Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Bloggheimur rís gegn trúboði

Undanfarið hefur hávær minnihluti trúfólks þyrlað upp moldviðri gegn þeim sem vilja úthýsa trúboði úr skólum. Því miður hefur þessi hópur trúmanna, með klerka fremsta í fylkingu, verið gjarn á að gera andstæðingum sínum upp skoðanir, eins og að vilja banna litlu jól skólanna, frekar en að fjalla um sjálft aðalatriðið í málinu: aðgengi ríkiskirkjunnar að börnum í skólum landsins. Tilgangurinn með þessum aðgangi er augljós. Tilgangurinn er trúboð og fyrir því getið þið haft orð kirkjunnar manna ef orð "fámenns en duglegs minnihlutahóps" duga ekki til.

Sem betur fer er þessi "fámenni hópur" ekki einn um að sjá í gegnum moldviðrið. Jafnt hógværir trúmenn sem trúleysingjar hafa stigið fram til að gagnrýna forna hugsun ríkiskirkjunnar og skort hennar á umburðarlyndi í þessu máli. Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi, með tenglum, frá breiðum hópi fólks sem hefur mótmælt því að einstakir trúarhópar njóti forréttinda innan skólakerfisins og geti stundað þar trúboð. Eftir okkar bestu vitund þá er ekkert af þessi ágæta fólki í Siðmennt og við slepptum að sjálfsögðu líka öllum skrifum Vantrúarfólks í þessari samantekt.


Hlynur Hallson

"Árið er 2007 og það gengur ekki að biskupinn skammi menntamálaráðherra sem er á braut til meiri víðsýni í þessum málum. Það á að ríkja trúfrelsi í landinu og trúboð í leikskólum og öðrum skólum á ekki við. Kærleikur og siðgæði á að vera einn af hornsteinum samfélagsins en ekki trúboð."


Hildur Edda Einarsdóttir

"Ef ég eignast börn sem fara á leikskóla þar sem prestur kemur óumbeðið í heimsókn og treður sinni trú ofan í kokið á þeim ætla ég að vera ein af þessum fáu sem eyðileggur fyrir þeim trúarátroðninginn. Það er ekki svo langt síðan ég leit nöldrandi kerlingar og ákveðna karla hornauga (já, konur nöldra og karlar eru ákveðnir samkvæmt skilgreiningu) en ég geri það ekki lengur. Ég skammast mín ekkert fyrir að vera ein af þeim fáu sem vilja vekja athygli á jafnréttismálum, stunda mótmæli og sniðganga vörur og fyrirtæki sé ástæða til. Það er einmitt þannig fólk sem stuðlar að framförum og breytingum í þjóðfélaginu. Ekki plebbarnir sem fussa og sveia yfir því að það séu til einstaklingar sem vilja gera eitthvað annað og meira en kaupa hvað sem er og keyra um á jeppa."


Friðrik Þór Guðmundsson

"Er ekki eitthvað bogið við afstöðu þessara foreldra? Hveru skyldu þessir foreldrar svara aðspurðir um heimsóknir frá t.d. Gunnari í Krossinum, Guðmundi í Byrginu, fulltrúa frá Islam eða Samtökum trúleysingja? Eiga slíkir fulltrúar engan kærleika? Geta þeir ekki sungið með börnunum? Það foreldri sem vill séra Bolla í leikskóla barns síns getur varla verið á móti heimsókn frá t.d. Siðmennt eða Samtökum trúleysingja að boða sinn boðskap, eða hvað (vil taka það fram að ég er ekki trúleysingi)? Fróðlegt væri að heyra mótbárur gegn slíkri heimsókn!

Mig grunar að þessir foreldrar eigi það sammerkt að ástunda ekki trúarinnrætingu á heimilum sínum heldur ætli öðrum það. Ég vil hvetja þessa foreldra til að syngja sjálfir og segja Jesúsögur sjálfir fyrir börnin á sínum eigin heimilum og fara með börnin í kirkjurnar að hitta þar "celebrityin". Leik- og grunnskólar eru ekki vettvangur einhliða trúarinnrætingar, en sjálfsagt að fræða börnin um trúarbrögð almennt."


