Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Blekking trúarinnar

Trú samanstendur af þremur megin þáttum: Átrúnaði, athöfnum og upplifun. Þó þessi þrjú birtingarform trúarlegs atferlis séu mjög breytileg eru þau, eins og sálfræðingurinn Fred. H. Previc bendir á í nýlegri yfirlitsgrein um taugasálfræðilegar rætur trúar, „mjög tengd að því leyti að einstaklingar sem lifa í mjög trúuðum samfélögum eru mun líklegri til þess að túlka óvenjulega reynslu (t.d. hugaróra) sem trúarlega“. Slík upplifun getur síðan leitt til sterkrar trúarþarfar eða trúarumskipta, en eins og Previc greinir frá verða einungis 20-60% trúaðra einstaklinga fyrir „trúarlegri“ upplifun og er trúnni því að mestu viðhaldið með átrúnaði og athöfnum. Eitt form upplifana sem einstaklingar túlka gjarnan sem trúarlega er s.k. utanlíkama upplifun, sem vísindamönnum hefur nú tekist að framkalla á tilraunastofu.

Frá þessu var greint fyrr á þessu ári í tveimur vísindagreinum í hinu virta vísindatímariti Science. Eins og segir í frétt tímaritsins um greinarnar voru tilraunirnar gerðar á hópi heilbrigðra sjálfboðliða og þó upplifun þeirra hafi verið breytileg „greindu einstaklingarnir í báðum tilraununum frá tilfinningu um sambandsslit frá líkama sínum“. Höfundar annarrar rannsóknarinnar túlka niðurstöður sínar þannig að ímynduð utanlíkama reynsla sýni fram á að líkamleg sjálfsvitund og sjálfið geta aðgreinst frá líkamanum og geta þeir sér til „að dagleg reynsla einstaklinga af heildstæðu sjálfi, sem og ímyndanirnar sem hér greint er frá, byggist á virkni“ ákveðins svæðis í heilaberkinum (temporo-parietal junction).

Það er því komin fram sterk vísbending um að yfirnáttúrulegar eða trúarlegar skýringar á „utanlíkama“ upplifun eigi ekki við rök að styðjast. Fyrri rannsóknir hafa einnig sýnt fram á jarðbundnar skýringar á annars konar „trúarlegum“ upplifunum. Flogaveiki hefur til að mynda verði tengd ýmsum slíkum upplifunum, en eins og Previc bendir á í grein sinni virðast margir af helstu spámönnum og trúarleiðtogum mannkynssögunnar, s.s Páll postuli, hafa þjáðst af þessum sjúkdómi. Í þessu samhengi er rétt að ítreka að hið trúarlega umhverfi sem einstaklingurinn býr við skiptir miklu um það hvernig hann túlkar óvenjulegar upplifanir. Þegar þetta er haft í huga má geta sér til um það að Bandaríkjamenn sé mun líklegri til þess að túlka „utanlíkama“ eða aðrar „trúarlegar“ upplifanir sem yfirnáttúrulegar en Svíar, í ljósi þess að tæplega 90% Bandaríkjamanna trúa á persónulegan guð en einungis 15-55% Svía.

Það sem hér hefur verið bent á ætti að undirstrika mikilvægi þess að kenna börnum gagnrýna hugsun strax í upphafi grunnskólans til þess að gera þeim betur kleift að leggja náttúrulegt mat á ímyndanir sem fólk túlkar gjarnan sem yfirnáttúrulegar eða trúarlegar. Þessu er því miður ekki til að dreifa enda læra börnin okkar á fyrstu árum grunnskólans miklu meira um meinta tilvist guðs kristinna manna og heimsmynd þeirrar trúar en það sem raunvísindin hafa fram að færa, sem stuðlar að því, eins og Sigmund Freud benti á í Blekkingu trúarinnar (1927), að „þegar vitsmunir barnsins vakna eru kennisetningar trúarinnar orðnar hafnar yfir gagnrýni“.


Birtist í Morgunblaðinu 4.11.2007 - Heimasíða Steindórs J. Erlingssonar

Steindór J. Erlingsson 20.11.2007
Flokkað undir: ( Aðsend grein )

Viðbrögð


gimbi - 21/11/07 00:05 #

Tja, ætlar enginn að segja neitt um þessa grein Steindórs?

Jæja, ég skal ríða á vaðið.

Steindór segir: "Trú samanstendur af þremur megin þáttum: Átrúnaði, athöfnum og upplifun."

