Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að hugsa sér... Satan!

Mér þykir vænt um Karl Sigurbjörnsson og finn til með honum þessa dagana. Ég held að hann sé fínn karl og veit að hann er skoðanabróðir minn besti ef talið berst að miðlum, spákerlingum, stjörnuspeki, árulestri, heilun og öðru kukli. Svo deilum við áhuga á kristni og viljum æsku landsins allt hið besta. Ég hef því reynt að fylgjast með því sem hann segir og langar að deila því með ykkur.

Síðastliðinn vetur varð þjóðkirkjan fyrir mikilli gagnrýni vegna sóknar sinnar í skóla og fjallað var um dvínandi gengi hennar í fréttaskýringaþættinum Kompási. Herra Karli Sigurbjörnssyni biskupi þóttu vindar óhagstæðir en í prédikun 27. febrúar stappaði hann stálinu í sitt fólk og sagði: „Kristur fetar ekki veg vinsælda, valda, frægðar og almannasamsinnis. Það er leið freistarans, rógberans, Satans.

Vegir guðs eru víst órannsakanlegir og í seinni tíð heyrist ekki oft talað um Satan. Því er mikill fengur í speki biskups og lýsingu á vegum hans. En svo ber til um þessar mundir að enn verður kirkjan fyrir ákúrum, og enn vegna aðkomu hennar að skólum. Biskup rís til varnar skútu sinni sem fyrr en vitnar í þetta sinn ítrekað í vinsældir hennar. Í útvarpsviðtali nýlega sagði hann: „Níu af hverjum tíu unglingum á fjórtánda aldursári eru í fermingarfræðslu kirkjunnar. Níu af hverjum tíu! Þetta mundi nú teljast afgerandi markaðshlutdeild.“ Og í hátíðarræðu 1. des. sl. sagði hann: „Meirihluti landsmanna vill standa við hin kristnu grunngildi og vill að þau fái enn að móta íslenskt samfélag, og það gerist ekki nema sagan sé sögð og lærð og tjáð, sagan um Jesú og boðskapinn hans góða.

Kirkjan er þá komin á veg vinsældanna. Og ef einhver skyldi efast um mátt hennar segir biskup: „Þjóðkirkjan vill standa vörð um lýðræði og mannréttindi.“ „Níu af hverjum tíu börnum á Íslandi eru skírð og fermd, vegna þess að foreldrar þeirra vilja það! Kirkjan er skuldbundin því að styðja þá til að sinna hlutverki sínu að miðla trú og sið. Ég hvet alla foreldra og þau sem ábyrgð bera á börnum og unglingum að minnast ábyrgðar sinnar í þessum efnum.“ Hér talar úr valdastóli, í beinni útsendingu til þjóðarinnar, herra sjálfrar þjóðkirkjunnar, sem er vinsæl og nýtur almannasamsinnis.

En hægan. Gengur biskup nú á guðs vegum? Spólum til baka: „Kristur fetar ekki veg vinsælda, valda, frægðar og almannasamsinnis. Það er leið freistarans, rógberans, Satans. Jesús segist hafa séð Satan falla af himni eins og elding. Hann vísar þar í sögnina fornu um fall engilsins, sem hrokaðist upp og féll. Þar er rót og upphaf hins illa. Sú freisting getur fylgt því að njóta velgengi í trúnni. Hrokinn. Að hafa allt á hreinu, og alls kosta, og þykjast Guði jafn. Treysta á eigin trú og góðan ásetning, bakhjarla heimsins, vinsældir lýðsins. Á það er ekki að treysta.

Hrokinn, já. Er hann nokkuð að finna hjá biskupi? Í hátíðarmessunni sagði hann: „Ef börnin fá ekki lengur að heyra sögurnar af Jesú og læra boðskap hans, þá verða þau ekki aðeins ólæs á menningu og sögu þjóðarinnar, sem væri sannarlega menningarlegt stórslys, heldur verða þau blind á birtu þess orðs og anda sem eitt megnar að lýsa, leiða og blessa í gleði og sorg, í lífi og í dauða.“ Aðeins trúin á guð kristinna megnar þetta.

