Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Jólaræða Robert G. Ingersoll frá árinu 1891

Það sem er gott við jólin er ekki alltaf kristið - það er yfirleitt heiðið; það er að segja mannlegt, náttúrulegt.

Kristnin kom ekki með fagnaðarerindi í heiminn heldur skilaboð um eilífa sorg. Hún kom með ógn ævarandi pyntingar á vörum sínum. Það þýddi stríð á jörðu og volæði að handan.

Eitthvað gott kenndi hún þó líka - fegurð ástar og mannlegan kærleik. En sem kyndilberi og sem gleðigjafi hefur henni mistekist. Hún hefur gefið verkum endanlegra manna óendanlegar afleiðingar, kramið sálina með ábyrgð sem er of þung fyrir dauðlega menn að bera. Hún hefur fyllt framtíðina ótta og eldi, skipað Guð fangavörð í eilífu fangelsi sem verða mun heimili nær allra mannssona. Þetta var ekki nóg fyrir hana heldur hefur hún svipt Guð náðunarvaldinu.

En þó hefur hún hugsanlega gert eitthvað gott með því að fá lánaða frá heiðingjum þessa gömlu hátíð er við nefnum jól.

Löngu fyrir daga Krists höfðu sólguðir sigrað myrkrið. Daginn tekur að lengja um það leyti sem við höldum svokölluð jól. Frumstæðir forfeður okkar dýrkuðu sólina og fögnuðu sigri hennar yfir nóttinni. Slík hátíð var náttúruleg og fögur. Eðlilegust allra trúarbragða er sólardýrkun. Kristni aðlagaði þessa hátíð og fékk þar með lánað það besta sem þekktist hjá heiðingjum.

Ég trúi á jólin sem og á alla daga sem teknir hafa verið frá fyrir gleði. Við í Bandaríkjunum vinnum of mikið og leikum ekki nóg. Við erum of ensk í háttum.

Ég held að það hafi verið Heinrich Heine sem sagðist telja að guðlastandi Frakki gleddi Guð meira en biðjandi Englendingur. Við tökum gleði okkar of hátíðlega. Ég er hlynntur öllum hinum góðu frídögum - því fleiri, því betra.

Jólin er kjörinn tími til að fyrirgefa og gleyma - kjörinn tími til að kasta af sér fordómum og hatri - kjörinn tími til að veita sólaryl í hvert skúmaskot og að hverri hjartarót , jafnt okkar eigin sem annarra.

*Robert G. Ingersoll *

Ritstjórn 24.12.2007
Flokkað undir: ( Jólin )

Viðbrögð


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 25/12/07 01:46 #

Þetta er frábært! Það væri gott fyrir sem flesta að lesa þetta.

Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hver Robert G. Ingersoll var. Er ekki minnug á nöfn.

Hver var hann?


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 25/12/07 12:54 #

Hérna eru nánari upplýsingar um hann.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 27/12/07 01:27 #

Takk fyrir þetta. Áhugaverður maður.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 27/12/07 02:07 #

Við erum líka með grein eftir hann á vefbókasafninu okkar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.