Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Biskup iðrast ekki

Undanfarið hefur ríkiskirkjan og hennar bandamenn, með Karl Sigurbjörnsson biskup fremstan, farið hamförum gegn félaginu Siðmennt og öðrum sem standa gegn trúboði í íslenskum skólum. Svo hörð var sóknin og stórar rangfærslurnar, um málflutning Siðmenntar, að félagið bað um opinbera afsökun biskups. Engum að óvörum sá biskup ekki að sér í opnu svarbréfi sínu til Siðmenntar. Áður kallaði hann Siðmennt „hatrömm samtök“ en nú kallar hann málflutning þeirra hatramman.

Og um hvað hefur þessi hatrammi málflutningur Siðmenntar snúist? Að börnum sé ekki boðuð trú í opinberum menntastofnunum. Að lífsskoðunum foreldra sé sýnd virðing og börn þeirra ekki neydd til að taka þátt í trúaruppeldi og helgileikjum trúarfélags sem þau eru ekki hluti af eða vera annars útundan í skólastarfi. Að mannréttindi séu virt eins og Mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað um. Siðmennt og meðlimir hennar eru því hatrammir stuðningsmenn mannréttinda og umburðarlyndis.

En hvernig rökstyður biskup þessa skoðun sína? Hann segir talsmenn Siðmenntar „hafa leyft sér þann málflutning að tala niðrandi um trú og að krefjast banns við helgileikjum og jólaguðspjalli í skólum. Ég leyfi ég [svo] mér að nota orðið „hatrammur“ um þennan málflutning.“ Annað hvort hefur Karl Sigurbjörnsson ekki nokkra hugmynd um hvað er að vera „hatrammur“ eða hann er blindur á eigin gjörðir og orð. Um trúleysingja sagði biskup sjálfur: „Ekkert foreldri getur varið barn sitt fyrir ágengni þess ofstækis sem helst sækir að þeim hjörtum og sálum sem ekki hafa fengið næringu trúar, ekki hafa fengið viðmið helgra sagna og helgrar iðkunar og ein megna að hamla gegn áhrifum sálardeyðandi og mannskemmandi guðleysis og vantrúar.“ Ef það að tala niðrandi um eitthvað er að vera hatrammur þá er biskup sjálfur sekur um slíkt og ætti kannski að hugsa til orða þeirra, sem kristnir vilja eigna Jesú, að „sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini...“

Þrátt fyrir að biskup telji málflutning Siðmenntar hatramman virðist opna bréfið hans til félagsins sýna að hann hefur ákveðið að taka rökum. Það er stórfengleg framför að nú skuli hann vilja leggja „mikla áherslu á að trúarbragðafræðsla, kristinfræði og fræðsla um ólík lífsviðhorf fari fram á faglegum forsendum skólans og að fyllsta tillit sé tekið til mismunandi lífs- og trúarskoðana af virðingu og umburðarlyndi.“ Ég, og aðrir sem vilja að skólakerfið sinni veraldlegri menntun og að trúboði sé úthýst úr því, hljótum að fagna þessari kúvendingu ríkiskirkjunnar í málinu en væntanlega talar biskup þarna fyrir hana. Hvernig hann vill samræma „hinn trúarlega þátt“ við faglegar forsendur skólanna, og tillit til annarra lífs- og trúarskoðanna annarra en ríkiskristni, er mér þó tilefni botnlausra heilabrota.

Karl Gunnarsson 10.12.2007
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Rex - 10/12/07 10:01 #

kölluðu ekki siðmennt kirkjuna fyrst hatrömm samtök, þegar síðan biskup kallaði siðmennt það sama þá fara þeir fram á afsökunarbeiðni

talandi um að kasta steinum úr glerhúsi...


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/12/07 10:08 #

kölluðu ekki siðmennt kirkjuna fyrst hatrömm samtök

Nei, það gerðu þau ekki.


Árni Árnason - 10/12/07 10:09 #

Dónalegur biskup.

Viðbrögð biskups bera vott um erfiða stöðu kirkjunnar í þessari deilu um trúboðið í skólunum. Rök eru þrotin og þjóðin styður ekki lengur þá séréttindastöðu sem kirkjan hefur haft fram til þessa. Í málflutningi Siðmenntar er ekkert að finna sem kalla mætti með nokkurri sanngirni hatrammt, þvert á móti er öllu orðfæri mjög í hóf stillt og framsetning öll málefnaleg. Það eina sem er hatrammt eru viðbrögð biskupsins.


Kristján Ari Sigurðsson - 12/12/07 19:37 #

Trúboð? Hver ykkar mann eitthvað af því sem ykkur var kennt í grunnskóla?(ekki taka fermingafræsluna með..)


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/12/07 19:43 #

Eitt dæmi um trúboð er t.d. þegar það er sagt í kennslubókum að Jesús hafi risið upp frá dauðum eins og um staðreynd sé að ræða. Það er líka trúboð þegar prestur heimsækir leikskóla og lætur börnin "tala við guð".


Kristján Ari Sigurðsson - 12/12/07 20:21 #

Hjalti lærðir þú þetta ekki hvort eð er í fermingarfræðslunni?


