Menntamálaráðherra á hrós skilið vegna fyrirhugaðra breytinga á námsskrá. Þar á að taka út óljóst og umdeilt „kristilegt siðgæði" og setja í staðinn upptalningu á almennum siðferðisgildum. Það er gott, enda á skólinn ekki að vera vettvangur trúboðs.
Þjóðkirkjunni finnst kristna trú vanta, og hefur því risið upp á afturlappirnar. Talsmenn hennar hafa farið mikinn, með ódrengilegum málflutningi sem er þeim ekki til sóma. Þetta hefur að miklu leyti beinst gegn Siðmennt, sem hefur árum saman barist gegn trúboði og trúarlegri starfsemi í opinberum skólum. Þótt kirkjunnar menn viti betur, hafa þeir kosið að veifa því ranga tré að Siðmennt sé á móti litlujólum og fræðslu um trúarbrögð. Það er leiður siður að gera fólki upp skrípamynd af málstað þess. Eins og við mátti búast, hefur þessu verið svarað rækilega, og ég ætla ekki að endurtaka þær leiðréttingar hér. Hins vegar vil ég tjá undrun mína yfir þeirri kokhreysti biskups að kalla Siðmennt „hatrömm samtök" – sem hann hefur ítrekað að sé skoðun hans, og að trúleysingjar hafi gert „harða atlögu" að Þjóðkirkjunni. Þessi orð hitta hann sjálfan nefnilega fyrir.
Karl Sigurbjörnsson hefur sent okkur trúleysingjum ófáar sneiðarnar á undanförnum árum. Til dæmis hefur hann líkt okkur við siðleysingja og sagt lífsviðhorf okkar „mannskemmandi og sálardeyðandi" og að þau „ógni mannlegu samfélagi". Mér er spurn, hver er það sem er hatrammur? Hvernig hefði það hljómað ef hann hefði sagt þetta um einhverja aðra, til dæmis gyðinga? Trúleysingjar eru líka fólk, og okkur getur sárnað undan svona rætni. Það er holur hljómur í tali um virðingu og umburðarlyndi, þegar biskup lætur svona dembur ganga yfir þá sem aðhyllast önnur lífsviðhorf. Er ekki hægt að lyfta þessari umræðu á hærra plan?
Trú er einkamál og hana á ekki að innræta í opinberum skólum. Kirkjan á hundruð húsa um allt land þar sem hún getur boðað sína trú óáreitt fyrir börnum og fullorðnum. Í skólanum á hins vegar að fræða um kristna trú, en ekki boða hana. Trúboð í opinberum skólum brýtur gegn trúfrelsi. Trúfrelsi er mannréttindi, og þau eru einstaklingsbundin en ekki einhver vinsældakosning. Þar að auki er að minnsta kosti fimmtungur þjóðarinnar trúlaus, enn fleiri áhugalitlir um trú og afgangurinn að miklu leyti blendinn í trúnni og aðhyllist algyðistrú, andatrú o.fl. sem seint telst kristilegt. Af einhverjum ástæðum virðist Þjóðkirkjan óttast okkur sem stöndum við jarðbundin og guðlaus viðhorf okkar. En við bítum ekki. Það eina sem við förum fram á er að tekið sé tillit til okkar.
Að þessu sögðu má ég samt til með að þakka Karli og félögum fyrir að beina athyglinni að trúboði í skólum og málstað og mannréttindabaráttu Siðmenntar. Trúleysingjar hafa fundið mikinn meðbyr í samfélaginu undanfarna daga þótt sterkar raddir hafi hamast gegn okkur, svo við erum full af bjartsýni og liðsandinn góður. Höfundur er sagnfræðingur og trúleysingi.
...en trúlausir borða börn ;) djók!
Nei mig langaði bara að kommenta...þar sem að mér leiðist svo í prófalestrinum.
