Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Óskhyggjan og leyndarmál græðginnar

Þegar ég var lítill hugsaði ég þónokkuð mikið um óskir. Rætast þær eða ekki? Ég gerði tilraunir, eins og væntanlega flestir, með því að reyna að óska heitt og innilega að ég eignaðist eitthvað (líklega eitthvað flott Masters of the Universe dót). Þetta virkaði aldrei (nema hugsanlega ef maður minntist á óskirnar við rétta aðila). Ég komst því að þeirri einföldu niðurstöðu að það hefði enga þýðingu að óska sér. Það virðast ekki allir ná þessu.

Rhonda Byrne hefur grætt ógeðslega mikið af peningum með því að selja fólki þá hugmynd að það dugi að óska sér. Reyndar orðar hún þetta á þá leið að maður þurfi að hugsa ákaflega sterkt um það sem maður vill og þá fær maður það. Merkilegt nokk þá kaupir fólk þetta rugl. Bók hennar hefur verið þýdd á íslensku sem The Secret: Leyndarmálið. Einnig er verið að gefa út á Íslandi mynd um sama efni.

Þarna er reyndar að finna einhverja sjálfssagða hluti eins og að það sé gott að hugsa jákvæðar hugsanir en síðan koma viskuperlur á við að "Lögmál aðdráttaraflsins er Alheimslögmálið sem skapaði heiminn. Samkvæmt lögmáli skammtafræðinnar í eðlisfræði varð alheimurinn til út frá hugsun." Það ætti að vera óþarfi að taka fram að þetta er bara rugl. Allskonar rugludallar vísa í skammtafræði til þess að réttlæta hugmyndir sínar vitandi að nær enginn skilur þetta svið vísindana. Svo það sé alveg ljóst þá er enginn fræðimaður sem er tekin alvarlega innan eðlisfræðiheimsins sem heldur því fram að alheimurinn hafi orðið til út frá hugsun. Þetta er einfaldlega kjaftæði.

Rhonda heldur því statt og stöðugt fram að öll helstu mikilmenni heimsögunnar hafi nýtt sér leyndarmálið eða "lögmálið" hvort sem þeir vissu það eða ekki. Þetta eru hringrök af verstu gerð. Það segir sitt að þó að öll þessi mikilmenni hafi notað leyndarmál þá vitnar hún af einhverju ástæðum ekki í þessi stórmenni heldur kýs hún að treysa á ýmsa vafasama karaktera.

Rhonda vitnar í lærimeistarann Bob Proctor sem kemur með þessa gullnu skýringu á misskiptinu auðs. "Veistu ástæðuna fyrir því að um 96% af öllum ágóða heimsins rennur til 1% mannkyns? Heldurðu að það sé tilviljun? Það lítur kannski þannig út. Þetta eina prósent manna hefur öðlast sérstakan skilning. Þetta fólk hefur gert sér grein fyrir leyndarmálinu."

Í raun og veru þýðir þetta að fólk sem er að svelta í hel eða að deyja úr alnæmi hefur bara ekki hugsað nógu jákvæðar hugsanir. Ef þið haldið að ég sé að mistúlka þá er best að vitna aftur í Dr. Joe sem segir að "[a]llt sem þú býrð við á þessari stundu hefur þú dregið að þér, þar á meðal allar aðstæður sem þú kvartar undan". Rhonda segir að "[e]ina ástæðan fyrir því að fólk fær ekki það sem það vill er sú að það hugsar meira um það sem það vill ekki heldur en það sem það raunverulega vill".

Þetta er svo gríðarlega móðgandi við fólk sem hefur það bágt án þess að geta nokkuð gert í því. Flestir sem eru fátækir í heiminum hafa einfaldlega fæðst inn í illa staddar fjölskyldur og þjóðfélög. Það er sama hversu jákvæðar hugsanir þetta fólk hugsar, það bjargast ekki í gegnum þær.

Ekki minnkar ruglið þegar Dr. Joe Vitale (doktor í hverju virðist vera leyndarmál) útskýrir að "[h]ugsanir eru sendar með rafrænni tíðni sem dregur samsvarandi tíðni aftur til þín." Nei, þetta er bara ósatt. Dr. Joe virðist ekki einu sinni vita hvað fyrirbærið tíðni er. John Asaraf "vitringur" virðist þjást af sama þekkingarskorti og segir að "[e]f þú hugsar sömu hugsun í sífellu, t.a.m. ef þú ímyndar þér hvernig það væri að eignast glænýjan bíl, [...]. Ef þú ímyndar þér hvernig það yrði þá ertu stöðugt að senda frá þér ákveðna tíðnibylgju."

Það er annars áhugavert að Dr. Joe og Rhonda eru ekki að leggja áherslu að koma "leyndarmálinu" og "lögmálinu" til fólks sem býr við fátækt, sjúkdóma og aðrar ömurlegar aðstæður. Ónei, þau eru að pranga rassavasaheimspeki sinni og gervivísindum inn á fólk í hinum vestræna heimi sem hefur peninga til að bóka með þeim fyrirlestra eða kaupa dvd diska og bækur.

Í raun er The Secret eins og endurunnin nýaldarbók frá upphafi síðasta áratugar fyrir utan að nú eru það peningar en ekki hugljómun sem fólk vill öðlast. Leyndarmál Rhondu Byrne og félaga hennar hefur án efa fært þeim mikil auðæfi en þeir sem kaupa það verða bara fátækari eftir á.


