Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúfélagsskráning 500 manns leiðrétt

Undanfarin tvö ár hefur félagið Vantrú aðstoðað fjölda manns við að leiðrétta trúfélagaskráningu sína. Í sérstöku átaki hafa sjálfboðaliðar farið út á meðal fólks og boðið því aðstoð.

kari_akureyri.jpg
Kári Svan býður fram aðstoð á
Akureyri í byrjun september.

Átakið stendur nú á tímamótum þar sem tala þeirra sem alls þegið aðstoð Vantrúar er komin í 500. Á morgun klukkan 14:00 mun Vantrú skila inn fimm síðustu eyðublöðunum.

Næstum því allir af þessum 500 hafa skráð sig úr Þjóðkirkjunni og langflestir skráð sig utan trúfélaga. Þó hafa nokkrir þeirra skráð sig í önnur trúfélög, flestir í Ásatrúarfélagið og Fríkirkjuna í Reykjavík.

Óhjákvæmilega fylgir úrskráningu þessara einstaklinga nokkur tekjuskerðing hjá Þjóðkirkjunni, en alls má áætla að hún verði af tæpum 6 milljónum króna á ári. Á móti kemur að Háskóli Íslands hagnast um sem nemur 4 milljónum, og rennur það fé til margvíslegra verkefna sem Háskólasjóður styrkir. Nægir þar að nefna Háskólakórinn, Stúdentaleikhúsið og margvíslegt rannsóknarstarf. Ríkissjóður sparar sér jafnframt rúmar tvær milljónir, allt á ársgrundvelli.

Að sögn Matthíasar Ásgeirssonar, formanns Vantrúar, vakir það fyrir félaginu að trúfélagaskráning manna endurspegli lífsskoðanir þess sem best. Það sé til að mynda ekki eðlilegt að rúmlega fjórir af hverjum fimm íslendingum séu skráðir í Þjóðkirkjuna þegar innan við helmingur landsmanna aðhyllist kennisetningar hennar. "Þetta háa hlutfall ranglega skráðra einstaklinga er síðan notað sem réttlæting fyrir gífurlegum aukafjárveitingum til kirkjunnar og fyrir trúboði í grunnskólum, leikskólum og víðar," segir Matthías.

Kári Svan Rafnsson, sjálfboðaliði í átaki Vantrúar, tekur í sama streng. Hann bendir á að Háskóli Íslands hafi meira að gera við sóknargjöldin, en þar sé þeim varið til margvíslegra verðugra verkefna. "Þó væri eðlilegast," segir Kári, "að það kæmi fram á skattframtalinu hvert maður vildi að sóknargjöld sín rynnu og að fólk utan trúfélaga væri undanþegið þeim. Ég sé ekki hvers vegna trúfélög ættu ekki að geta innheimt sín félagsgjöld sjálf, eins og önnur félög." Þangað til þessi mál komast í betri farveg segjast Matthías og Kári munu leggja sitt af mörkum til að þessum fjármunum sé betur varið.

Ritstjórn 22.10.2007
Flokkað undir: ( Tilkynning )

Viðbrögð


Sigurður Karl Lúðvíksson - 22/10/07 20:00 #

Glæsilegt, vel að verki staðið.


Haukur Ísleifsson - 23/10/07 08:59 #

Ég er um það bil að fara að leiðrétta skráningu mína. Þarf bara að komast niðrá þjóðskrá.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 23/10/07 16:57 #

Ég er mjög ánægður með þennan árangur. Gagnrýni á báknið er góð og gild en að taka frá því peninga er eitthvað sem því virkilega svíður undan.

Niður með ríkisrekin trúarbrögð!


Pétur Tyrfingsson - 23/10/07 22:54 #

Auðvitað tek ég undir það með Kára að fólk sem er utan trúfélaga annaðhvort greiðir ekkert félagsgjald eða tekur fram í hvað aurinn á að fara. Af því að við erum báðir veraldlegir lýðræðismenn og fríhuga. En... Það er eitthvað götustrákslegt við fyrirkomulagið eins og það er og mætti rannsaka það hver stóð á bak við þessa ráðstöfun. Já, hver var það? Ef við erum í þjóðkirkjunni eða öðrum söfnuðum greiðum við gjald til hindurvitna og reksturs stofnunar þar sem galdraþulur eru kveðnar kappsamlega mönnum til heilla, landi og landsfeðrum til blessunar. Utan trúfélaga... þá greiðum við til vísindanna. Skýr valkostur? Getur varla verið klárari. Styðurðu hégiljur eða sannleiksleit? Bara tveir valkostir! - Eigum við ekki bara að láta þetta standa?