Þessi greining finnst mér ekki til skilningsauka. "Athafnir" og "upplifanir" hafa ekkert nauðsynlega með trú að gera. Þannig þyrfti fyrst að afmarka skilgreinigu þessa nánar, líklega svona (svo það dugi): "Trú samanstendur af þremur megin þáttum: Átrúnaði, trúarathöfnum og trúarupplifun."

En þá er líka heldur mikið klifað. Reyndar er til eitt orð sem nær yfir þetta þrennt; þ.e. helgiathöfn.

Helgiathöfn felur í sér átrúnað, athöfn og upplifun. A.m.k. hjá þeim sem ástunda helgiathafnir. Nema viðkomandi sé bara að þykjast...

Síðan segir þessi Fred H. Previc að vensl séu á milli þess að „ einstaklingar sem lifa í mjög trúuðum samfélögum eru mun líklegri til þess að túlka óvenjulega reynslu (t.d. hugaróra) sem trúarlega“.

Nema hvað!? Selvfölgelighed og banalitet. Það væri miklu áhugaverðara ef í ljós kæmi þarna öfug fylgni.

Steindór segir líka: "Eitt form upplifana sem einstaklingar túlka gjarnan sem trúarlega er s.k. utanlíkama upplifun, sem vísindamönnum hefur nú tekist að framkalla á tilraunastofu."

Í gær var þáttur í sjónvarpinu um hvernig líkami (og heili) sjúklinga væri kældur niður í um 12 - 13 gráður, til að framkvæma sérlega erfiðar og áhættusamr skurðaðgerðir. Við slíka kælingu er engin heilavirkni mælanleg. Samt sagði einn slíkur sjúklingur með "furðulegri nákvæmni" frá því sem hún sá utan líkama síns og gerðist við skurðaðgerðina.

Flog?

Steindór skrifar: "Höfundar annarrar rannsóknarinnar túlka niðurstöður sínar þannig að ímynduð utanlíkama reynsla sýni fram á að líkamleg sjálfsvitund og sjálfið geta aðgreinst frá líkamanum..."

Þetta skil ég ekki; er Steindór að tala um tvo eðlisólíka þætti, "líkamlega sjálfsvitund og sjálfið"? Ef svo er, er þetta ekki helber tvíhyggja?

...og áfram er haldið: "...og geta þeir sér til „að dagleg reynsla einstaklinga af heildstæðu sjálfi, sem og ímyndanirnar sem hér greint er frá, byggist á virkni“ ákveðins svæðis í heilaberkinum (temporo-parietal junction)."

Hvað þýðir "dagleg reynsla einstaklinga af heildstæðu sjálfi"? Er hún ólík draumreynslu eigin sjálfs? Eru til tvær gerðir af "sjálfi"? Þetta er allt furðulega óljóst.

En Steindór er ekki hættur: "Fyrri rannsóknir hafa einnig sýnt fram á jarðbundnar skýringar á annars konar „trúarlegum“ upplifunum. Flogaveiki hefur til að mynda verði tengd ýmsum slíkum upplifunum, en eins og Previc bendir á í grein sinni virðast margir af helstu spámönnum og trúarleiðtogum mannkynssögunnar, s.s Páll postuli, hafa þjáðst af þessum sjúkdómi."

Hlægileg einföldun. Ég setti innlegg um þetta á spjallborðinu:

http://www.vantru.is/spjall/viewtopic.php?t=6011&postdays=0&postorder=asc&start=0

...það væri gaman að heyra andmæli Steindórs.

"Í þessu samhengi er rétt að ítreka að hið trúarlega umhverfi sem einstaklingurinn býr við skiptir miklu um það hvernig hann túlkar óvenjulegar upplifanir."

Selvfölgelighed og banalitet. Ekkert nýtt! Hver sem er getur sagt sér þetta sjálfur. Trúarnöttarar í Suðurríkjunum eru líklega trúarnöttarar vegna þess að þeir búa í Suðurríkjunum. Líklega...

Og ályktunin sem Steindór dregur af þessum lærdómi er að gera börnum: "betur kleift að leggja náttúrulegt mat á ímyndanir sem fólk túlkar gjarnan sem yfirnáttúrulegar eða trúarlegar."

Náttúrulegt mat? Steindór á væntanlega við að börnum beri að tileinka sér mat náttúruvísinda á alheimi? Búa þá náttúruvísindi yfir öllum svörum tilveru manna?

Hreint ekki!


Steindór J. Erlingsson - 21/11/07 01:13 #

Veit einhver hver þessi gimbi er? Ég legg ekki í vana minn að tala við nafnlausa einstaklinga.

