástæðu til að efast um það enda er erfitt að slá tölu á slíkan mannfjölda í myrkri.

Það er hins vegar auðvelt um hábjartan dag í ekki meira fjölmenni en tók þátt í bænagöngunni sem hér er til umtals. Vegna orða Valgerðar Þóru, þar sem hún telur að Austurvöllur og aðliggjandi götur hafi verið fullar af fólki og fjöldinn sambærilegur við gönguna hans Ómars, langar mig að spyrja hana, gleymdirðu nokkuð að setja upp gleraugun?

Pray Pride?

Sá leiðinlegi kvittur að gangan hafi verið gengin til höfuðs Gay Pride skyggir verulega á atburðinn allan og mannorð þeirra er þátt tóku. Mér þætti vænt um ef Valgerður Þóra sæi sér fært að afneita þessum sögusögnum en hún virðist því miður hafa gleymt því í svarbréfi sínu. Tilvalin leið til að hrista af sér þessar sögusagnir væri ef bænagangan yrði fastur og áberandi liður í Gay Pride og væri gaman að sjá þá Geir Jón, Baldur göngugarp, Herra Sigurbjörn og auðvitað Valgerði Þóru taka þar þátt. Ætlar Valgerður Þóra að beita sér fyrir því að bænagangan verði á næsta ári hluti af Gay Pride?

Eða Pay Pride?

Samkoman í Laugardalshöll var hluti af bænagöngunni og aftur var auðvelt að telja viðstadda, enda hópurinn gisinn. Á heimasíðu bænagöngunnar mátti sjá að ágóði af sölu veitinga, merktra bola og annars varnings átti að standa straum af kostnaði. Ekki veit ég hversu vel veitingasalan gekk en í anddyri sátu heldur undirleitir sölumenn bak við hauga af óseldum bolum. Ekki var verðið til að fæla frá en bolur ásamt heimafjölrituðum geisladiski kostuðu 1500 krónur. Haugarnir hljóta að hafa skyggt á sjóðvélarnar því ekki sá ég þær. Skammlaus sníkjuræða Baldurs er því skiljanleg í ljósi þess hvað þátttaka var lítil en tilkostnaður mikill.

En ég vil þakka Valgerði Þóru fyrir að skýra eitt atriði sem vafðist fyrir mér í fyrri grein minni. Eins og Valgerður Þóra lýsir Baldri Einarssyni þá á hann einstaklega auðvelt með að fá fólk til liðs við sig en mátti það ekki allt eins vera fyrir hönd annars söfnuðar? Áður fyrr sótti Baldur að eigin sögn þrjár eða fjórar athafnir á hverjum sunnudegi hjá hinum og þessum trúfélögum en af einhverjum guðfræðilegum ástæðum fann hann ekki samleið með þeim og sá sig knúinn til að stofna eigin söfnuð. Valgerður Þóra bendir réttilega á ástæðuna og ég hálf skammast mín fyrir að hafa ekki séð þetta sjálfur: Það er auðvitað guðfræðin um tíundina sem réði úrslitum.

Tíu safnaðarmeðlimir greiða laun eins safnaðarformanns og miðað við meðallaun gætu aðrir tíu staðið straum af þeim fjórum milljónum sem ein árleg bænaganga kostar.

Af hverju þurfti Baldur þá að biðja gesti í Laugardalshöll að seilast svo harkalega í veski sín að undan sviði?

Brynjólfur Þorvarðarson 07.01.2008
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 07/01/08 08:16 #

Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín. (Mt.6.5)


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 08/01/08 20:09 #

Frábær pistill!

Ég er svo fegin að enn sé verið að skrifa og tala um bænagönguna.

Ég sá endursýnt viðtal við Baldur Frey á Omega í gær, en ég var að horfa á Omega af því ég er með flensu og var að athuga hvort ég myndi ekki læknast! ;-) Ég er enn með flensu! Stoppaði semsagt á Omega þegar ég var að fletta í gegnum stöðvarnar, af því ég sá þennan mann í endursýndu viðtali (vitnisburði).

Ég vorkenndi strákgreyinu bara. Hann er greinilega í mikilli trúarvímu og talar eins og hann sé kominn til að frelsa okkur öll. Hann ætlar að frelsa okkur hér heima og losa landið við glæpi!!! Undir þetta tók sá sem tók viðtalið við hann og sá hinn sami var víst í óreglu líka hér áður. Svo er alveg merkilegt hvað fólkið er duglegt að sækja samkomur, 10 samkomur á viku eru algjört möst og margir sem fara á 20 samkomur. Er þetta ekki leit að vímu?