En langaði líka að segja að mér finnst eins og aðilar beggja megin borðsins hafi upplifað sigur í þessari umræðu, er nefninlega nýlega búinn að hitta hóp trúaðra þar sem að minnst var á að trúaðir ættu trúlausum í siðmennt og vantrú mikið að þakka fyrir umræðu síðastliðnu daga. Fannst þetta bara skemmtilegt að beggja megin borðsins séu einstaklingar sáttir með útkomu umræðunnar sem átt hefur sér stað síðustu vikurnar. (og vísa þá í þakkir þínar til Kalla biskups)
Höfundur er líka maður! ;)
Það er mikilvægt að sátt ríki um grunnskólann. Það er auðvita réttmæt krafa að trúboð líðist ekki í grunnskólanum. Krafan um að skólin verði algjörlega veraldlegur fær ekki staðist meðan ekki er búið að skilja á milli ríkis og kirkju.Hvernig er hægt að verja það að ríkisvaldi sem samkvæmt stjórnarskrá á að vernda þjóðkirkjuna, beiti valdi sínu til að koma til móts við hagsmuni veralega sinnaðs fólks sem getur ekki sætt sig við að nokkur trúariðkun fari fram í grunnskólanum jafnvel í þeim tilvikum þar sem allir foreldra sem tengjast málinu eru sáttir við ríkjandi ástand. Halda menn virkilega að hægt sé að brjóta niður hefðir og breyta skólastarfi í grundvallar atriðum án þess að það valdi deilum og óánægju.
Ég held að enginn búist við að hefð fyrir samkrulli skóla og kirkju breytist án deilna og óánægju. En á meðan trúarinnræting og trúariðkun á sér stað innan skólanna eða á vegum þeirra verður aldrei sátt um starfið - einfalt.
Það er borgaraleg skylda að mótmæla ranglæti, jafnvel þótt um hefð sé að ræða, svo sem þrælahald, kúgun kvenna, útskúfun samkynhneigðra og trúboði í skólum. Auðvitað verður baráttan auðveldari þegar lög og réttur styðja málstaðinn - en það virðist ekki aftra afturhaldsmönnum í sínu afturhaldi.
Því miður hefur kirkjan og trúaðir löngum verið versta afturhaldsaflið, eins og í dæmunum fyrir ofan. En þegar frá líður hafa þeir þó geð í sér til að eigna sér og "heilagri almennri kirkju" þær framfarir sem hafa náðst þrátt fyrir kirkju og kristna, ekki vegna þeirra.
Góð grein og mikilvægt að skerpa á því að þeir sem aðhyllast trúlausa lífsskoðun eru einfaldlega venjulegt fólk í næsta húsi. Fólk með sömu tilfinningar og réttlætiskennd og aðrir. Sömu kröfu á réttláta meðferð og virðingu og sama rétt til að standa upp þegar á því er brotið eins og til dæmis er gert víða í skólum í dag.
Það er nánast eins og gefið hafi verið út skotleyfi og fullkominn réttur til níða og orðmeiðinga á þá sem segjast trúlausir.
Athyglisvert að heyra, ef rétt er haft eftir, ef kirkjan heldur að hún hafi unnið einhvern ímyndarsigur. Ég held að hún hafi einmitt ekki gert það, nema þá hjá minnihluta landsmanna.
Mér heyrist á mínum kristnu vinum að þeim finnist viðbrögð kirkjunnar fyrir neðan allar hellur, og að auðvitað sé skólatrúboð tímaskekkja. En það gæti auðvitað líka helgast af því að ég umgengst aðallega skynsamt fólk - það er því miður til töluvert af óskynsömu fólki.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Eyvindur Karlsson - 19/12/07 12:43 #
Vel mælt (eða ritað öllu heldur). Mér finnst kostulegt að kirkjan mótmæli því að kristilegt siðgæði sé tekið úr námskrá með því að ráðast á ákveðinn hóp. Er umburðarlyndi ekki máttarstólpi kristilegs siðgæðis? Hvar er umburðarlyndið hjá þessu fólki? Að minnsta kosti ekki inni á biskupsstofu, svo mikið er víst.