Pétur Björgvin - 24/10/07 11:14 #

Ríkissjóður sparar sér jafnframt rúmar tvær milljónir, allt á ársgrundvelli.

Það væri áhugavert að fá útskýringu fyrir þessari rökfærslu!


Árni Árnason - 24/10/07 12:20 #

Ef Þjóðkirkjan verður af 6 milljónum, en Háskólinn fær aðeins 4 , þá væri ríkissjóður greinilega að bæta 2 milljónum ofan á sóknargjöldin ef kirkjan fengi þau. Þetta liggur í textanum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/10/07 13:04 #

Pétur, Þjóðkirkjan fær aukagreiðslur ofan á sóknargjöld, þannig að fyrir hvern þann sem skráður er úr Þjóðkirkju og í annan söfnuð eða utan söfnuða sparar ríkissjóður þær aukagreiðslur.

Sjá: FAQ: Hvað eru sóknargjöld?

Ef einstaklingur er skráður í Þjóðkirkjuna greiðir ríkið einnig í tvo sjóði Þjóðkirkjunnar: +18,5% í Jöfnunarsjóð sókna og +11,3% í kirkjumálasjóð eða 29,8% hærri upphæð,


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 24/10/07 13:58 #

Furðulegt að Pétur viti ekki úr hverju sóknargjöldin samanstanda.


Pétur Björgvin - 24/10/07 14:07 #

Það eru til tvær leiðir amk til að benda á að gott væri að útskýra ákveðna hluti í textum sem maður les ... Fyrir utan það þá er ég auðvitað oft lítið fróður maður, eins og flest okkar öðru hvoru amk ...


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/10/07 14:15 #

Teitur, við skulum ekki vera leiðinleg við Pétur - það er skiljanlegt að hann hafi ekki vitað þetta og hann fær hrós fyrir að biðja um rök.

Reynsla mín er reyndar sú að við á Vantrú vitum yfirleitt miklu meira um þessi mál en flestir starfsmenn kirkjunnar - en það er önnur umræða ;-)


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 24/10/07 15:20 #

Ég ætlaði ekkert að vera leiðinlegur. Ég furða mig einfaldlega á því að ríkiskirkjuprestur viti ekki hvaðan hann fær kaupið sitt og hvernig það er samansett.

Sennilega ágætis dæmi um hroka ríkiskirkjuprestanna og þann sjálftökumóral sem virðist ríkja í þeirra hóp.

-Ég á barasta ekki aukatekið orð.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/10/07 15:25 #

Pétur er djákni en ekki prestur ;-)


Pétur Björgvin - 24/10/07 19:00 #

Það er gaman að vitsmunir mínir og þekking skuli vera hér til umræðu (-; En kannski er þetta líka spurningin um hvað er rúmt og hvað er tæpt, semsagt ekki hvaðan peningarnir koma heldur hvernig talan er reiknuð út. En við skulum ekki stressa okkur á því, ég er víst búinn að mála mig nóg út í horn hérna og að því er virðist opinbera heimsku mína. (Sem er reyndar hverjum manni hollt ef út í það er farið og lútherskt mjög að aðrir upplýsi hinn fáfróða.)


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 24/10/07 20:13 #

Reyndar sparar ríkisjóður ~1,5 milljónum á ári.


Geir Guðbrandsson - 30/10/07 10:04 #

Vel gert.


EA - 07/11/07 16:44 #

Sem íslendingur búsettur erlendis, er ég ennþá skráður í þjóðkirkjunna og ef svo hvar á ég að snúa mér til að breyta þessu og styrkja háskólann, menningu og spara ríkisfé


Jón Magnús (meðlimur í Vantrú) - 07/11/07 16:47 #

Þú getur prentað út eyðublaðið og sent það í faxi til Þjóðskrár.

Nánari upplýsingar hér

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.