Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ríkiskirkjan staðfestir mismunun

Gærdagurinn var áhugaverður fyrir áhugafólk um trúmál á Íslandi.

Hæstiréttur staðfesti í úrskurði sínum að hin evangelíska Lútherska Þjóðkirkja er réttnefnd Ríkiskirkja. Við í Vantrú höfum notað þetta heiti í mörg ár og það er því ágætt að fá staðfestingu frá Hæstarétti um að þessi nafngift er rétt. Í dómi hæstaréttar í máli Ásatrúarfélagsins gegn ríkinu segir m.a. að prestar þjóðkirkjunnar séu opinberir starfsmenn með réttindi og skyldur sem slíkir gagnvart öllum almenningi.

Við mælum með því að fólk temji sér að nota þetta heiti þar til ástandið hefur breyst til batnaðar hér á landi og ríki og kirkja verða sannarlega aðskilin.

Ríkiskirkjan fjallaði í gær um hjónabönd samkynhneigðra á kirkjuþingi. Niðurstaðan var sú að íhaldssamur armur biskups vann fullnaðarsigur. Kirkjan neitar að tala um giftinu samkynhneigðra sem hjónaband og áskilur prestum rétt til að mismuna samkynhneigðum ef þeir kjósa þrátt fyrir að hæstiréttur tali um skyldur þeirra gagnvart öllum almenningi.

Karl biskup hefur lagt mikla áherslu á að þetta mál byggist á því að ná sátt innan kirkjunnar og sagði orðrétt í umræðum; "sátt byggist á því að aðilar sem takast á mætist á miðri leið". Þessi orð biskups eru afskaplega áhugaverð því þarna upplýsir hann alþjóð óvart um skoðun sína. Sáttin er nefnilega mitt á milli þess að viðurkenna hjónabönd samkynhneigðra og þess að útiloka þá alveg. Sáttin er á miðri leið. Það er alveg ljóst að meðal þeirra sem standa hinum megin á vellinum og toga sáttina frá fullum mannréttindum er biskup Íslands og svartstakkar hans. Verum ekki með neitt hálfkák, biskupinn lítur niður á homma og lesbíur. Sáttin var ekki meiri en svo að gera þurfti hlé á umræðum til að hægt væri að plotta bak við tjöldin og talsmaður þeirra sem vildi hætta að mismuna samkynhneigðum brast í grát, eflaust eftir að hún uppgötvaði að sáttin var ekki fyrir hana heldur fordómapúkana. Sumir frjálslyndir prestar benda á að það sé aldrei hægt að tala um sátt um óréttlæti.

Það var áhugavert að fylgjast með því hvernig spunnið var úr þessum fréttum í fjölmiðlum í gær. Sumir fjölmiðlar, sérstaklega Ríkissjónvarpið og Morgunblaðið virtust reyna að matreiða fréttir af þessu á sem jákvæðastan hátt fyrir Ríkiskirkjuna. Sumir fulltrúar kirkjunnar reyna jafnvel að halda því fram að með þessu hafi kirkjan náð forskoti í þessum málum.

Staðreyndin er að í gær gerðist ekkert fyrir utan að Ríkiskirkjan staðfesti að hún ætlar sér ekki að líta á hjónaband samkynhneigðra með sömu augum og hjónaband gagnkynhneigðra. Þessi ríkisstofnun ætlar að halda áfram að mismuna þegnum landsins út frá kynhneigð. Einhverjir fulltrúar kirkjunnar reyna að halda því fram að nú sé boltinn hjá ríkinu. Staðreyndin er sú að ef ekki væri fyrir mótmæli Ríkiskirkjunnar hefði breytingartillaga Guðrúnar Ögmundsdóttur við frumvarp um staðfesta samvist komist í gegn og trúfélög hefðu fengið réttindi til að gefa saman samkynhneigð pör. Biskup Íslands var meðal þeirra sem mættu fyrir alþingisnefnd og mótmæltu því harðlega að trúfélög fengju þessi réttindi.

Ungir sjálfstæðismenn í Heimdalli sendu frá sér ályktun í vikunni þar sem þeir hvetja stjórnvöld til að "aðskilja ríki og kirkju að fullu þannig að kirkjan starfi jafnréttisgrundvelli líkt og önnur trúfélög". Við fögnum þessari ályktun og tökum undir með Heimdalli.

Að lokum vil ég hvetja þá sem eru ósammála Ríkiskirkjunni í þessu máli að segja sig úr henni ef þeir hafa ekki þegar látið verða af því. Með því að vera skráður meðlimur í þessa kirkju eruð þið í raun að lýsa yfir velþóknun ykkar með þessa ákvörðun og annað sem hún stendur fyrir. Sækið eyðublað á heimasíðu Þjóðskrár, fyllið það og út sendið með faxi (s. 569 2949) eða skutlist með það í Borgartún 24. Með lítilli fyrirhöfn getið þið sent sterk skilaboð.