Kveðjur.


Þórður Ingvarsson - 08/01/08 22:03 #

Var að horfa á stórmerkilega þátt með Stephen Fry þar sem hann fjallar um geðsjúkdóm sem hann og fleiri hafa, þ.e. geðhvarfasýki. Mæli með því.

En eitt af einkennunum er að vera miðpunktur alls og meira segja að telja sig vera frelsara...


ragnheidur - 11/01/08 14:17 #

Mikið rosalega getur fólk verið grimmt. Ég er bara hreinlega miður mín og ekki í fyrsta skipti sem að ég er miður mín þegar ég kíki inn á síðu ykkar.

,,En mér þætti vænt um ef Valgerður Þóra gæti sagt mér hvaða trúarlegi boðskapur felst í herklæddum ungmennum veifandi íslenska fánanum,,

Samkvæmt Orði Guðs erum við andlegir hermenn. Við trúum því að við séum í andlegum hernaði. Við berjumst ekki við menn af holdi og blóði heldur berjumst við í bæn gegn myrkrinu. Að vera í herklæðum þarna á að vera tákn um að það. En hvað um það, þeir sem að eru ekki vel að sér í Orði Guðs skilja ekkert hvað er í gangi sem von er.

,,gleymdirðu nokkuð að setja upp gleraugun?,,

Hér vísar þú til þess að þú hafir verið á staðnum, hvað með gleraugun þín?

,,Tilvalin leið til að hrista af sér þessar sögusagnir væri ef bænagangan yrði fastur og áberandi liður í Gay Pride og væri gaman að sjá þá Geir Jón, Baldur göngugarp, Herra Sigurbjörn og auðvitað Valgerði Þóru taka þar þátt,,

Ég ætla bara rétt að vona að þessir frábæru Guðs menn leiðist ekki út í það að taka þátt í þeirri göngu. Ég var að vinna á laugarveginum eitt árið og fór aðeins út í dyragættina og sá þá fáklædda karlmenn uppi á bílpalli í kvennmansfatnaði með horn og hala. Þarna löbbuðu heilu fjölskyldurnar með börnin sín til að sýna stuðning, allir svo glaðir,brosandi og ,,skilningsríkir,,

Hvað er fólk að hugsa! Ég hef trú á því að börn læra það sem fyrir þeim er haft. Og ef að þetta á að vera eðlilegt fyrir þeim hvernig endar þessi heimur spyr ég?

,,heldur undirleitir sölumenn bak við hauga af óseldum bolum,,

Hvert ertu komin hér og hvað er málið!

,,Tíu safnaðarmeðlimir greiða laun eins safnaðarformanns og miðað við meðallaun gætu aðrir tíu staðið straum af þeim fjórum milljónum sem ein árleg bænaganga kostar,,

Hvaða meðallaun ert þú að tala um?

Mér sýnist þú ekki vel að þér í þessum málum. En það sem að róar mig, er að þeir sem hafa verið einna harðastir gegn Orði Guðs hafa einmitt frelsast og orðið þvílíkt öflugir í Guðs ríki. Þá get ég vísað í Pál postula í Biblíunni og þetta hefur ekkert breyst enn í dag poppa svona öflugir menn upp.

Guð blessi þig og opni augu þín eins og hann gerði fyrir Pál postula. Honum er ekkert um megn.


Haukur Ísleifsson - 11/01/08 16:49 #

"Því þar eð heimurinn með speki sinni þekkti ekki Guð í speki hans, þóknaðist Guði að frelsa þá, er trúa, með heimsku prédikunarinnar."

Fyrsta bréf Páls Til Kirintumanna vers 1:21

Augu hans eru opin upp á gátt en hann sér ekki neitt.


Vilmar - 11/01/08 20:13 #

kaera Ragnheidur

vil bara minna thig á thad ad gud er ekki til. Svokalladir "Guds menn" eru thröngsýnir og standa i vegi fyrir thví ad íslenskt samfélag verdi fordómalaust og frjálst. Trú snýst oftast um peninga og vald. Horfdu til midausturlanda, lestu um thegar kristnir menn brenndu fólk á báli. Spurdu sjálfa thig .. hvad gott kemur med trú?


ragnheiður - 14/01/08 13:32 #

Ég hristi rikið af fótum mínu og hveð ykkur hér og með. Finnst sóun á tíma mínum og orku að vera inni í á þessari síðu.

En samt sem áður með neyð og sorg í hjarta að biðja fyrir ykkur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.