Birtist í Morgunblaðinu þann 11.10.2007

Óli Gneisti Sóleyjarson 11.10.2007
Flokkað undir: ( Nýöld )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 11/10/07 10:48 #

Auðvitað er þetta bull. Þegar fólk fer að tala um orku, bylgjur, tíðni og skammtafræði er nokkuð víst að það er komið á hálan ís. Í huga nútímamannsins ljær þetta þó ræðunni ákveðna vigt, því fæstir skilja þessi hugtök og er nokk sama. Enginn efast um útvarpsbylgjurnar og fáir hafa fyrir því að skilja þær.

Hitt er annað mál að hugsanir hafa áhrif á líðan okkar og hegðun... geðheilsu. Það eru gömul sannindi og ný. Búdda sagði: "Þú ert það sem þú hugsar." og í sálfræði er nú lögð mikil áhersla á að leiðrétta neikvæðar (niðurbrjótandi) sjálfvirkar hugsanir (sem skjóta upp kollinum sjálfkrafa). Það svið kallast hugræn atferlismeðferð. Það er allt annar handleggur en sú óskhyggja sem hér er kynnt til sögunnar.


Teitur Atlason (meðlimur í Vantrú) - 11/10/07 13:33 #

..Þetta eru svívirðileg fræði.
Fólk sem er að drepast úr ógeðfeldustu sjúkdómum óskar sér s.s ekki nógu mikið að batna...

Fólk sem deyr í bílslysum óskaði sér í rauninni (ómeðvitað) að deyja.

Öll mannleg örlög eru útskýrð með þessari dellukenningu.


Svanur Sigurbjörnsson - 11/10/07 16:41 #

Flott að taka þetta rugl fyrir. Ég nennti ekki að kynna mér þetta sérstaklega, enda nóg að lesa baksíðuna til að sjá í gegnum þetta. Það virðist nánast engum takmörkunum háð hvað er hægt að bjóða mikla heimsku til sölu síðasta áratug.


FellowRanger - 11/10/07 23:45 #

Ég verð sjaldan algjörlega orðlaus við að lesa, en nú játa ég mig sigraðann. Ég er greinilega ekki nógu "djúpt sokkinn" í þá geðveiki sem mannskeppnan finnur upp til að græða, til að ég hafi heyrt um þetta áður. En er samt ekki sá möguleiki fyrir hendi að þetta sé satt. það er nú ekki erfitt að sanna það. Þetta er stærðfræði.

kona + flottur bíll = kona sem á bíl Kona + enginn bíll = kona sem á ekki bíl Kona + enginn bíll * sterk hugsun um að vilja bíl = kona sem á bíl


Fjóla - 12/10/07 04:13 #

http://www.skeptic.com/eskeptic/07-03-07.html

Góð grein um þetta mál!


Thorsteinn Asgrimsson - 12/10/07 07:11 #

(Bidst afsokunar a ad tad vanti islenska stafi) En ja, madur getur ekki annad en tekid undir tetta. Alveg oskiljanlegt hvernig folk er ad lata plata sig. Og tad fyndnasta vid tetta er ad folk sem er ekki alveg ad kaupa hugmyndina um "logmalid sjalft" tad segir ad tetta se bara fin bok um tad ad hugsa jakvaett... Jaha, tarf virkilega heimskulega bok til tess ad segja folki ad hugsa jakvaett? Tetta er svipad og med kristni. Fullt af folki sem truir bara vissum hlutum tadan og tekur svo hitt ut fyrir sviga og segir ad tad se allavega god hugsun i trunni.


Jórunn Sörensen (meðlimur í Vantrú) - 12/10/07 09:14 #

Eftir mikla verki mánuðum saman sljákkaði í þeim einn daginn og ég varð betri. Ég bað ekki guð, sat ekki allan daginn og óskaði þess að mér myndi batna, fór ekki í heilun, ekki heldur í höfuðbeina- og spjaldhryggs-hvað-sem-það-nú-heitir. Hugsið ykkur ef ég hefði nú gert eitthvað af þessu!? Hve auðveldlega ég hefði getað sannfært marga um ágæti aðferðarinnar sem ég gekkst undir! En hugsið ykkur líka - ef ég hefði nú farið í þetta allt. Hvað þá? Hvað hefði þá "læknað" mig?


óðinsmær - 12/10/07 13:02 #

Jórunn, það hefur eitthvað trúað fólk útí bæ verið að biðja fyrir þér :)

nei, þetta er nú bara grín hjá mér. En ég vil þakka skelegg tök ykkar vantrúarseggja í þessu secret-máli, ég gerði athugasemd á aðra grein áðan sem ég hélt að væri þessi, vildi því koma og votta það hér líka að mér finnst þetta vel gert hjá báðum skrifurum!


Rafn - 14/10/07 16:47 #

Já, sést langar leiðir að "Leyndarmálið" er bara söluprump, gæti þess vegna verið í sjónvarpsmarkaðnum. En það er vissulega sorgleg og óhugnaleg staðreynd hve margir kaupa þetta. Þyrfti að kenna fólki rökhugsun í skóla allan menntastigann sem forvörn við kjaftæði.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 14/10/07 21:28 #

Hmm, það kveikir reyndar hjá mér hugmynd...


Gunnlaugur - 15/10/07 23:01 #

Hvað þá, að bjóða upp á Hinaleiðina í skólum? :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.