Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Gleðiganga bænarinnar

Gengið í gleði eða Guði

Aðra helgina í nóvember gafst sjaldgæft tækifæri til að rýna inn í undirheima öfgakristninnar á Íslandi er nokkrir forsprakkar hennar skipulögðu bænagöngu með tilheyrandi þakkargjörð og lúðrablæstri. Gangan var auglýst með látum í sjónvarpi og útvarpi og fékk í staðinn ágæta umfjöllun í Kastljósi. Gengið skyldi gegn “myrkrinu” eins og það var orðað og til útskýringar bent á að þeir sem hefðu kynnst fíkniefnum, ofbeldi, skuldum og sjálfsmorðum ættu að fjölmenna. Þó galdramálin á Ströndum séu löngu liðin tíð eru enn þeir Íslendingar sem halda að hægt sé að breyta raunveruleikanum með særingarþulum og fornum ritúölum, nokkurs konar Harry Potter nálgun við lífið. Saklaust í sjálfu sér og auðvitað má hver trúa því sem hann vill.

Gleðiganga Guðs?

Bænagangan er hugarafsprengi ungs manns sem fann trú sína fyrir ekki alls löngu. Af einlægum trúarákafa sótti hann kristnar athafnir hvar sem hann gat, tvær og þrjár á dag að eigin sögn og einkum meðal hinna minni safnaða. Að lokum stofnaði hann sinn eiginn söfnuði í Ármúlanum en ekki er greinarhöfundi ljóst á hvaða guðfræðilegum forsendum göngu-Hrólfur þessi taldi nauðsyn á að bæta í safnaðaflóru öfgakristninnar hér á landi. Forsprakki göngunnar hefur verið óþreyjufullur að kynna hana á viðeigandi vettvangi, meðal annars á sjónvarpsstöðinni Ómega. Þar þótti honum tilhlýðilegt að tala mjög svo niðrandi um hina árlegu gleðigöngu Hinsegin daga. Urðu þau ummæli til þess að bænagangan var af gárungum nefnd Pray Pride og sögð vera skipulögð hálf-nöfnu sinni til höfuðs.

Herkvaðning hatursins

Fáni á bænagöngu
Smellið á mynd til að sjá stærri
Fánaborg mikil fór fyrir göngumönnum þegar lagt var af stað frá Hallgrímskirkju. Minna bar á trúartáknum. Yfirmenn lögreglumála voru áberandi í göngunni og sjá mátti glitta í nokkra vandræðalega þjóðkirkjupresta.

Við Austurvöll stillti mannfjöldinn sér upp í hálfhring fyrir framan lítinn pall en til hvorrar hliðar stóðu fánaberar, vígreifir í herbuxum og brúnum skyrtum. Biskupinn fyrrverandi, herra Sigurbjörn Einarsson, stóð einmana og ámátlegur á pallinum með stormsveitirnar til hvorrar handar og vissi sjálfsagt ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Gönguforsprakkinn hélt hvatningarræðu, steytti hnefa til himins en fundarmenn sumir tóku undir með uppréttri hægri hendi. Herra Sigurbjörn gerði krossmark og sneri sér undan.

Hleypum okkur í börnin

Sérstök ályktun hafði verið samin á vegum þeirra safnaða er að göngunni stóðu þar sem krafist var aukinnar Kristinfræðikennslu í skólum.
Auðvitað er ekki hægt að túlka þessa yfirlýsingu öðruvísi en sem viðurkenningu á trúboðshlutverki Kristinfræðikennslunnar. Er það sérstaklega merkilegt í ljósi þess að Þjóðkirkjan er einn þeirra söfnuða sem skrifaður er fyrir þessari yfirlýsingu og Þjóðkirkjuprestur sem las hana upp.

Vonbrigði og peningavæll

Í framhaldi af bænagöngunni var haldin hátíð í Laugardalshöllinni og var öllum frjáls aðgangur. Undirritaður leit inn um hálfátta leytið þegar hátíðin stóð sem hæst og sló tölu á viðstadda og reyndust þeir um fimmtán hundruð. Var það nokkuð meira en tók þátt í göngunni en þar voru að hámarki þúsund manns. Hlýtur þessi þátttaka að vera mikil vonbrigði fyrir þá sem að skipulagningu stóðu, sérstaklega í ljósi þess sem til var kostað í auglýsingum og undirbúningi.

Forsprakkinn steig á svið tjáði gestum að kostnaður væri núna kominn í fjórar milljónir og tímabært að viðstaddir tækju upp veskin. Nú skyldi fórnað, sagði hann, ekki bara einhverjum þúsundköllum eins og í venjulegum samskotum, nei nú skyldi veskið finna fyrir því. Safnarar með svartar plastfötur stóðu tilbúnir meðfram veggjum og kölluðu hallelúja og amen.

