Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Draugar, skrök eða geðröskun?

Við Magnús vorum sem fyrr í þætti þeirra Kollu Heimis á Bylgjunni í morgun. Símtöl við hlustendur voru á dagskrá sem og tvær magnaðar draugasögur, önnur frá mér, hin frá Magnúsi.

Einhverjum gæti fundist það helst til djarft og jafnvel óviðeigandi að ég hafi stungið upp á því við móður barns sem sér drauga að þarna gæti verið um ofskynjanir að ræða og barnið hennar hugsanlega með geðröskun af einhverri sort. Mér þykir það langt í frá óviðeigandi, sér í lagi þar sem móðirin sagðist hafa haft samband við Sálarrannsóknarfélagið í kjölfar þessara atburða.

Sjá menn ekki að það er litla hjálp að fá þaðan, ef um raunverulegar ofskynjanir er að ræða? Magnús og kó munu aldrei taka almennilega á slíkum málum, heldur espa veikindin enn frekar upp í barninu. Mitt fyrsta verk, ætti ég þetta barn, væri að fara með það til læknis. Það er ekkert grín að leyfa geðsjúkdómum að grassera í fólki og gefa sér jafn miðaldalegar skýringar og að um yfirnáttúrlegar verur sé að ræða, áður en reynt er að komast að því hvort náttúrlegar orsakir séu ástæðan. Það á ekki að líðast í upplýstu nútímasamfélagi að ekki sé tekið á vanlíðan sjúks fólks vegna ofurtrúar á hindurvitni.

Það sem ég þorði ekki að tæpa á þarna upp í opið geð móðurinnar er það sem ég tel mun líklegri skýringu en að um geðsjúkdóm sé að ræða, nefnilega að krakkinn sé einfaldlega að ljúga þessu. Kannski fær drengurinn einfaldlega ekki næga athygli, en eftir að hafa lýst skynjunum í svefnrofalömun uppskorið áhuga og umhyggju fjölskyldu sinnar. Þarna gæti pilturinn einfaldlega talið sig hafa fundið leið til að hljóta jákvæða athygli og finnast hann merkilegur á einhvern hátt í augum annarra.

Þannig var það í það minnsta með þær Kate og Margaret Fox, sem ég sagði söguna af í upphafi umræðunnar. Þessar stelpur uppskáru feiknalega athygli, urðu þrælmerkilegar og mikilvægar í augum samfélagsins. Þær urðu einfaldlega víðfrægar og gátu svo varið starfsævi sinni í að þykjast geta náð sambandi við framliðið fólk.

Trúgirni okkar fóðrar bæði svikahrappa og tefur fyrir úrlausn mála hjá fólki með ofskynjanir. Við ættum að taka á svona málum af fullkominni skeptík, leita eðlilegra skýringa og nýta okkur þá faglegu aðstoð sem hægt er að fá. Og þá er ég ekki að tala um Magnús Skarphéðinsson og félaga.

Ég er hræddur um að tillaga mín um skrök og athyglisþörf hefði hlotið mun neikvæðari viðbrögð heldur en getgátur um veikindi. Þess vegna veðjaði ég á þau, þótt hugsanlega kæmi það eins og blaut tuska í andlit móður í samfélagi þar sem geðraskanir eru enn dálítið tabú.

Hér er upptakan af þessu:

Einnig er hægt að sækja skrána hér [.mp3 12 MB]

Birgir Baldursson 23.10.2007
Flokkað undir: ( Útvarp )

Viðbrögð


Árni Árnason - 23/10/07 10:02 #

Já það er slæmt hversu geðræn vandamál eru enn litin hornauga. Það ligguir við að það sé eins og að væna fólk um glæp að brydda upp á því að e.t.v. séu geðraskanir í spilinu. Hitt er löngu þekkt að krakkar sem fá að sofa uppí hjá pabba og mömmu eftir einhvers konar hræðsluupplifun, læra að nota slíkt áfram.

