Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um hús guðs og krónur og aura

Töluverð umræða hefur verið í samfélaginu um fyrsta brúðkaupið sem Siðmennt stóð að nú nýverið. Sumir hafa gagnrýnt að brúðkaupið skuli hafa farið fram í Fríkirkjunni. Reyndar hef ég ekki orðið var við að meðlimir Fríkirkjunnar séu meðal gagnrýnenda, aðallega virðast þetta vera ríkiskirkjuprestar og varðhundar þeirra. Þeim finnst allt í einu skipta öllu máli hvað er að gerast í annarra manna kirkjum. Það er illskiljanlegt þar sem það er ekkert nýtt við það að nota kirkjur fyrir óguðlegar athafnir (t.d. tónleika).

Um staðarvalið sem slíkt er lítið að segja. Þó ég þekki ekki vel til þá skilst mér að þetta hafi einfaldlega verið val brúðhjónanna. Siðmennt og Fríkirkjan voru síðan svo liðleg að fara eftir óskum þeirra. Kirkjur eru meðal annars hannaðar til að hýsa brúðkaup og henta því vel til þess. Sjálfur hefði ég væntanlega valið aðra staðsetningu en það kemur mér einfaldlega ekkert við hvað aðrir guðleysingjar kjósa að gera. Sem þjóðfræðingur myndi ég líta á þetta sem leið til að tengja nýja hefð við gamla.

Það er hins vegar ekkert nýtt við að guðleysingjar giftist í kirkjum. Það gerist væntanlega um hverja helgi á háannatímanum í brúðkaupsbransanum. Ríkiskirkjuprestar eru duglegir við að framkvæma slíkar athafnir. Þá er mikið talað um guð og Jesú án þess að það hafi nokkra merkingu fyrir þá sem taka þátt í athöfninni. En það er öðruvísi enda fá ríkiskirkjuprestar borgað fyrir að framkvæma slíkar athafnir.

Eru ríkiskirkjuprestar ekki einfaldlega að reyna að verja pyngjuna sína? Er óttinn við brúðkaup á vegum Siðmenntar nokkuð tengdur því hvar athöfnin fer fram? Er þetta ekki bara spurning um aura sem annars myndu fara í veski ríkiskirkjupresta?

Það væri gott ef Siðmennt hefði sitt eigið húsnæði til að halda athafnir í. Því miður er það hins vegar þannig að félaginu hefur verið neitað um stöðu lífskoðunarfélags. Ef Siðmennt fengi þá lagalegu stöðu myndi félagið fá sóknargjöld frá meðlimum sínum. Í Noregi hefur félag siðrænna húmanista einmitt þá stöðu. Er ekki tímabært að veita trúlausum lífsskoðunum sömu réttarstöðu og trúuðum? Siðmennt gæti þá með tíð og tíma eignast sinn eigin sal þar sem félagið gæti haldið athafnir án þess að treysta á aðra. Það væri að sjálfssögðu besta lausnin. Ef ríkiskirkjuprestar eru ekki bara að hugsa um krónur og aura þá hljóta þeir að flykkja sér á bak við þetta réttlætismál.


Birtist í Blaðinu 05.10.2007

Óli Gneisti Sóleyjarson 08.10.2007
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Haukur Ísleifsson - 08/10/07 12:59 #

Góð grein. Það þarf að kippa þessu í liðin núna strax og veita siðmennt þessi réttindi.


óðinsmær - 08/10/07 17:33 #

allir trúar og trúleysishópar ættu faktískt séð að hafa aðgang að sömu stofnunum/byggingum á vegum ríkisins sem tengjst fyrirbærum einsog skírn, brúðkaupum og greftrum - eftir óskum þeirra sem framkvæmt er fyrir hverju sinni. En ég hef eina spurningu, hvar fór öll þessi gagnrýni á brúðkaupið hjá Siðmennt fram? ég spyr því að hún fór alveg framhjá mér, ég sá að margir prestar voru að tjá sig um þetta á bloggum og víðar en enginn þeirra virtist neikvæður, svo mín spurning er, hvar var öll þessi neikvæðni sem Óli Gneisti og ýmsir fleiri hafa gert að umtalsefni sínu?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 08/10/07 18:06 #

@Haukur. Takk.

@Óðinmær. Svavar Alfreð og Gunnar Jóhannesson sérstaklega. Síðan var Egill Helgason með leiðindi eins og venjulega.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/10/07 18:10 #

Vísanir á það sem Óli nefnir og meira til:


FellowRanger - 08/10/07 19:28 #

Gríðarlega svöl grein. En off topic, þá myndi ég persónulega vilja gifta mig í miðju fallhlífastökki eða á toppnum á kirkjufellinu. það eru flottir staðir.


óðinsmær - 08/10/07 20:58 #

ok, ég skil. Egill auðvitað borðleggjandi, hefði getað sagt mér það sjálf. Ég las nokkra presta sem voru svosem bara að velta þessu fyrir sér, þeir voru ekki hneykslaðir en eru samt í þjóðkirkjunni.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.