Særún María Gunnarsdóttir

"Ég hugsa hins vegar að honum hefði misboðið all verulega ef Framsóknarflokkurinn (eða einhver annar stjórnmálaflokkur) hefði fengið að senda fulltrúa sinn í reglulegar heimsóknir í grunnskólann sem ég gekk í til þess að boða sín stefnumál. Honum hefði fundist það alveg jafn fráleitt þótt yfir 80% landsmanna væru skráðir í flokkinn.

Er einhver munur á þessu og innrás kirkjunnar í skólana? Persónulega finnst mér bara gott mál þegar fólk finnur sig í trú. Það er þeirra val. Það er heldur ekkert nema gott að segja um trúarbragðakennslu í grunnskólum, svo lengi sem hún fer fram með eðlilegum hætti. Trúboð í skólum er bara allt annar hlutur. Kirkjan á að halda sig í sínum guðshúsum og ef börnin koma ekki þangað er það líklega af því að þeim og/eða foreldrum þeirra finnst það ekki eftirsóknarvert."


Steingerður Steinarsdóttir

"Margir vestrænir heimspekingar hafa einnig lagt línurnar um hvernig lifa eigi með mannlegri reisn án stuðnings trúarbragða og mörgum mönnum ferst það bara ansi vel. Það er engin trygging fyrir manngæsku að menn beri hempu og líkt og skáldið sagði þá spretta kristilegu kærleiksblómin kringum hitt og þetta."


Dofri Hermannsson

"Það hefur verið almenn sátt um að stunda ekki markaðssetningu gagnvart börnum í grunnskólum landsins. Það er alveg sama hvað fólk vill kalla það - kristniboð Þjóðkirkjunnar í grunnskólum er ekkert annað. Beinn aðgangur hennar að fermingarbörnum á skólatíma þar með talinn.

Þjóðkirkjan hefur gríðarlega sterka stöðu í samfélaginu þótt hún heimti ekki einkaaðgang að markaðssetningu gagnvart börnum inni í grunnskólum landsins. Eitt verður yfir alla að ganga og ef Þjóðkirkjan á að fá að taka börn úr skóla til að kenna þeim kristinfræði fyrir ferminguna þá verða öll trúfélög, kristin sem ókristin að fá að gera þetta líka."


Heiða María Sigurðardóttir

"Ég er reyndar löngu komin út, en finnst rétt að minna á tvennt í ljósi þessarar fréttar, sérstaklega þessarar málsgreinar: "Ætla menn að banna litlu jólin og afnema jólafrí og páskafrí? Jólin eru hluti af okkar samfélagi, en ekki kjarasamningsatriði. Hér er þjóðkirkja og við erum ekki að hverfa frá kristnum gildum."

Fyrir það fyrsta, jól og páskar eru EKKI sérkristið fyrirbæri. Jól voru haldin hátíðleg áður en kristni barst til Íslands, sjá t.d. hér. Páskar eru sömuleiðis eldri en kristni, sjá hér. Ég er trúlaus og ég hef sama rétt og allir aðrir til að halda upp á það sem mér finnst gefa lífinu lit. Eða mega trúleysingjar ekki gleðjast með fjölskyldunni sinni, skiptast á gjöfum og borða ljúffengt gúmmulaði?"


Stefán Pálsson

"Hvaða hefð er fyrir því að kirkjan sé með puttana í skólastarfi? Þegar ég var gríslingur gekk ég fyrst í leikskólann Valhöll og síðar Grænuborg. Þar sáust aldrei neinir klerkar. Það var aldrei farið í kirkju og sjálfsagt hefur engum komið slíkt til hugar.

Í Melaskólanum gegndi sama máli. Skólinn stendur beint á móti Neskirkju - það tekur mínútu að hlaupa á milli. Aldrei var samt farið með okkur þangað yfir. Aldrei komu prestar, djáknar, abbadísir - eða hvað þetta lið heitir nú - til að ræða við okkur. Ég skal ekki sverja fyrir að einhver hafi rekið inn nefið í fimm mínútur til að auglýsa sunnudagaskólann - en það var sami aðgangur og skátarnir og íþróttafélögin fengu. [...]

Fólk ætti að hafa þetta í huga í allri þessari umræðu. “Vonda fjölmenningarsamfélagið” og “háværi minnihlutinn” eru ekki að reyna að banna gamla og gróna siði, heldur vinda ofan af þróun sem er nýbyrjuð - og virðist fremur standa í samhengi við offramleiðslu á guðfræðingum en sem viðbrögð við kröfum foreldra eða skólastjórnenda."


