Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Það sem er rétt

Það er ekki oft sem íslensk þjóðmálaumræða snýst um grundvallaratriði. Íslensk þjóðmálaumræða snýst eiginlega alltaf um tækniatriði. Gott dæmi um þetta er endalaus umræða um verndun tveggja gamalla húsa við Laugaveg meðan aðalatriðið, heildarstefna um götumynd Laugavegsins hefur aldrei farið fram.

Sú fágæta staða kom upp í síðustu viku að grundvallarmál sem snertir okkur öll kom í umræðuna. Yfirstjórn þriggja leikskóla í Seljahverfi ákváðu að taka fyrir heimsóknir Þjóðkirkjunnar í skólana. Nokkuð fjölmiðlafár fylgdi í kjölfarið og sem áhugamaður um samfélagsmál og einarður stuðningsmaður aðskilnaðar ríkis og kirkju fylgdist ég með af áhuga. Þjóðkirkjuprestarnir töluðu um að með þessu heimsóknarbanni væir minnihlutinn að kúga meirihlutann og að þjóðleg gildi væri í hættu, einn sagðist undrast að mannréttindahugsjónin væri notuð til þess að koma í veg fyrir að boðskapur friðar og kærleika. Nokkuð hefur borið á því að málið snúist um að banna litlu jólin. Biskup sagði í fréttunum að ástæðan fyrir þessari ákvörðun væru lítill hópur trúleysingja sem hefðu sig mikið í frammi. Allt var gert til að finna þessar ákvörðun til foráttu en enginn talaði um aðalatriðið í málinu.

Aðalatriðið í málinu og ástæðan fyrir því að þessir þrír leikskólar tóku fyrir heimsóknir Þjóðkirkjupresta inn í leikskólana var það grundvallaratriði að trúfélög skulu ekki ástunda trúboð inn í leikskólunum í samfélaginu okkar. -Leikskólar er ekki rétti vetvangurinn fyrir slíkt. Þetta grundvallaratriði snýst ekki um lýðræði. Það snýst ekki um smekk. -það snýst um hvað sé rétt! Aðgengi trúfélaga að börnum í leikskólum er stóra málið og um það ætti þessi umræða að snúast, ekki um að fámennur hópur fólks vilji banna litlu jólin.

Ég þekki til hryggilegra dæma um þegar litir krakkar eru teknir frá hópnum og látnir leika sér annarstaðar þegar leikskólapresturinn er að ástunda trúboð meðal hinna barnanna. Þarna eru börn látin gjalda fyrir lífsskoðanir foreldra sinna og ekkert foreldri ætti að sætta sig við slíkt. Þess utan ætti Þjóðkirkjan að sjá sóma sinn í því að vera ekki að boða trú yfir 2 til 6 ára börnum. Það er hlutverk foreldra að sjá um trúaruppeldi barna sinna, ekki skólanna. Þjóðkirkjan ætti frekar að einbeita sér að því að efla trúboðið sitt fyrir þá sem það vilja og í sínum eigin ranni. Það er mikill munur á leikskólatrúboði og t.d veru presta á sjúkrahúsum eða í fangelsum. Þar eru fyrir eru fullveðja einstaklingar sem hafa val um að þiggja eða hafa þjónustu þjóðkirkjunnar. Því er ekki fyrir að fara þegar trúboð er ástundað í leikskólum.

Ákvörðum leikskólastjóranna þriggja sem afþökkuð heimsóknir trúfélaga inn í leikskólanna ber vott um víðsýni, kjark og umhyggju fyrir skjólstæðingum sínum.

Teitur Atlason 06.12.2007
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Siggi Óla - 06/12/07 18:17 #

Og það sorglega við umræðuna er alltaf þessi útúrsnúningur um að meirihlutinn sé kristin og hvort þetta sé skemmandi fyrir börnin og að þetta sé góðu boðskapur og svo framvegis.

Þetta snýst bara alls ekkert um það. Þetta snýst eingöngu um það hvort fulltrúar einstakra trúarhópa eigi að vera með starf í skólum og leikskólum.

Svarið er einfalt og dagljóst. Það eiga engir trúarhópar, hvorki á vegum kirkjunnar, islam, ásatrúarfélags, búdda eða aðrir erindi inn í skólastarf, algjörlega óháð því sem þeir þykjast ætla að gera þar.

Skrítið að það skuli flækjast fyrir einhverjum.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 06/12/07 18:25 #

Sammála!. Ríkiskirkjan er bara trúfélag eins og um 30 önnur hérlendis.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.