Best í þessum þætti var þó konan sem vildi meina að Birgir væri í afneitun. Hef ekki vitað það betra. Sá sem leitar nærtækustu, eðlilegustu, og logískustu skýringanna en hafnar afar langsóttum, órökréttum, og algerlega ósönnuðum kenningum - er í afneitun. Þetta er með því djúpviturra sem ég hef heyrt :-)


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 23/10/07 11:40 #

Það er vel þekkt að á ákveðnu árabili fá börn martraðir og eigi jafnvel erfitt með svefn. Börn sem eiga svo við áfallastreitu vegna slæmrar reynslu eða eru með undirliggjandi geðsjúkdóm geta búið til fantasíur eða upplifi slíkt stjórnlaust. Slík börn þurfa á hjálp sálfræðings eða geðlæknis að halda en ekki að skottulæknar krukki í heilum þeirra. Í raun er starfsemi miðla alvarleg aðför að börnum og þeirra heilsu.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 23/10/07 12:03 #

Ég verð að játa að mér finnst ekkert af því að börn hafi virkt ímyndarafl eða séu "fantasy prone". Það verður bara að ýta þeim í réttar áttir. Held að það sé mjög gagnlegt í margri listsköpun. Bara að passa að barnið festist ekki í vef ímyndunaraflsins.


frelsarinn@gmail.com (meðlimur í Vantrú) - 23/10/07 12:18 #

Það er alveg rétt Óli. Ég orðaði það sem ég skrifaði ekki alveg nógu greinilega, því ég átti við þegar ástandið verður stjórnlaust og illviðráðanlegt. En í slíku ástandi grípa sumir í miðla eða skottlækninga í stað þess að leita hjálpar á réttum stöðum. Auðvitað er ekkert að því að börn hafi ímyndunarafl enda án þess væri mannsheilinn harla ónýtt verkfæri.


Sigurður Karl Lúðvíksson - 23/10/07 16:28 #

Mér finnst Birgir standa sig bara með stakri prýði í þessum þáttum, en persónulega hefði ég, enda öfgamaður mikill :) , ávítt konuna harkalega fyrir að fara með barn sem talar við ímyndaða vini, og nota bene, er logandi hrætt líður kvalir fyrir, til sálarannsóknarfélagsins. Að mínu mati er þetta vítavert gáleysi á þeim skildum foreldra að huga að almennri heilsu barna sinna. Þetta er ekkert öðruvísi en að fara með barn sem hefur fengið heilahimnubólgu til pípara í von um lækningu. Slíkir foreldrar hafa lagt líf og heilsu barnsins í hættu af algjörum óþarfa og á að vera farið með það mál eins og önnur af sama toga.


Kristján Hrannar Pálsson - 23/10/07 17:07 #

Þetta eru mjög áhugaverðir þættir. Mér fannst einkar athyglisvert hvernig miðlastéttir og frásagnir af framliðnum eiga að hafa margfaldast og magnast upp eftir þessar frásagnir af Kate og Margaret Fox. Það vekur upp pælingar af því hvernig fólk sem þóttist sjá hina og þessa hluti fyrr á tíðum var meðhöndlað...ef til vill stungið bak við lás og slá sem geðvillinga, eða brennt á báli í galdrafárinu fyrir að eiga samfylgi við einhverja djöfullega anda. Í dag þykist það sjá óskilgreindar verur að handan og fær klapp á bakið fyrir að vera "næmari" en við hin.

Það er líka gagnrýnivert hvað allar þessar s.k. "rannsóknir" hjá Magnúsi í Sálarrannsóknarfélaginu hafa skilað sér. Er engin rannsókn sem bendir til þess að t.d. draugagangur eigi sér aðrar útskýringar? Benda allar frásagnir viðmælenda þeirra til þess að yfirnáttúrulegir hlutir beinlínis hljóti að vera til? Hvers vegna er þarna ekki unnið á vísindalegum forsendum og síðan vælt yfir því að fá enga opinbera styrki?