Ég vil byrja á á taka fram að þar sem verið er að skilgreina "trú" þá er tvíverknaður í stuttri blaðagrein að hengja "trú" framan við "athöfn" og "upplifun". Og, nei helgiathöfn nær ekki yfir þessa þrjá þætti. Annars bendi ég gimba á að ræða þennan skilning sinn við þá vísindamenn sem nota þessa þrígreiningu til þess að skilja betur innviði trúarbragða, sbr. Fred H. Previc.

Varðandi gagnrýni gimba á tengslum liðinna trúarleiðtoga og flogaveiki þá tel ég rétt að benda á að merkir sálfræðingar og geðlæknar hafa á undaförnum árum bent á þennan MÖGULEIKA, sem er ekki vitlausari en svo að þeir fá þetta birt í ritrýndum fræðitímaritum.

Þar sem gimba finnst það sem hann er ekki ósammála svona sjálfsagt þá er kannski rétt að benda honum á að greinin er ætluð til þess að uppfræða almenna lesendur Moggans um atriði sem þeir hugsa líklega ekki oft um dags daglega.

Varðandi athugasemdir hans við það sem fram kemur í ritrýndu rannsóknunum sem ég vísa í þá bið ég fólk að hugleiða: Hvorum á maður að taka mark á, nafnlausum gimba eða virtum vísindamönnum? Í því samhengi vil ég taka fram hér er ekki verið að boða tvíhyggju og bendi gimba á að lesa utanlíkama-greinarnar sem ég vísa í en þær birtust í ágúst síðast liðnum í Science, því "auma" vísindatímariti. Það telst vart stórmannlegt að vega svona að einstaklingum sem ekki geta svarað fyrir sig, nema þá að bloggheimurinn sé búinn að endurskilgreina almenna kurteisi og telji ad hominum rök skila einhverju

Varðandi spurninguna hvort náttúruvísindin búi "yfir öllum svörum tilveru manna" þá er svarið við því nei. Ég tel hins vegar að þau sé heillavænlegra veganesti útí lífið en tæplega 2000 ára stagbætt bók.


Steindór J. Erlingsson - 21/11/07 01:47 #

Þar sem ég nenni ekki að rökræða við nafnlausa einstaklinga þá tókst mér með hjálp nútímatækni að komast að því hver gimbi er: Hann heitir [þessum hluta athugasemdar eytt] og útskrifaðist með [þessum hluta athugasemdar eytt] árið 1996.


gimbi - 21/11/07 01:49 #

Ekki hefur þú sett fyrir þig að svara hér mörgum, sem skrifa undir dulnefni. Ertu að setja það fyrir þig núna? Er það vegna þess að ég andmæli þér? Ég skrifa undir dulnefni meðan fjölmargir aðrir meðlimir í Vantrú gera slíkt hið sama.

Þú segir:"Ég vil byrja á á taka fram að þar sem verið er að skilgreina "trú" þá er tvíverknaður í stuttri blaðagrein að hengja "trú" framan við "athöfn" og "upplifun"."

Nenniru ekki að vanda þig? Varstu ekki að skilgreina trú?

"Og, nei helgiathöfn nær ekki yfir þessa þrjá þætti."

Mætti ég fá að heyra andmæli, nóg er af staðhæfingum.

"Annars bendi ég gimba á að ræða þennan skilning sinn við þá vísindamenn sem nota þessa þrígreiningu til þess að skilja betur innviði trúarbragða, sbr. Fred H. Previc."

...og ég sem hélt að þú værir að styðjast við skilgreininguna, ég bið forláts! Viltu að ég beini andmælum mínum að þessum Fred?

"Varðandi gagnrýni gimba á tengslum liðinna trúarleiðtoga og flogaveiki þá tel ég rétt að benda á að merkir sálfræðingar og geðlæknar hafa á undaförnum árum bent á þennan MÖGULEIKA, sem er ekki vitlausari en svo að þeir fá þetta birt í ritrýndum fræðitímaritum."

Vúú, maður verður bara skíthræddur! Vísun í yfirvald? Ritrýnd skrif! Það er ekkert annað! Og MÖGULEIKA!? Maður bara tárast.

"Þar sem gimba finnst það sem hann er ekki ósammála svona sjálfsagt þá er kannski rétt að benda honum á að greinin er ætluð til þess að uppfræða almenna lesendur Moggans um atriði sem þeir hugsa líklega ekki oft um dags daglega."

Nú jæja, en auðvirði pöpullinn, sem aldrei æskir ritrýni jafningja á þetta skilið? Gott á hann!

"Varðandi athugasemdir hans við það sem fram kemur í ritrýndu rannsóknunum sem ég vísa í þá bið ég fólk að hugleiða: Hvorum á maður að taka mark á, nafnlausum gimba eða virtum vísindamönnum?"

