Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sáttfýsi menntamálaráðherra

Undanfarið hafa orðið miklar deilur um ákvörðun menntamálaráðherra að taka klausu um kristilegt siðgæði úr grunnskólalögum. Ég hef oft reynt að fá svar við því hvað þetta kristna siðgæði sem minnst er á í landslögum sé eiginlega og þá hvernig það sé öðruvísi en almennt siðgæði. Það er nefnilega svo að kristnir menn eru oft mjög ósammála um siðferðisleg álitamál. Flestir frjálslyndir kristnir menn eru oftar sammála mér en íhaldssömum bræðrum sínum í Kristi.

Menntamálaráðaherra hefur af alkunnri visku sinni tekið á þessu skilgreiningarvandamáli og fundið það sem hún telur vera kjarnann í kristilegu siðgæði. Þessi kjarni samanstendur af "umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi." Það vill svo vel til að ég sem trúleysingi get alveg tekið undir þessi grunnsjónarmið og í raun tel ég þau falla vel undir það sem ég kalla almennt siðgæði.

Það er svolítið erfitt að skilja hverju fólk er að mótmæla þegar þessi nýja klausa er lesin. Tekur fólk almennt ekki undir að þessi gildi séu mikilvæg? Er eitthvað sem fólk myndi bæta við? Er þessi nýja klausa ekki bara nokkuð vel orðuð og skýr? Þarf nauðsynlega að stimpla þetta siðgæði sem kristið til þess að fólk verði sátt?

Væri ekki besta lausnin að taka sér þessa nýju klausu sér til fyrirmyndar og reyna að vinna lýðræðislega saman af umburðarlyndi, sáttfýsi, ábyrgð, umhyggju og virðingu fyrir manngildi til að friðmælast um skóla landsins?

Birtist í Fréttablaðinu þann 3. desember 2007

Óli Gneisti Sóleyjarson 04.12.2007
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.