Ekki minntist maðurinn á Guð og ekki veit ég hvort milljónirnar hafa skilað sér í föturnar og upp úr þeim aftur. Sjálfur flýtti ég mér út og miðað við það fjör sem hafði skyndilega færst í bílastæðin við Höllina var ljóst að þangað höfðu fleiri komist að en vildu.


Greinin birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 18. nóvember

Brynjólfur Þorvarðarson 19.11.2007
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Aiwaz (meðlimur í Vantrú) - 19/11/07 09:20 #

Mér brá að sjá þessar myndir. Ég hélt í alvörunni að nú væru komnar fram íslenskar nasistabullur! Brúnstakkar í hermannabuxum með fána, what??


Ingvar - 19/11/07 10:48 #

Nasistar eru ekki trúaðir :) Nasistar trúa á hvíta kynið en ekki guð, ég hef einn nasista á msn og hann hefur í personal message

You are walking alone with Jesus in a world of non-belivers.


Haukur Ísleifsson - 19/11/07 11:13 #

Við skulum ekki vera að alhæfa. Margir nasistar nota trúarbrögð sem réttlætingu fyrir hugmyndum sínum. Oft kom kristni inní þetta. Þessi ganga var hinsvegar rugl. Ég skil vel þá nasista viðlíkingu.


Árni Árnason - 19/11/07 11:28 #

Maður fær bara aulahroll. "Aumkunarvert" er það eina sem mér kemur í hug. Svona eins og skemmtiatriði frá Sólheimum.


Þorvaldur Jo - 19/11/07 11:46 #

Ég var sjálfur í þessari göngu og ég get staðhæft það að það voru um 3000 manns sem voru þarna í göngunni. Þetta eru tölur sem lögreglan áætlaði. Auðvitað eru skekkjarmörk í þessu. En að það hafi verið 1000 manns er fjarri sanni.


Haukur Ísleifsson - 19/11/07 11:49 #

Hugsa að þetta hafi verið svona 2000-2500. Ekki það að það skipti máli. Sólheimar rúla.


Kristinn - 19/11/07 12:04 #

Árni: afskaplega er leiðnlegt að þú finnir hjá þér þörf að gera lítið úr þroskaheftu fólki með því að líkja því við öfgakristið fólk. Ýmislegt ljótt hef ég heyrt um þroskahefta en þetta er það allra versta.

Sólheimar rúla sko alveg feitt. Þar er mikið af snillingum og unnið gott og óeigingjarnt starf. Kynntu þér málið.

En svona á alvarlegri nótum þá eru svona athugasemdir ekki til neins nema að gjaldfella umfjöllun trúleysingja um öfgartrúarfólk. Það getur bent á svona athugasemdir og borið rök fyrir því að ekki beri að taka mark á okkar málflutningi. Pössum okku á því hvað við segjum. Eigum við ekki að heita að vera upplýst?


Árni Árnason - 19/11/07 15:43 #

Í fyrsta lagi átti þetta aldrei að vera "málflutningur" Í annan stað hef ég ekkert á móti Sólheimum eða fólkinu sem þar starfar eða býr. Í þriðja lagi kemur aulahrollurinn af því þegar fólk sem á að heita sjálfs sín ráðandi kemur fyrir eins og þroskaheft. Í fjórða lagi skora ég á ykkur að skoða myndirnar með greininni hér að ofan og segið mér svo að þið fáið ekki aulahroll.


Davíð - 19/11/07 15:54 #

...á lögmál Godwins við athugasemdirnar hérna?

http://en.wikipedia.org/wiki/Godwin's_law


Svenni - 19/11/07 17:02 #

Lögmál Godwins fer alveg óheyrilega í taugarnar á mér. Í fyrsta lagi er þetta ekki lögmál og í öðru lagi er ekkert smellið eða gáfulegt við að vitna í þetta í hvert skipti sem einhverjum er líkt við nasista á einhvern hátt. Það er frekar ófrumlegt meira að segja. Ég skal vera fyrstur til að viðurkenna að það er ansi lamað að líkja öllum og öllu við nasista en þegar fólk klæðir sig upp eins og brúnstakka, veifar fánum og rekur hægri höndina á loft til marks um botnlausa lotningu við leiðtoga lífs síns þá er varla hægt að furða sig á því að viss hugrenningatengsl myndist og að menn hafi á þeim orð.


Haukur Ísleifsson - 19/11/07 18:28 #

"the law is now applied to ....... message boards, chat rooms, and more recently blog comment threads" Nasistar eru bara einhvað sem allir vita hvað er og allflestir tengja við illt. Þar af leiðandi er þetta mjög gott hugtak til að koma með inní umræðuna til að meika point.