Kalli (meðlimur í Vantrú) - 12/12/07 20:24 #

Og hvaða máli skiptir það, Kristján? Það fara ekki öll börn í fermingarfræðslu heldur.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 12/12/07 20:44 #

Kristján:

Jú, fermingarfræðslan var einmitt trúboð. Og?


Kristján Ari Sigurðsson - 13/12/07 20:03 #

  1. Finnst ykkur í alvörunni skrýtið að í kristnuríki sé kennt um kristni?
  2. Hjalti og Kalli, ég var bara að benda á að flest íslensk börn, ekki allir en flestir, og læra þetta allt þar.
  3. Það sem er kennt um kristni í grunskóla hefur voðalega lítið með kjarna kristni að gera. Ég vona að þið skiljið mig. Það er kennt sögur en ekkert varðandi grun á kristinlegur líferni.
  4. Hafi þið hugsað út í þetta samt ef þið afnemið kristni frá skólunum ætti þá nokkuð að vera jólafrí? Þ.e. það er kristin(kristnuð) hátíð. Einnig myndu hinir ýmsu frídagar falla niður.

Málið er nefnilega það að 95% þjóðarinnar er skráð í kristin trúfélög og því eðlilegt að þjóðfélagið mótist af því. Tökum bara dæmi ef að 5% þjóðarinar væri samþykk ákveðni virkjun en 95% á móti, hvort færi í gegn? Að sjálfsögðu yrði ekki virkt.

Ég vil samt taka það fram að ég er allveg hlyntur því að í grunskólunum sé kennt meira um hin ýmsu trúfélög, en mér finnst samt sem áður eðlilegt að leggja áherslu á kristni.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 13/12/07 20:34 #

Finnst ykkur í alvörunni skrýtið að í kristnuríki sé kennt um kristni?

Nei. Hver er á móti því að það sé kennt um kristni?

... ég var bara að benda á að flest íslensk börn, ekki allir en flestir, og læra þetta allt þar.

Við erum ekki að tala um að krakkarnir læri eitthvað, heldur hvort trúboð sé stundað í skólum eða ekki.

Það sem er kennt um kristni í grunskóla hefur voðalega lítið með kjarna kristni að gera. Ég vona að þið skiljið mig. Það er kennt sögur en ekkert varðandi grun á kristinlegur líferni.

Ef þú ert að benda á að mest að kennsluefninu eru biblíusögur, þá er ég sammála því.

Hafi þið hugsað út í þetta samt ef þið afnemið kristni frá skólunum ætti þá nokkuð að vera jólafrí? Þ.e. það er kristin(kristnuð) hátíð. Einnig myndu hinir ýmsu frídagar falla niður.

Ég bara efast um það. Ég persónulega held upp á jólin, en það tengist kristni ekki.

Málið er nefnilega það að 95% þjóðarinnar er skráð í kristin trúfélög og því eðlilegt að þjóðfélagið mótist af því. Tökum bara dæmi ef að 5% þjóðarinar væri samþykk ákveðni virkjun en 95% á móti, hvort færi í gegn? Að sjálfsögðu yrði ekki virkt.

Ímyndum okkur að 95% landsmanna kysu Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum. Væri þá rétt að sá flokkur myndi boða stjórnmálaskoðanir sínar í opinberum skólum?


Arnar - 14/12/07 00:04 #

Kristnir virðast vera svo hrifnir af kommúnisma:

"Ef 100% þjóðar kýs kommúnisma, er þá réttlætanlegt að boða kommúnisma í skólum? :)"

Þarf að spyrja Jón Val og Mofa að þessu við tækifæri :)

En fyrir utan það, að þá er ekki 95% þjóðarinnar kristinn! Það eru bara allir skráðir í þjóðkirkjuna við fæðingu (eða var það skírn?) og engin nennir að skrá sig úr henni aftur. Bendi á trúarlífs könnun Gallup 2004 sem er einhverstaðar linkuð hérna inni á Vantrú og/eða td. umfjöllun DV um þennan meinta meirihluta og umrædda könnun í síðasta helgarblaði (8. des). Það er stórkostlegt misræmi í skráningu í þjóðkirkjuna og þeim fjölda sem virkilega ástunda kirkju og trú. Ég er ekki að segja að kristnir séu í minnihluta en þeir eru langt í frá að vera +90% þjóðarinnar.


Kalli (meðlimur í Vantrú) - 14/12/07 00:12 #

Börn eru skráð í trúfélag móður og það strax við fæðingu held ég. Kemur þessum pistli ekki við en maður veltir fyrir sér hvaða skoðanir hvítvoðungar hafi á trúmálum...


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 14/12/07 00:59 #

Mér finnst þetta svarbréf biskupsins rosalega skrítið verð ég að segja. Eins og hann dragi þá ályktun að Siðmennt vilji kristnifræðikennslu eftir allt í skólum í samræmi við það sem kirkjan vill.

Eða er grein biskupsins bara svona torskilin?

Eiga svo prestar þjóðkirkjunnar að sjá um trúarbragðasöguna, eða kristinfræðina? Eða verða valdir til þess menntaðir kennarar? Fá þeir prestar sem hafa sinnt störfum í skólum aukalega greitt fyrir það? Þ.e. ofan á prestlaunin?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.