Þú átt að hugsa, ekki leita samsinnis ritrýnenda! "...taka mark á nafnlausum gimba!"? Pffffftttt!

Og áfram heldur þú að gotta þér uppá orðspor: "Í því samhengi vil ég taka fram hér er ekki verið að boða tvíhyggju og bendi gimba á að lesa utanlíkama-greinarnar sem ég vísa í en þær birtust í ágúst síðast liðnum í Science, því "auma" vísindatímariti."

Hvar kom fram að Science væri "aumt" tímarit? Þú leyfir þér að gera mér upp skoðanir, sem eg hef hvergi haft í frammi! Og kjamsar síðan á Adda homma?

Sama þvaðrið heldur áfram: "Það telst vart stórmannlegt að vega svona að einstaklingum sem ekki geta svarað fyrir sig, nema þá að bloggheimurinn sé búinn að endurskilgreina almenna kurteisi og telji ad hominum rök skila einhverju"

Hvað í ósköpunum ertu að tala um? Ég leyfi mér að gera athugasemdir við grein þína. Stórmannlegt að vega að einstaklingum? Sem geta ekki svarað fyrir sig? Ertu að tala um þennan Fredda? Svaraðu sjálfur!

Hvað er í gangi? Ertu píslarvottur? Má ekki gera athugasemdir við þetta?

Og meira af svo góðu: "Varðandi spurninguna hvort náttúruvísindin búi "yfir öllum svörum tilveru manna" þá er svarið við því nei. Ég tel hins vegar að þau sé heillavænlegra veganesti útí lífið en tæplega 2000 ára stagbætt bók."

Nú, svo þú varst bara að hjala enn og aftur um hve biflían væri óáreiðanleg?

Og ég sem hélt að grein þín varðaði allt annað! En ég er vissulega ekki nægjanlega ritrýndur af jafningjum...

Þú átt samt eftir að svara ÖLLUM mínum athugasemdum.


gimbi - 21/11/07 01:55 #

...gott hjá þér Steindór, nema hvað þú hefur átt hér mörg samskipti við menn með dulnefni. Án athugasemda!

En þar sem þú ert nú búinn að afhjúpa mig (sem ég gerði reyndar sjálfur í kommentakerfi Matta, þegar hann var hvað fasistískastur í ritstjórn sinni (Matta til hróss þurrkaði hann þá játningu út)), þá minni ég þig á; þú hefur ekki svarað efnislega athugasemdum mínum.

Ekki enn...


Steindór J. Erlingsson - 21/11/07 02:03 #

Sæll [nafn tekið út]

Ég ætla ekki að gera tilraun til þess að reyna að svara öllum athugasemdunum þínu. Ástæða þess er að ég er ekki sérfræðingur á þessu sviði. Í þessari grein er ég í hlutverki blaðamannsins og það er einungis í lok greinarinnar sem ég lýsi eigin skoðunum og athugasemd þinni við þær hef ég svarað: "Varðandi spurninguna hvort náttúruvísindin búi "yfir öllum svörum tilveru manna" þá er svarið við því nei. Ég tel hins vegar að þau sé heillavænlegra veganesti útí lífið en tæplega 2000 ára stagbætt bók."


gimbi - 21/11/07 02:11 #

Auðvitað er ég sammála því að þróunarkenningin sé betri leiðsögn barna, heldur en biflían. En þú færðir ekki rök fyrir því með þessari grein.

Né sýndir þú fram á að "náttúrulegar skýringar" væru betur til þess fallnar að svara veigumestu spurningum manna.

Hvergi!

...en við sammála hvað þetta fyrstnefnda varðar...


Steindór J. Erlingsson - 21/11/07 02:42 #

Þú virðist ekki hafa skilið greinina ef þú heldur að ég hafi verið að vísa í þróunarkenninguna þegar ég svaraði athugasemd þinni á eftirfarandi hátt:

Varðandi spurninguna hvort náttúruvísindin búi "yfir öllum svörum tilveru manna" þá er svarið við því nei. Ég tel hins vegar að þau sé heillavænlegra veganesti útí lífið en tæplega 2000 ára stagbætt bók.

Hér á ég við natúralismann sem Hume, Holbach og aðrir 18. aldar heimspekingar settu fram án þess að vita nokkuð um þróunarkenninguna.