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 19/11/07 18:29 #

Mér er nú spurn? Hvað mættu margir í gönguna af hreinni forvitni?

Flottur pistill hjá þér og það er með ólíkindum hvað það er orðin mikil trúar-vantrúarvakning á blogginu. Mjög margir að skrifa um þessi mál og lang flestir á móti öfgatrú og fólk er orðið þreytt á þessu bulli.

Maðurinn sem stóð fyrir bænagöngunni er greinilega strax byrjaður á peningaplokkinu. Forkólfar Omega sem líta á hann sem mikinn frelsara, sögðu í þætti nokkrum dögum fyrir bænagönguna að hún væri nauðsyn af því að það væri svo mikið um kynvillu og trúvillu í þjóðfélaginu. Síðan betluðu þeir peninga í Jesú nafni í 40 mín. Sögðu m.a. að það fólk sem hefði nú fengið hjálp frá almættinu að losna úr viðjum fíknar, ætti nú að fara að gefa í guðsríkið (Omega) þar sem þeir hefðu nú úr peningum að moða síðan þeir losnuðu við fíknina. Meiri vitleysan.

Bið að heilsa ykkur hér á Vantrú, er að fara í 2ja vikna frí.


Daníel Páll Jónasson - 19/11/07 19:36 #

"Pfffffffffff..."

Einhvern veginn eru þetta einu viðbrögðin sem ég get stunið upp úr mér eftir að hafa skoðað þessar myndir...


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 19/11/07 19:42 #

Varðandi fjölda göngumanna, af myndum má í allra mesta lagi sjá um 300 hausa (t.d. á myndum á vefnum hjá Hvítasunnusöfnuðinum á Selfossi), oftast miklu minna. Miðað við svæðið sem fundarmenn þöktu á Austurvelli þá rúmuðust þeir allir vel innan 400 fermetra. Skv. þumalputtareglu þá er 2 á fermetra rúmur hópur, 4 á fermetra mjög þétt staðið. Og reiknið svo.

Hafi einhverjir lögreglumenn talið að 3000 manns hafi verið í göngunni gæti verið gaman að vita hvernig þeir fá það út. Miðað við lögregluverndina sem gangan fékk þá tel ég ekki að þeir séu allir hlutlausir í sínu mati. Geir Jón yfirlögregluþjónn var sjálfur þátttakandi í göngunni, veit einhver hvort hann gengur með á Hinsegin dögum?


vitringur (meðlimur í Vantrú) - 20/11/07 17:25 #

Varðandi fyrsta nasista kommentið þá er sorglegt að segja frá því að það eru að poppa upp nýnasistaklúbbar á íslandi eins og er. Ég snoðaði mig um daginn og nokkru síðar kom vinkona frá akureyri í heimsókn og spurði hvort þetta væri pólitískt steitment. Þá er víst kominn nýnasista hópur á Akureyri, sem ég taldi vera einsdæmi þar til að kunningi minn úr Breiðholti sagði mér fyrir stuttu að hann væri orðinn nýnasisti. ekkert point, sorry


Haukur Ísleifsson - 20/11/07 23:04 #

Þar sem margir ófullnægðir kallar koma saman, þar eru NASISTAR.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 20/11/07 23:13 #

Jæja, hér er nóg komið af nasistatali. Ræðum efni greinarinnar.


Davíð - 21/11/07 00:01 #

Ég komst ekki í gönguna en kíkti á tónleikanna undir lokinn. Það er mjög erfitt að áætla svona fjölda vinum minn sem var þar að vinna sagðist giska á að það hefðu verið um 2000 í göngunn en í mesta lagi 1000 á tónleikunum. Hann var aftarlega í röð göngunnar og sagði að þar hefðu verið alla vega helmingi fleiri en hefðu komið á tónleikanna. Jesú og bænagöngur eru nú ekki nýjar af nálinni en ef þessi hefur talið um 3000 manns eða yfir 2000 þá er hún sú fjölmennasta til þessa.


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 21/11/07 23:17 #

Sæll Davíð

Þegar maður ákvarðar fjölda þá er hægt að nota tvær aðferðir.

Á hljómleikunum stóð fólk frekar gisið þ.a. það var auðvelt að fá yfirsýn. Ég skipti svæðum niður í helminga eftir þéttleika, og svo aftur (og aftur ef þurfti) og taldi í einum parti. Síðan er margfaldað upp.

Á Austurvelli notaði ég þá aðferð að sjá hversu stórt svæði hópurinn tók undir sig. Síðan notaði ég Google til að mæla fermetrafjöldann.