Baldur Ragnarsson

"Í þriðja stað: Á nýliðinni öld boðuðu tveir menn ótakmarkaðan kærleik - án tillits til trúarskoðana. Annar hét Gandhi, hinn hét Lennon. Sá fyrri sagðist vera Hindúi, Múslimi, Búddisti og kristverji - og fleira! Sá síðarnefndi sagði einfaldlega: “All you need is love”. Hvorugur þeirra gaf mikið fyrir Ágsborgarjátninguna (sem fermingarbörnin segja “já” við - þegar þau loksins fá að mæla…). Báðir dvelja nú í eldum helvítis - samkvæmt kenningum kirkjunnar (kaþólskrar, Lutherskrar, Kalvínískrar eða hvað þetta heitir allt…!).


Gréta Björg Úlfsdóttir

"Eins og er finnst mér margir þjóðkirkjumenn haga sér dálítið í umræðunni um fullkominn aðskilnað ríkis og kirkju eins og unglingar sem hræðast að yfirgefa Hótel Mömmu (það er að segja ríkið)...

Einnig grunar mig að almenningi í landinu yrði svipað innanbrjósts við það að kirkjan yrði ekki lengur þjóðkirkja, heldur væri reyndin sú að hún væri aðeins ein af kirkjudeildum hinnar alþjóðlegu evangelísk-lútersku kirkju...

Ósköp held ég að margir myndu vakna upp af værum blundi við það að þurfa allt í einu að hugsa sjálfstætt um trú sína, hver hún sé og hvort hún sé til staðar, og velja í hvaða kirkjudeild þeir myndu skrá sig, ef einhverja. Að þessu leyti held ég nefnilega að aðskilnaður myndi frekar verka jákvætt heldur en hitt; hann myndi leiða til andlegrar vakningar, við það að fólk neyddist til að hugsa sinn gang í þessum efnum."


Paul Nikolov

"Ég tel það hlutverk kirkjunnar að kenna börnin um kristnitrú - foreldrar sem vilja að börnin þeirra læra um kristnitrú eiga ennþá frelsi til að gera það, með því að fara í messu. En það er staðreynd að mjög fáir fara í kirkjunna regulega, þannig að ég velti fyrir mér hvort þjóðkirkjan sé hrædd við því að fólk myndi hætta alla vega að fara í messu ef kristnitrú væri ekki kennt í skólanum? Það veit ég ekki."


Borgar Þorsteinsson

"Ég veit ekki með Þorgerði Katrínu, hún er eflaust bara illa upp­lýst. Senni­lega eru heimildir hennar ekki betri en t.d. 24 stundir. Sem segir kannski sitt um hæst­virtan fyrsta þing­mann suð­vestur­kjör­dæmis.

Mig langar þó mest að vita vakir fyrir kirkjunar mönnum. Vita þeir að þegar þeir fara með svona ósannindi í fjöl­miðlum að allt tryllist og Siðmennt fær hol­skeflu af óþarf­lega dóna­legum sím­tölum? Í því til­felli eru þeir illa inn­rættir.

Hinn mögu­leikinn er að þeir hafi ekki gert sér grein fyrir af­leiðingum gjörða sinna. Þeir séu ein­fald­lega ekki að hugsa um neinn nema sjálfan sig. Í því til­felli eru þeir, tja… þið segið mér? Fyrir­mynd kristinna manna?

Er það ekki ögn kald­hæðnis­legt að þeir menn sem heimta að fá að kenna börnum okkar sið­ferði séu annað hvort illa inn­rættir lygarar, eða illa upp­lýstir sjálfs­hags­muna­seggir?

Hvernig var hún aftur, þessi gullna regla?" -


Kristín Dýrfjörð

"Svo hugsa ég ef þetta væri sjónvarpsfréttir frá miðausturlöndum og umræðan væri um Kóraninn, þá myndi sami hópur fordæma slíka ofsatrú og jafnvel kalla hana öfgatrú. En hjá okkur heitir það menning og það að varðveita menningararfinn. Er allur arfur þess virði að halda í hann? "


Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir

"Væri það ekki nær að kirkjan myndi eyða þessu púðri í að verja réttindi minnihlutahópa í krafta kærleikans og Guðs en að vinna gegn mannréttindum minnihlutahópa?"