Því er heldur hvergi haldið fram í greininni að

"náttúrulegar skýringar" væru betur til þess fallnar að svara veigumestu SPURNINGUM manna.
Greinin fæst aðeins við eina spurningu, sem er þessi: Getur natúralisminn lagt fram jarðbundnar skýringar á upplifunum einstaklinga sem þeir túlka gjarnan sem yfirnáttúrulegar? Í greininni felst að svarið við þessari spurningu getur verið já. Hér hef ég fært þröng rök fyrir því að natúralisminn "sé betri leiðsögn barna, heldur en biflían" þegar kemur að því að útskýra óvenjulegar upplifanir einstaklingsins.

Ég reyni meira að segja að forðast alhæfingar þegar ég segi:

Það er því komin fram sterk VÍSBENDING um að yfirnáttúrulegar eða trúarlegar skýringar á „utanlíkama“ upplifun eigi ekki við rök að styðjast. Fyrri rannsóknir hafa einnig SÝNT FRAM Á jarðbundnar skýringar á annars konar „trúarlegum“ upplifunum.

Ég segi ekkert að allar hinar spurningarnar sem skipta fólk og sálarlíf þess máli. Ég tel mig nú hafa svarað síðustu færslunni þinni.


Árni Árnason - 21/11/07 14:38 #

Naut og rauð dula ? Eða eru naut kannski litblind ?

Hvað kveikti þessi villikattaviðbrögð ?

Steindór skrifar grein til birtingar almenningi, þar sem hann bendir á tengslin á milli trúarinnrætingar og trúarupplifunar. Selvfölgelighed ? Fyrir okkur, já. Fyrir almúgann er ég ekki svo viss. Ég hef einmitt bent sjálfur á þá skrítnu staðreynd að asíubúar eiga skáeygða guði, og indverjar guð með rana.

Gimbi lætur móðan mása og þykist vera að lyfta þessu upp á heimspekilegra plan, og úr verður einhver senna sem var svo alveg óþörf þar sem báðir eru sammála í aðalatriðum, en greinir kannski á um orðalag og þröngar eða víðar skilgreiningar.

Var einhver að tala um keisarans skegg ?


gimbi - 21/11/07 23:48 #

Árni skrifar: "Hvað kveikti þessi villikattarviðbrögð?" Nú ég, það getur hver séð sem kann að lesa. Og hver hvæsti og klóraði? Steindór!

Ekki nenni ég að elta ólar við innlegg Árna frekar. Hann hefur ekki skilið röksemdafærslu Steindórs, þó hann kunni að vera sammála annarri afleiddri niðurstöðu...

Mögulegar vísbendingar!

[ Hluti athugasemdar færður á spjallborð þar sem rætt er um ritstjórnarstefnu Vantrúar - Matti Á.]


Steindór J. Erlingsson - 22/11/07 00:41 #

Varðandi nafnbirtingu gimba þá hef ég þetta um málið að segja. Ég sætti mig ekki við að vegið sé að mér úr launsátri á þann hátt sem gimbi gerði. Ég hef aldrei skilið fólk sem þarf að tjá skoðanir sínar undir nafnleynd. Sjálfur hef ég á undanförnum árum verið óhræddur við að gagnrýna ráðandi öfl hér á landi í blaðagreinum, sbr. skrif mín um deCODE og fjölmiðlamálið árið 2004. Þegar ég skrifaði Genin okkar árið 2002 reyndu áhrifamikil öfl ítrekað að reyna að koma í veg fyrir útgáfu bókarinnar, auk þess sem mér bárust nafnlausar hótanir. Í ljósi alls þessa finnst mér það lítilmannlegt að þurfa að fela sig á bak við dulnefni í saklausri umræðu eins og fram fer hér á Vantrú.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 22/11/07 02:56 #

Eru Indverjar með rana?

Afsakið, ég stóðst ekki mátið.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 22/11/07 03:21 #

. :)


Guðmundur I. Markússon - 22/11/07 13:35 #

"Gimbi" segir:

Ekki hefur þú sett fyrir þig að svara hér mörgum, sem skrifa undir dulnefni.

Vafalaust hefur Steindór einhverntíma svarað nafnlausum -- erfitt að taka þátt í netumræðu án þess. Hins vegar hefur hann oft kvartað undan nafnleysi, t.d. á moggablogginu sem hann hélt úti um tíma. Ég tek undir með honum -- nafnleysi í opinberri umræðu er ósiður.

"gimbi":

Ertu að setja það fyrir þig núna? Er það vegna þess að ég andmæli þér?

Augljóst af ferli Steindórs í umræðu, hvort sem er á vefnum eða annarsstaðar, að hann setur ekki fyrir sig að fólk sé honum ósammála.

Tek einnig undir að gagnlegt sé að greina að átrúnað, athöfn og upplifun þótt vitanlega renni þau saman líka.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.