Það gætu hafa verið fleiri í göngunni en stóðu niðri á Austurvelli, ég taldi ekki gönguna sem slíka.

Við upphaf göngunnar, fyrir framan Hallgrímskirkju, tekur hópurinn yfir um 200 fermetra.


Ásdís - 12/12/07 19:15 #

Æji það má enginn gera neitt sem er öðruvísi og þá er það þroskaheft, nasistar eða eitthvað þar af verra. Þið eruð fordómafull og þröngsýn að mínu mati og finnst mér ansi sorglegt að búa til heila síðu af neikvæðni í garð kristinna manna, haturssíða í rauninni. Ég las hálfa greinina en gat ekki hugsað mér að lesa meir því þetta er ekki bara vantrú, heldur algerlega breytt og bætt eftir ykkar höfði. Ef þið lesið nýja testamentið (þar sem jesú uppfyllti gamla sáttmálann), sér maður eintóman kærleik, hvernig er hægt að vera á móti honum? Ísland er byggt á kristinni trú, ég bara veit ekki hvernig þjóðin yrði ef því yrði hætt því við gætum öll endað eins og þið, uppfull af hatri til þeirra sem eru ekki á ykkar skoðun, allavega les ég bara hatur úr þessum vef... þið skammið fólk að troða trú sinni á aðra en eruð í raun að gera slíkt hið sama með því að troða vantrú upp á aðra. Getum við bara ekki verið sammála um að vera ósammála? Greinilega ekki allir sem hafa náð því þroskastigi.


ólafur - 12/12/07 19:19 #

Peningarnir skiluðu sér algerlega, en mig langaði nú bara að segja það að það voru í minnsta lagi 3000 manns í göngunni haha ekki þúsund!!


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 12/12/07 20:54 #

Sæl verið þið Ásdís og Ólafur

Merkilegt að enn skuli koma komment á þessa síðu, ég fann hana ekki einu sinni sjálfur á forsíu Vantrúar!

Ásdís, mér er alls ekki illa við kristið fólk og flest ef ekki allt kristið fólk sem ég hef hitt hefur verið einstaklega gott fólk. Mér er hins vegar ekkert sérlega vel við kristni. Ég sé ekki kærleika í nýja testamentinu, frekar en því gamla. En ekki meira um það hér.

Fundurinn á Austurvelli var óhugnanlegur fannst mér. Ekki af því að hann væri kristinn (sem hann var í rauninni ekki nema að hluta) heldur vegna fasískra tilvísana. Sem eru auðvitað ekki kristin. Því miður held ég að margt gott fólk hafi látið plata sig þarna.

Ólafur, þú segir að peningarnir hafi skilað sér algjörlega. Geturðu sagt mér eitthvað meira um það? T.d. hversu mikið kom inn og hvort allur tilkostnaður hafi verið greiddur? Það væri líka gaman að fá að vita hvernig svona söfnun fer fram. Hér áður fyrr var ég stundum viðstaddur uppgjör eftir sveitaböll, þar var vel fylgst með öllum og allir peningar tvítaldir í herbergi með fulltrúum frá öllum hagsmunaaðilum (húsinu, hljómsveitinni, kvenfélaginu). Hvernig gerist þetta á svona trúarsamkomu?

Að lokum, Ólafur, fjöldinn skiptir engu sérstöku máli. En ég held að það hafi verið fleiri við upphaf göngunnar en voru niðri á Austurvelli. Þegar kveikt var á Jólatrénu um daginn var mörgum sinnum fleiri, þar gæti hafa verið 3000. En á fundinum eftir bænagönguna voru kannski 500 - 1000.


Kalli (meðlimur í Vantrú) - 13/12/07 03:15 #

Varðandi fjöldann í þessari göngu er ég orðinn mjög efins um að þarna hafi verið 3000 manns. Hvaðan kemur að þarna hafi verið 2-3000 manns þarna og hvernig eru færðar sönnur á það?


Kalli (meðlimur í Vantrú) - 13/12/07 03:16 #

Leiðrétting: ég sá ekki gönguna. Ég er að tala um fundinn á Austurvelli. Ég var á staðnum þar en missti af göngunni.


Arnar - 13/12/07 10:00 #

Ásdís: þú talar um kærleik í nýja testamentinu, hefurðu spáð í því hvernig sá kærleikur kemur fram hjá kristnu fólki í dag?

Í fordómum gegn samkynhneigðum? Í fordómum gegn múslimum? Í fordómum gegn trúlausum?

Þeir kristnu einstaklingar sem tjá sig sem hæst og mest sýna ekki mikil dæmi um kristin kærleik, að mínu mati.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.