Kristján H. Theódórsson

"Komið nú út úr miðaldamyrkrinu svo maður þurfi ekki að skammast sín fyrir að vera alinn upp í kristnum sið! Sið sem meirhluti þjóðarinnar er skráður fylgjandi á forsendum ónógs valfrelsis gegnum tíðina.

Sið sem á sínum tíma var lögákveðinn fyrir þjóðina og hefur því óréttmætt forskot á aðrar lífsskoðanir. Hvar er samkeppnisráð?"


Rögnvaldur Hreiðarsson

"Ef ég skil þetta rétt þá er alls ekki verið að leggja til að horfið verði frá þeirri námsskrá sem nú er heldur sjái fagmenn, kennarar, um uppfræðsluna en ekki kirkjunnar menn.

Svo er verið að tala um þá nemendur sem ekki tilheyra þjóðkirkjunni. Hvað verður um þá? Skipta þeir engu máli bara af því að þeir tilheyra minnihlutahópi? Hversu stór þarf minnihlutinn að vera til þess að hann skipti máli."


Róbert Björnsson

"Það er svosem skiljanlegt að þjóðkirkjufólki standi ekki á sama lengur þar sem flóttinn úr kirkjunni hefur verið gríðarlegur á undanförnum árum og sóknarbörnum fækkað um fleiri þúsundir. Þau sjá ekki nema eina von í stöðunni og það er að gera skurk í skólunum og veiða ungar og ómótaðar sálir með svokallaðri "vinaleið" sem er ekkert annað en ekki-svo-vel-dulbúið trúboð. Trúboð á ekki heima í skólum. Punktur. Trúaðir foreldrar hljóta að geta heilaþvegið börnin sín heima hjá sér eða farið með þau í sunnudagaskóla á eigin kostnað."


Soffía Sigurðardóttir

"Ég legg til að íslenska þjóðkirkjan efli trúarbragðakennslu og noti til þess vettvang kirkjunnar. Kirkjan er bara ekki að standa sig þar. Kirkjusókn er lítil, safnaðarstarf ennþá minna og fræðsla innan kirkjunnar líkast til minnst. Lítið aðeins í eigin rann kirkjumenn.

Hins vegar finnst mér ekki rétt að kirkjan og hennar atvinnumenn séu að taka að sér trúarbragðakennslu í leikskólum eða grunnskólum."


Gylfi Gylfason

"Það á að vera allt í lagi að fikta við hugarheim þeirra er varnirnar hafa minnstar og þrengja heimssýn þeirra að skoðunum hinna trúuðu. Vá hvað þetta er hrokafullt og er það nema von að öfgafólk drepi hvort annað í massavís í baráttunni um hina "einu og sönnu trú".

Í raun sýnir þetta hvað það er nauðsynlegt að halda kristni og öfgafólki utan skólakerfisins. Þegar trúin breytist í forsjárhyggju þá er hún ekki heilbrigð lengur heldur hrokafull ítroðsla fólks sem sjálft fór af sporinu, ítroðsla sem leiðir ekki til neins nema leiðinda. Er það tilgangur trúarbragða ? Hvar fór trúfólkið út af sporinu og eigum við afturkvæmt nema við grípum inní og höfnum aðgangi að auðtrúa sálum ?"


Vilhjálmur Þorsteinsson

"Gott siðferði í nútímanum byggir meðal annars á virðingu fyrir mannréttindum og umburðarlyndi gagnvart ólíkri menningu, þó þannig að umburðarlyndið endar þar sem mannréttindin byrja. Kennum börnum okkar um rætur nútíma siðferðis, sem rekja má langt aftur fyrir Jesú Krist, um helstu heimspekikenningar og um sögu mannréttindabaráttunnar. Það er þekking sem kemur að gagni í samfélagi nútíðar og framtíðar."


Örn Ragnarsson

"Kveikjan að þessu öllu er sakleysisleg setning í stefnu menntamálaráðherra í skólamálum. þar eru orðin "kristið siðferði" tekið út enda loðið og vítt hugtak og ónothæft í raun, og í staðin er upptalning sem ég held að sæmilega kristnir menn geta tekið undir eins og aðrir. Fjaðrafok út af engu.