En ef menn deila nú ekki þessari trú með Karli? Um það hefur hann sagt: „Ekkert foreldri getur varið barn sitt fyrir ágengni þess ofstækis sem helst sækir að þeim hjörtum og sálum sem ekki hafa fengið næringu trúar, ekki hafa fengið viðmið helgra sagna og helgrar iðkunar og ein megna að hamla gegn áhrifum sálardeyðandi og mannskemmandi guðleysis og vantrúar.“ Trúin ein lýsir og leiðir en trúleysið er sálardeyðandi og mannskemmandi. Og í eldræðunni í febrúar sagði hann kristna trú: „Mikilvægasta erindi, merkasta boðskap í heimi, og sem er kraftur Guðs til hjálpræðis. Og trú vor, hún er siguraflið og hefur sigrað heiminn.“ Ekki er hógværðin að sliga manninn.

Þegar þetta er skrifað leggst Friðarsúla Johns Lennons í dvala. Hún er kennd við lag hans „Imagine“ (Hugsaðu þér). Í textanum biður Lennon menn að sjá fyrir sér heim án trúar, ekkert víti í neðra, aðeins himinn í efra og að allir geti lifað í friði. Biskup kallar slíkar hugmyndir „hatramma og þröngsýna heimshyggju sem hamast gegn trú í sérhverri mynd.

Ég fer ekki lengra í guðfræði eða rannsóknum á Satans vegum og biskups en óska þeim og landsmönnum öllum gleðilegra jóla. Að lokum má vona að hýrni yfir körlum og konum við lestur brots úr þarsíðustu jólaprédikun biskups. Því er ég nær alveg sammála.

„Grýlur og jólasveinar eru í besta falli leikur, skemmtun. Allir hafa gott af því að bregða á leik. Ég hef oft leikið jólasvein. En ég trúi ekki á jólasveininn, fremur en nokkur heilvita, fullorðin manneskja. Það er munur á leik og alvöru. Börnin skynja það. Börn læra að greina milli sannleika og blekkinga. Þau þekkja leikinn og ævintýrið. En þau vita líka hvað er satt og heilt. Það er mikil synd þegar hinir fullorðnu gera þar ekki greinarmun á, og rugla börn beinlínis í ríminu. Jólaguðspjallið er heilagur sannleikur.

Reynir Harðarson 20.12.2007
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 20/12/07 12:57 #

Það kom mér á óvart að hann Bissi hafi nefnt SATAN á nafn. Hélt að Ríkiskirkjan og spunameistarar hennar væru hættir að nefna yfirmann hins neðra á nafn.

Maður var farinn að fá á tilfinninguna að helvíti væri "eftirlíf án Jésú". Ætli þeir séu að sjá að boðskapur þeirra sé orðinn svo útvatnaður að þeir ætla sér að snúa við blaðinu og byrja að nálgast boðskap kristnu sértrúarsöfnuðina þar sem þeir eru þó að bæta við meðlimum (hlutfallslega) annað en Ríkiskirkjan.


Arnar - 20/12/07 13:15 #

Hræðsla hefur alltaf virkað best til að fá fólk til að gera eitthvað bjánalegt. Ef það er ekki hægt að lokka fólk í kirkjur með gylliboðum (td. þú færð allt sem þú biður guð um) þá er það bara að falla aftur á syndina (ef þú gerir ekki eins og guði þóknast muntu þjást að eilífu í kvalarfullum vítis logum.. eða eitthvað álíka).


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 20/12/07 13:38 #

Þetta er svo fallegur boðskapur - snökt snökt!


Svenni - 20/12/07 14:46 #

Mikið er nú frábært að þessi maður fái milljón krónur í mánaðarlaun fyrir að röfla svona þvælu. Þarna er peningunum greinilega vel varið. Er ekki hægt að ráða fleiri biskupa? Við gætum haft þá á þrískiptum vöktum jafnvel!