Árni Árnason - 23/10/07 17:33 #

Hvað er það sem fær nútíma fólk, sem á börn sem sjá sýnir og skynja eitthvað sem þau eru hrædd við, til þess að fara með þau til fólks sem gengst upp í að spana upp hjá þeim draugahræðsluna og mubo-jumbo dularmögnin. Er það ekki ábyrgðarhluti að ýta þeim lengra inn í ímyndunina. Afhverju eru þessi börn ekki bara óluð niður á altari, hellt yfir þau hanablóði og farið með særingarþulur ? Það þarft auðvitað að reka úr þeim illa anda. Er þetta fólk fast í fáfræði og bábiljum miðalda? Maður bara spyr.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 23/10/07 20:24 #

Ég er í huganum búinn að smíða tilgátu um unga parið í draugasögu Magnúsar. Stelpan hefur einfaldlega verið hundóánægð með íbúðina en pilturinn ekki tekið í mál að flytja. Stúlkan hefur því brugðið á það ráð að kalla fram þennan draugagang, bæði með því að segja sögur af upplognum upplifunum sínum og svo byrjað að sanna fyrir spúsa sínum tilvist drauganna, með því að snúa við myndarömmunum og kveikja á eldavélahellunum án þess að hann sæi til.

Piltinum skeptíska hefur þarna orðið nóg boðið og farið að halda að eitthvað raunverulegt væri þarna í gangi. Og stúlkan fékk það sem hún vildi - að flytja í nýja og betri íbúð. :)


Margrét St. Hafsteinsdóttir - 23/10/07 21:29 #

Ég verð aðeins að fá að leggja orð í belg.

Varðandi litla drenginn sem móðirin hringdi út af og sagði frá skynjunum hans. Þá myndi ég ekki ráðleggja henni að draga athygli að þessum skynjunum hans. Þegar dregin er athygli að svona upplifunum magnast þær oft. Besta lausnin er ef fólk skynjar eitthvað sem því finnst óþægilegt eða er hrætt við að veita því enga athygli. Reyna að snúa huganum annað. Þá oftast losnar fólk við svona óþægindi.

Mér finnst það ekki lausn að fara með börn til lyfjaglaðra geðlækna ef þau skynja eitthvað sem öðrum er hulið. Þegar í flestum tilfellum er hægt að vinna á þessu á annan hátt, þannig að þetta hætti að trufla fólk. Óþarfi að dæma allt fólk með geðræn vandamál sem skynjar eitthvað annað en aðrir.

Annars þekki ég velmetinn geðlækni hér á landi sem gerir greinamun á fólki sem er skyggnt eða er með ofskynjanir og þar af leiðandi geðræn vandamál. Hann er að vísu talsvert lyfjaglaður eins og margir geðlæknar eru. Kannski vegna þess að svo lítið er vitað í raun um geðsviðið og huga mannsins í raun.

Það er ekkert hægt að komast fram hjá því að margir skynja það sem öðrum er hulið. Ég þekki þetta á eigin skinni eins og ég hef sagt hér á vantrú áður. Ég get líka alveg viðurkennt það að þau málefni sem falla undir "dulræna geirann" eru oft meira en lítið skrítin og hreinasta bull ef upp er staðið. Ástæðan er kannski að svo lítið er vitað í raun um þessi málefni og þau hafa verið illa rannsökuð á seinni tímum.

Þegar ég fór persónulega sjálf að kynna mér "andleg málefni" og reyna að leita að einhverjum skýringum á meintum sýnum og upplifunum fólks, þá var það vægast sagt talsvert torf að fara í gegnum. Á leiðinni hitti maður talsvert af fólki sem var mjög upptekið af ímyndunaraflinu og löngun sinni að verða "andlegir meistarar" og það var með ólíkindum bullið sem víða var haldið fram. Mesta bullið og kuklið með fólk var þó í sértrúarsöfnuðum sem voru mjög uppteknir af illum anda samborgaranna og það var með ólíkindum hvað þetta náði miklum tökum á fólki.

Í dag hef ég snúið baki við andlegum málefnum og er búin að fá það út úr þeim sem ég vildi. Ég er mjög hlynnt gagnrýnni hugsun varðandi þau málefni en ég er ekki hlynnt því að við höfum of stór orð um einhverja sem skynja annað en aðrir og þá sérstaklega börn, eins og mér fannst bæði Magnús og Birgir gera við móður litla stráksins. Annar með geðsjúkdómana á lofti en hinn með ekki góðar leiðbeiningar. Börn ráða illa við svona skynjanir og verða oft hrædd eins og gefur að skilja, því verður að reyna hjálpa þeim af fólki sem getur kannski bara beint huga þeirra og athygli í annan farveg.