Svo er það trúboðið í skólunum. Kirkjunnar menn viðurkenna ekki að um neitt trúboð sé að ræða en ég fæ ekki betur séð en að td. það að gefa öllum skólabörnum Nýja testamentið sé ákveðið trúboð. Ætla mætti að sú bók væri til á öllum heimilum þar sem kristin trú er viðhöfð. Ég geri ekki ráð fyrir að Vottar Jehóva eða sambærilegir hópar fái að dreifa sínum trúarritum til skólabarna."


Gunnar J Briem

Nei, stærstur hluti gagnrýninnar þessa dagana á Siðmennt, Vantrú og aðra sem vilja búa í veraldlegu lýðræðisríki, byggir á misskilningi í besta falli en vísvitandi rógburði í versta falli. Kjarni málsins er að sekúlaristar geta fagnað nokkrum hænuskrefum í átt að aðskilnaði ríkis og trúariðkunar (sem er forsenda fulls trúfrelsis), en þessum litlu hænuskrefum fylgir merkilega mikil og ómálefnaleg umræða.


Þetta er að sjálfsögðu ekki tæmandi listi, fjöldi annarra hefur tekið undir með okkur um að trúboð Ríkiskirkjunnar eigi ekki heima í leik- og grunnskólum.

Ritstjórn 07.12.2007
Flokkað undir: ( Vísun )

Viðbrögð


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/12/07 08:57 #

Til viðbótar þessu má benda á hreint ágæta grein Baldurs Þórhallssonar stjórnmálafræðings í 24 stundum í dag.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 07/12/07 09:46 #

Helgarblað DV fjallar um trúarlífskönnun 2004. Þar viðurkennir Halldór Reynisson talsmaður biskupsstofu að helmingur landsmanna er ekki kristinn...

-Það sætir tíðindum.


Gunnar J Briem - 07/12/07 13:46 #

Grein Baldurs Þórhallssonar er á bls. 18.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 07/12/07 15:45 #

Grein Baldurs mun birtast hér á Vantrú á næstu dögum.


Gunnar J Briem - 07/12/07 16:53 #

Hér er líka prýðileg grein. Ég veit ekkert um höfundinn, en ætli megi ekki segja að fyrirfram líkurnar á því að hún/hann sé félagi í Siðmennt eða Vantrú séu litlar.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 07/12/07 19:02 #

Þetta er stórgóð grein sem þú bendir á Gunnar. Lokaorðin eru afar skemmtileg:

Því fyrr sem þið áttið ykkur á því að það er ekki hægt að rökræða við fólk sem lætur eins og börn, því betra. Haldið virðingu ykkar. Að sjálfsögðu skil ég þörfina fyrir að leiðrétta rangfærslur, en ekki einu sinni reyna að skiptast á skoðunum eða aukaupplýsingum við þetta fólk. Leyfið þeim að grafa sína eigin gröf; svona málflutningur dæmir sig alveg sjálfur.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 09/12/07 21:05 #

Frábær samantekt!

Já það eru mjög margir á móti trúarinnrætingu í skólum. Kirkjan getur bara sjálf séð um sína trúarinnrætingu og haldið til þess tilskilin námskeið fyrir alla aldurshópa. Þarf ekki að seilast inn í skólana til að messa þar, þegar til er ógrynni af hálftómum kirkjum sem hægt er að reyna að fylla með námskeiðahaldi.

Missti af öllum umræðunum um þessi mál af því ég var í útlöndum.

Kveðjur.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/12/07 09:45 #

Kjartan Pierre Emilsson bloggar: Meira um trúboð í skólum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/12/07 13:00 #

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson: Öfgar eða róttækni í trúmálum og jafnréttismálum?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 10/12/07 15:13 #

Jón Yngvi Jóhannsson: Hvað hefurðu á móti Þjóðkirkjunni?


Kalli (meðlimur í Vantrú) - 10/12/07 15:21 #

Mögnuð atriði í grein Jóns Yngva:

Trúarbrögðin eru að mínu mati einhver makalausasta uppfinning mannsins og rannsóknir á þeim skyldari bókmenntafræðinni en margar aðrar greinar hugvísinda.

En væri ég spurður í dag, myndi ég svara spurningunni í titli þessarar færslu á annan hátt. Ég hef nefnilega orðið ýmislegt á móti Þjóðkirkjunni. Það þarf varla að nefna hér fornfálega afstöðu biskups og margra presta til hjónabandsins. Þar hefur kirkjan dæmt sig úr leik og einfaldast að færa vígsluvaldið alfarið til borgaralegra yfirvalda.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.