Getur annars einhver sagt mér hvaða syndir ég þarf að fremja nákvæmlega til að eignast "eftirlíf án Jesú?". Ég vil bara vera alveg viss um að ég þurfi ekki að eyða eilífðinni með einhverjum götóttum eyðimerkurhippa sem ég þekki ekki neitt.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 20/12/07 14:53 #

Trúleysi - þá ertu alveg hólpinn við að þurfa að hanga með honum þegar þú gefur upp öndina.


Arnar - 20/12/07 15:01 #

Þú getur líka farið á fyrirlestur um endaþarmsmök og ákveðið að gerast hommi (eins og Jón Valur heldur að gerist).. samkynhneigð virðist vera aðal syndin. Amk. virðist vera hægt að fyrirgefa og gleyma öllu hinu.


Arnar - 20/12/07 15:15 #

Reyndar..

.. ef þú ferð síðan á svona afhommunarnámskeið og frelsast.. þá kemstu aftur í náðina.

Sorry, trúleysi eða önnur trúarbrögð sem innihalda ekki boðskap um 'himnaríki' er eini sénsinn.


Siggi Óla - 20/12/07 15:45 #

Neðsta tilvitnunin frá " Grýlur og jólasveinar...jólaguðspjallið er heilagur sannleikur" er alveg dásamlega falleg og sniðug í allri sinni íronísku mótsögn.


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 20/12/07 15:47 #

Þetta lið er svo -bilað-. Eins og þegar presturinn sagði börnunum að jólasveinninn væri ekki til. Hvað getur maður sagt við þannig jólasveina!


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 20/12/07 15:48 #

....Ég hef oft leikið jólasvein. En ég trúi ekki á jólasveininn, fremur en nokkur heilvita, fullorðin manneskja.

Er einhver munur á því að trúa á jólasveina, Satan, Jesús, páskakanínuna, Grýlu, tannálfinn, Dísu ljósálf, Srekk, dreka, drauga eða guðinn hans Karl Sigurbjörnssonar?


Svenni - 20/12/07 16:58 #

Já, það er betur borgað að trúa á Guðinn hans Karls.


Garðar Valur Hallfreðsson - 20/12/07 17:54 #

Þú nefndi John Lennon og Imagine. Persónulega er ég kristinn en ekkert sérstaklega trúrækinn (ætli sé ekki eins og þorri þeirra sem eru skráðir í þjóðkirkjuna). Þegar John var að biðja okkur að ímynda okkur heim án landamæra, trúar, stríða, eignaraðildar og fleira og fleira.

Getum við ímyndað okkur þannig heim? Persónulega á ég bágt með það, sennilega vegna þess að ég þekki ekkert annað. Bara svona vangavelta....


Árni Árnason - 20/12/07 18:41 #

Mér kemur í huga eitt uppáhaldskvæðið mitt. það er eftir Próf. Jón Helgason og er svona.

Ef allt þetta fólk fær í gullsölum himnanna gist

sem gerir sér mat úr að nugga sér utaní Krist,

þá hlýtur sú spurning að vakna hvort mikils sé misst

þó maður að síðustu lendi í annarri vist.


Svanþór Ey - 21/12/07 13:15 #

Mér finnst þetta vera frábær og vel skrifaður pistill hjá Reyni.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 22/12/07 22:23 #

Jólaguðspjallið er heilagur sannleikur.“

Ég hallast frekar að því að álfa- og huldufólkssögurnar séu sannari en jólaguðspjallið.

"Mér þykir vænt um Karl Sigurbjörnsson og finn til með honum þessa dagana. Ég held að hann sé fínn karl og veit að hann er skoðanabróðir minn besti ef talið berst að miðlum, spákerlingum, stjörnuspeki, árulestri, heilun og öðru kukli."

Það er miklu meira "kukl" með mannsálina hjá trúarsöfnuðum, kristnum, heldur en hjá þeim sem hér eru taldir upp.

En jólakveðjur til ykkar og hafið það sem allra best.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.