jogus (meðlimur í Vantrú) - 23/10/07 23:43 #

Hvað var Maggi að pípa um daginn að það væri ekki hægt að mæla draugagang með "hefðbundnum" aðferðum? Af hverju var ekki hægt að kvikmynda þennan blessaða "draug" sem var að angra parið? Það hefði amk verið hægt að ná öllu bröltinu á mynd - sjá myndir snúast, kvikna á eldavél og það allt. Piff. Þá finnst mér nú skýringin þín Biggi hljóma eðlilegri, þarna var ósköp einfaldlega ýkt saga af pirraðri og/eða athyglissjúkri stelpugæs.

Af hverju ætli fólki þyki það ósennilegt að hún hafi verið að elda, gleymt að slökkva á einni hellu, komið heim, kennt "drauginum" um og sagan hafi magnast upp í að kveikt hafi verið á öllum hellunum? Af hverju finnst fólki það ósennilegra en að draugur ríði húsum? Við vitum þó að sögur eiga það einmitt til að magnast upp með tímanum.


Árni Árnason - 24/10/07 11:48 #

Margrét hefur auðvitað hárrétt fyrir sér í því að þó að Sálarrannsóknarfélagið sé afleitur kostur, er ekki víst að lyfjaglaður geðlæknir sé þar með sagt besti kosturinn.

Ég hef sjálfur þá reynslu , bæði sem faðir og afi að krakkar verða hræddir við eitthvað sem þau sjá/ skynja/ ímynda sér eða dreymir og oftar en ekki er besta lausnin að gera sem allra minnst veður út af þessu. Gefa þeim eplabita og mjólkurglas, tala um eitthvað skemmtilegt og leyfa þeim að hafa ljós frammi á gangi. Ég hef upplifað þetta með a.m.k. tvö börn og hjá báðum varði þetta skamman tíma og ekkert frekar varð úr. Ég er líka jafnviss um að hægt hefði verið að gera úr þessu stórvandamál með því að kalla til draugabana Sálarrannsóknarfélagsins Who r´you gonna call? - Ghost busters eða lyfjaglaðan geðlækni. Ég er svo sem ekki að gera lítið úr því að svona lagað geti orðið vandamál, en held að oftar sé þetta eitthvað sem leysist af sjálfu sér án drastískra aðgerða.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 24/10/07 16:16 #

Ef þetta eru raunverulegar ofskynjanir þá er það ekkert grín.


ArnarG - 24/10/07 23:30 #

Birgir stendur sig vel, ég er mjög sáttur við hann. En atburðirnir úr sögunni þinni Birgir! Hvar er hægt að sjá eitthvað um þá?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/10/07 00:27 #

Það er linkur í greininni hér að ofan.


Kári Rafn Karlsson - 25/10/07 03:01 #

Vil benda fólki á þátt sem var sýndur á BBC árið 2003 sem ber heitið God on the Brain, en hann fjallar um hvernig hægt er, hjá sumu fólki, að framkalla ofskynjanir sem lætur fólk finna fyrir "nærveru" einhvers, eins og draugs, guðs eða einhvers annars, fer eftir hvernig fólk kýs að túlka "nærveruna". Ofskynjanirnar eru kallaðar fram með einhverri ákveðinni tíðni á rafsegulbylgjum sem skotið er á gagnaugablöðin. Í þættinum heimsækir vísindamaðurinn sem uppgötvaði þetta stelpu sem hefur fengið "draug" í heimsókn á hverju kvöldi. Vísindamaðurinn athugar heimilið og leitar af rafsegulbylgjum og finnur þær einmitt á sama tíðnisviði og hann notar til að kalla fram ofskynjanirnar. Upptökin voru rafmagnsvekjaraklukka við rúm stelpunnar. Eftir að vekjaraklukkan var fjarlægð kom "draugurinn" aldrei aftur. Þetta finnst mér lang besta útskýringin á lang flestum draugasögum.

Ég náði í þáttinn á torrentspy.com, leitið af "Horizon God on the brain"


ArnarG - 25/10/07 08:31 #

Já úff, tók ekki eftir því þar sem tölvan mín er hálf litlaus. Biðst auðmjúkur afsökunar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.