Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Mannréttindi í skólum

Síðastliðinn vetur vann starfshópur nokkur á vegum Leikskóla- og Menntasviðs Reykjavíkur skýrslu um stefnu í samstarfi leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarhópa. Í skýrslunni er minnt á trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála SÞ, sem tryggir rétt foreldra til að ráða menntun barna sinna. Jafnframt er minnt á rétt barna til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar í Barnasáttmála SÞ.

Í skýrslunni er líka minnt á aðalnámskrá leik- og grunnskóla. Í henni kemur fram að skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun. Og ekki gleymdist að minna á lög um grunnskóla og leikskóla, en í þeim er lagt bann við mismunun nemenda vegna trúarbragða.

Í tillögum hópsins er lögð áhersla á að í skólum fari fram fræðsla um mismunandi lífsskoðanir og trúarbrögð en ekki stunduð boðun trúar. „Forðast skal aðstæður þar sem börn eru tekin út úr hópnum eða skylduð til að taka þátt í atburðum sem ekki samræmast trúar- eða lífsskoðunum þeirra.“

Slagorð þjóðkirkjunnar er „boðandi“ kirkja, hún er evangelísk. Yfirlýst markmið og stefna er að gera alla að lærisveinum Krists. Í formála að Stefnumörkun Lútherska heimssambandsins, Mission in Context, segir biskup: „Orðið mission er margrætt og hlaðið. Í kirkjulegu samhengi er það gjarna þýtt kristniboð.“ „Kirkjan er send með boðskap. Það er hlutverk hennar og verkefni hennar öll eru með einum eða öðrum hætti liður í þeirri sendiför.“ Í inngangi segir: „Kjarni boðunarstarfs kirkjunnar er prédikun fagnaðarerindisins – að kalla fólk til trúar á Jesú Krist og þátttöku í hinu nýja samfélagi við Krist“. Í meginmáli segir svo: „Boðun er ekki valkostur kirkjunnar. Boðun er grundvöllur veru hennar.“

Fyrir nokkrum árum fór sóknarprestur í Seljahverfi að venja komur sínar í leikskóla í hverfinu til að stunda það sem hann sjálfur kallar kristniboð. Í reglulegum heimsóknum hans í leikskólana voru nokkur börn tekin til hliðar vegna lífskoðanaágreinings prests og foreldra. Í þessari stöðu þurftu leikskólastjórar annað hvort að brjóta á áðurnefndum mannréttindum foreldra eða mismuna nemendum vegna trúarbragða. Því ákváðu þeir að taka fyrir þessar heimsóknir prestsins.

Í útvarpsviðtali við biskup kenndi hann „litlum hópi“ manna um þessa ákvörðun skólastjórnendanna og sagði: „Það virðist vera að þeim heppnist að taka skólana á taugum og forráðamenn skólanna.“ Í fullum skrúða fordæmdi hann enn þennan litla hóp úr ræðu- og valdastóli sínum og hneykslaðist á kröfum þeirra, sem hann sagði vera þessar : “ Fjarlægja verði Biblíusögurnar úr skólunum, banna eigi að dreifa Nýja testamentinu til skólabarna, meina prestum aðgang að leikskólunum, hætta að lesa og túlka jólaguðspjallið á litlujólunum. Svona er vaðið áfram með fána umburðarlyndisins og mannréttindanna við hún.“

Norskir foreldrar töldu brotið á rétti sínum vegna einhliða kristinnar trúarinnrætingar í skólum þar í landi og leituðu til Mannréttindanefndar SÞ. Hún kvað upp þann úrskurð síðla árs 2005 að áðurnefnd mannréttindi væru á þeim brotin, meðal annars með einhliða framsetningu, dreifingu trúarrita í skólum, nemendur voru látnir taka þátt í helgileikjum, fara í kirkjur, læra bænir, sálma o.s.frv. En norska ríkið er ekki bundið af úrskurði SÞ og því þurftu aðrir foreldrar að bera samskonar kæru fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Sá komst að sömu niðurstöðu nú í sumar.

Í ljósi alls þessa og skýrslu Menntasviðs er alveg ljóst að stjórnendur leikskóla í Seljahverfi létu fagmennsku ráða ákvörðun sinni. Í Fréttablaðinu 5. desember tjáði meistari nokkur í trésmíði sig um málið og sagði: „Sú einstaka heimska, eða skilningsleysi, sem kom yfir ráðamenn nokkurra leikskóla borgarinnar, að meina prestum að flytja þar guðsorð eins og tíðkast hefur, er útlendingum síst til góðs.“ Halldór Reynisson, verkefnisstjóri fræðslusviðs biskupsstofu (spunameistari), ætti að vera nokkuð upplýstari en trésmíðameistarinn. En í greinarstúfi í sama blaði segir hann að erfitt sé að sjá hvernig hér geti verið um brot á mannréttindum að ræða.

Ég skora á verkefnisstjórann, biskup, presta, ráðamenn, fjölmiðlamenn, háa og lága að kynna sér skýrslu starfshóps Menntasviðs Reykjavíkur og jafnvel lög og rétt. Reyndar átti biskupsstofa fulltrúa í þessum starfshópi, sjóndapra spunameistarann, Halldór Reynisson.


Greinin birtist í Fréttablaðinu 14. desember

Reynir Harðarson 16.12.2007
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Árni Árnason - 16/12/07 21:51 #

Það er ekki að ófyrirsynju að Halldór Reynisson er kallaður sjóndapur. Sjái hann ekki hvernig viðvera presta og djákna í smábarnaskólum getur verið mannréttindabrot, er hann sannarlega sjóndapur í meira lagi.

Menn sem sjá bara það sem þeir vilja sjá geta líka kallast sjóndaprir.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.