Matthías Ásgeirsson 26.10.2007
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


mofi - 26/10/07 14:51 #

Ríkið á sannarlega að leyfa þeim sem vilja gifta tvö karla að gera það. Við lifum í þjóðfélagi sem hefur valið trúfrelsi og þetta er liður í því. Sömuleiðis hefur Þjóðkirkjan/Ríkiskirkjan engann grundvöll til að mismuna fólki. Í rauninni gæti hún ekki neitað múslimum að hafa "messur" og giftingar í kirkjum landsins því að hún er kirkja allra landsmanna, ekki aðeins þeirra kristnu, eða hvað?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 26/10/07 15:39 #

Það er einmitt kjarni málsins. Meðan prestar Ríkiskirkjunnar eru opinberir starfsmenn mega þeir ekki mismuna fólki vegna trúarskoðana, kynþátta eða kynhneigðar.


Eva Hauksdóttir - 26/10/07 15:52 #

Ég skil reyndar ekki að nokkur kæri sig um að hafa eitthvað saman að sælda við stofnun sem lítur á hann sem annarsflokks manneskju. Hommar og lesbíur, sem og aðrir mannréttindasinnar ættu bara að hundsa þetta bákn gjörsamlega.

Kirkjan ætti þó auðvitað að hafa fullt leyfi til að ástunda alla þá mismunun og afturhaldssemi sem henni þóknast, allavega á meðan við höldum ekki úti viðurkenndri skoðanalögreglu. Það væri reyndar harla gott ef kirkjunnar menn væru nógu heiðarlegir til þess að fylgja orðum biblíunnar, því það yrði skjótasta leiðin til að ganga að henni dauðri.

Það gengur samt ekki upp að ríkisrekin stofnun komist upp með að mismuna fólki, það er ekkert annað en mannréttindabrot. Lausin er einföld, slítum tengsl ríkis og kirkju og leyfum kirkjunni að hafa sína forpokun í friði, utan alþingis, skólakerfisins, heilbrigðiskerfisins og fjölmiðla.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 27/10/07 14:29 #

"Hæstaréttarlögmaður telur andstætt jafnræðisreglu að prestar geti valið hverja þeir gefa saman." 24 stundir, bls. 2, 27. október 2007.

"Menn verða að láta eitt yfir alla ganga þegar kemur að opinberu hlutverki prestsins."

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður


Siggi Óla - 27/10/07 15:12 #

Auðvitað á að slíta algjörlega á milli Ríkiskirkju og ríkis. Þetta með fordóma Ríkiskirkjunar og mismunun er náttúrulega bæði ný og gömul saga og miðað við fréttir og umræður undanfarinna daga er lítil von um breytingu í bráð. Ég er sammála Evu um að ég skil ekki með nokkru móti hvernig samkynhneigðir vilja hafa eitthvað saman við þessa stofnun að sælda, miðað við framkomu hennar. Reyndar, ef út í það er farið, skil ég ekki hvernig nokkur maður yfir höfuðu vill púkka upp á þetta apparat sem Ríkiskirjkan er.

Sennilega er það


Árni Árnason - 30/10/07 13:07 #

Þó að Ríkiskirkjan hafi um langa hríð verið á spenanum, rekin af skattfé almennings, og hún þarmeð háð ríkisvaldinu fjárhagslega, hefur svo átt að heita að hún hafi haft kenningarlegt sjálfstæði. Ráðherrar eða Alþingi hafa ekki verið að vasast í kenningunni eða túlkun hennar.

Nú er svo komið að almenningur, ekki síst hommar og lesbíur er farinn að heimta tengingu milli fjárhags og kenningar. Menn segja: Úr því við öll eigum að borga, eigum við líka öll að njóta þjónustunnar. Með þessu er í raun verið að þvinga kirkjuna til þess að aðlaga kenningar sínar pólitískum réttrúnaði um að ekki meigi mismuna fólki á grundvelli kynferðis. Það er með öðrum orðum vísað til mannréttinda og fyrir þeim skal kenningin víkja.

Það sjá auðvitað allir sem vilja sjá að þetta eru ósættanlegar andstæður. Það er alveg sama hvað menn reyna að "þýða" sig frá vandanum, þúsunda ára bábiljur verða ekki aðlagaðar nútíma hugmyndum um umburðarlyndi frelsi og jafnrétti, nema að einhver éti ofan í sig það sem skrifað stendur. Kirkjan á í því stríði við sjálfa sig að geta hvorki haldið né sleppt, og gerir því hvorugt, halda ekki kenningunni og sleppa ekki peningastreyminu í kassann. Með þessu sýnir hún sitt rétta andlit, lotningu ber hún eingöngu fyrir peningum. Ég tel að við séum í hreinum ógöngum, að fara þessa leið, að allir borgi og allir eigi hönk upp í bakið á kirkjunni. Með þessu verður kirkjan útþynnt og ónýt og allar hennar blessanir og vígslur hvort sem er innantómur og ómerkilegur söluvarningur. ( jafnvel fyrir trúaða ) Nei, látum hana bara róa, hún getur þá bara lurkast um í sínum miðöldum á eigin kostnað.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 30/10/07 13:14 #

Að sjálfsögðu er lausnin sú að Ríkiskirkjan verði lögð niður og trúfélög sjái sjálf um að innheimta félagsgjöld.

Það þarf bara að passa að Ríkiskirkjan fái ekki að taka með sér þýfið (jarðeignir) eða renturnar (samning ríkis við kirkju um launagreiðslur til presta í skiptum fyrir jarðeignir). Í þetta skipti ætti kirkjan að byrja frá grunni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.